16.12.1960
Sameinað þing: 25. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í B-deild Alþingistíðinda. (215)

1. mál, fjárlög 1961

Frsm. 1. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Við 2. umr. um fjárlögin gerðum við framsóknarmenn bæði í nál. og í framsöguræðu grein fyrir afstöðu okkar til fjárlagafrv. í heild og einstökum þáttum þess. Það hefur ekkert nýtt komið fram á milli umr., svo að ég get í því sambandi vísað til þeirrar greinargerðar um afstöðu okkar til fjárlaganna í heild.

Mig langar til í sambandi við þessa umr. að spyrja hæstv. fjmrh. um eitt atriði, sem ekki fékkst upplýst í fjvn., en það er: Hvaðan kemur fé til þess að leggja veginn til Keflavíkur? Það hefur verið sagt frá því í blöðum og útvarpi, að hafin er nú vegagerð úr varanlegu efni til Keflavíkur, en það er alveg óljóst, hvernig eða með hvaða hætti fjár er aflað til framkvæmdanna. Nú er því ekki að neita, að ef maður ætti von á fleiri slíkum framkvæmdum, að fé dytti úr skýjum niður til þeirra, þá væri það að sjálfsögðu nokkurt gleðiefni. Hins vegar er það nokkuð fráleitt, að Alþ. sé ekki kunnugt um það, sem þarna er að gerast, og þess vegna vænti ég þess, að hæstv. fjmrh. geti nú við þessa umr. upplýst, hvaðan þetta fé kemur, sem þarna er verið að nota, og hvort við ættum von á meira slíku.

Þá vil ég geta þess, að við lögðum fram nokkrar till. til sparnaðar við 2. umr. fjárlaganna, til þess m.a. að reyna, svo að ekki yrði hægt móti að mæla, hver sparnaðarvilji stjórnarliða væri, og gáfum við þá hæstv. ríkisstj. kost á því að spara það, sem hún hafði bezt ráð á, og buðumst til að standa að þessum sparnaði með henni. Svo fór nú um afgreiðslu þeirra till. við 2. umr., að þær voru felldar gegn von okkar af þeim stjórnarliðum. Við gerum nú enn á ný tilraun til þess að vita, hvort sparnaðaráhugi þeirra er ekki kominn á það stig, að til framkvæmda komi, og leggjum því til að draga nokkuð úr ríkisútgjöldum til þess að mæta þeim till., sem við m.a. flytjum til að fá bætt úr sárustu vandræðum í þeim kjördæmum, sem við erum fulltrúar fyrir. Það er von okkar, að hæstv. ríkisstj. hafi nú nokkuð áttað sig á því, að ekki er nóg að telja upp sparnaðartill. í mörgum liðum, þær verða ekki teknar alvarlega, nema eitthvað sé sýnt í verki. Niðurstaða fjárlagafrv. sýnir hins vegar, eins og það er og meiri hluti fjvn. leggur til að það verði, að þar fyrirfinnst enginn sparnaður.

Þá flytjum við á sérstöku þskj. till, til breyt. auk þeirra, sem ég hef nú þegar getið til sparnaðar, þ.e. á þskj. 219, og er þar veigamest till. okkar um breyt. á 16. gr.

