16.12.1960
Sameinað þing: 25. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (214)

1. mál, fjárlög 1961

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa langt mál til þess að útskýra brtt. þær, sem fjvn. flytur nú við þessa 3. umr. Mun ég rekja, eftir því sem ástæða er til, brtt. þær, sem nefndin stendur öll sameiginlega að á þskj. 218, og einnig brtt., sem eru á þskj. 225. Ég mun rekja till. í þeirri röð, sem þær eru á þskj., og gera litillega grein fyrir orsökum þess, að nefndin hefur tekið þessar till. upp. Ég skal áður taka það fram, að það voru mjög mörg erindi, sem nefndinni bárust, bæði á meðan stóð á 2. umr. málsins, og voru þá af eðlilegum ástæðum ekki tök á að taka afstöðu til þeirra í nefndinni, og einnig á milli umr., en eins og brtt. nefndarinnar bera með sér, er aðeins mjög litið af þeim till., sem n. hefur tekið upp sameiginlega, enda var afgreiðslan við það miðuð að reyna að halda sér innan þess ramma, sem greiðsluafgangur á frv. eftir 2. umr. leyfði, og ég mun að lokum fara nokkrum orðum um, hvernig það mál kemur út.

Fyrsta brtt. er um það að hækka um 15 þús. kr. styrk þann í 13. gr. fjárlaga, sem veittur er til þess að halda við byggð á ýmsum stöðum í landinu, sem fyrst og fremst er gert vegna vegasamgangna og öryggis af þeim ástæðum. Er það gert í samráði við vegamálastjóra, og er ætlunin, að þessi styrkur gangi til Hreðavatnsskála, en þeim skála verður nú haldið opnum í vetur til gistingar, sem talið er til mjög mikils hagræðis og öryggis, einkanlega fyrir þá, sem eiga leið til og frá Vestfjörðum. Þessum skála hefur ekki áður verið haldið opnum að vetrinum. Hótelið Bifröst, sem er þarna í nágrenni, er ekki starfrækt að vetri til og því ekki um neina gistingu þar að ræða. Hefur n. í samráði við vegamálastjóra lagt til að hækka liðinn með hliðsjón af því, að þessi veitingastaður fái smávægilegan styrk.

2. till. er um það að hækka Skipaskoðun ríkisins. Þetta er þannig til komið, að það eru laun skrifstofustúlku, sem hér er um að ræða. Þetta mál hefur með eðlilegum hætti borið að, og hefur verið viðurkennt af nefnd þeirri, sem á að hafa eftirlit með opinberum rekstri eða starfsmannahaldi ríkisins, að það sé óhjákvæmileg nauðsyn að ráða þessa skrifstofustúlku. Það hefur því verið ákveðið af ráðuneytinu í samræmi við þá niðurstöðu og því að sjálfsögðu ekki um annað að ræða en gera ráð fyrir launum hennar.

