07.12.1960
Sameinað þing: 22. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í B-deild Alþingistíðinda. (209)

1. mál, fjárlög 1961

Frsm. 2. minnt hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umr. lengi. Menn eru nú teknir að þreytast að sitja undir umr., þegar komið er fram á óttu. En ég get þó ekki alveg látið hjá líða að gera svolitla athugasemd við ræðu, sem hæstv. fjmrh. hélt hér í kvöld og gerði að umtalsefni í henni nokkur atriði varðandi það, sem ég hafði sagt í minni framsöguræðu, eða varðandi þær till., sem ég hafði gert við fjárlagafrv.

Í fyrsta lagi var hann mjög óánægður með þá till., sem ég hafði gert um, að ríkisstj. skyldi gert að lækka um 10% ákveðna kostnaðarliði.

Þetta er hliðstæð till. og ég gerði við afgreiðslu fjárlaga yfirstandandi árs, og áttum við þá nokkurn orðastað um mál þetta, svo sem hann minntist á í ræðu sinni. Hann hélt því fram nú, að ég hefði aldrei svarað spurningum sínum, sem hann lagði fyrir mig þá. Ég get ekki alls kostar fallizt á, að hér sé rétt með farið hjá honum, því að ég svaraði þeim einmitt með annarri spurningu, sem hann hefur látið ósvarað, en hún er á þá leið, að ríkisstj. hafi á sínum tíma, þegar hún lét samþ. hér á Alþ. þær kjaraskerðingar, sem viðreisnarlögin hafa í för með sér, aldrei að því spurt á alþýðuheimilunum, hvað ætti að spara, hún hafi einungis uppálagt þeim að framkvæma sparnað, og á sama hátt sé það sanngjarnt, að ríkisstj. sé nú af Alþ. fyrirskipað að framkvæma sparnað, sem hún verður sjálf að ákveða, á hvaða liðum hún vill framkvæma innan þess ramma, sem till. er gerð um. Þ.e.a.s. hún á að framkvæma 10% lækkun að meðaltali á þeim liðum, sem þar eru taldir. Hvort þar eigi að fara fram uppsögn tíunda hvers starfsmanns eða lækkunin fari fram með öðrum hætti, það er rétt, að ég hef ekki gert sérstaka till. um það. Ég tel rétt, að húsbóndavald ríkisstj. nái til þeirra hluta. Hinu er alls ekki að neita, að á vissum liðum teldi ég, að það væri ekkert útilokað að láta sér detta í hug, að það væri hægt að fækka starfsliði, svo sem eins og um 1/10. Ég held meira að segja, að í sjálfri ríkisstj., sem allt fram til daga þessarar stjórnar komst af með 6 ráðherra og stundum færri, væri hægt að hugsa sér, að það væri fækkað jafnvel bara um 1/7 í ríkisstj. sjálfri. En það er hennar mái. Ég tel fullkomlega tíma til þess kominn, að ríkisstj. séu gefin slík tilmæli af Alþ. og það sé ekki nema í samræmi við það, sem ríkisstj. með tilstuðlan síns þingmeirihl. hefur gefið þjóðinni.

Þá hélt ráðh. því fram, að ég hefði farið rangt með í mínu máli þrjú atriði. Ég hef haldið því fram, að ríkisstj. hafi lofað afnámi söluskattsins, 8.8% skattsins, en hæstv. ráðh. vill ekki við það kannast, að slíkt loforð hafi nokkru sinni verið gefið. Ég leyfi mér því að gera grein fyrir því, á hverju ég byggi mínar röksemdir, og held því fram, að þá sé ég hættur að skilja mitt móðurmál, ef ríkisstj. hefur ekki gefið það fullkomlega í skyn, að þessi skattur ætti ekki að takast af þjóðinni nema á yfirstandandi ári. Í lagafrv., sem ríkisstj, lagði fram um mál þetta á s.l. þingi, er þessi söluskattur í rauninni ekki í lagabálkinum sjálfum, heldur er honum komið fyrir í ákvæði aftan við hinar tölusettu greinar frv., í bráðabirgðaákvæði, þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Frá gildistöku laga þessara og til ársloka 1960 skal til viðbótar 7% söluskatti samkv. 3. kafla laganna greiða 8% af tollverði allrar innfluttrar vöru að viðbættum aðflutningsgjöldum og áætlaðri álagningu 10%.“

