13.02.1961
Neðri deild: 62. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í C-deild Alþingistíðinda. (2125)

175. mál, hefting sandfoks og græðsla lands

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég mun ekki hafa mörg orð í sambandi við þetta frv., en ég tel eigi að síður ástæðu til að koma hér með nokkrar athugasemdir í tilefni af því, hvernig þetta mál ber að.

Hv. ræðumaður, sem lauk hér máli sínu áðan, sagði: „Við flm. erum að sjálfsögðu reiðubúnir til viðræðna um breytingar á þessu frv.,“ rétt eins og þetta væri þeirra frv., sem þeir hefðu samið, þeirra tillögur. Hann sagði enn fremur, að það væri æskilegt að fá samstarf um þetta mál. Því er ég alveg sammála. Það er það, sem þarf að ske, til þess að árangur náist og til þess að þetta nytjamál, sem ég held að allir hv. alþm. séu sammála um að þurfi að leysa vel, komist í höfn.

Það var 1957, sem þáv. landbrh. skipaði hina fyrri sandgræðslunefnd til þess að semja frv. til l. um auknar tekjur til Sandgræðslu Íslands, og n. skilaði frv. til ráðuneytisins. En það var þá, er það dróst nokkuð í rn. að flytja málið, að einn nefndarmanna, Steingrímur Steinþórsson, flutti málið inn í þingið, af því að ráðherra þurfti nokkuð langan tíma til þess að átta sig á því og ná samkomulagi um það innan ríkisstj., hvern hátt skyldi hafa á þessum málum. Frv. náði ekki fram að ganga, og haustið 1959 fluttu þessir sömu þm., sem nú flytja þetta frv., aftur hið fyrra sandgræðslufrv., sem náði ekki heldur fram að ganga á því þingi, enda var ýmislegt í því frv., sem var ekki aðgengilegt, t.d. það að skattleggja búpening bænda í þessu skyni. Ég hygg, að bændum hafi fundizt, enda þótt hér væri um gott málefni að ræða, að þeir hefðu ekki svo breið bök, að þeir gætu tekið á sig þann skatt, sem ætlað var með þessu frv. En hv. flm., hv. 3. þm. Norðurl. e. og hv. 4. þm. Sunnl., töldu samt, að það væri óhætt að skattleggja bændur á þennan hátt, og þess vegna fluttu þeir frv. Og ég vil nú spyrja hv. fyrri flm. þessa frv.: Hvað er sameiginlegt eða líkt með þessu frv., sem hann flytur nú ásamt hv. 3. þm. Norðurl. e., og því frv., sem þeir fluttu sameiginlega á síðasta þingi? Hann sagði hér áðan, byrjaði ræðu sína með því að segja, að að meginefni væri þetta frv. samhljóða frv. frá 1957. Þetta er vægast sagt ónákvæmni í málflutningi. Hér er um allt annað frv. að ræða. En þessir hv. tveir þm. voru eigi að síður reiðubúnir til þess að flytja það, og verður að segja, að hér er um óvenjuleg vinnubrögð að ræða. Þeir fá frv. lánað hjá einum nm. sandgræðslunefndarinnar, og þeir flytja það án leyfis og án samráðs við hann. Ég hringdi í þennan hv. nm. áðan í matartímanum og spurði hann um, hvort það hefði verið flutt með hans samþykki, þetta frv., eða hans leyfi. Hann sagði nei. En ég vona, sagði þessi mæti maður, að það verði ekki til þess að skaða málið, þótt hér hafi verið um frumhlaup að ræða í sambandi við þennan flutning. Það kemur ekki til mála, segi ég. Við látum ekki málið gjalda þess, — og a.m.k. öðrum þm. er vorkunn, þótt hann kannske, eins og maður segir, vinni hér af nokkru fljótræði. En hinn, hvað á að segja honum til afsökunar, sem hefur setið á þingi í tugi ára og hefur mikla reynslu?

Nei, málið má ekki gjalda þess, þótt hér hafi verið farið óvenjulega að. Það kemur ekki til greina. En ég vil upplýsa hv. Alþingi um það, að þetta mál er til athugunar hjá ríkisstj. Þetta frv. er samið af sandgræðslunefndinni, eftir að ég kallaði hana saman í des. 1959 og óskaði eftir því, að hún endurskoðaði fyrra frv. og breytti því, vegna þess að það væri að mínu áliti ekki aðgengilegt. Þess vegna breytir sandgræðslunefndin frv. á þá lund, að tekjuöflunin er hugsuð á annan hátt. En stjórnarandstæðingar eða a.m.k. þessir tveir hv. flm. munu vitanlega halda því fram, að frv. sé búið að vera nógu lengi í rn., það hafi nú verið eitt ár í rn. og ríkisstj. hafi þess vegna haft nægilegan tíma. En fyrra sandgræðslufrv. var einnig nokkuð lengi í landbrn. til athugunar, og þess vegna tók einn nm. sig til og flutti það. Hann þurfti vitanlega ekki að spyrja neinn um leyfi, því að hann var einn af nm., flutti það þess vegna ekki í leyfisleysi. En þetta frv. er önnur útgáfa frá sandgræðslunefndinni, og það er að einu leyti betra en hið fyrra, að því leyti, að hér er horfið frá því að skattleggja búpeninginn, eins og var í fyrra frv. Hér er stefnt að nýrri leið með því að leggja aukagjald á áfengi í þessu skyni, sem ég tel að vel komi til greina, og hér er einnig minnzt á það, að skattur sá, sem lagður er á innfluttan fóðurbæti, renni til þessara mála. En það er nú eins og fyrr, að þegar um er að ræða miklar fjárhæðir, sem annaðhvort ríkissjóður beint eða óbeint þarf að greiða, þá tekur það sinn tíma að finna leiðir til þess.