Þá kem ég að þeim liðnum, sem er langstærsti liðurinn, og var raunverulega fyrir vangá, að sú upphæð var ekki tekin inn við 2. umr. fjárlagafrv., en það er einnar millj. kr. styrkur til byggingar umferðarmiðstöðvar í Reykjavík. Eins og hv. þm. er kunnugt, er gert ráð fyrir því, að sérleyfisgjald renni fyrst og fremst til þessarar umferðarmiðstöðvar. Það hefur á undanförnum árum verið notað til þess að greiða halla af Ferðaskrifstofu ríkisins. Það var að vísu með sérstakri samþykkt látið ganga til baka, þannig að ekki hefur nema hluti af því gjaldi runnið til að greiða hallann. Hann hefur verið greiddur á síðasta ári beint úr ríkissjóði. En nú er gert ráð fyrir því, að allt gjaldið renni til umferðarmiðstöðvarinnar. Það yrði mikilvægasta mál að koma þessari umferðarmiðstöð upp. Hér eru mikill fjöldi sérleyfisbifreiða víðs vegar að af landinu, sem hafa fastar ferðir til Reykjavíkur, einkum með vöruflutninga, og hefur verið mikið vandamál með staðsetningu og afgreiðslu þeirra bifreiða. Það er gert ráð fyrir, að kostnaðurinn við fyrsta áfanga byggingar umferðarmiðstöðvarinnar, sem hafinn var á þessu ári, muni nema um 4.5 millj. kr. Það mun að vísu verða nokkru meira, því að það hefur ekki verið tekið tillit til allra verðhækkana, sem orðið hafa við gengisbreytinguna. Það er gert ráð fyrir, að hægt verði að leggja um 2 millj. kr. nú þegar fram af fé sérleyfisgjaldasjóðs. En um það hefur verið samið hins vegar, eins og gert er ráð fyrir í lögunum, milli ríkisins og bæjarstjórnar Reykjavíkur, að þessir aðilar leggi einnig fram vissar fjárhæðir í þessu skyni, og hefur verið gert ráð fyrir, að Reykjavíkurbær leggi fram árin 1961 og 1962 500 þús. kr. hvort árið og veitt yrði fé í fjárlögum siðan, 1 millj. kr. 1961 og 500 þús. kr. 1962, til miðstöðvarinnar og þá gert ráð fyrir, að með því fé og tekjum sérleyfisgjaldasjóðs muni takast að koma umferðarmiðstöðinni upp.

Þá er lagt til að gera smávægilega breytingu á launaliðum háskólans. Þar er, eins og hv. þm. sjá, ekki um neina hækkun að ræða, heldur aðeins um tilfærslu milli stundakennslu og fastra launa, sem byggist á því, að eðlilegra þykir að taka upp laun setts prófessors, sem gegnir til bráðabirgða prófessorsstöðu dr. Gylfa Þ. Gíslasonar, inn á fastlaunalið heldur en greiða það af stundakennslulið, eins og gert hefur verið, og er því brtt. við það miðuð að koma þessu í eðlilegra horf. En það hefur, eins og áður sagði, engin áhrif til hækkunar á fjárlögin.

Þá kem ég næst að 6. brtt. n., en það er um námskeið fyrir íþróttakennara, um það, að fjárveiting til þessara námskeiða hækki um 50 þús. kr. Það hefur verið mikið á það sótt að bæta aðstöðu íþróttakennaraskólans, en hefur ekki verið talið fært að leggja fé fram til byggingar hans, svo sem um hefur verið beðið. Það er hins vegar mjög mikilvægt atriði í starfsemi þessa skóla að þjálfa íþróttakennara, og ætlunin er að reyna að gera það sem mest á þann hátt að halda námskeið hér og þar um landið, sem íþróttakennararnir sæki úr viðkomandi svæðum, og þykir nauðsynlegt og eðlilegt með hliðsjón af þeim sess, sem íþróttakennslan skipar í skólum, og einnig vegna hinnar miklu íþróttastarfsemi fjölmargra æskulýðsfélaga víðs vegar um land að stuðla að þessari fyrirgreiðslu af hálfu ríkisins. Er því lagt til að verða við ósk íþróttafulltrúa um hækkun fjárveitingar þessarar sem nemur 50 þús. kr.

Þá er 7. brtt., sem er um það að taka upp 36 960 kr. fjárveitingu til Blindravinafélags Íslands vegna rekstrar blindraskólans. Blindravinafélag Íslands hefur sérstakan styrk í fjárlögum, og enn fremur er undir menntamálafjárveitingum fjárveiting til þess að greiða laun kennara við blindraskólann. Eins og hv. þm. vita, hefur það verið þannig um skeið, að ríkið hefur að öllu kostað málleysingjaskólann og þá á þann hátt, að nemendur þar hafa ekki þurft að greiða nein skólagjöld eða kostnað við sitt uppihald þar. Þetta hefur hins vegar ekki verið með blindraskólann. Þar eru mjög fáir nemendur, en hins vegar er það eðlilegt og sjálfsagt, að þeir njóti sömu hlunninda og þeir nemendur, sem eru í málleysingjaskólanum. Hér er um misræmi að ræða, sem ég veit, að allir muni telja sjálfsagt að reyna að bæta úr af hálfu þjóðfélagsins, svo sem auðið er, og þessi till. miðar að því að taka upp fjárveitingu til þess að greiða uppihaldskostnað þeirra nemenda, sem eru í blindraskólanum, og annan kostnað við að halda skólanum uppi til viðbótar við kennaralaunin, sem greidd eru nú.

