21.02.1961
Neðri deild: 67. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í C-deild Alþingistíðinda. (2115)

167. mál, verðflokkun á nýjum fiski

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Mér þótti vænt um að heyra það hér í þessum umr., að hæstv. sjútvmrh. hefur komizt að þeirri niðurstöðu við að athuga efni frv. nánar eftir þær umr., sem hér fóru fram síðast, þegar þetta mál var hér á dagskrá, að hann lýsir því nú yfir, að hann telji, að þær verðflokkunarreglur, sem nú hafa verið settar af L.Í.Ú. og forustumönnum nokkurra fiskkaupasamtaka, séu óheppilegar. Hann telur, að það sé óheppilegt að fara þá leið, sem þar er farin, þar sem ekki sé byggt á raunverulegu gæðamati á fiski, og ég tók svo eftir, að hann lýsti því einnig yfir, að hann væri í grundvallaratriðum samþykkur því, að verðflokkun á fiski yrði miðuð við gæðaflokkun, einmitt við gæðamat ferskfiskeftirlits ríkisins. En þetta eru einmitt meginatriðin í því frv., sem við flytjum og er hér til umr., en hæstv. ráðh. hefur því miður, þrátt fyrir þessa skoðun, ekki séð sér fært að vilja styðja að þessu sinni. M.ö.o.: þó að hæstv. ráðh. sé samþykkur því, að sú grundvallarskoðun, sem flutt er í frv., sé rétt, vill hann ekki styðja frv., en leyfa þeim reglum að vera áfram í gildi, sem hann lýsir yfir að hann telji óheppilegar reglur og óeðlilegar. Mér þykir vænt um það samt sem áður að heyra, að skoðanir hæstv. ráðh. fara saman við skoðanir mínar og okkar flm. í þessum efnum, því að það vitanlega bendir þó til þess, að hæstv. ráðh. muni ætla sér að vinna að því að færa þessi mál í rétt horf, þó að hann geti nú ekki fallizt á að samþykkja frv. okkar. Og það verður auðvitað svo að vera, maður er orðinn svo vanur því hér á hæstv. Alþ., að það þykir ekki við eiga að samþykkja frumvörp andstæðinganna; en jafnvel að hirða efnið úr þeim og reyna þá að tileinka sér það síðar, að ég fyrir mitt leyti sætti mig mjög vel við, að það verði gert í þessum efnum, ef það mál nær fram að ganga, sem hér er hreyft og ég er sannfærður um að er nauðsynlegt að nái fram að ganga, ef ekki eiga að hljótast af vandræði í framtíðinni.

Hæstv. ráðh. vék svo nokkuð að þeim þrætum, sem hér hafa farið fram um svonefnd gerðardómsákvæði í frv., og það gerði einnig hv. 5. þm. Vestf. En það var greinilegt þegar við fyrstu umr. um málið, að þessir tveir hv. þm. vildu, gera aðalatriði úr því, sem þeir þóttust sjá í frv. um gerðardómsákvæði í vinnudeilum. Við flm. frv. tókum skýrt fram, að hér er ekki um að ræða nein gerðardómsákvæði í þessu frv. varðandi lausn á vinnudeilum, og það er einfaldlega af þeirri ástæðu, að engin vinnudeila hefur staðið yfir um þetta atriði, — engin vinnudeila. Og ég skora á þessa tvo hv. þm. að nefna mér þá vinnudeilu, sem staðið hefur yfir að undanförnu út af þessu ákvæði. Ég skora sérstaklega á hv. 5. þm. Vestf. að tilnefna mér þá vinnudeilu, sem hér hefur verið út af þessu atriði, vegna þess að strax í upphafi vinnudeilna, sem hér stóðu yfir á milli útgerðarmanna og sjómanna, var það grundvallaratriði og því lýst yfir opinberlega og birt ég held í öllum blöðum hér, að aðilar væru báðir sammála um, að sá samningur, sem gerður yrði um kaup og kjör sjómanna að þessu sinni, skyldi verða miðaður við það, að sjómenn fengju sama fiskverð sér til handa og útvegsmenn fá. Þannig var samningurinn grundvallaður allan tímann, að þær vinnudeilur, sem hér spruttu upp, voru um kjarasamninga, vegna þess að báðir aðilarnir höfðu komið sér saman um að þræta ekki út af fyrir sig í þessari vinnudeilu um fiskverðið, en báðir skyldu verða að sætta sig við að búa við sama fiskverð. En vitanlega sjá allir menn, að það er hægt að fara þannig að í framkvæmd, að síðan sé farið að blekkja svo í framkvæmdinni, hvað sé hið raunverulega fiskverð, að menn hverfi frá því aftur og vilji hverfa að einhverju fastmörkuðu fiskverði.

