17.02.1961
Neðri deild: 65. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í C-deild Alþingistíðinda. (2108)

167. mál, verðflokkun á nýjum fiski

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, fjallar um það að binda þau ákvæði í lögum, að sé ákveðin verðflokkun á nýjum fiski, þar sem gert sé ráð fyrir mismunandi verðlagi á nýjum fiski eftir flokkum, þá skuli slík verðflokkun vera miðuð við sérstaka gæðaflokkun eða gæðamat, sem ferskfiskeftirlit ríkisins hefur ákveðið á hverjum tíma. Og í öðru lagi er lagt til, að lögfest verði með þessu frv., að jafnmargir aðilar fiskseljenda og fiskkaupenda skuli jafnan semja sín á milli um verðflokkun á fiski. Þannig er gert ráð fyrir því í 2. gr. frv., að fulltrúar fiskseljenda, sex að tölu, verði í þessum samningum og fulltrúar fiskkaupenda, líka sex að tölu, séu þátttakendur í þessum samningum. Jafnframt er lagt til, að þessi samninganefnd starfi undir leiðsögn sáttasemjara ríkisins, og verði ekki samkomulag innan n. með fiskseljendum og fiskkaupendum, skuli sáttasemjari taka sæti í n. og n. þannig skipuð fella endanlegan úrskurð um verðið á fiski í hverjum verðflokki. Þetta er aðalefni þessa frv.

Ástæðurnar til þess, að frv. er flutt, eru í stuttu máli þær, að nú um þessi áramót hefur verið ákveðið að taka upp þá nýbreytni varðandi verðlagningu á nýjum fiski að ákveða mismunandi verðflokka. Hingað til má segja, að fiskurinn hafi verið verðlagður í einum meginverðflokki eða keyptur upp til hópa, ef svo mætti segja. Þessar verðflokkunarreglur, sem birtar hafa verið, eru settar af stjórn og verðlagsráði L.Í.Ú. með samkomulagi við samtök nokkurra fiskkaupaaðila. Það er hins vegar ljóst, að ýmsir þeir, sem eiga hér mikinn hlut að máli í sambandi við það að selja fisk og varðandi þær reglur, sem í gildi eru á hverjum tíma um verð á fiski, hafa ekki átt hér neina aðild að um að ákveða þessar verðflokkunarreglur. Nú hefur risið upp mikill ágreiningur á milli aðila um, hversu réttlátar þessar reglur eru, og það hefur gengið svo langt, að í ýmsum verstöðvum hafa útvegsmenn, bátaútgerðarmenn, beinlínis stöðvað rekstur skipa sinna um lengri eða skemmri tíma út af þessum ágreiningi um verðflokkunarreglurnar. Mótmæli hafa borizt víðs vegar að af landinu gegn þessum nýju reglum. Og það er enginn vafi á því, að það er áframhaldandi hætta á árekstrum, ef ætti að reyna að framkvæma þessar reglur eins og þær hafa verið tilkynntar.

Þessar nýju verðflokkunarreglur eru byggðar í aðalatriðum á því að dæma fisk í mismunandi verðflokka eftir því, í hvernig veiðarfæri fiskurinn er veiddur og á hvaða tímum árs fiskurinn er veiddur og svo hversu gamall fiskurinn er, þegar hann kemur á sölustað. Hins vegar er ekki lögð til grundvallar við þessa verðflokkun gæðaflokkun eða gæðamat frá neinum óvilhöllum aðila, eins og t.d. ferskfiskeftirliti ríkisins. Það hefur hins vegar verið mikið um það rætt í sambandi við þessar nýju verðflokkunarreglur, að hér sé ætlazt til þess að verðleggja fisk eftir gæðum, þannig að gæðamesti fiskurinn sé jafnan í verðmætasta flokki, en sá, sem er lakari að gæðum, verður þá í verðlægri flokkum.

Ég hygg, að ekki verði um það deilt, að eins og þessar verðflokkunarreglur hafa verið tilkynntar, sé ljóst, að fiskurinn yrði ekki samkv. þessum reglum verðlagður samkv. gæðum. Í mörgum tilfellum mundi fyrsta flokks fiskur, sá sem verður síðar verkaður og seldur út úr landinu sem fyrsta flokks fiskur, verða verðlagður til fiskimannanna sem annars, þriðja eða fjórða flokks fiskur að verðmæti.