8. liðurinn er smáupphæð til viðhalds sögulegra minja í Reykholti. Þessi liður hefur áður verið í fjárlögum, og það þykir eðlilegt og nauðsynlegt að stuðla að því, að tryggilega sé við haldið þeim merku minjum ýmsum, sem þar eru, og því er lagt til, að þetta fé verði veitt í því skyni og það verði undir eftirliti þjóðminjasafnsins eða þjóðminjavarðar.

Þá er smábreyting gerð í 9. till. á fjárveitingu til tónlistarkennslu á Siglufirði. Þar hefur verið sú aðferð viðhöfð, að bæjarstjórnin hefur skipt þessari upphæð. Hins vegar hafa borizt n. óskir um það, að því yrði skipt í fjárlögunum sjálfum, og þá hefur þótt eðlilegt að miða skiptinguna við það, að styrkurinn skiptist að hálfu milli skólanna, og hefur styrkurinn jafnframt verið hækkaður um 5 þús. kr.

Þá er 10. till., sem ég þarf ekki að skýra sérstaklega. Það er framlag til lúðrasveitar Kópavogs. Það er 10 þús. kr. fjárveiting, sem er í samræmi við þær fjárveitingar, sem hafa verið veittar slíkum fyrirtækjum. Þessi umsókn barst ekki fyrr en 2. umr. lauk, og er hún því tekin hér inn nú.

Þá er 11. till. um það að hækka fjárveitingu til Búnaðarfélags Íslands um 150 þús. kr. Nánari athugun hefur leitt í ljós, að það muni hafa verið óeðlilega lækkuð áætlun sú, sem Búnaðarfélag Íslands gerði við undirbúning fjárlaga, og það muni verða mjög erfitt fyrir Búnaðarfélagið að standa undir starfsemi sinni með óbreyttri fjárveitingu. Hefur því verið talið rétt að leggja til, að fjárveitingin hækki um 150 þús. kr., eins og gert er með þessari till.

Þá er 12. brtt. Það er um fyrirhleðslu við Svartá í Geitlöndum í Borgarfirði. Það mál lá . ekki fyrir n. endanlega upplýst við 2. umr., en síðan hafa borizt þau gögn, sem áskilin eru til þess að taka afstöðu til slíkra mála, og er gert ráð fyrir því í áliti vegamálastjóra, að kosta muni um 80 þús. kr. að gera þessa fyrirhleðslu, og jafnframt upplýst, að það séu mjög verðmikil beitilönd, sem þarna séu í stórhættu, ef ekki sé að gert og með hliðsjón af þeim upplýsingum öllum þykir rétt að leggja til, að í þetta skipti verði veittar 35 þús. kr. til þessara framkvæmda og þá gegn 1/8 hluta greiðslu annars staðar frá, þar sem hér er ekki um fyrirhleðslu í sambandi við samgöngubætur að ræða.

