13.02.1961
Neðri deild: 62. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í C-deild Alþingistíðinda. (2126)

175. mál, hefting sandfoks og græðsla lands

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hafði munar ekki gert ráð fyrir því að taka til máls um þetta mál við þessa umr., enda er ég ekki fyrri flm. þess, og þegar hefur verið gerð grein fyrir því mjög skilmerkilega af hv. 1. flm. málsins. Hins vegar þótti hæstv. landbrh, sem hér flutti mjög einkennilega ræðu áðan, hlýða að minnast mín, eða ég skildi það svo, í ræðu sinni, og því þykir mér rétt af því tilefni að fara um þetta fáeinum orðum.

Hæstv. ráðh. hafði orð á því, að ég væri búinn að sitja nokkuð lengi á þingi og mundi þekkja til meðferðar þingmála, og það er rétt, að svo ætti það nú að vera. Í því sambandi get ég getið þess, að ég minnist þess ekki þessa rúmlega tvo áratugi eða hvað það nú er, sem ég hef setið hér á Alþingi, að ég hafi heyrt nokkurn landbrh., sem hefur ætlað sér að styðja eitthvert framfaramál landbúnaðarins, tala um það á þann hátt, sem hæstv. landbrh. gerði nú síðast. Þar hafa tíðkazt önnur vinnubrögð oftast nær.

Hv. frsm., hv. fyrri flm. þessa máls, flutti hér ýtarlega ræðu og skilmerkilega. Hann flutti þá tegund ræðu, sem þeir menn flytja, sem fylgja fram máli á Alþingi af góðum hug og vilja leggja sig fram til að koma málunum fram. Hann talaði áreitnislaust um þetta mál og gaf hæstv. ráðh. áreiðanlega ekkert tilefni til óánægju út af þeirri ræðu. Hann fór ekki inn á neinn samanburð eða mannjöfnuð út af því, hvað menn hefðu lagt til þessara mála. En hæstv. ráðh. virtist aðallega eiga það erindi hér upp í ræðustólinn að reyna að stofna til einhvers konar deilna um málið. Hann hefur e.t.v. ekki verið sér þess meðvitandi, að hann væri að þessu, en það var ekki hægt að verjast þessari hugsun, þegar hann flutti ræðuna. Hann var að bera saman ríkisstjórnir, sem hefðu farið með þetta mál, og hann var að bera saman aðra aðila, sem að þessu máli hefðu staðið, hvað þeir hefðu verið skeleggir, hvað þeir hefðu gert rétt og hvað ekki rétt o.s.frv., og m.a. komst hann svo að orði, að ég ætla, að það væri ekki von, að núv. ríkisstj. hefði getað komið þessu máli fram, ekki hafi vinstri stjórnin gert það o.s.frv. Slíkan meting tel ég ekki hafa mikla þýðingu eða gera mikið gagn í þessu máli. Hann er til þess eins fallinn að sundra, en ekki sameina, — sundra þeim kröftum, sem hér kynni að vera hægt að hafa gagn af.

Ef rifjuð er upp meðferð þessa máls, er það rétt, sem hér hefur þegar komið fram, að upphaf þess, þ.e.a.s. þessa frv., sem hér liggur fyrir, má telja það, að þáv. landbrh., sem ég ætla að hafi verið Hermann Jónasson, — það skiptir nú ekki verulegu máli, hver það var, — skipaði sandgræðslunefndina. Í henni voru fimm menn. Það var sumarið 1957. Þessi nefnd samdi frv., sem er samnefnt því frv., sem hér liggur fyrir, um heftingu sandfoks og græðslu lands, og ég held, að það sé ekkert rangt í því, sem hv. fyrri flm. þessa máls sagði, að í aðalatriðum sé það frv., sem hér liggur fyrir, byggt á þessu frv., sem samið var árið 1957.

Meginatriði þessa máls eru þau vinnubrögð, sem gert er ráð fyrir að verði viðhöfð á komandi árum af hálfu hins opinbera til þess að græða upp landið og að afla fjár til þess. Og það er einnig sameiginlegt með þessum frumvörpum og sameiginlegt með þeim og því frv., sem við fluttum í fyrra, að þar er gert ráð fyrir því, að fjárins sé ekki fyrst og fremst aflað með framlagi úr ríkissjóði, heldur á sérstakan hátt með álagningu á vörur. Þá var gert ráð fyrir, að þetta yrði gert með álagningu á tóbak. Nú er gert ráð fyrir, að það verði gert með álagningu á áfengi, og ég sé ekki, að þarna sé mikill munur á.

