16.12.1960
Sameinað þing: 25. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

1. mál, fjárlög 1961

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt með tveim hv. samþingismönnum mínum að flytja brtt. við 22. gr. fjárlagafrv. Þessi brtt. er nr. 7 á þskj. 225. Till. er um það, að veittar verði 100 þús. kr. til uppbyggingar Kolviðarhóls. Kolviðarhóll var um marga mannsaldra einhver fjösóttasti áningar og gististaður á landi hér, en með hinni auknu tækni og bættum samgöngum var hlutverki staðarins lokið sem slíks. Þessi gamli griðastaður ferðamanna, sem oft hafði bjargað mannslífum, varð allt í einu fyrir tímans rás óþarfur. En við staðinn eru tengdar margar sögulegar minningar, og margir eru þeir enn þá ofar moldu, sem hugsa hlýtt til staðarins og vilja, að vegur hans verði áfram mikill, þótt á annan hátt verði en áður var. Hinn vandaði húsakostur, sem á Kolviðarhóli stendur enn, hefur verið rúinn og rændur, síðan staðurinn fór í eyði, og það er ömurlegt að sjá þá eyðileggingu. Nokkrir áhugamenn um viðreisn Kolviðarhóls hafa stofnað samtök málinu til framgangs, og hafa þegar verið unnar þarna talsverðar umbætur, en miklu meira þarf til. Nú hefur verið stofnað til fjársöfnunar á Suðurlandi öllu og hér í Reykjavík og nágrenni staðnum til viðreisnar, og vil ég nú mega vænta þess, að hv. alþm. vilji koma þarna einnig til liðsinnis. Í því trausti er þessi brtt, fram borin.