Fjárveiting til skógræktar er óbreytt í fjárlagafrv. frá fjárlögum þessa árs. Skógræktin fékk allmiklar auknar tekjur við hækkun á vindlingagjaldi við afgreiðslu síðustu fjárlaga. Það hefur hins vegar komið í ljós, að fjárhagur skógræktarinnar er mjög þröngur, og er hér einkum um það að ræða, að skógræktarfélögin geta ekki með þeirri fjárveitingu, sem nú er í fjárlögum og fjárlagafrv., fengið viðunandi styrk til sinnar starfsemi. Það mun hins vegar viðurkennt af öllum, að starfsemi skógræktarfélaganna skilar margföldum arði, vegna þess að þar fæst einnig fram mjög mikil sjálfboðavinna og dýrmæt, og því má ekki sú starfsemi dragast saman. Með hliðsjón af þessum vandræðum er lagt til, að hækkað verði framlag til skógræktarfélaganna um 100 þús. kr. Það er að sjálfsögðu engan veginn fullnægjandi, en það þykir þó ekki fært að ganga lengra í þetta sinn, og þetta mun vera nokkur bót á þeim vanda, sem þar er við að stríða.

Á síðasta ári var sótt um aðstoð af hálfu Sölufélags garðyrkjumanna til tækjakaupa í sambandi við svokallaða gufusuðu jarðvegs. En þar er um að ræða framkvæmdir, sem eru til þess fallnar að uppræta mjög hættulega og eyðileggjandi sjúkdóma í gróðurhúsum. Það þótti ekki fært þá að veita aðstoð til kaupa slíkra tækja, vegna þess að þar var um mjög dýr tæki að ræða og sótt um styrk, sem þótti ekki með neinu móti fært að veita. Nú hefur þetta verið endurathugað hjá þeim garðyrkjumönnum, og niðurstaðan hefur orðið sú, að það mun auðið að fá tæki, sem séu miklum mun ódýrari en hin fyrri, til þess að framkvæma þetta verk. Öllum sérfræðingum ber saman um, að hér sé um hið brýnasta mál að ræða, og þar sem hér er um algeran aukakostnað að ræða fyrir þessa aðila til að verjast þessum sjúkdómum, sem bætist ofan á annan framleiðslukostnað þessara vara, þá þykir eftir atvikum rétt að mæla með því, að veittur verði Sölufélagi garðyrkjumanna 50 þús. kr. styrkur til kaupa á þessum tækjum. En það er ekki nema lítill hluti af kaupverði tækjanna, þannig að þrátt fyrir þennan styrk verða þó garðyrkjumenn að leggja á sig allveruleg fjárframlög, til þess að auðið verði að fá þessi tæki og vinna það verk, sem þarna þarf að vinna í sambandi við notkun þeirra.

Svo sem hv. þm. sjá, gerir 15. till. ráð fyrir nokkurri hækkun á fjárveitingu til Fiskifélags Íslands. Þessi fjárveitingarhækkun er í beinu samræmi og sambandi við 17. brtt. n., sem felur í sér tilsvarandi lækkun á fjárveitingu til iðnaðardeildar atvinnudeildar háskólans, og stafar þessi breyting af því, að eðlilegt þykir að færa nokkurn hluta af starfsemi iðnaðardeildarinnar yfir til Fiskifélagsins, þ.e. gerlarannsóknirnar. Sú starfsemi hefur nú um skeið verið þar til húsa, og vinnur mjög mikilvægt hlutverk einmitt í þágu sjávarútvegsins, þannig að þeir aðilar, sem með þessi mál hafa að gera, telja eðlilegt, að þessi hluti af starfi iðnaðardeildarinnar sé færður yfir til Fiskifélagsins. Er þessi breyting beinlínis gerð með það í huga. Það eru ýmis atriði í sambandi við þetta mál sem enn eru ekki útkljáð, svo sem ráðstöfun á tækjum, en það ætti ekki að skapa nein vandkvæði í þessu sambandi, þar sem hér er um tvær ríkisstofnanir að ræða, að ráðuneytið eða ríkisstj. taki það til athugunar á árinu, um leið og þessi breyting verður gerð, hvaða ráðstöfun verður höfð á þessum tækjum. En það ætti ekki að þurfa að hindra breytinguna út af fyrir sig. Þessi breyting hefur ekki í för með sér nein aukin útgjöld fyrir ríkissjóð, eins og brtt. sýna.