Frv. það, sem sandgræðslunefndin samdi árið 1957, var einnig sent til landbrh. Búnaðarþing fékk það síðan til meðferðar, og það voru viss atriði í þessu frv. sandgræðslun., sem búnaðarþing vildi ekki fallast á. Þetta mun m.a. hafa verið ástæðan til þess þá, eftir því sem ég veit bezt, að þetta frv. var ekki flutt af ríkisstj., en einn nefndarmanna flutti þetta frv. þá á Alþingi, 1958–59. Þá var málið alllengi til meðferðar í landbn., og landbn. gerði á því allmiklar breytingar, en það varð ekki útrætt á því þingi. Svo leið fram á þingið í fyrra, og þá tókum við núv. flm. málsins það upp á ný á Alþ. Við tókum það upp á Alþ., og við færðum það í það horf, sem við töldum að kynni að miða að samkomulagi í málinu. Við breyttum frv. ekki mikið, en við gerðum nokkrar breytingar á tekjuöflunarleiðunum, sem okkur fannst vera eins konar miðlun á milli þess, sem sandgræðslunefndin hafði lagt til, og þess, sem búnaðarþingið hafði lagt til. Þannig lækkuðum við um helming það gjald, sem sandgræðslunefndin hafði lagt til að greitt yrði af búfénaði, en búnaðarþing hafði verið andvígt þessu gjaldi, og nokkrar fleiri smábreytingar gerðum við, sem við töldum að yfirleitt miðuðu í þá átt að miðla málum á milli þeirra aðila, sem um málið hafa fjallað, því að fyrir okkur var það aðalatriðið, að meginatriði málsins, þ.e.a.s. ný vinnubrögð og hið nýja framtak við græðslu landsins og aðalfjáröflunarleiðin, sem er álagning á vissa vörutegund, yrðu samþykkt. Hitt skiptir svo minna máli, hinar minni fjáröflunaraðferðir.

Þegar þetta mál kom til 1. umr. hér í hv. d. á síðasta þingi, tók hæstv. landbrh. eiginlega vinsamlega í málið, — ég skal viðurkenna það, — og hann skýrði þá frá því, sem við höfðum þó reyndar frétt rétt áður, flm., að hann hefði kvatt saman sandgræðslunefndina að nýju til þess að taka málið til endurskoðunar. Og við því var auðvitað ekkert að segja, ef það mátti verða málinu til framdráttar.

Eins og segir í grg. frv., var því á þinginu í fyrra vísað til landbn., og ég geri ráð fyrir því, að ástæðan til þess, að landbn. afgreiddi ekki frá sér málið á síðasta þingi, hafi verið sú, að hún hafi verið að bíða eftir því, að nýjar tillögur kæmu frá sandgræðslunefndinni, sem hæstv. ráðh. hafði kallað saman. Og slíkar tillögur komu vissulega. Sandgræðslunefndin lauk endurskoðuninni og skilaði tillögum sínum til hæstv. ráðh., þess sem nú situr, snemma í febrúarmánuði 1960 eða fyrir ári. Hún vann sitt verk fljótt, enda eru það áhugamenn, sem í n. eru. Snemma í febrúarmánuði s.l. hafði hæstv. ráðh. þess vegna fyrir framan sig tillögur n. um breytingar á frv. frá 1957, og ég held, að það sé ekkert ofmælt, þó að ég segi það, — ég held, að það sé ekki misskilningur hjá mér heldur, — að þessar tillögur hafi verið gerðar að nokkru leyti með tilliti til þess, að hæstv. ráðh. gæti á þær fallizt. Og það má segja um þessar tillögur, þessar nýju till. sandgræðslunefndar frá í febrúar 1960, að í þeim er heldur ekkert, sem við flm. þessa frv., a.m.k. í fljótu bragði, höfum getað komið auga á, að við gætum ekki á fallizt. M.a. var þar nú lagt til, að í staðinn fyrir að afla fjár fyrst og fremst með aukaálagi á tóbak, þá kæmi aukaálagningin á áfengi. Ég fyrir mitt leyti geri þar ekki mun á. Sandgræðslunni mun verða alveg sama gagn að þessari upphæð, hvort sem hún er lögð á áfengi eða tóbak. Og nefndin hefur í þessum nýju tillögum alveg fallið frá búpeningsgjaldinu. Hún hefur alveg fallið frá því, og við flm. sjáum þá ekki heldur ástæðu til þess að gera þá till. lengur að okkar till. Hún var tekin upp í okkar frv. upphaflega, þ.e.a.s. hluti af henni eða hluti af gjaldinu, vegna þess að það var í tillögum sandgræðslunefndar upphaflega.