Ég þykist vita, að hv. 5. þm. Vestf. þekki það úr sinni reynslu sem útgerðarmaður, að svo var málum háttað um margra ára skeið hér í kjarasamningum sjómanna og útgerðarmanna, að það gilti sama fiskverð til beggja, og það fóru aldrei fram neinir samningar þá um það, hvaða fiskverð sjómenn skyldu sérstaklega búa við, vegna þess að kjarasamningarnir voru byggðir þannig upp, að sjómenn áttu að taka sinn tiltekna aflahlut úr því fiskverði, sem endanlega átti að koma til skila, úr því fiskverði, sem útgerðarmaðurinn fékk. En þegar búið var að halda þannig á þessum málum í nokkur ár, að sjómenn gerðu sér ljóst, að það var alltaf verið að blekkja þá á fiskverðinu, það var verið að stinga undan stórum summum, sem raunverulega áttu að vera inni í fiskverðinu, það var búið að falsa fiskverðið raunverulega, þá töldu þeir sér ekki annað fært en fara að semja um hið svonefnda skiptaverð, það verð, sem þeirra skiptakjör skyldu miðuð við, hvað svo sem réttu fiskverði annars liði. Og svo var komið, að skiptaverðið til sjómanna var t. d. á s.l. ári kr. 1.66 á kg af fiski, á sama tíma sem útgerðarmennirnir fengu kr. 2.53 fyrir kg og kr. 2.63 fyrir kg, eða miklum mun hærra verð. En nú voru menn aftur á því, að þeir skyldu taka upp gamla lagið í þessum efnum og það yrði ekki samið um sérstakt fiskverð, heldur skyldu þeir koma sér saman um það, áður en gengið væri að samningaborði, að sjómenn fengju aðeins það fiskverð, sem útgerðarmenn fengju, báðir skyldu fá hið sama.

Sú hætta, sem er því á ferðum nú, er, að það sé enn verið að rugla þessu, sem nú var meiningin að reyna að halda sér við, með því að setja upp reglur, sem allir sjá að eru í eðli sínu rangar. Þegar svo á að fara, að opinbert fiskmat ríkisins metur fisk sem fyrsta flokks gæðafisk, en síðan er heimilt að verðleggja hann til sjómannsins og útgerðarmannsins sem þriðja flokks fisk, en það er heimilt nú samkv. þessum reglum landssambandsins, þá er hætt við, að það geti beinlínis síðar meir risið upp vinnudeilur út af fiskverðssamningum, eins og hér átti sér stað á tímabili. En um það var ekki að ræða nú í vetur. Engin slík deila hefur verið háð. Það hefur aðeins verið háð ein deila á milli tveggja atvinnurekendahópa um þessar verðflokkunarreglur. Það var þegar útgerðarmannafélagið í Vestmannaeyjum beinlínis lýsti yfir því, að það mundi ekki hefja róðra fyrr en fiskkaupendur þar vildu breyta þessum verðflokkunarreglum. Þar var deila á milli tveggja hópa atvinnurekenda um þetta fyrirkomulag. En vinnudeilur í þess orðs venjulegu merkingu hafa ekki verið háðar um þetta mál. Það er fullkomlega rangt, og hér hefur því aðeins verið um beinan útúrsnúning þessara hv. tveggja þm. að ræða í sambandi við þau ákvæði, sem er að finna í þessu frv. Hitt var vitanlega ofur eðlilegt um frv., sem þannig er byggt upp eins og frv. okkar að reyna að finna lausn á því, hvað á að vera fiskverðið til útgerðarmanna og sjómanna samkv. þeirra samkomulagi, sem átti að vera það sama, þegar reynt er að finna rétt og réttlátt verð á fiskinn, þá sé miðað við, að það opinbera fiskmat, sem sett hefur verið á laggirnar, dómur þess um gæði fisksins sé viðmiðunaratriðið, en ekki einhver önnur gerviatriði eins og þau, sem hafa verið sett upp af landssambandinu. Það er ofur eðlilegt, að þessar kröfur komi fram, enda er nú viðurkennt bæði af hæstv. sjútvmrh. og hv. 5. þm. Vestf., að í rauninni séu þeir samþykkir þessari hugsun.

