21.02.1961
Neðri deild: 67. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í C-deild Alþingistíðinda. (2114)

167. mál, verðflokkun á nýjum fiski

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var til umr. í hv. deild s.l. föstudag, benti ég á það, að hvorki væri tímabært né hentugt að lögfesta reglur um mat á ferskum fiski eins og frv. gerir ráð fyrir. Þessa skoðun rökstuddi ég með því, að slíkt mat væri nýlunda hér á landi og þyrfti þess vegna að afla nokkurrar reynslu af framkvæmd þess, áður en svo langt yrði gengið að lögfesta matsreglurnar. Einnig benti ég á, að yfirleitt mundi betur fara á því, að starfsreglur fyrir slíkt mat væru ákveðnar í reglugerð, en ekki í lögum, sbr. það, að gæðaflokkun á nýju kjöti er ákveðin með reglugerðum, sem mjög oft þarf að breyta. Og ég leyfi mér enn að halda fram þeirri skoðun, að það mundi vera býsna þungt í vöfum að setja lög í hvert skipti, sem breyta þarf ákvæðum um starfsreglur ferskfiskmatsins. Þess háttar ákvæði eiga heima í reglugerð, en ekki í lögum. Þetta byggist einfaldlega á því, að matinu hlýtur að vera ætlað að tryggja það, að kaupendur vörunnar, sem metin er, fái þann gæðaflokk, sem þeir óska eftir og hafa samið um, en kröfur kaupenda til gæða geta verið mismunandi og breytilegar, hvort sem um er að ræða fisk, kjöt eða einhverjar aðrar vörur.

Þetta sjónarmið út af fyrir sig hélt ég að væri auðskilið. En hv. fyrri flm. frv., 4. þm. Austf., lét a.m.k. svo í síðari ræðu sinni s.l. föstudag sem hann hefði ekki skilið þetta og greip þá til þess ráðs að ræða um aðrar hliðar á málinu sem svar við þessu. Hann krafði mig sagna um það, hvort ég teldi ekki, að verðflokkun á fiski ætti ávallt að fylgja gæðaflokkun, og spurði: Á að vera leyfilegt að verðfella fisk, sem ríkismatið hefur úrskurðað í fyrsta verðflokk? Þetta kalla ég að ræða aðra hlið á málinu, því að ég gerði eingöngu að umtalsefni, hvort hentugra væri í framkvæmd að hafa starfsreglur eða flokkunarreglur ferskfiskmatsins bundnar í lögum eða settar í reglugerð, og ég þykist vita, að hv. 4. þm. Austf., sem er fyrrv. sjútvmrh. og þekkir mætavel þá byrjunarörðugleika, sem ferskfiskmatið þarf að sigrast á, skilji í raun og veru þetta atriði miklu betur en hann vill vera láta. Þess vegna leyfi ég mér að spyrja hv. 4. þm. Austf.: Mundi hann treysta sér til að lögfesta reglur um gæðamat og verðflokkun á nýjum fiski? Hefði hann lagt það til sem ráðherra sjávarútvegsmála? Hvers vegna lét hann ekki lögleiða þetta kerfi í ráðherratíð sinni? Ég vænti þess, að hv. þm. svari þessu beint, en ekki með því að ræða eitthvað annað.

Áður en ég svara þeim spurningum, sem hann beindi til mín og ég gat um áðan, vil ég leyfa mér að benda á, hvers vegna hv. 4. þm. Austf. spyr umræddra spurninga. Það skilst mér að hljóti að vera af því, að hann telji, að ekki sé fullt samræmi milli gæðaflokkunar ferskfiskmatsins og þeirra verðflokka, sem L.Í.Ú. hefur samið um við fiskkaupendur. Sé eitthvað til í þessu, er einmitt sérstök ástæða til þess að fara að öllu með gát og lögbinda ekki reglur um gæðaflokkunina að svo komnu máli. Öll byrjun er erfið, og í þessum efnum er byrjunin óvenjulega erfið.