Það hefur komið í ljós, að það er hin brýnasta nauðsyn að efna til sérstakra námskeiða fyrir matsmenn á skreið og saltfiski, og hefur verið gerð kostnaðaráætlun um, hvað væru lágmarksútgjöld í því sambandi, og áætlar fiskmatsstjóri, að það séu 85 þús. kr. Er lagt til með hliðsjón af mikilvægi þess, að þetta mat sé í góðu lagi, að þessi umrædda og umbeðna upphæð verði veitt til námskeiðanna.

18. brtt. n. er um það að veita 50 þús. kr. styrk til jarðborana að Hellnum á Snæfellsnesi. Þar er við mikinn vatnsskort að stríða, og hafa ýmsar tilraunir verið gerðar til úrbóta. Það er ljóst, að þetta verður allkostnaðarsöm framkvæmd, en hins vegar ekki þarna nema um 6 býli að ræða, sem undir þessu eiga að rísa, og þykir því vera óumflýjanlegt að leggja til, að einhver aðstoð verði veitt. Þetta mun ekki geta fallið undir lögin um vatnsveitur, og verður því að gera sérstakar ráðstafanir í því sambandi. Endanlega liggur ekki fyrir, hver kostnaður af þessu verður. En það er hins vegar ljóst, að þótt veittar verði 50 þús. kr., er það svo lítill hluti kostnaðar, að það fer engan veginn upp fyrir það mark, sem styrkt hefur verið á sambærilegum stöðum.

Ég hirði ekki sérstaklega að rekja brtt. n. við 18. gr., eftirlaunagreinina. N. stendur öll sameiginlega að þeim till., og það hefur verið reynt að hafa hliðsjón af þeim reglum, sem fylgt hefur verið undanfarin ár við ákvörðun þessara viðbótareftirlauna. Ég minntist á það í framsöguræðu minni við 2. umr. fjárlaga, að þetta væri mál, sem taka þyrfti til sérstakrar athugunar í framtíðinni, og hirði ég ekki um að endurtaka þau ummæli hér. Það er auðvitað alltaf mikið álitamál, þegar ekki er hægt að fara eftir alveg föstum reglum, hvaða tölur eru alveg nákvæmlega réttar í sambandi við veitingu slíkra eftirlauna, og sýnist vafalaust sitt hverjum um það. En ég fullyrði það eitt, að það hefur verið reynt í n. að hafa hliðsjón af því, sem áður hefur verið gert í því efni, og reyna að meta þetta algerlega hlutlaust með hliðsjón af þeim aðstæðum, sem fyrir hafa legið, og atvikum.

21. brtt. n. er um nokkra hækkun, 50 þús. kr., á fjárveitingu til greiðslu heimtaugagjalda á prestssetrum. Hér er bæði um að ræða heimtaugagjald rafmagns og hitaveitu. Þessi gjöld eru þess eðlis, að það verður ekki skotið á frest að greiða þau. Það eru engin grið gefin, hvorki af rafmagnsveitunum né hitaveitunni, í því efni, og það var ljóst, að með þeirri fjárveitingu, sem var, yrði engan veginn hægt að standa undir þeim. Og það er næsta leiðinlegt, ef þyrfti að koma til þess, að það yrði gengið að embættisbústöðum ríkisins og þeir seldir upp í vanskilagjöld af þessum sökum.

Þá koma hér enn nokkrar viðbótarbrtt. við 22. gr. fjárlaga, og skal ég lítillega víkja að þeim.

Það er þá í fyrsta lagi að ábyrgjast fyrir Dráttarbraut Akraness allt að 3.5 millj. kr. lán. Það er gert ráð fyrir því að byggja þar nýja dráttarbraut, sem gert er ráð fyrir að kosti um 4.8 millj. kr. Þessi ábyrgðarheimild er í fullu samræmi við það, sem Alþ. hefur áður samþ., þegar slíkar framkvæmdir hafa átt hlut að máli, og þar sem hér virðist vera um gott og traust fyrirtæki að ræða og ljóst er, að nauðsynin er þarna mjög brýn, þá hefur n. þótt rétt að mæla með því, að einnig yrði veitt ríkisábyrgð til þessarar dráttarbrautar, ef hún réðist í þessa framkvæmd á árinu.