Nú vill svo til, að einmitt á þessu hausti er að taka til starfa sérstakt opinbert eftirlit, sem nefnt er ferskfiskeftirlit ríkisins, og þessi stofnun hefur fyrir stuttu gefið út reglugerð um gæðamat á nýjum fiski, sem lagður er inn til vinnslu. Samkvæmt reglum þessa ferskfiskeftirlits gerir það ráð fyrir því, að allur nýr fiskur skuli vera gæðaflokkaður í þrjá gæðaflokka. Í fyrsta flokk skal fara allur fiskur, sem telst vera gallalaus. Í annan gæðaflokk skal fara allur fiskur, sem telst ekki hæfur til frystingar, en er þó hæfur til verkunar í skreið og verkunar sem saltfiskur. En í þriðja verðflokk skal svo ganga allur sá fiskur, sem er ekki hæfur í hina tvo flokkana, fyrsta og annan flokk, eða m.ö.o. fiskur, sem er ekki hæfur til matvöruvinnslu.

Við leggjum til með þessu frv., að ákveðið verði, að sú verðflokkun, sem gilda skal á nýjum fiski nú á þessu ári, verði látin fylgja þessari gæðaflokkun þannig, að sá fiskur, sem metinn er af ferskfiskeftirliti ríkisins í fyrsta flokk, skuli einnig vera í fyrsta verðflokki, sá fiskur, sem þetta opinbera eftirlit metur í annan gæðaflokk, skuli vera í öðrum verðflokki og sá, sem fellur í þann þriðja, verður þá að vera í þriðja verðflokki. Við teljum, að það sé á allan hátt eðlilegt og nauðsynlegt til þess að forðast árekstur, að gæðamatið og verðflokkunin falli hér saman.

Ég vil útskýra þetta nokkru nánar miðað við þær verðflokkunarreglur, sem tilkynntar hafa verið frá hálfu landssambandsins og fiskkaupenda. Samkv. þeim reglum er gert ráð fyrir því, að í hæsta verðflokk geti einungis komið sá fiskur, sem veiddur er á línu og landað er daglega. Þó getur sá fiskur, sem veiddur er á línu og landað er daglega yfir sumarmánuðina, ekki komizt í þennan hæsta verðflokk, nema þá sá fiskur hafi einnig verið ísaður, þó að um daglega löndun sé að ræða. Af þessu verður ljóst, að t.d. handfærafiskur, sem landað er daglega og veiddur er á sama tíma og línufiskurinn, getur aldrei komizt samkv. þessum verðflokkunarreglum í hæsta verðflokk. Þá standa menn orðið frammi fyrir því, að fiskur, sem er veiddur á línu og er ekki á nokkurn hátt betri vara úr hendi veiðimannsins en fiskur, sem veiddur hefur verið á handfæri, er verðlagður hærra en jafngóður handfærafiskur. Auðvitað sjá allir, að eðlilegt er, að þetta leiði til árekstra og óánægju, því að það byggist í raun og veru ekki á nokkru réttlæti að haga verðflokkun á þennan hátt. Sama er að segja um fisk, sem veiddur er á annan hátt, t.d. í net. Það skiptir ekki máli samkv. þessum verðflokkunarreglum, sem nú er ætlað að framkvæma, hvort sá fiskur, sem veiddur er í net, er fyrsta flokks fiskur að gæðum eða eins góður og fiskur getur beztur orðið frá hendi veiðimannsins til þess, sem kaupir, hann er dæmdur til þess að verða í þriðja verðflokki samkv. þessum reglum, bara vegna þess að fiskurinn er veiddur á þennan hátt. Þetta er líka alger óréttur, og er fyrirsjáanlegt, að þetta getur ekki staðizt til langframa í framkvæmd. Og það hefur þegar komið í ljós í sambandi við framkvæmd á þessum reglum, að fiskkaupendur fara að hugsa sér að leggja sig meira eftir fiski, sem er í verðlægri flokkunum, t.d. netafiski. Þeir hafa séð, að það eru miklu meiri líkur til þess í mjög mörgum tilfellum, að þeir fái meiri hagnað út úr verkuninni, ef þeir ná sér í fyrsta flokks netafisk fyrir kr. 2.70 á kg heldur en fyrsta flokks línufisk fyrir kr. 3.11 á kg, þar sem hvor tveggja fiskurinn yrði verkaður á sama hátt og seldur út úr landinu á nákvæmlega sama verði til markaðslandanna. Þetta mundi sem sagt leiða það af sér, þveröfugt við það, sem til var ætlazt, að hætta væri beinlínis á því, að fiskkaupendur legðu sig fram um það að reyna að ná í netafisk fremur en línufisk, þegar þeir geta fengið netafisk sem fyrsta flokks fisk og komizt þannig yfir hann á lægra verði en annan fyrsta flokks fisk.