En svo hefur gangur málsins orðið sá síðan í febrúar í fyrra, ef það er málfræðilega rétt að tala um einhvern gang í því sambandi, að þetta nýja frv. frá sandgræðslunefnd með ýtarlegri grg. hefur legið á skrifborði hæstv. landbrh. eða verið í hans vörzlu síðan, og ég veit ekki til þess, að annað hafi gerzt, nema þá það, sem er mjög trúlegt, en ég veit ekki, en get hugsað mér, að hæstv. landbrh. hafi rætt þetta mál við meðráðh. sína í ríkisstj. Það finnst mér mjög líklegt, að hann hafi gert, og geng reyndar út frá, að hann hafi hlotið að gera. Alþ. stóð langt fram á vor, og það bólaði ekkert á þessu frv. frá hæstv. landbrh., enda þótt liðnir væru þrír eða á fjórða mánuð síðan honum hafði verið afhent það, og við gerðum ekkert til þess, flm., að kalla eftir málinu í þinginu, þótt okkur væri vel kunnugt um, að sandgræðslunefndin hafði skilað áliti, því að okkur fannst sanngjarnt, að hæstv. ráðh. hefði tíma til þess að athuga málið og bera sig saman við samstarfsmenn sína. Ekki heldur gerðum við neitt í því að koma þessu máli 8 framfæri, þegar Alþ. kom saman í október í haust. En við veittum því athygli að sjálfsögðu, að málið var ekki meðal þeirra stjórnarfrumvarpa, sem þá voru lögð fram.

En nú, þegar árið er liðið og nokkuð mikið af þessu þingi, sýndist okkur ekki ástæða til annars en að halda áfram viðleitni okkar að reyna að koma þessu máli eitthvað áleiðis og ekki eftir neinu að bíða með það frekar á þessu þingi. Þess vegna ákváðum við að flytja frv., en frv. þetta höfðum við alllengi haft í höndum, enda hygg ég, að það hafi ekki verið neitt leyndarmál, sem í frv. stóð, og yfirleitt engin leynd átt að hvíla yfir starfi þessarar n.í síðara skiptið,frekar en leynd hvíldi yfir því í fyrra skiptið, sem hún starfaði. Ég held, að ég fari þar með rétt mál, að hæstv. landbrh. hafi verið gert það kunnugt, áður en frv. var flutt, honum hafi verið skýrt frá því, að frv. mundi verða flutt, og að hann hafi verið spurður að því, hvort hann mundi sjálfur flytja frumvarpið á næstunni, þótt það kæmi ekki fram í ræðu hans áðan. En jafnvel þótt það hefði ekki verið gert, var að sjálfsögðu ekkert athugavert við það, og okkur dettur ekki í hug að taka við neinum ávítum frá þessum hæstv. ráðh. út af því, þó að við flyttum mál, sem þannig er til komið, jafnvel þótt honum hefði ekki verið skýrt frá því áður, sem var gert, því að þegar opinber nefnd hefur starfað í máli og liðinn er svo langur tími sem liðinn er í þessu máli, þá er það auðvitað fjarstæða, að alþingismönnum sé ekki heimilt að nota þær niðurstöður, sem slík nefnd hefur komizt að, ef þeim eru þær kunnugar. Og mig furðar á því reyndar, að hæstv. ráðh., sem þó er búinn að sitja töluvert lengi á þingi líka eins og ég, þó að hann sé kannske ekki búinn að sitja eins lengi, þá furðar mig á því, að hann skuli vera hér með aðfinnslur út af slíku — mig stórfurðar á því.