Á fjárlögum yfirstandandi árs voru veittar 10 millj. kr. til ýmissa endurbóta á síldarverksmiðjum á Austurlandi. Þessi ábyrgðarheimild var óskipt í fjárlögum, en henni hefur síðar verið skipt af ríkisstj., þannig að síldarbræðslan á Seyðisfirði fái 2 millj. kr., síldarvinnslan í Neskaupstað 3 millj. og síldarverksmiðja Vopnafjarðar 4 millj. Ekki er enn notaður nema hluti af þessum ábyrgðarheimildum. Þar sem öll þessi verk eru hins vegar í gangi, þykir ekki ástæða til þess að endurnýja þær heimildir, enda þótt fjárhagsárið sé á enda. Hins vegar hefur athugun leitt í ljós, að þessar 10 millj. hrökkva ekki til að standa undir þessum framkvæmdum, og leggur því n. til, að veittar verði 5.5 millj. til viðbótar, sem ráðstafað verði til endurbóta á þessum verksmiðjum, og er þá gert ráð fyrir því, að af þeirri ábyrgðarheimild fari ein millj. kr. til Seyðisfjarðarverksmiðjunnar, 2 millj. til Neskaupstaðarverksmiðjunnar og 25 millj. til Vopnafjarðarverksmiðjunnar. Þessi ábyrgðarheimild er veitt með sams konar ákvæði og sömu skilyrðum og þær 10 millj., sem eru á fjárlögum ársins í ár.

Í fjárlögum þessa árs er ríkisábyrgðarheimild allt að 10 millj. kr. til skipasmíðastöðva innanlands, sem veitt er með það í huga að stuðla að innlendum skipasmíðum. Þegar hafa verið notaðar um 2 millj. kr. af þessari heimild, og ætti því í rauninni að nægja að veita 8 millj. kr. N. hefur hins vegar þótt eðlilegt, að hér væri beinlínis um endurveitingu að ræða, þar sem það er efnislega svo, að hér er ekki um nýja ábyrgðarheimild að ræða, og þótti þá eðlilegast að taka upp heimildina orðrétta eins og hún var í fjárlögum ársins í ár, miðað við 10 millj. kr., sem að sjálfsögðu ber að skilja á þann hátt, að þar í séu faldar þær 2 millj., sem þegar er búið að nota, en þarna yrði þá aðeins um endurveitingu að ræða.

Flugfélagið Loftleiðir hefur nú í hyggju að kaupa nýja flugvél, þá þriðju af hinum stóru, eða svipaða flugvél og þær tvær, sem það nýlega hefur fest kaup á. Þessi flugvélakaup, mun óhætt að fullyrða, hafa gefið mjög góða raun. Kaup vélanna hafa verið mjög hagstæð og starfsemi Loftleiða hefur verið og er mjög traust og sívaxandi, þannig að allt virðist benda til þess, ef ekki kemur eitthvað sérstakt til, að kaup á flugvél til viðbótar geti orðið til þess að styrkja enn starfsemi félagsins, og ætti að vera áhættulaust, miðað við það, hve verð þessarar vélar er hagstætt miðað við flugvélaverð nú, að veita þá ríkisábyrgð, sem hér er lagt til, enda er gert ráð fyrir því, að ríkisábyrgðin takmarkist við, að hún fari ekki yfir 70% af kaupverði flugvélarinnar.