Ég er sannfærður um, að reglur eins og þessar geta ekki staðizt lengi í framkvæmd. Ég hygg, að það sé miklu réttara að hafa þá leið í þessum efnum, svipað og Norðmenn hafa, að miða mismunandi verðlagningu við það, hvernig fiskurinn er verkaður og fyrir hvaða markaði, þannig að ef gæðamat ríkisins staðfestir, að fiskur sé fyrsta flokks að gæðum, sem megi t.d. hraðfrysta og flytja út í verðhæsta flokki sem unna vöru, þá eigi einnig að greiða fyrsta flokks verð fyrir slíkan fisk til þeirra, sem hann veiða, hvernig svo sem þessi fiskur hefur verið veiddur og á hvaða tíma. Það er auðvitað mjög mikilvægt, að þeir, sem veiða fiskinn og eiga kaup sitt og afkomu undir fiskverði, finni, að þeir fái réttlátt verð fyrir fiskinn miðað við það gæðaástand, sem fiskurinn er í, þegar þeir láta hann af hendi. Eða hvaða rök geta verið fyrir því að haga verðlagningunni þannig, að hægt sé að kaupa eftir lægri verðflokkunum fisk, sem síðan er hægt að verka í gæðahæstu flokkana og selja á hæsta verði út úr landinu? Hvaða réttæti getur verið í því að verðleggja slíkan fisk, sem er hæfur til slíkrar verkunar, í annan eða þriðja verðflokk? Ég get fyrir mitt leyti ekki séð, að það séu nokkur rök, sem mæla með slíku.

Ef farið yrði eftir tillögum þeim, sem koma fram í þessu frv., yrði t.d. alveg tryggt um allan fisk, sem er dæmdur af hlutlausu ríkismati sem fyrsta flokks fiskur, þannig að hann sé t.d. hæfur til hraðfrystingar, það megi hraðfrysta hann sem fyrsta flokks útflutningsvöru, þá ber skylda til þess að greiða hann á hámarksverði. En sé fiskurinn hins vegar kominn á það gæðastig, að hann þyki ekki hæfur til hraðfrystingar, en þó verkunarhæfur, t.d. í skreið eða saltfisk, þá er líka réttmætt, að hann sé greiddur nokkru lægra verði en bezti nýr fiskur.

Í frv. okkar höfum við gert ráð fyrir því, að sú skipan, sem þar er lagt til að lögfest verði, gildi aðeins út þetta ár. Við gerum okkur grein fyrir því, að hér er verið að þreifa sig nokkuð áfram um nýtt fyrirkomulag um verðlagningu á nýjum fiski, og það er því ekki óeðlilegt, að það séu settar um þetta reglur, sem gildi skamman tíma til að byrja með, og yrði þá hægt að taka málið aftur upp á nýjan hátt fyrir næsta ár. En þær reglur, sem við leggjum til að miðað verði við, eru í sjálfu sér mjög einfaldar, og þær styðjast við gæðaflokkun, sem opinbert eftirlit hefur sett upp. En í sambandi við þetta frv. er rétt að hafa það í huga, að verðlagningin á nýjum fiski er vitanlega gífurlega stórt atriði um það, hvernig tekst yfirleitt að halda friði á milli fiskframleiðenda og fiskkaupenda við fiskveiðarnar. Séu þær reglur, sem látnar eru gilda, mjög ósanngjarnar og óeðlilegar, þá er enginn vafi á því, að þær leiða af sér truflanir í atvinnurekstrinum fyrr eða síðar. Þetta hefur komið mjög berlega í ljós, eins og ég minntist á, nú í upphafi þessarar vertíðar, og það er líka skiljanlegt, þegar maður hefur í huga, hvað hér veltur á miklu fyrir bæði útgerðarmenn, sem fiskinn selja, og einnig fyrir sjómenn, sem miða kaup sitt við verðlagninguna á fiski.