Það var upplýst, að í áætlun Búnaðarfélags Íslands fyrir undirbúning fjárlaga á yfirstandandi ári var gert ráð fyrir minni framkvæmdum í sveitum en verið hefur, og samkvæmt þeim upplýsingum, sem við höfum aflað okkur, hefur samdrátturinn einnig sagt til sín í ýmsum framkvæmdum úti um sveitir landsins. Vegna þessa má gera ráð fyrir því, að það þurfi ekki að nota þá fjárveitingu, sem ætluð er til að greiða með styrki til jarðræktarframkvæmda, útihúsabygginga og vegna skurðgraftar á næsta ári, en hins vegar teljum við nauðsyn, að þetta fé verði notað til landbúnaðarins. Við 2. umr. fjárlaga gerðum við tilraun til þess að fá fjárveitingu til þeirra liða, sem hér eru taldir, en það tókst ekki. Nú förum við fram á það við hv. Alþ., að það heimili ríkisstj. að verja því fé, sem þarna kynni að verða afgangs, á þann hátt, sem greinir í till. okkar, þ.e. til kaupa á jarðræktarvélum, til ráðgefandi nefndar í útihúsabyggingum í sveitum, til nautgriparæktarsambandanna, til mjólkurbúa og smjörsamlaga og til dreifingar á áburði. Við gerum ráð fyrir því, að ef svo færi, að afgangurinn af þessum útgjaldaliðum yrði ekki svo mikill sem þessari fjárhæð nemur, sem við hér leggjum til, þá verði stjórn Búnaðarfélags Íslands kvödd til ráðuneytis um það, í hvaða röð og að hve miklu leyti þessir liðir kæmu þá til. Okkur finnst, eins og ég áðan sagði, eðlilegt, að þetta fé gangi til landbúnaðarins og yrði notað til þess, að samdráttarstefnan yrði ekki meiri en orðið er og heldur til þess að draga úr henni.

Þá flytjum við aftur tvær till., sem við tókum til baka við 2. umr. og gerðum tilraun til þess að fá samstöðu um í fjvn., en tókst ekki, og viljum fá vilja Alþ. um afstöðu til þeirra.

Þá flytjum við á sérstöku þskj., nr. 225, till. til heimildar á 22. gr. ásamt fulltrúa Alþb. í fjvn., Karli Guðjónssyni, þar sem við leitum eftir samþykki Alþ. fyrir því, að ríkisstj. sé heimilt að gera bráðabirgðabreyt. á launakjörum ríkisstarfsmanna á næsta ári, þannig:

Í fyrsta lagi: Laun samkv. gildandi launalögum, sem fara stighækkandi eftir starfsaldri, hækki á tveim árum í stað fjögurra, þannig að byrjunarlaun verði samsvarandi launum með tveimur aldurshækkunum og hækki síðan á tveim árum í hámarkslaun.

Í sambandi við þessa till. vil ég segja það, að það er kunnugra en frá þurfi að segja, að það mun vera víða þannig í framkvæmd, að yfir þessa launaflokka er hlaupið, þegar nýir starfsmenn eru ráðnir. Hér er um svo lág laun að ræða, að þau þykja ekki mannsæmandi, enda er það þannig í 13. flokki, að mánaðarlaun eru á fyrsta ári kr. 3196.52, og eftir að þau eru komin í þá hæð, sem þau geta orðið hæst í þessum launaflokki, eru þau kr. 3959.52. Í 14. launaflokki eru þó enn þá lægri laun. Þar eru mánaðarlaun byrjandans 2806 kr., en komast upp í kr. 3578.02. Hér er um svo lág laun að ræða, að brýna nauðsyn ber til að leiðrétta þetta, og leggjum við því til, að Alþ. heimili ríkisstj. að gera þessa leiðréttingu, enda mun framkvæmdin víða vera þannig, að þessir launaflokkar eru ekki notaðir. Er því miklu eðlilegra að heimila ríkisstj. að gera þessa breyt. með samþykki Alþ., en eins og kunnugt er, er það þannig í fyrstu 7 launaflokkunum, að þar eru hámarkslaun strax og maðurinn kemur í starfið.

Þá leggjum við til í öðru lagi, að þessir neðstu launaflokkar, sem ég ræddi um hér áðan, verði algerlega felldir niður, og vitna ég í það, sem ég þá sagði um það.

Í þriðja lagi gerum við ráð fyrir því, að starfsmaður, sem hefur verið í þjónustu ríkisins í 10 ár samfleytt, fái launahækkun sem svari tilfærslu um einn launaflokk.

Í launalögum er það fram tekið um vissa starfsmenn, að eftir að þeir hafa starfað í fimm eða tíu ár, þá færast þeir sjálfkrafa á milli launaflokka, eins og hér er ætlazt til að allir ríkisstarfsmenn geri. Í því sambandi má nefna stjórnarráðsfulltrúa, sem þannig færast til, fulltrúa í Hagstofu Íslands, löglærða fulltrúa hjá dómurum, símritara og símvirkja og verkstjóra í sömu greinum, talsímakonur og langlínuvarðstjóra, enn fremur hjúkrunarkonur, þær færast til um launaflokk að fimm árum liðnum.