Ég skal þá snúa mér að spurningum hv. 4. þm. Austf. Á verðflokkun að fylgja gæðaflokkun? spurði hann, og á að vera leyfilegt að verðfella fisk, sem ríkismatið hefur úrskurðað í fyrsta verðflokk? Vitanlega á að greiða mishátt verð fyrir fiskinn eftir gæðum, og er fiskmatinu ætlað að úrskurða um gæðin, og hlýtur úrskurður þess að vera bindandi. Hins vegar er það mál milli fiskkaupenda og fiskseljanda, í hversu marga verðflokka þeir óski eftir að flokka fiskinn. Ferskfiskmatið hefur til að byrja með ákveðið þrjá gæðaflokka, en gerir, eins og eðlilegt er, ráð fyrir, að þeir geti orðið fleiri. Þessa reglu er auðveldara að setja fram með orðum heldur en framkvæma hana. Ég er ekki fyrir mitt leyti sannfærður um, að þessi gæðaflokkun sé svo fullkomin, að hana beri að lögfesta. Samkv. þessari flokkun er t.d. gengið út frá því, að allur fyrsta flokks fiskur fari í hraðfrystingu. En hvers vegna má ekki alveg eins hugsa sér, að fyrsta flokks fiskur sé unninn í saltfisk eða skreið? Og sé það svo, að úr annars flokks fiskinum, sem talinn er hæfur í saltfisks- og skreiðarverkun, megi framleiða útflutningsverðmæti, er geti gefið fyllilega sambærilegt hráefnisverð á við hraðfrysta fiskinn, hvers vegna á þá að ákveða þann fisk í annan verðflokk? Þannig mætti lengi spyrja í þessu sambandi, og við ýmsu þarf að fá skýrari svör en nú er hægt að gefa, áður en hægt er að lögbinda reglur um gæðaflokkun og þar af leiðandi verðflokkun á nýjum fiski, og skal ég víkja nánar að verðflokkuninni hér á eftir.

Ég gat þess í umr. s.l. föstudag að gefnu tilefni, hvernig á því stóð, að sjómannasamtökin eða samninganefnd þeirra var ekki aðili að samkomulagi um fiskverð 1961 milli L.Í.Ú. og fiskkaupenda. Meðan sérstakt skiptaverð gilti, voru sjómannasamtökin ekki aðili að þessum samningi, heldur var gerður sérsamningur milli þeirra og L.Í.Ú. um skiptaverðið. Þegar umr. hófust s.l. haust um nýjan skiptagrundvöll, sem miðast skyldi við prósentur úr heildarverðmæti aflans, kom í ljós, að fulltrúar sjómanna töldu sig ekki viðbúna til að segja neitt um þá meginbreytingu, fyrr en þeir fengju vitneskju um fiskverðið. Taldi L.Í.Ú. því nauðsynlegt að ljúka samningum við fiskkaupendur að mestu til þess að geta haldið áfram samningaviðræðum við gagnaðilann um sjómannakjörin. Þeir samningar um sjómannakjörin, sem síðar hafa verið gerðir, miðast við hið umsamda fiskverð og verðflokkunarreglur milli L.Í.Ú. og fiskkaupenda, og hafa sjómannasamtökin þannig að sínu leyti staðfest fiskverðið að þessu sinni, þó að þau væru ekki beinir aðilar að samningsgerðinni. Loks er þess að geta, að verðákvæðum um handfærafisk og ýsu var breytt, meðan samningar við sjómenn stóðu yfir, beinlínis fyrir áhrif frá samningamönnum þeirra.