Af einhverjum annarlegum ástæðum er það t.d. svo, að hv. 5. þm. Vestf. hefur líka kosið sér að ræða um annað atriði í frv., sem líka er hreinn og beinn útúrsnúningur, eins og honum hefur verið bent á áður. Hann endurtekur það nú í sinni ræðu, að hann hafi sérstaklega um það talað, þegar málið var hér fyrst til umr., að með þessu frv. ætti að lögfesta gæðamatsreglurnar, og hann sé andvígur því að lögfesta gæðamatsreglurnar, vegna þess að það sé miklu eðlilegra að hafa í reglugerð ákvæði um það, hvað skuli teljast fyrsta flokks fiskur, hvað skuli teljast annars flokks fiskur o.s.frv. Auðvitað hefur aldrei verið neinn ágreiningur á milli okkar flm. og hans um það, að slíkar matsreglur séu eðlilegar í reglugerð, og hann veit það mætavel. En það, sem við höfum gert í okkar frv., er aðeins að segja, að við viljum, að verðflokkunin fylgi gæðaflokkunum, þannig að fyrsti verðflokkur sé fyrsti gæðaflokkur og annar verðflokkur sé annar gæðaflokkur. Vegna þess að nú nýlega hafa verið settar þessar reglur um gæðaflokkunina, segjum við í frv. nákvæmlega upp úr reglugerðinni um gæðamat, að það skuli telja á þessu ári fyrsta verðflokk fyrsta gæðaflokk, sem þannig sé tilgreindur, eins og stendur í reglugerðinni. Við erum ekki á nokkurn hátt með þessu frv., eins og hver maður sér, sem les frv., að berjast fyrir því að lögfesta, hverjar eigi að vera gæðamatsreglurnar. Frv. felur í sér, að það á aðeins að gilda út þetta ár. Meginkjarninn er sá að láta flokkana, verðflokkana og gæðaflokkana, falla saman, og síðan er tekin beint upp úr reglugerðinni um gæðamat skilgreining á því, hvað telst fyrsti flokkur og hvað telst annar flokkur o.s.frv. Hér er auðvitað um hreinan útúrsnúning hjá hv. þm. að ræða, þar sem hann reynir sí og æ að halda því fram, að frv. fjalli fyrst og fremst um það að lögfesta gæðamatsreglurnar. Það er rangt, enda benti ég líka á það í minni fyrri ræðu um málið, að ef menn væru með slíkan orðhengilshátt eins og þetta, sem er augljóslega hreinn útúrsnúningur, þá mætti auðvitað ganga til samkomulags við slíka menn með því að taka þarna af öll tvímæli. Við flm. værum ásáttir um það að segja, að ef þessum gæðamatsreglum yrði breytt á árinu, þá skyldi verðflokkunin líka fylgja því. En það vitanlega féll ekki í kramið, hjá hv. þm. núna í hans útúrsnúningi á málinu að minnast á það, að þessu hefði verið yfir lýst, og af því gat hann vitanlega leikið sér að því að spila hér sömu plötuna upp aftur.

Nei, kjarni þessa máls er sá, hvort menn nú á þessu ári, fyrsta árinu, sem á að fara að taka upp mismunandi verðflokkun á nýjum fiski, sem annars hefur yfirleitt verið í einum flokki, hvort menn vilja reyna að búa þannig um hnútana, að það séu líkur til þess, að þetta fái staðizt eða ekki. Ég efast ekkert um, að það eru til ýmsir fiskkaupmenn, sem vilja hafa þann hátt á, sem nú hefur verið hafður á af hálfu landssambandsins og samtaka fiskkaupenda. Fiskkaupendurnir hafa þegar sýnt það þessa fáu daga, sem reglugerðin er búin að vera í gildi eða reglurnar nýju eru búnar að vera í gildi, að þeir vilja geta keypt fisk í þriðja verðflokki, verka hann sem fyrsta flokks fisk og selja hann út úr landinu á hæsta verði. Þeir vilja geta fengið svona fisk og eru nú þegar á hnotskóg eftir því að fá svona fisk. Og þeir, sem eru að selja fiskinn, fá það beinlínis framan í sig: Ja, ég get ekki keypt af þér fisk, góði minn, vegna þess að þú, ert með línufisk, þá þyrfti ég að borga kr. 3.11 fyrir fiskinn, en ég kaupi hins vegar fiskinn af hinum bátnum, sem lætur mig hafa hann á kr. 2.70, því að það er netafiskur, af því að ég fæ sem verkari jafnmikið fyrir hvorn tveggja fiskinn í útflutningsverði. — Þetta er þegar komið fram, og þetta hlýtur hv. 5. þm. Vestf. að vita. En þá er vitanlega tal hans hér í þessum efnum ekki skýranlegt á annan hátt en þann, að hér sé rödd fiskkaupandans að tala, og þá skilur maður hana. Öðruvísi verður hún ekki skiljanleg.

