28.02.1961
Neðri deild: 70. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í C-deild Alþingistíðinda. (2165)

201. mál, eyðing svartbaks

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt tveim hv. þm. Vesturl. leyft mér að flytja frv. um breyt. á l. frá 1936, um eyðing svartbaks. Er aðalefni þessa frv. að hækka þá upphæð, sem í l. er ætluð fyrir að vinna svartbak með skotum, svo og upphæðir í sektarákvæðum laganna.

Lögin um eyðingu svartbaks eru, eins og ég sagði, frá 1936, og þær upphæðir, sem í þeim eru tilteknar, eru í engu samræmi við gildandi verðlag, lögin þar af leiðandi gagnslaus. Í þessum lögum frá 1936, um eyðingu svartbaks, sem eru raunar prentuð á bls. 4 sem fskj. með grg. frv., er gert ráð fyrir, að sýslunefndum og bæjarstjórnum sé heimilt að gera samþykktir, sem atvmrh. staðfestir, um eyðingu svartbaks, og skylt sé að gera slíkar samþykktir, ef tiltekinn fjöldi æðarvarpseigenda eða leigutaka æðarvarpslands í hlutaðeigandi sýslu eða bæ fer fram á, að slík samþykkt sé gerð. Þá er lögboðið hverjum þeim, er umráð hefur yfir landi, að eyða svartbakseggjum í landareign sinni og að leyfa framkvæmd eyðingarinnar samkvæmt þessum lögum, og liggja við sektir, ef út af er brugðið.

Nú er það svo, að árið 1941 voru sett ný lög um eyðingu svartbaks, sem voru á nokkuð annan veg. Gildi þeirra laga var tímabundið, en þau voru framlengd og giltu, að ég ætla, fram til ársins 1954. Þá féllu þessi lög frá 1941 úr gildi. En svo var ákveðið, að þegar þau féllu úr gildi, tækju á ný gildi lögin frá 1936, sem ég nefndi áðan. Þau komu svo í gildi að nýju árið 1954, en þá voru ákvæði þeirra öll, að því er tölur varðar, úrelt orðin vegna verðlagsbreytinga og lögin þess vegna, eins og ég sagði áðan, gagnslaus og hafa verið það. Við leggjum til, að í stað þess, sem í þessum gömlu lögum er gert ráð fyrir, að ríkissjóður greiði allt að 20 aurum fyrir hvern skotinn svartbak, greiði ríkissjóður allt að 4 kr., en mótframlög koma frá hreppi og sýslu, og er því gert ráð fyrir, að skotmannslaun geti orðið 8 kr. samkv. þessu frv.

Ég vil taka það fram, að þegar við flm. vorum að undirbúa þetta frv., öfluðum við okkur m.a. upplýsinga um verð á skotum, og þessi upphæð, sem tilgreind er í frv., er við þær upplýsingar miðuð, sem við þá fengum. Síðan hefur okkur borizt vitneskja um, að við munum hafa fengið upplýsingar um gamalt verð á skotum, og þyrfti í raun og veru að endurskoða upphæðina með tilliti til þess. Ég vildi mælast til þess við þá hv. nefnd, sem væntanlega fær þetta frv. til meðferðar, að hún gefi okkur flm. kost á viðtali við sig um þetta atriði.

Þá vil ég einnig geta þess, að þegar þetta frv. var tilbúið til flutnings, bárust okkur flm. fréttir af því, að þm. í Ed. hefðu einnig haft hug á að flytja frv. um þetta efni, en höfðu ekki lagt það fram þar. Ég nefni þar til hv. l0. landsk. og hv. 4. þm. Vestf., sem mér er kunnugt um að höfðu þennan undirbúning með höndum í Ed., og ég vildi sömuleiðis mælast til þess við n., að hún ræddi við þessa hv. Ed: menn um málið. En það, að þm. skuli samtímis eða svo að segja samtímis í báðum deildum þingsins hafa haft í undirbúningi breytingar á þessum lögum án þess að vita hvorir af öðrum, mætti þykja benda til þess, að málið muni eiga fylgi á Alþ. nú.