Við höfum lagt til í þessu frv., að nú að þessu sinni verði höfð sú skipun á, að ef fulltrúar fiskseljenda og fiskkaupenda gætu ekki komið sér saman, skyldi þó horfið að því ráði í þetta skipti, að sáttasemjari tæki oddaaðstöðu í þessari fjölmennu nefnd og n. ætti síðan þannig skipuð að fella endanlegan dóm um verðflokkunina á fiski að þessu sinni. Reynt hefur verið að halda því fram af sumum, að hér væri verið að leggja til að taka upp gerðardómsaðferð í vinnudeilum. En það er í rauninni mesti misskilningur eða alger útúrsnúningur. Þessum málum hefur verið þannig háttað, að fulltrúar sjómanna hafa ekki fram til þessa verið beinir samningsaðilar að þessum ákvæðum viðvíkjandi verðlagningu á fiski. Þeir hafa í sínum kjarasamningum, fulltrúar sjómanna, samið um skiptakjörin á almennum grundvelli, en orðið að sætta sig við það fiskverð, sem útgerðarmenn og fiskkaupendur hafa ákveðið. En vegna þess að það er nokkur hætta á því, að svo geti farið, að fiskkaupendur og fiskseljendur yrðu ekki sammála um verðið eða verðlagninguna, — verðflokkunina fyrst og fremst nú að þessu sinni, — þá þykir ekki óeðlilegt, að einn slíkur aðili sem þessi myndi þannig oddaaðstöðu í nefndinni, að hún geti fellt endanlegan úrskurð um minni háttar þrætu, sem upp gæti komið um verðflokkunina að þessu sinni. Hins vegar hafa sjómenn eftir sem áður óbundnar hendur um það að hreyfa þá skiptaprósentu, sem þeir ráða sig upp á, og hér gæti því ekki orðið um neitt annað að ræða en auka rétt þeirra frá því, sem nú er, en ekki á nokkurn hátt til þess að skerða rétt þeirra til þess að semja um kaup sitt og kjör. Það verður vitanlega að gera hér mikinn greinarmun á, því að hér er ekki verið að leggja það til, að nein nefnd skipuð opinberum starfsmanni sem oddamanni eigi að fella neinn endanlegan úrskurð um kaup og kjör á almennum grundvelli, heldur einvörðungu að skera úr, ef þræta kemur upp að þessu sinni um verðlagninguna eða verðflokkunina, sem hefur verið svo að segja einvörðungu í höndunum á öðrum aðilanum.

Því verður ekki neitað, að það mál, sem þetta frv. fjallar um, er að verulegu leyti varðandi einmitt verðlagningu á fiski, en um það atriði hafa verið uppi allharðar deilur oft að undanförnu. Menn hafa ekki verið ásáttir með það fiskverð, sem hér hefur verið skráð á hverjum tíma. Í sambandi við verðlagið á fiski hefur oft verið á það bent, að verðlag á fiski hér er miklum mun lægra en í nálægum löndum. T.d. hefur verið á það bent, að fiskverðið í Noregi er miklum mun hærra en fiskverð hefur jafnan verið hér. Því hefur að vísu verið haldið hér fram, að það verð, sem hin nýja verðflokkun á fiski er nú miðuð við, þ.e.a.s. að hæsti verðflokkurinn kæmist upp í kr. 3.11 á kg, sé nú orðið jafnhátt eða jafnvel hærra en fiskverð það, sem t.d. er gildandi í Noregi. Ég hef í umr. um annað mál, sem snertir þessa verðlagningu, haldið því fram, að hér væri um rangan samanburð að ræða. Það væri enginn vafi á því, að það væri mjög verulega mikill mismunur á verðinu hér og verðinu í Noregi. Hæstv. sjútvmrh. kom hér að mínum dómi með mjög furðulega útreikninga til þess að reyna að sanna, að þetta nýja verð, sem nú væri hugsað hér, væri eins hátt eða jafnvel hærra en í Noregi. Síðan hef ég séð því haldið fram í stjórnarblöðunum, bæði í Morgunblaðinu og Alþýðublaðinu, að fiskverðið hér sé hærra en í Noregi. Mér þykir rétt í framhaldi af þeim umr. og einmitt í sambandi við þetta mál, sem svo mjög kemur inn á verðlagninguna, að víkja nokkuð frekar að þessu, því að þessi mál liggja nú enn ljósar fyrir en fyrr í umr.