Á fjárlögum að undanförnu hafa verið veittar miklar ríkisábyrgðir í sambandi við kaup á gistihúsum, og aðalábyrgðin, sú sem notuð hefur verið, var ríkisábyrgð vegna eignayfirfærslu á Hótel Borg, Í fjárlögum yfirstandandi árs var svo einnig önnur ábyrgðarheimild, sem hefur nú fallið niður, þar eð hún hefur ekki verið notuð, og mun óráðið um það enn, hvað í því efni gerist á næstunni. En þar sem hér hefur verið veitt fyrirgreiðsla, sem sjálfsagt og eðlilegt var að veita á sínum tíma, þá er eðlilegt, að það vakni upp hugmyndir um, að þar sem um vandræði er að ræða í sambandi við hótelbyggingar annars staðar á landinu, þar komi fram beiðnir um slíka ábyrgð. Að sjálfsögðu er eðlilegt að fara mjög varlega í því efni, og eðlilegast væri að sjálfsögðu, að sett yrði löggjöf um gistihúsamál og þá eftir atvikum einnig um ferðamannamál, að það yrði tengt saman, og þá yrðu þar ákveðin ákvæði um aðstoð ríkisins við að koma upp gistihúsum. Kostnaðarsöm endurbygging fer nú fram á gistihúsinu á Blönduósi, sem er mjög brýn nauðsyn að sé þar starfandi. Það hefur því þótt sanngjarnt að leggja til, að ríkisábyrgð yrði veitt, að sjálfsögðu að áskildum öruggum tryggingum, fyrir allt að 1/2 millj. kr. í sambandi við endurbyggingu þessa gistihúss, með hliðsjón af þeirri miklu nauðsyn, sem er á, að þarna sé starfandi slíkt gistihús. Ég vil jafnframt varpa því fram og beina því til hæstv. ríkisstj., að það verði tekið til athugunar, hvort ekki sé rétt og nauðsynlegt að setja sérstaka löggjöf um gistihúsamál og þá eftir atvikum í sambandi við almenna ferðamálalöggjöf, þar sem settar verði reglur um það, að hve miklu leyti rétt sé og eðillegt, að ríkissjóður styðji slíkar byggingar.

Þá flytur n. sem f-lið 22. brtt. sinnar brtt., sem flutt er samkvæmt ósk og beiðni samvinnunefndar samgöngumála, en þannig mun vera, að endurathugun á rekstrarafkomu Djúpbátsins h/f eða flóabáts þess fyrirtækis hefur leitt það í ljós, að taldar eru mjög litlar líkur til, að starfsemi þess báts geti gengið með viðunanlegum hætti á þessu ári vegna minnkandi flutninga, sem jafnan leiðir af bættum samgöngum, og því þykir nauðsynlegt til þess að tryggja útgerð bátsins, þar sem með engu móti er talið, að sú starfsemi megi niður falla, að heimila ríkisstj. að greiða allt að 100 þús. kr. viðbótarstyrk til bátsins, ef rannsókn leiðir í ljós, að slíkur styrkur sé óhjákvæmilegur til að tryggja rekstur bátsins allt árið.

Þá er a-liður 23. brtt., sem er um það að útvega eða lána ræktunarsjóði Íslands, byggingarsjóði sveitabæja og veðdeild Búnaðarbankans allt að 36 millj. kr. Hér er ekki nákvæmlega um það sagt, hvor leiðin verður farin í þessu efni, en það þykir ljóst, að það sé nauðsynlegt að fá sérstaka fjárlagaheimild, til þess að öruggt sé, að ríkisstj. hafi nauðsynlegar heimildir til að ganga frá þessum málum á þann hátt, sem eðlilegast sýnist vera að athuguðu máli. Þetta fé mun þegar hafa verið tryggt, og afgreiðsla lánanna er þegar hafin. En það er ekki endanlega frá því gengið enn þá, hvernig lánunum verður fyrir komið, og því eru hafðir þessir tveir möguleikar í sambandi við heimildarákvæðið, hvort það verða sjóðirnir sjálfir, sem beint taka lánin, eða þá að það verði ríkisstj., sem taki þau og endurláni sjóðunum. Báðir þeir möguleikar eru opnir eftir þessari heimild.