Það er rætt um það í þessum efnum,, og það gerði hv. 5. þm. Vestf., að hann teldi æskilegast nú á þessu fyrsta ári, að um þetta mál gæti orðið samkomulag á milli fiskseljenda og fiskkaupenda. Hann veit manna bezt, hygg ég, a.m.k. er í hópi þeirra, sem bezt vita um það, hverjir það eru, sem ákváðu þessar nýju reglur um verðlagningu á fiski af hálfu L.Í.Ú. og þeirra, sem við það sömdu. Ég hygg, að það megi segja, að þeir hafi allir saman verið fyrst og fremst fiskkaupendur, sem ákváðu þær reglur. (Gripið fram í.) Ætli hann hafi þá ekki verið það líka? Annars væri gaman að heyra nöfn þeirra allra, þá væri kannske hægt að segja þessum hv. þm. nákvæmlega, hvaða fiskkaupafyrirtæki hver þeirra á um sig. (Gripið fram í: Vissi þm. ekki um nöfnin?) Jú, ég veit um nöfnin líka, og ég gæti líka talið þau upp. Ég var hins vegar að vitna til þess, að hv. 5. þm. Vestf. hlyti að vita allvel um þetta, að hér voru nefnilega á ferðinni þeir aðilar að ákveða fiskverðið, sem voru fyrst og fremst fiskkauparar, og af því hafa líka borizt mótmæli frá samtökum útgerðarmanna, sem selja fyrst og fremst fisk, og frá samtökum sjómanna víðs vegar að af landinu, þar sem þeir hafa mótmælt þessum reglum og lýst óánægju sinni með þær. Sums staðar hefur það gengið svo langt, að bæði sjómenn og útgerðarmenn hafa ekki viljað una við þetta og náð samkomulagi heima hjá sér um að láta fara eftir öðrum reglum en þessum.

Það er mesti misskilningur hjá hv. 5. þm. Vestf., að sjómannasamtökin í landinu hafi, eins og hann sagði, raunverulega samþykkt þessar verðflokkunarreglur. Það er alveg þvert á móti, að þau hafa einmitt lýst því yfir og það mjög greinilega, að þau hafi ekki átt hér neina hlutdeild að og samþykki þær ekki. Og þau hafa vitanlega alveg frjálsar hendur um að gera sínar ráðstafanir þar á móti, ef menn telja, að hér sé verið að fara raunverulega á bak við samtökin. Hins vegar getur vel svo farið, að menn verði að una þessu, a.m.k. víða á landinu, þar sem þeir geta ekki komið fram leiðréttingum heima fyrir á þessu ári. En ég er sannfærður um það fyrir mitt leyti, að þessar reglur fá ekki staðizt til frambúðar, þær eru svo ósanngjarnar og óeðlilegar. Ég held því, að það hefði verið hið bezta í þessu máli að samþykkja frv. okkar um þetta atriði, enda hefur það þegar fengið mjög góðar undirtektir í samtökum útgerðarmanna, sem selja fisk fyrst og fremst, og sjómanna víðs vegar af landinu. En fáist ekki leiðrétting á þessu núna, er auðvitað gefið mál, að þá sækir í það fyrir næstu vertíð, að annaðhvort verður á nýjan leik tekið upp lagið að semja sérstaklega um skiptaverð fyrir sjómenn eða þá að það verða að koma þær reglur fram í sambandi við verðlagninguna á fiski, að sjómenn sætti sig við það sem réttar leikreglur, en ekki rangar.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta miklu meira en orðið er. Ég tel að það hafi komið allgreinilega fram í þessum umr., um hvað raunverulega er deilt í þessum efnum, og þau aukaatriði, sem hefur verið reynt að blanda inn í þetta, eins og varðandi gerðardómsákvæði í vinnudeilum, eru vitanlega hreinn útúrsnúningur. Og sama er að segja viðvíkjandi því, að hér sé verið að lögbinda þær flokkunarreglur, þær gæðamatsreglur, sem yfirleitt eiga að vera í gildi af hálfu ferskfiskmatsins. Um það er ekki að ræða.