Reykjavíkurbær gerði þá samþykkt í ársbyrjun 1956, að starfsmenn bæjarins skyldu færast til í launaflokkum eftir tíu ára þjónustu. Þess vegna þykir okkur flm. eðlilegt, að starfsmenn ríkisins njóti einnig sömu hlunninda.

Þessar tillögur voru til meðferðar á þingi Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og fengu þar verulegan meiri hluta. Í stjórn bandalagsins voru þær einnig til meðferðar nú fyrir stuttu, og stóð hún einróma að samþykkt um það að fara þess á leit við Alþingi, að þessar breytingar yrðu gerðar. Þó er stjórnin þannig skipuð, sem kunnugt er, að þar eru menn úr mismunandi pólitískum flokkum. Hér er líka um þær leiðir að ræða að gefa ríkisstj. heimild til þess að ráða fram úr málum starfsmanna ríkisins, án þess að almenn launahækkun eigi sér stað, heldur er hér miðað við, sem hefur og verið grunntónninn í öllum okkar till. í sambandi við þessa fjárlagaafgreiðslu, að bæta úr því, sem brýnast er og ekki er hægt að komast hjá. Þessar till. okkar eru í samræmi við það.

Þá leggjum við í fjórða lagi til að hækka laun barnakennara um 8%.

Eins og kunnugt er, hefur mikill hörgull verið á lærðum kennurum í kennarastöður nú á síðasta ári og sérstaklega í ár. Horfir þetta víða til stórvandræða, og í sumum kaupstöðum landsins er það svo, að börn fá ekki fullnægjandi kennslu vegna kennaraskorts. Ástæðan fyrir þessu er talin vera sú, að kennarastéttin búi við þau launakjör, að menn sæki ekki til hennar. Nú er það kunnara en frá þurfi að segja, hversu mikils virði góð kennarastétt er hverju þjóðfélagi. Hún hefur meiri áhrif á æsku landsins en velflestir aðrir, að foreldrum undanteknum, og þó taka kennarar í æ ríkara mæli einnig við hlutverki foreldranna. Þess vegna skiptir það miklu fyrir þjóðina í heild, að í þá stétt veljist hæfir menn, sem eru starfi sínu vaxnir, enda var kennarastéttin þekkt að slíku hér áður fyrr. Nú er hins vegar komið svo, að í þessa stétt sækja menn ekki, og horfir til stórra vandræða. Till. okkar er því flutt, eins og hinar, til þess að bæta úr þessum vandræðum.

Árið 1956 var með reglugerð, sem gefin var út þá, gerð breyting á launum gagnfræðaskólakennara. Þeir höfðu áður fengið laun einum launaflokki hærri en barnaskólakennarar. En með því að þeim voru þá ákveðin 9 mánaða laun, þó að starfið væri ekki nema 8 mánuði, þá breikkaði bilið á milli þessara kennara, eins og kunnugt er. Ef nú yrði horfið að því að hækka laun barnakennaranna um 8%, þá yrði bilið á milli launagreiðslnanna svipað eftir þá breytingu og það var, áður en reglugerðin frá 1956 var gefin út. Þess vegna sýnist allt mæla með því, að þessi breyting verði gerð. Og þjóðarnauðsyn krefst þess, að að kennarastéttinni verði þannig búið, að hún geti áfram gegnt sínu göfuga hlutverki og mótað æsku þjóðarinnar, svo að hún megi að sem beztu gagni koma.

Þessar till. okkar eru allar fluttar í heimildarformi, svo að hæstv. ríkisstj. gefst þannig kostur á að meta það, hvað hér er um að ræða. Og ég efast ekkert um, að þegar hún hefur kynnt sér málavexti, þá muni hún telja þessa tillögugerð alla sanngjarna og til þess fallna að leysa hana frá vandræðum, sem hún að öðrum kosti gæti lent í. Það er því von mín og okkar allra flm., er að þessum till. standa, að þær nái fram að ganga hér á hv. Alþingi, og við teljum, að fjárlagaafgreiðslan reynist þjóðinni betri, ef þær verða samþykktar.