24.03.1961
Neðri deild: 83. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í C-deild Alþingistíðinda. (2170)

201. mál, eyðing svartbaks

Frsm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. landbn., leggur hún einróma til, að frv. þetta verði samþykkt óbreytt. Frv. heitir „breyting á lögum um eyðingu svartbaks“, en í raun og veru má segja, að samkv. efni frv. gæti það eins heitið „um verndun æðarvarps“, því að það er í raun og veru sá megintilgangur, sem er með frv., að reyna að koma í veg fyrir það tjón, sem æðarvarpseigendur verða fyrir af völdum svartbaksins eða veiðibjöllunnar.

Við getum þess í nál., að það væri æskilegt að taka til athugunar af sérfróðum mönnum, hvort ekki væru tiltækilegar einhverjar áhrifameiri ráðstafanir til eyðingar svartbaks heldur en ætla má, að skotaðferðin geti reynzt, en það mál allt þarf mun meiri undirbúning en mögulegt er að koma við á þessu stigi. Og í því trausti, að þessi breyting á gildandi lögum, ef samþ. yrði nú, mætti verða til þess að hjálpa til, a.m.k. á nokkrum stöðum, að vernda æðarvarpið, þá teljum við, að það sé rétt, að þetta frv. verði nú samþ., og það kemur þá í ljós, hvort af því megi hljótast nokkur árangur.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál, en eins og ég sagði, leggur n. til, að frv. verði samþ. óbreytt.