Þá er önnur till. undir þessum lið sú að heimila ríkisstj. að ábyrgjast allt að 2 millj. kr. lán fyrir Samband ísl. berklasjúklinga vegna byggingar vinnustofnana fyrir öryrkja. S.Í.B.S. hefur tekið að sér að koma upp vinnustofnunum fyrir fleiri öryrkja en berklasjúklinga, eins og hv. þm. mun kunnugt, og hefur verið unnið að miklum framkvæmdum og merkilegum á því sviði. Það þykir hins vegar ljóst, að þeim verði ekki komið áfram með nægilegum hraða með því fé, sem happdrættið veitir S.Í.B.S. sem fastan tekjulið, og sé því nauðsynlegt að hafa ábyrgðarheimild til þess að greiða fyrir lántöku sambandinu til handa til þessara framkvæmda. Hér er bæði um hina þjóðnýtustu starfsemi að ræða, eins og allir munu sammála um, og enn fremur um stofnun að ræða, sem er það fjárhagslega traust, að ekki ætti að vera ástæða til að halda, að það sé nein áhætta fyrir ríkissjóð að ganga í slíka ábyrgð.

Á þskj. 225 er einnig brtt. við 22. gr. um það að ábyrgjast fyrir Siglufjarðarkaupstað allt að einnar millj.. kr. rekstrarlán vegna síldarverksmiðjunnar Rauðku. Þessi heimild hefur verið í fjárlögum um margra ára bil, og þykir ekki verða hjá því komizt að leggja til, að hún standi einnig nú. Hinu er ekki að leyna, að hér er um mál að ræða, sem er næsta vafasamt og óeðlilegt. Þetta var veitt á sínum tíma vegna sérstakra fjárhagslegra örðugleika, og lánsstofnanir munu hafa gengið á lagið með það að setja skilyrði um slíka ábyrgð til þess að tryggja sig. Þetta verður að teljast mjög óeðlilegt, og það væri æskilegt og raunar nauðsynlegt, að af ríkisstj. hálfu yrði athugað, hvort í framtíðinni væri ekki hægt að koma þessum málum fyrir á þann hátt, að þessa ríkisábyrgð þyrfti ekki að veita, og þá að sjálfsögðu þó ekki á annan veg en þann, að hægt væri með öðrum hætti að sjá þessari verksmiðju fyrir nauðsynlegu rekstrarfé.

Ég hef þá, herra forseti, gert grein fyrir þeim brtt., sem n. sameiginlega stendur að. Þær eru, eins og hv. þm. sjá, ekki margar né heldur stórar í sniðum, að undanskilinni fjárveitingu til umferðarmiðstöðvarinnar, einni millj. kr., sem, eins og ég gat um áðan, láðist af vangá við 2. umr. að taka þá upp, sem eðlilegt hefði verið, því að það hefur ekkert nýtt gerzt í því máli síðar. Þetta var samningur, sem áður hafði verið gerður um skiptingu framlaga til þessa fyrirtækis.

Eftir 2. umr. fjárlaga var greiðslujöfnuður á frv. á sjóðsyfirliti hagstæður um 2 465 297 kr. Brtt. n. nú, og þar af eru 350 402 kr. hækkun á eftirlaunagreininni, nema samtals 2 045 402 kr., þannig að greiðslujöfnuður yrði að þeim samþ. 419 895 kr. Geta hv. þm. af því séð, að það er ekki mikið svigrúm hér til aukinna útgjalda. En að því var stefnt, eins og ég sagði í upphafi míns máls, að ekki yrðu gerðar frekari brtt. en svo, að þær rúmuðust innan ramma þess afgangs, sem var á fjárlagafrv, eftir 2. umr., þannig að náð yrði því marki, sem ég hygg að allir séu sammála um að þurfi að ná og raunar er fullkomlega viðurkennt í brtt. minni hl. bæði við 2, umr. og nú að verði að stefna að, en það er að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að þessum orðum mæltum að mæla með því, að fjárlögin verði samþ. við 3. umr. með þeim breyt., sem ég hef hér gert grein fyrir, að fjvn. öll stendur að.