Þetta er vitanlega lítið breytt nú frá því, sem var, þegar hv. framsóknarmenn fóru með þessi mál. Mér dettur ekki í hug að halda því fram, að það hafi verið af viljaleysi hjá fyrrv. landbrh. hæstv., Hermanni Jónassyni, að hann flutti ekki þetta mál sem stjfrv. Það var af allt öðrum ástæðum. Það var af þessum sömu ástæðum, sem við höfum alltaf átt við að stríða, að fá féð, að bæta við útgjöld ríkisins, hvort sem það er beint eða óbeint.

Ég held, að flestir eða jafnvel allir hafi nú fengið skilning á því, að landgræðsla og hefting sandfoks er eitt af því, sem allra nauðsynlegast fyrir okkur í dag. Þess vegna er það eitt öruggt, að þetta mál verður leyst farsællega, hvort sem það verður á þessu þingi eða því næsta, því að skilningur manna fer stöðugt vaxandi á þessu.

Ég segi því það, sem ég sagði áðan, þegar ég talaði við nefndarmanninn, það kemur ekki til mála að láta málið gjalda þess, þótt hér hafi verið viðhöfð óvenjuleg vinnubrögð. En það veit ég, að hv. 3. þm. Norðurl. e., sem situr hér á móti mér og er þingvanur, veit, að frumvörp til mikilla útgjalda ríkissjóðs, hvort sem er beint eða óbeint, verða ekki samþykkt, nema stjórnarflokkarnir hafi komið sér saman um það og sá, sem fer með fjármál ríkisins, sjái ríkissjóði fært að standa undir því. Það er þess vegna ljóst, að flutningur þessa frv. þessara tveggja hv. þm. getur ekki flýtt fyrir málinu og ekki greitt fyrir því. Um leið og ríkisstj. hefur fundið sameiginlega leið í þessu, verður málið vitanlega samþ. í einu formi eða öðru. Og það verður dálítið erfitt fyrir hv. flm. frv. að áfellast þessa ríkisstj., þótt hún taki sér nokkurn tíma í þessu máli, þar sem vinstri stjórninni entist ekki tími til þess að gera þetta, og dettur mér ekki í hug að halda því fram, að fyrrv. landbrh., Hermann Jónasson, hafi ekki haft áhuga á málinu. Hér er um mikið stórmál að ræða, og það er ljóst, að það þarf að gera hér stórt átak. Það er ekki nægilegt að vinna gegn heftingu sandfoks. Það þarf að hefja skipulega sókn í því að græða upp landið, að fá meiri gróður í afréttarlöndin og öræfin, sem við eigum svo mikið af, og gera landið þannig stærra og betra, um leið og fólkinu fjölgar og þörfin fyrir aukna framleiðslu vex. Þetta er verkefni næstu ára, og sandgræðslunefndin er til orðin vegna þess, að þessi skilningur var fyrir hendi, og sandgræðslunefndin var endurskipuð og samdi annað frv. vegna þess, að þessi skilningur hafði enn vaxið frá árinu 1957. En það skal vel vanda, sem lengi á að standa. Við þurfum að finna varanlegan tekjustofn fyrir sandgræðsluna, og þess vegna er það nú svo, að þótt þetta sé önnur útgáfa af frv. frá hendi sandgræðslunefndar, þá er það mín skoðun, að það þurfi að endurbæta það í þriðja sinn. Við þurfum að bæta við þetta og breyta því og gera þetta þannig úr garði, að það megi verða varanlegt, það megi verða traust, það megi uppfylla þær kröfur, sem við þurfum að gera í þessu efni, og leiða til þess, að landgræðslan megi aukast meira en verið hefur. Þess vegna skal engan furða á því, þótt núv. ríkisstj. þurfi nokkurn tíma. Málið er hjá henni. Hún mun leysa það farsællega, sem vinstri stjórninni entist ekki tími til að gera. Og ég segi það enn, eins og ég sagði við hinn mæta mann, sem lánaði hv. flutningsmönnum frv.: Málið mun ekki gjalda þess, þótt hér hafi verið farið óvenjulega að. En öllum mun ljóst vera, að flutningur þessa frv. á þann hátt, sem hér hefur verið gert, greiðir ekki fyrir málinu og flýtir ekki á neinn hátt fyrir því að ná því marki, sem ég býst við að við flest viljum ná.