Ástæðan til þess, að lögð er áherzla á útrýmingu svartbaksins, er að sjálfsögðu fyrst og fremst sú, að öllum kunnugum ber saman um, að hann sé hinn mesti vargur í æðarvörpum og tefji mjög fyrir því, að æðarvörpin aukist. Hins vegar hefur svartbak farið mjög fjölgandi í landinu í seinni tíð. Einnig er það álit manna, að þessi vargur eyði mjög seiðum alls konar sjávarfiska og þó sérstaklega vatnafiska og sé einnig að því leyti mikill skaðvaldur.

Við höfum, flm. frv., fyrir nokkru rætt við Hagstofu Íslands, og að okkar tilhlutan hefur hagstofan tekið saman skýrslur um dúntekju hér á landi undanfarin 60 ár, ár hvert, eða frá árinu 1900 til 1959, að undanteknum tveim árum, sem fullnægjandi skýrslur virðast ekki vera um. Ef við lítum á þessa skýrslu, sem er prentuð hér með frv. á bls. 2, kemur í ljós, að dúntekjan hefur stórminnkað í landinu, einkum á tveim síðustu áratugum. Á öðrum áratug aldarinnar, þ.e.a.s. á árinu 1913, varð dúntekjan hæst samkv. skýrslum og er það ár talin 4577 kg af hreinsuðum dún. Árið 1930 er hún 3631 kg og nokkuð svipuð á fjórða tugnum, en fer þó heldur minnkandi, þegar líður á áratuginn. Síðan 1940 eru þessar tölur sýnilega, þegar litið er yfir töfluna, yfirleitt mun lægri en áður. Og ef tekin eru fimm síðustu árin, sem skýrslan tekur til, þ.e.a.s. árin 1955–69, þá er dúntekjan að meðaltali innan við 2 þús. kg, eða töluvert meira en helmingi minni en hún komst hæst á öðrum tug aldarinnar. Þó er það svo, að á einstaka stað hefur verið komið upp nýjum vörpum á þessum tíma, en gömlu vörpin hafa víða minnkað mjög, og kemur það fram í skýrslunum um hin einstöku vörp, sem eru ekki prentaðar hér.

Á fskj. 2 á bls. 3–4 í þskj. er skýrsla um dúntekju á árinu 1957 í öllum hreppum landsins, þar sem dúntekja var það ár. Af þeirri skýrslu má ráða nokkuð um útbreiðslu æðarvarpa hér á landi og hvar þau eru mest, en alls er það ár talin dúntekja í rúmlega 70 hreppum. Af því má sjá, að þeir eru nokkuð margir, sem not hafa af þessum hlunnindum. Þau eru víða á landinu.

Æðardúnn er, sem kunnugt er, mjög dýrmæt vara. Það mun láta nærri nú, að fyrir eitt kg af hreinsuðum dún fái framleiðendur 1300–1400 kr., og af þessu eru því mjög verulegar tekjur á þeim jörðum, þar sem æðarvörp eru, og mikið í húfi um framvinduna, hvort vörpin minnka og eyðast eða hvort þau fara vaxandi. Það er skoðun okkar flm., að ef einhvers staðar tækist að hefja sókn í þessu máli, þannig að það tækist að koma í veg fyrir minnkun varpanna og þau tækju að aukast á ný, þá mundi það verða mönnum hvatning til þess að auka æðarvörpin einnig með öðrum aðferðum. En til þess eru að sjálfsögðu fleiri aðferðir að auka æðarvörp heldur en að útrýma varginum, og hafa ýmsar tilraunir verið gerðar í þeim efnum.

Ég tel ekki ástæðu til að fara um þetta mál fleiri orðum, en leyfi mér að leggja til fyrir hönd okkar flm., að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn., því að ég ætla, að þessi mál hafi áður verið í þeirri nefnd. Ég vil mælast til þess við þá hv. n., að hún geri sitt til þess að hraða afgreiðslu málsins, og ég hef ástæðu til þess að ætla, m.a. þá, sem ég nefndi áðan, að vilji sé fyrir því í þinginu að samþykkja ráðstafanir til útrýmingar þessum vargi og eflingar æðarvörpunum eitthvað í þá átt, sem hér er gert ráð fyrir.