Ég hafði ekki ætlað mér, eins og ég sagði áðan, að tala í þessu máli né fara að rekja þessa sögu. En það er hæstv. ráðh. sjálfur, sem gaf tilefni til þess. Hann þarf ekki að ætla það, þessi hæstv. ráðh., að við, sem vorum flm. að þessu máli í fyrra, ótilkvaddir af honum, sættum okkur við það, að hann skipi hér einhverja menn til starfa og láti þá semja fyrir sig eitthvert frv. og ætli sér að nota það til þess að stöðva það mál, sem við fluttum á þingi í fyrra. Hann þarf ekki að hugsa sér, að við munum sætta okkur við það eða aðrir muni sætta sig við slík vinnubrögð, ef það hefur verið meining hans. Ég geri raunar ekki ráð fyrir því, að þannig hafi hugur hæstv. ráðh. verið, því að ég skildi hann þannig í fyrra, að hann væri þessu máli hlynntur. Ég skildi hann þannig og vil enn mega skilja hann þannig, þó að mér þætti ræða hans áðan ekki bera þess vott. En ég geri ráð fyrir því, að það, sem hefur tafið málið hjá hæstv. ráðh., sé það, að hann hafi átt í erfiðleikum með að koma því til vegar, að málið yrði gert að stjfrv., og eigi það enn. Hins vegar ætti þá hæstv. ráðh. sem áhugamanni í málinu að vera það kærkomið, að málinu sé ýtt áfram, að reynt sé að ýta málinu áfram á Alþingi og létta þannig af honum þeirri fyrirhöfn, sem hingað til virðist ekki hafa borið árangur, að stríða við að ýta því áfram í ríkisstj.

Ég get nú eiginlega ekki á það fallizt, að öll mál, þar sem einhverra fjármuna er þörf, séu þess eðlis, að þau geti ekki gengið fram á Alþingi, nema ríkisstj. standi að þeim. Það kann að vera eðlilegt um mál, þar sem krafizt er beinna útgjalda úr ríkissjóði, um það má a.m.k. tala. En um þetta mál er ekki þannig háttað. Í þessu frv. er a.m.k. ekki fyrst og fremst gert ráð fyrir beinum útgjöldum úr ríkissjóði, heldur er fyrst og fremst gert ráð fyrir sérstökum tekjuöflunarleiðum.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um tildrög þessa frv., og eins og ég sagði áðan, hefði ég ekki gert það, ekki séð neina ástæðu til þess, ef hæstv. ráðh. hefði ekki hagað orðum sínum á þá leið, sem hann gerði, og að því er virtist eiginlega í þeim tilgangi, að hér yrði einhver deila af einhverju tagi um þetta mál. Ég held út af fyrir sig, að deilur um málið séu því ekki neitt til gagns. En hins vegar er naumast hægt að láta það kyrrt liggja, þegar sagt er frá á þann hátt, sem hæstv. ráðh. því miður gerði og reynt að setja þann blæ á mái, sem hann reyndi að setja á þetta frv. Meginatriðið er það, ef það mætti takast hér á hinu háa Alþingi að stuðla að því, að hafið verði nýtt framtak í þessum efnum.

Hv. aðalflm. þessa máls gerði grein fyrir því, hvernig gróður landsins hefur verið að eyðast á umliðnum öldum og af ýmsum ástæðum, og hann gerði líka grein fyrir því, hvað landbúnaðurinn og raunar þjóðin öll á mikið undir því, að þessi gróðureyðing verði stöðvuð. Við vonum nú raunar, að hún sé þegar stöðvuð og að ný sókn sé hafin, að við séum byrjuð að nema landið á ný á þessu sviði. En þetta verður ekki gert, svo að verulega muni um, nema forusta Alþingis komi til og Alþingi sjái um það á einhvern hátt, að þarna verði meiri fjármunir til staðar en verið hafa og að skipulögð verði fyrir atbeina hins opinbera ný og áhrifaríkari vinnubrögð og gerð áætlun fram í tímann, sem stefni að því takmarki, sem hér er um að ræða.

Ég gleðst yfir því, sem hæstv. ráðh. sagði undir lok ræðu sinnar, þegar hann hafði lokið þeim ýfingum, sem hann virðist hafa talið þörf á. Ég gleðst yfir því, sem hann sagði, að hann mundi ekki á neinn hátt vilja láta málið gjalda þess, þó að hann teldi, að ekki hefði verið með það farið að öllu leyti eins og hann hefði helzt kosið. Og þá vona ég, að við getum mætzt í þessu máli, að við getum sameinazt um það að láta málið ekki gjalda eins eða neins og njóta þess, hvað það er gott og þarft mál. Því vona ég nú, að ekkert þurfi að vera því til fyrirstöðu, að við flm. og hæstv. ráðh. reynum sameiginlega að koma þessu máli fram nú á þinginu, og fyrir því er áreiðanlega mikið fylgi hér á hinu háa Alþingi. Ég vona, að það þurfi nú ekki að fara að skipa nýja nefnd eða kalla sandgræðslunefndina saman í þriðja sinn, heldur getum við gengið til afgreiðslu á málinu, eins og það liggur fyrir hér á þskj. 308 frá sandgræðslunefndinni.