Í grg. fyrir frv. þessu er sérstaklega um þennan viðbótarsöluskatt fjallað og færð þau rök fyrir álagningu hans og engin önnur rök tilnefnd f frv.: „að af þeim sökum, að skattur þessi“ — þ.e.a.s. almenni 3% skatturinn „getur eigi komið til framkvæmda, fyrr en nokkuð er liðið af árinu, er fyrirsjáanlegt, að með honum einum saman fæst ekki sú fjárhæð, sem frv. til fjárlaga gerir ráð fyrir. Hefur því verið horfið að því til bráðabirgða að afla þess, sem á vantar, með viðbótarsöluskatti á innfluttar vörur.“ Og síðan segir áfram í þeirri grg.: „Er áætlað, að til þess þurfi að hækka núgildandi innflutningssöluskatt um 8%, eða úr 7% í 15%, og er lagt til, að sú hækkun gildi til ársloka 1960.“ Ekki vænti ég þess, að hæstv. fjmrh. vilji halda því fram, að hinn almenni söluskattur eigi nú ekki að gilda allt árið 1961. En með því að vitað er, að hann á að gilda allt árið, er einmitt fallin úr gildi sú höfuðröksemd og sú eina röksemd, sem tilfærð var í frv. um söluskatt fyrir þessum viðbótarsöluskatti. Ég tel mig því hafa byggt það á fullum rökum að telja, að þennan skatt hafi átt að afnema nú í árslokin. Það er svo enn annað mál, ef ríkisstj. ætlar að iðka þann hátt að segja svona hluti, sem allir hljóta að skilja á einn veg, þannig að skattinum sé ekki ætlað að verka nema árið 1960, að segja það þannig, að það sé ekki beint tekið fram, að hann verði afnuminn í árslokin, og ætla síðan að skjóta sér bak við það, að það sé bara misskilningur hjá fólki, sem hafi skilið lög og skýringar ríkisstj. við lög eins og beint liggur við. Það er þá bara vitnisburður um það, að ríkisstj. hafi hugsað sér að reka hreina blekkingarstarfsemi og segja í rauninni allt annað en hún meinar eða a.m.k. að segja hlutina þannig, að hún hafi eftir á einhvern möguleika til þess að leggja í röksemdir sínar allt annan skilning en látinn hefur verið í veðri vaka, á meðan hún var að fá lögfest þau ákvæði, sem hún þurfti á að halda þá að sinni. Og því er raunar alls ekki hægt að neita, að ríkisstj. hefur leikið þennan leik stundum, og það er greinilegt, að hverju fer hér í þessu efni.

Þá mun hæstv. fjmrh. einnig hafa haldið því fram, að lækkun fjárl. hafi aldrei verið lofað. Það er auðvitað hægt að halda því fram með sama rétti. En hins vegar verður það tæplega misskilið, hvert farið er í nál. stuðningsmanna ríkisstj. fyrir fjárlagaafgreiðslunni fyrir yfirstandandi ár. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta, eftir að fjallað hefur verið um það, að óhjákvæmileg forsenda fjármálalegs jafnvægis í þjóðfélaginu sé að halda gjöldum ríkissjóðs innan þeirra marka, er gjaldgeta þjóðarinnar leyfi, — þá segir þar orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Það er álit meiri hl. n., að við undirbúning næstu fjárl. verði að framkvæma slíka heildarathugun ríkisútgjalda og gera allar tiltækar ráðstafanir til sparnaðar. Till. um það efni verða ekki fram bornar án rækilegrar athugunar og undirbúnings, sem fjvn. er ekki unnt að framkvæma á fáum vikum.“ Hér er greinilega gefið í skyn, að það eigi að spara á fjárl. — og að spara á fjárl., það leyfir hver almennur maður sér að líta svo á að geti leitt til lækkunar á fjárl. Ég vil leyfa mér að halda fram ívitnuninni í þetta nál. þáv. meiri hl. fjvn., sem er hinn sami og meiri hl. fjvn. nú. Hann segir í áframhaldi af þessu: „Því miður hafa flestar sparnaðaráætlanir á undanförnum árum ekki borið mikinn árangur, og er því mikilvægt, að málin verði nú tekin föstum tökum og raunhæfar sparnaðarráðstafanir gerðar. Tekur meiri hl. n. undir ummæli fjmrh. í framsöguræðu hans fyrir fjárlfrv. og væntir þess fastlega, að næsta fjárlfrv. beri þess merki, að verulegur árangur hafi orðið af viðleitni fjmrh. .í þessu efni.“

Ég verð að biðjast afsökunar á því, þó að ég hafi skilið þessi ummæli svo, að þau föstu tök, sem lofað var að taka undirbúning fjárl, til að framkvæma á þeim sparnað, hafi átt að þýða það, að ríkisútgjöldin gætu lækkað. Ég hygg, að ég sé ekki heldur einn um þann skilning. En þetta hlýtur þá að stafa af því, að ríkisstj. leggur einhvern allt annan skilning í venjulegt mælt mál heldur en fólk í landinu almennt gerir. En það er einnig í samræmi við það, að háttalag ríkisstj. er í mörgu ákaflega frábrugðið því, sem almenningur í landinu verður að láta sér lynda, m.a. það, að almenningur í landinu verður að spara, en ríkisstj. harðneitar að spara. Það fer margt á milli hjá þjóðinni og ríkisstj., það er vissulega rétt.

Hið þriðja, sem hæstv. fjmrh. taldi mig ekki hafa farið rétt með, var það, að ég skýrði frá því, að ríkisstj. hefði gefið Landssambandi íslenzkra útvegsmanna eða aðalfundi þess sambands loforð um það, að af opinberu fé skyldu greidd öll iðgjöld íslenzka fiskiskipaflotans á árinu 1960. Hæstv. fjmrh. telur, að slíkt loforð hafi ekki verið gefið, heldur verði þessi gjöld aðeins greidd að því marki, sem útflutningssjóður eða afgangstekjur hans við uppgjör hrökkva til. Því er nú verr, að líklega er fundarstjórinn frá aðalfundi Landssambands íslenzkra útvegsmanna, sem á sæti hér á Alþingi, hv. 4. þm. Vesturl. (JÁ), genginn til hvílu, en það hefði verið hægurinn nær, þar sem hann birti aðalfundi Landssambandsins þessi boð ríkisstj. og hafði þau bréfleg, að hann hefði verið beðinn um að útvega hér þingheimi bréf þetta, þannig að það mætti upp lesast hér á Alþingi, svo að enginn þyrfti lengur að fara villur vega um það, hvað í því stóð, og máske verður þessu við komið, áður en afgreiðslu fjári. lýkur. , Ég vildi a.m.k., ef plagg þetta verður ekki birt hér í þingsölum, mælast til þess, að fjvn. fái a.m.k. um það að fjalla eða það að sjá, því að það gegnir sama máli, að bæði ég og allir þeir, sem ég hef talað við af þeim mönnum, sem sóttu þennan fund, standa í þeirri meiningu eftir orðanna hljóðan f þessu umrædda bréfi, að ríkisstj. hafi tekizt þessa skuldbindingu á herðar. Hitt er svo annað mál, að hér er um geysiháa fjárhæð að ræða, hér er um að ræða fjárhæð, sem ætla má að nemi 90–100 millj. kr., og ekki vitað, hve mikið er til af fé í útflutningssjóði upp í, og raunar þó vitað, að þar er ekki til fé sem nemur þessari fjárhæð. Þá er það býsna hæpin ráðstöfun, að ein ríkisstj. skuli geta án alls samráðs við Alþingi gefið út slik loforð, en ég stend í þeirri meiningu, að svo hafi verið gert, og tel mig hafa fyrir því fullar sannanir. En það er að sjálfsögðu býsna merkilegur boðskapur fyrir framhaldsaðalfund Landssambands íslenzkra útvegsmanna, sem koma á saman hinn 12. þ.m., ef það kemur nú upp úr dúrnum, að sjálfur fjmrh. þjóðarinnar neitar því, að þetta loforð hafi verið gefið, og efast ég ekkert um, að það verður tekið til endurskoðunar og athugunar á þeirri samkomu, og er til mikilla nytja, að það skuli hafa komið fram, að slíkt er dregið í efa, því að mér er kunnugt um, að útgerðarmennirnir sjálfir hafa ekki talið neinn vafa á því, að hér hafi verið gefið hreint loforð um þetta, og sjálfsagt eru þeir í góðri trú um, að við það verði staðið.

Ég hef þess vegna ekkert aftur að taka af því, sem ég hef sagt um þessi efni. Hér hefur heldur ekkert komið í ljós, sem hrekur eitt eða neitt af því, enda þótt fjmrh. hafi sína skoðun í málinu, sem fer ekki algerlega saman við mína skoðun.

Ég mun að þessum upplýsingum gefnum láta útrætt um málið að sinni, en vænti þess, að Alþingi verði, áður en afgreiðslu fjári. lýkur, gerður kunnur sá boðskapur, sem frá ríkisstj. hefur farið til Landssambands íslenzkra útvegsmanna, því að hér ber mikið á milli þess, sem skilningur útvegsmanna er, og hins, sem hæstv. fjmrh. upplýsir, og má það ekki fara á milli mála, hvað hér hefur raunverulega verið gert. Er það enda heldur leiðinlegt í vinnubrögðum, að ekki skuli þegar eftir að ríkisstj, hafði lagt fram bréf, eins og hún gerði í þessu tilfelli, hafa verið kunngert Alþingi, sem undirbjó fjárl., hvað þar var um að ræða.