13.02.1961
Neðri deild: 62. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í C-deild Alþingistíðinda. (2129)

175. mál, hefting sandfoks og græðsla lands

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að ræða þetta mál á þessu stigi, því að sannarlega bjóst ég ekki við, að svo umfangsmikið frv. eins og hér um ræðir yrði til endanlegrar afgreiðslu á þessu þingi. Það voru nokkur orð frá hæstv. landbrh., sem gáfu mér tilefni til þess að segja hér nokkur orð, sem ég ekki get látið vera að ræða um, úr því að málið er komið á það stig að ræða efnislega um það, hvernig eigi að afla tekna til þessarar starfrækslu.

Í 8. kafla frv., 32. gr., segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á allar vínvörur til drykkjar, sem seldar eru um hendur Áfengisverzlunar ríkisins, skal leggja gjald, er nemi 5 krónum á lítra af áfengi, í því formi, sem það er selt og afgreitt frá verzluninni. Gjaldið innheimtist með verði vínsins án kostnaðar fyrir Sandgræðslu Íslands, og stendur Áfengisverzlun ríkisins sandgræðslunni skil á gjaldinu ársfjórðungslega.“

Um þessa grein sagði hæstv. ráðherra, að það gæti vel komið til mála, að þetta yrði að lögum, þessi leið yrði farin til þess að afla sandgræðslunni tekna. Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að benda á, að ef Áfengisverzlun ríkisins er sú gulllind, sem allar framkvæmdir eða flestar framkvæmdir á Íslandi geta sótt nauðsynlegar tekjur í, þá vil ég leyfa mér að benda á, að það eru allt önnur verkefni, sem standa henni miklu nær að leggja fé til.

Ég vil í því sambandi leyfa mér að benda á, að 1947 eru samþykkt hér á Alþingi lög um vernd barna og unglinga, sem leiðzt hafa til afbrota vegna of mikillar áfengisnautnar í landinu og beinlínis vegna hennar, og þar stendur í 37. gr., með leyfi hæstv. ráðherra:

Ríkisstj. er skylt, eftir því sem fé er veitt til þess á fjárlögum, að setja á stofn og reka hæli, þar sem vistuð skulu börn og ungmenni, sem framið hafa lögbrot eða eru á annan hátt á glapstigum. Skulu hæli þessi vera a.m.k. tvö, annað handa stúlkum, en hitt handa piltum.“

Á Alþingi 1955 er enn fremur gerð breyting á þessari grein, og þar bætt við:

„Hefja skal þegar undirbúning að stofnun og rekstri vistheimilis fyrir stúlkur. Ríkisstj. er heimilt að leita eftir hentugu húsnæði, sem til kann að vera, fyrir vistheimilið og gera samning um afhendingu þess og afnot. Enn fremur er henni heimilt að taka til þessara nota húsnæði, sem ríkið á eða hefur umráð yfir.“

Hér er bein fyrirskipun um, hvernig ríkið skuli fara að til að bæta úr þeirri neyð, sem gróði áfengisverzlunar hefur hellt yfir þessa þjóð, og það verður þó alltaf fyrsta verkefnið, sem þarf að nota féð til, ef þar er eitthvert fé afgangs, eins og mér heyrðist á hæstv. ráðherra, að það gæti vel komið til mála, að þar væri fé afgangs.

Nú skal ég upplýsa hæstv. ráðherra og hv. þingmenn um það, þó að það sé ekki í hans ráðuneyti, að þessi fyrirmæli síðan 1955 hafa verið uppfyllt þannig, að nú eru hópar af íslenzkum stúlkum sendir út til Danmerkur, — eins og við gerðum fyrir nokkrum hundruðum ára á Brimarhólm, — til þess að setjast þar á hæli, af því að við höfum ekki sjálfir manndóm til þess að fylgja ákvæðum laga, sem Alþingi hefur sjálft sett, samþykkt hér fyrir ekki minna en 5–6 árum. Og ég segi: Ef til er fé hjá Áfengisverzlun ríkisins, þá á það fé fyrst að notast til þess að afmá þessa smán, sem íslenzka ríkið hefur gert sér undanfarin ár og heldur enn áfram að gera.