Það gekk eins og rauður þráður í gegnum síðari ræðu hv. 4. þm. Austf. s.l. föstudag, að hann óttaðist, að verðflokkunin yrði til þess, að fiskkaupendur sæktust eftir ódýrari verðflokkunum til þess að verða sér úti um ódýrt hráefni, en síðan mundu þeir selja fullunna vöruna sem fyrsta flokks vöru á hæsta verði. Ég neita því ekki, að þessi hætta gæti verið til staðar, og ef menn sæju ekki neitt annað við verðflokkunina en þetta, þá væri rökrétt ályktun af því sú að hverfa frá verðflokkuninni með öllu. En sem betur fer er önnur hlið á málinu, sem sé sú, sem snýr að sjómönnum og útgerðarmönnum. Það hlýtur að verða þeirra keppikefli, eftir að farið er að greiða mishátt verð fyrir fisk eftir gæðum, að fá sem mest af fiskinum í hæsta verðflokk. Þannig er verðflokkunin, sem núna er gengið út frá, við það miðuð, að þær veiðiaðferðir, sem allir viðurkenna að skili bezta fiskinum, njóti þess í verðinu, en það eru fiskveiðar með línu og handfærum, og ætti sú verðlagning að vera mönnum hvatning til þess að stunda þær veiðar í ríkari mæli en verið hefur. Verðið á línufiskinum slægðum með haus er kr. 3.11 kg, en á netafiskinum kr. 2.70. Mismunurinn er 41 eyrir á kg eða 41 þús. kr. fyrir hver hundrað tonn af fiski slægðum með haus. Þessi uppörvun til að koma með sem mest af fyrsta flokks hráefni að landi ætti að vega drjúgt á móti tilhneigingu fiskkaupenda til að næla sér í ódýrt hráefni.

Í þessu sambandi spyrja menn e.t.v., hvers vegna verið sé að reyna að flokka verðið eftir veiðiaðferðum, eins og raun ber vitni. Því er til að svara, að víðast hvar mundi vera mjög erfitt að framkvæma nákvæmt gæðamat á aflanum úr hverri veiðiför. Bátarnir koma oftast að á svipuðum tíma, og þeir þurfa að losna við aflann sem allra fljótast til þess að komast út í næstu veiðiför. Framkvæmd matsins má ekki verða til þess að tefja bátana. Á hinn bóginn vita menn það af reynslu, hvaða veiðiaðferðir og hvaða meðferð aflans gefur bezta vöru, og því er ekki nema eðlilegt, að stuðzt sé við veiðiaðferðirnar til að auðvelda framkvæmd matsins og um leið reynt að örva menn til meiri ástundunar þeirra veiðiaðferða, sem skila beztum fiski. Ég tel þetta rétta stefnu í höfuðatriðum, en það á eftir að sýna sig, hvernig verðflokkunin samkv. samningi L.Í.Ú. og fiskkaupenda reynist í framkvæmd.

Einhvers staðar hef ég séð því haldið fram í blaði, að ef einhver fiskkaupandi fengi eingöngu fyrsta flokks fisk á kr. 3.11, þá mundi hann stórskaðast eða jafnvel fara á hausinn, af því að ekkert útflutningsverð á neinni verkunartegund samsvaraði þessu hráefnisverði. Þessu er svarað þannig af kunnugustu mönnum, að ef eingöngu sé tekinn fyrsta flokks fiskur til hraðfrystingar t.d., þá eigi verðið að fást uppborið í betri nýtingu aflans. Hvort þetta fær staðizt, skal ég ekki leggja neinn dóm á. En því miður mun það ekki algengt, að fiskvinnslustöðvar fái eingöngu fyrsta flokks fisk. Samt sem áður gæti þarna verið um að ræða eitt atriði enn þá, sem gerir það að verkum, að umrætt frv. er ótímabært, og hefur hv. 1. flm. þess sjálfur raunar dregið fram önnur rök í umr., sem hníga að hinu sama.