En það voru aðeins nokkur orð svo í sambandi við það sem hæstv ráðh. sagði í sambandi við fiskverðið í Noregi. Ég þarf ekki að fara um það mörgum orðum. Það var ekki svo mikið, sem hæstv. ráðh. sagði í þeim efnum nú. Hann sagði þó, að við, sem höfum nokkuð deilt við hann um fiskverð í Noregi, værum nú horfnir frá því að gera samanburð á fiskverðinu í Noregi, eins og það var í fyrra, og hér á Íslandi. Það er mesti misskilningur. Við höfum einmitt dregið það mjög skýrt fram í þessum umr., að við vildum halda okkur við samanburðinn á fiskverðinu í Noregi í fyrra og á Íslandi í fyrra. Sá samanburður kemur nákvæmlega fram í grg., sem fylgir okkar till., sem hér liggur fyrir hv. Alþ. um rannsókn á fiskverðinu. Samanburður á milli verðlagsins, sem var í Noregi í fyrra og á Íslandi í fyrra, kemur þar greinilega fram, og allar tölur, sem þar eru tilfærðar, eru réttar. Við höfum auk þess í þessum umr. gert samanburð á fiskverðinu í Noregi eins og það er nú og eins og það á nú að vera hér á Íslandi. Hvor tveggja þessi samanburður sýnir, að verðmunurinn er gífurlega mikill. En okkur ber ekki saman, hæstv. ráðh. og okkur, og það þýðir ekki að vera að þrátta frekar um það. En í þessum efnum sagði hæstv. ráðh., að hann vildi geta þess í leiðinni og hann hefði upplýsingar um það, að meðaltekjur norskra sjómanna á Lófótvertíðinni væru þar taldar vera 1906 norskar eða rétt um 10 þús. ísl. kr. Hann vildi geta þessa. Ekki skal ég draga í efa, að þetta sé rétt. En ég vil þá geta þess jafnframt í leiðinni, að þessi tala segir harla lítið í sambandi við samanburð á milli Noregs og Íslands. Eins og réttilega er tekið fram í grg. þeirri um fiskverðið í Noregi, sem birt var í tímaritinu Ægi af starfsmanni Fiskifélagsins, er útgerð við Lófóten á vetrarvertíð gersamlega ólík því, sem er hér á landi, í sambandi við rekstur bátanna og slíka aðstöðu. Þar ganga mjög smáir bátar, gerólíkt því, sem er á vertíð hjá okkur. Þar er aflinn á hvern bát og reyndar á hvern mann líka aðeins brot af því, sem er hjá okkur. Meðaltal yfir allan þennan gífurlega stóra smábátaflota, meðaltalskaup yfir vertíð þar og meðaltalskaup á vertíð hér hjá okkur, sú tala liggur ekki fyrir, ég hef aldrei séð þá tölu hér nokkurs staðar, að maður hefði hér meðaltalskaup uppfært í sambandi við rekstur allra okkar báta. Þar er vitanlega verið að jafna saman alveg gerólíkum hlutum, því að hér eru yfirleitt gerðir út á vetrarvertíð stórir bátar og af miklum krafti og skila vitanlega allt öðru en litlir bátar. En hitt er hins vegar auðvitað sambærilegt að athuga, hvaða fiskverð norsk frystihús og norskir fiskverkarar geta gefið fyrir nýjan fisk. Þegar þeir verka fiskinn á sömu markaði og við og selja hann þangað, að því er við bezt vitum á sambærilegu verði og við, þá er mjög sambærilegt að bera saman, hvaða fiskverð þeir geta borgað og hvaða fiskverð okkar fiskvinnslustöðvar geta borgað. En samanburður á meðaltekjum allra bátasjómanna við Lófóten á vertíð og þeirra, sem sjó stunda hér á vertíð, hefur ekkert gildi, af því að þar er svo gersamlega ólíkum hlutum jafnað saman.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta, en ítreka mína fyrri till. um það, að ég óska eftir því, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. sjútvn.