Ég skal líka benda hér á, að ég skil ekki, í hvaða sambandi sett er hér saman sandgræðsla á Íslandi og ágóði af áfengisverzlun, nema ef það skyldi hafa eitthvað með það að gera, að einu sinni, sem ég einnig hafði nokkur afskipti af, var sett upp vistheimili fyrir ofdrykkjumenn í Gunnarsholti í sambandi við sandgræðsluna og starfar þar víst enn.

Ég vildi mega spyrja hæstv. ráðherra: Er það möguleiki, að sandgræðslan hafi haft slíka byrði af þessum mönnum, að það sé þess vegna, sem þetta er komið inn í frv. um sandgræðslu? Það var a.m.k. ekki hugsað á þeim tíma, þegar þar var sett niður vistheimili fyrir þessa vesalinga, að sandgræðslan þyrfti að hafa sérstök útgjöld af því. Það var miklu frekar hugsað, að sandgræðslunni væri stuðningur að því, hún hefði þarna að einhverju leyti vinnukraft og það gæti farið saman hjá sandgræðslunni að nota þetta afl sér til hagsbóta og að bæta böl þessara manna, sem þangað voru settir. M.a. vegna þess, að ég fór af þingi skömmu síðar, er mér ekki kunnugt um, hvernig hefur til tekizt um þessa stofnun, en ef það er þess vegna, að þetta ákvæði er komið inn í frv., þá harma ég það, að ég skyldi nokkurn tíma hafa lagt því lið, að sú ágæta stofnun væri sett í Gunnarsholt.

Ég vil enn fremur leyfa mér að benda á, að það hæli, sem sett hefur verið upp fyrir drengi, var sett upp á eyðijörð, einnig þar sem er sandfok, og hefur svo til tekizt þar, að nú er þessi jörð komin í þá rækt, að hún framfleytir 12 nautgripum og nærri 300 fjár, og það er mikið fyrir það, að þessum mönnum, sem annars hefðu orðið, flestir hverjir, vesalingar og lent hér í fangelsunum, hefur verið bjargað og það hefur verið notaður þeirra kraftur til þess að koma þar upp sandgræðslu og öðrum jarðargróðri, eins og ég þegar hef lýst. En aðbúnaðurinn hjá þessu fólki er slíkur, að allt starfsfólkið, sem nú mun vera yfir 10 manns, verður að búa í 100 fermetra íbúð, og vistmennirnir, sem nú eru 19, hafa slíkan aðbúnað, að raunverulega ætti að loka heimilinu, vegna þess að það hefur ekki verið séð um að hafa þar húsnæði eins og lögin mæla fyrir um.

Mér þykir rétt að láta þetta koma hér fram, þegar hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir, að það gæti vel komið til mála, að fé yrði tekið frá áfengisverzluninni til þess að standa undir þeim milljónaútgjöldum, sem hér er um að ræða.

Ég vil að síðustu aðeins taka það fram, að ég er mjög fylgjandi því, að hægt sé að koma á þeirri sandgræðslu og þeim gróðri hér á Íslandi, sem frv. mælir fyrir um, og ég skil afar vel afstöðu hæstv. ráðherra, því að það er alveg rétt, sem hann segir: slík milljónaútgjöld er ekki hægt að samþykkja á Alþingi, nema því aðeins að hæstv. ríkisstj., sem á hverjum tíma ber ábyrgð á afkomu ríkissjóðs og útgjöldum, sé því sammála. Það rýrir svo ekki hina staðreyndina, að þetta er eitt af allra nauðsynlegustu málum okkar Íslendinga að styðja að því, sem hér er sett fram í frv., því að ef okkar unga æska á að eiga hér framtíð, þá verður hún að sækja hana í sveitir landsins samfara öðrum atvinnugreinum, svo að það er fullkomlega tímabært að ræða um þessi mál, þótt ég hins vegar viðurkenni ekki, að það sé áfengisgróði, sem fyrst og fremst á að nota til þessara hluta.