Hæstv. sjútvmrh. miðaði við það í grg. sinni um fiskverðið í Noregi, að hann hefði skýrslu í sínum höndum, sem segði, að meðaltalsfiskverð þar í landi hefði verið í fyrra 82 norskir aurar á kg af þorski slægðum og hausuðum, — 82 aurar norskir meðaltalsverð. Og síðan sagði hann enn fremur, að samkv. upplýsingum, sem hann hefði fengið, hefðu verðbætur verið greiddar úr ríkissjóði Noregs frá 5 aurum á kg til 17 aura á kg og ef hann tæki meðaltal af þessari niðurgreiðslu, þá væru það 11 aurar á kg, og þá upphæð vildi hann draga frá þessum 82 aurum og fékk þannig út 71 eyri á kg, sem væri sambærilegt verð við það verð, sem hér gilti. Með því síðan að umreikna þetta verð, taldi hann, að íslenzka verðið, kr. 3.11 á kg, væri fyllilega eins hátt eða jafnvel aðeins hærra. Ég benti á það í þessum umr., að hér væri auðvitað um mjög villandi samanburð að ræða og greinilega rangan, vegna þess að hæstv. ráðh. bar hér saman fiskverð í Noregi, sem var í fyrra, og fór þó ekki rétt með staðreyndir í þeim efnum, eins og ég skal koma að nánar síðar, og svo aftur fiskverð það, sem áætlað er að verði hér á landi nú á þessu ári, nú 1961 eða einu ári síðar, og tók þá að sjálfsögðu aðeins hæsta verðflokkinn, kr. 3.11, sem augljóst er samkv. verðflokkunarreglunum að ekki nema sáralítið af íslenzka fiskinum getur komið í. Hér var því verið að bera saman verðlag í Noregi fyrir ári við verðlag á Íslandi, sem á að verða, og þó ekki farið rétt með tölur heldur. Ég benti á, að það væri vitanlega óhjákvæmilegt að gera samanburð í þessum efnum á verðlagi í Noregi eins og var í fyrra og verðlaginu á Íslandi eins og það var í fyrra — eða þá verðlaginu í Noregi eins og það verður 1961 og verðlaginu á Íslandi eins og það er áætlað 1961. En nú liggur þetta einmitt fyrir. Og nú liggja fyrir miklu ýtarlegri upplýsingar um þetta, sem sýna, að hæstv. ráðh. hefur farið algerlega rangt með staðreyndir í þessum efnum.

Ég vil þá fyrst víkja að fiskverðinu, sem gildandi var í Noregi í fyrra. Samkvæmt upplýsingum, sem Fiskifélag Íslands hafði gefið út í tímariti sínu Ægi og þar haft eftir hagfræðingi félagsins, eftir að hann hafði verið sendur til Noregs til að kynna sér málið, var talið í þeirri skýrslu, að fiskverð í Noregi hefði verið í fyrra 85–90 aurar, nokkuð breytilegt, á kg. en ekki 82 aurar á kg. eins og hæstv. ráðh. telur í sinni skýrslu. Nú er það eins og ég minntist á áður í umr., að þetta verð, sem hér var tilgreint frá Noregi í fyrra, var auglýst þar sem lágmarksverð, en hins vegar lá það fyrir, að verðið var allajafna miklum mun hærra í framkvæmd þar í landi, og ég gat þess þá hér í umr., að nú, þegar væri rætt um verðlagið í Noregi fyrir komandi ár eða 1961, væri talað um verðið 1 krónu til kr. 1.05 fyrir kg, sem væri miklum mun hærra en meira að segja verðið hefði verið. Ég skal hér tilfæra ummæli úr norska fiskveiðiblaðinu „Fiskaren“ frá 18. jan. s.l. um þetta atriði, en þar segir orðrétt á þessa leið, þar sem verið var að ræða um verðlagið fyrir 1961:

„Þegar það er haft í huga, að í fyrra voru greiddar upp í kr. 1.05 fyrir Lófót-fiskinn eða 18 aura yfir lágmarksverðinu og markaðshorfur eru nú góðar, er vissulega ástæða til þess, að lágmarksverðið í ár við Lófóten verði 97 aurar pr. kg.“

Þetta kom m.a. fram í þessu blaði, og í fleiri greinum í blaðinu var rætt um það, að sennilegt væri talið, að verðið yrði 1 kr. til kr. 1.05 á kg. Þetta sýndi, eins og ég sagði fyrr í umr., að það var ekki réttmætt á neinn hátt að ætla að taka verðið í fyrra í öðru landinu, en í hinu landinu verðið í ár, því að það var greinilega að breytast.

Nú hefur fiskverðið í Noregi nýlega verið ákveðið opinberlega, og þá er það ákveðið þannig, að fiskverðið á þorski á aðalvetrarvertíðarsvæðinu hjá þeim, á Lófótensvæðinu, hefur verið ákveðið ein kr. norsk á kg fyrir slægðan og hausaðan fisk. Hins vegar er verðið nú í ár miklum mun hærra á einstaka stöðum í Noregi heldur en þetta. Þannig er t.d. skýrt frá í þessu fiskveiðiblaði, „Fiskaren“, frá 25. jan., að fiskverðið í Sogni og á Fjörðunum verði nú 10 aurum hærra en það var í fyrra, eða fyrir slægðan og hausaðan þorsk kr. 1.20 kg.

Sem sagt, nú liggur það fyrir, að sé fiskverðið nú í Noregi tekið til samanburðar við allra hæsta verð, sem gilda á hér, 1 kr. norsk á kg, þá gerir það fyrir hausaðan og slægðan fisk kr. 5.35 á kg. En ef við tökum allra hæsta verðið, sem gert er ráð fyrir að gildi hér á Íslandi árið 1961, þá er það kr. 3.11 fyrir slægðan fisk með haus, en það gerir kr. 3.89 á kg fyrir slægðan og hausaðan fisk, eða verðmismunurinn væri þá kr. 1.46 á hvert kg. Sé hins vegar tekinn fiskur til greina, sem veiddur er í net eftir þessum nýju verðflokkunarreglum, yrði mismunurinn miklum mun meiri, því að samkvæmt verðlaginu í Noregi yrði verðið fyrir slíkan fisk kr. 5.3 á kg líka, en hér aðeins fyrir hausaðan fisk kr. 3.37 á kg eða þá yrði verðmismunurinn kr. 1.98 á hvert kg.

Svo var hitt atriðið í röksemdum hæstv. ráðh., að hann taldi, að skýra mætti þennan verðmun í Noregi með niðurgreiðslum úr ríkissjóði eða beinum verðuppbótum á fisk, og reiknaði hann það út á þann hátt, að þar mætti reikna með meðaltalsniðurgreiðslu 11 aurum á kg, en hér var vitanlega farið rangt með í stórum atriðum.

Niðurgreiðslurnar á fiski í Noregi eru þannig, að þær koma til greina á vissum svæðum, sem sérstaklega þykja liggja þannig, að þörf sé á að hjálpa þeim sérstaklega, og mjög þýðingarmiklar framleiðslugreinar fá enga niðurgreiðslu á fiski, alls engar. Mér er t.d. sagt af kunnugum mönnum, en ég veit ekki bein deili á því sjálfur, að ekki sé þar um að ræða neina niðurgreiðslu á fiski, sem fer til frystingar. En hvað um það, ég veit um aðrar staðreyndir í þessu máli, sem taka hér í rauninni af öll tvímæli. Ég hef séð það, bæði í þessu norska fiskveiðiriti, „Fiskaren“, og við höfum einnig fengið um það gögn send til Alþ., að allur stuðningur úr ríkissjóði Norðmanna til fiskveiðanna þar, þ.e. þorskveiðanna, þegar búið er að taka síldveiðina út úr, séu 14.2 millj. norskra kr. á árinu 1961. Ég hef líka í höndunum gögn, sem segja til um það, hvað þorskveiði Norðmanna var mikil á árinu 1959, en það eru seinustu skýrslur, sem segja til um heildarafla þeirra. Þá var heildaraflinn á þorski og líkum fiski 602200 tonn. Ef maður athugar þessar heildarniðurgreiðslur allar, sem ganga til þorskveiðanna, og heildaraflann á þorskveiðunum, kemur í ljós, að meðaltalsniðurgreiðslan, sé þessu jafnað jafnt niður á alla veiðina, er ekki nema 2.3 aurar norskir á kg, en ekki 11 aurar, eins og hæstv. ráðh. reiknaði. Til þess að slíkt kæmi út, þyrftu upphæðirnar að vera margfalt hærri en þær eru nú.