Báðir hv. flm. frv. kepptust við það í ræðum sínum að neita því, að þetta frv. verkaði eins og eins konar gerðardómur í vinnudeilum, ef samþ. yrði. Hv. 6. þm. Sunnl. orðaði þetta á þá leið, að það væri um alrangan skilning að ræða, að með frv. væri lagt til, að gerðardómur skæri úr vinnudeilum. Mér finnst þetta furðulegur málflutningur. Í grg. frv. vitna hv. flm. hvað þetta snertir algerlega gegn sjálfum sér. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta, m.a.:

„Meðal sjómanna er ekki síður mikil andstaða gegn reglum þessum, og hafa kjarasamningar víða ekki fengizt samþykktir í samtökum sjómanna af þeim sökum.“

Sem sé, kjarasamningar sjómanna hafa ekki fengizt samþykktir í samtökum þeirra vegna mikillar andstöðu gegn verðflokkunarreglunum, og til þess að binda endi á það ástand á 13 manna nefnd, þar sem sáttasemjari er oddamaður, að kveða upp úrskurð. Hvað er þetta annað en gerðardómur í vinnudeilum að sögn hv. flm. sjálfra? Ef þeir af einhverjum ástæðum sjá nú svo mjög eftir að hafa flutt þetta frv., þá væri þeim sæmra að taka það aftur heldur en vanvirða hv. d. með því að afneita nú þeirri staðreynd, sem þeir sjálfir viðurkenna skriflega og á prenti í plaggi, sem liggur á borðum allra hv. dm.

Að lokum þetta: Frv. er óþarft, af því að ekki er lengur deilt um þau atriði, sem því er, ætlað að leysa. Sú till. flm. að gera sáttasemjara ríkisins að oddamanni í eins konar gerðardómi í vinnudeilu, er beinlínis hættuleg. Starf sáttasemjara hefur, svo erfitt sem það er og vandasamt, hvað eftir annað reynzt ómetanlegt við að leysa kjaradeilur. Áhrif hans og árangur í starfi byggjast á því, að hann nýtur trausts beggja deiluaðila sem óvilhallur maður. Þessu trausti mundi hann glata, ef farið yrði að ráðum þeim, sem í frv. felast. Og víst er um það, að okkur ríður á öðru meira en brjóta niður þær leikreglur í vinnudeilum, sem bezt hafa reynzt. Slík ráð geta ekki verið fram borin í neinum góðum tilgangi, þó að hér sé haft að yfirvarpi, að með þeim eigi að leysa tiltekna deilu.

Sjómenn og útgerðarmenn hafa nú komið sér saman um þá miklu grundvallarbreytingu á kjarasamningum að miða aflahlut skipverja við prósentu úr heildarverðmæti aflans. Sérstakt skiptaverð er þar með úr sögunni, og jafnframt ern sköpuð skilyrði til að eyða margvíslegri tortryggni, sem skiptaverðið áíjur olli milli sjómanna og útvegsmanna. Þar að auki eru menn orðnir ásáttir um að hverfa frá því að selja aflann á jafnaðarverði. Þessar tvær grundvallarbreytingar hafa eftir atvikum gengið tiltölulega greiðlega fyrir sig, og af þeim sökum er engin ástæða fyrir löggjafarvaldið að grípa inn í þessi mál með valdbeitingu í líkingu við það, sem umrætt frv. gerir ráð fyrir. Sjómannasamtökin, L.Í.Ú. og fiskkaupendur þurfa að koma sér saman um framtíðarskipun þessara mála. Leiðin að slíku samkomulagi hefur þegar verið rudd, og gefur byrjunin ekki ástæðu til annars en að ætla, að slíkt samkomulag geti tekizt án íhlutunar Alþingis. Verði reynslan hins vegar sú, að aðilar komi sér ekki saman, mætti hugsa sér, að til kasta Alþingis kæmi, en þau afskipti þyrftu þá að vera með öðrum hætti og betur hugsuð og betur undirbúin en það frv., sem hér liggur fyrir.