Það er því alveg augljóst mál, að þessar niðurgreiðslur, þó að þær séu þarna, eru ekki nema örlítið þrot af þessum mikla mismun á verðinu, sem var í fyrra, og hann var rétt færður upp í grg. okkar, þegar við gerðum grein fyrir þessu, enda stuðst við skýrslur Fiskifélagsins í þeim efnum. Hér er ekki nema aðeins um örlítið brot að ræða til skýringar á þessum mikla mismun á fiskverðinu hér og í Noregi nú á þessu ári, 1961, þó að við miðum við lágmarksverðið, sem auglýst er í Noregi, og algert hámarksverð hér á landi, tökum út þann verðflokkinn, sem er hafinn langt upp yfir hina almennu verðflokkana og gefur vitanlega engan veginn rétta mynd af meðaltalsverðlaginu á fiski hér.

Það liggur því alveg ljóst fyrir, að verðmismunur á fiski hér í fyrra og eins í ár, miðað við fiskverðið í Noregi, er gífurlega mikill, og það er vissulega full þörf á því að fá hlutlausa rannsókn á því, hvernig á þessum mikla mismun stendur.

Ég hef minnzt m.a. á þetta í sambandi við þetta mál, sem nú er hér á dagskrá, vegna þess, að hér er um skyld atriði að ræða, sem mjög koma inn í þetta spursmál um verðflokkun á fiskinum, því að einmitt með því að hafa verðflokkana svona marga, eins og nú er gert ráð fyrir, sem séu ekki miðaðir við gæðamat, á fiski, heldur eftir veiðiaðferðum og veiðitíma, er einmitt opnað fyrir þeirri hættu, að hér geti verið framkvæmd mjög óeðlileg verðlagning á fiski, sem vitanlega getur leitt af sér mikla árekstra í sambandi við fiskveiðarnar sem heild.

Ég álít því, að það sé mikil nauðsyn á því, að Alþ. eða löggjafinn grípi hér inn í og setji reglur um, hvernig í aðalatriðum skuli hátta þeim verðflokkunarreglum, sem í gildi eiga að vera á hverjum tíma um verðlagningu á nýjum fiski, og það sýnist vera eðlilegt, að aðalatriðið í verðflokkunarreglunum sé það, að þar skuli gilda gæðamat og verðflokkarnir skuli miðaðir við gæðaflokkun, en ekki í slíku handahófi og því, sem nú hefur verið sett fram í sambandi við þessar nýju verðflokkunarreglur.

Auðvitað gæti þetta verið svo, að ákveðin og rétt gæðaflokkun á fiski og þar með verðlagning á fiski gerði málið á allan hátt sambærilegra fyrir okkur, þegar við erum að bera saman okkar verð og annarra. En á því er líka mikil þörf, að við fáum þá alveg upplýst, hvernig á því getur staðið, að verðlagning þarf að vera svo mikið á annan veg hjá okkur en hjá keppinautum okkar á næsta leiti.

Ég vil nú vænta, að hæstv. sjútvmrh. viðurkenni, að það sé þörf á því til þess að koma í veg fyrir árekstra að setja hér nokkru fastmótaðri reglur samkvæmt þessu frv. um verðlagningu á nýjum fiski heldur en hér hafa verið í gildi, og að hann viðurkenni líka um leið þá miklu þýðingu, sem slíkt hefur varðandi sanngjarna og réttláta verðlagningu á fiski, og sjái einnig nauðsynina á því að láta hér fara fram hlutlausa samanburðarrannsókn á verðlaginu á nýjum fiski hér og í Noregi.

Ég vil svo óska eftir því, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn.