27.10.1960
Efri deild: 11. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í C-deild Alþingistíðinda. (2195)

33. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þær tvær framsöguræður, sem við höfum nú hlýtt á fyrir þessu frv., voru með mjög ólíkum hætti. Hv. 1. flm., 2. þm. Vestf. (HermJ), taldi þetta frv. ekki gefa neitt tilefni til þess að ræða um landhelgismálið almennt, lýsti því a.m.k. berum orðum yfir, að hann ætlaði ekki að gera það að tilefnislausu. Hv. 2. flm., sá sem nú var að ljúka máli sínu, hefur hins vegar talað um þetta mál nú nokkuð á annan klukkutíma og eingöngu um sjálft landhelgismálið og deiluna við Breta, en alls ekki um það frv., sem hér liggur fyrir, nema örfá orð allra fyrst í ræðu sinni.

Ég er báðum hv. flm. sammála um, að ég tel á þessu stigi málsins ekki ástæðu né heppilegt að ræða sérstaklega mikið um þetta frv. Það má mjög deila um, hvort það sé til framdráttar okkur í þeirri deilu, sem við eigum í út af okkar fiskveiðilögsögu.

Hv. 1. flm. hélt því fram, að nú orðið og miðað við árangur eða það, sem fram hefði komið á Genfarráðstefnunni 1958, væri eðlilegt, að við lögfestum okkar fiskveiðilögsögu. En ef svo er og þarna er um hans raunverulegu ákvörðunarástæðu að ræða, svo sem hann sagði, þá hljóta menn að varpa fram þessari spurningu:

Af hverju bar þessi hv. þm., sem var forsrh. Íslands 1958, þegar fiskveiðilögsagan var ákveðin með þeirri reglugerð, sem hér er vitnað til, — af hverju bar hann þá ekki fram frv. um lögfestingu fiskveiðilögsögunnar? Af hverju lét hann sér þá nægja að ráða þessu mikla máli til lykta með einfaldri stjórnarvaldsákvörðun, að vísu með fullri stoð í lögum?

Ég þori að fullyrða, að ef málið hefði þá verið lagt fyrir Alþingi, mundi margt betur hafa farið í meðferð þess en raun ber vitni.

Hv. 2. flm. ræddi að vísu nokkuð um aðdraganda þeirrar reglugerðarsetningar og viðbrögð manna við henni, eins og hann drap á ýmis einstök söguleg atriði úr meðferð málsins síðar, en ekki verður um það deilt, að þar var mörgu hallað í málflutningi, um margt þagað, sem miklu máli skipti, og raunar víða vísvitandi rangt sagt frá, eða a.m.k. sagt frá af þeim manni, sem betur átti að vita um sannleikann heldur en hann fór með hann í sínum málflutningi.

Við sjálfstæðismenn óskuðum eftir því sumarið 1958, að gefin yrði út skýrsla almenningi til fróðleiks um það, sem gerzt hefði í málinu innan ríkisstjórnarinnar og í meðförum stjórnmálaflokkanna sín á milli vorið 1958. Því var neitað af þáv. hæstv. ríkisstj. En svo mjög villandi málflutningur, sem við hlustuðum hér á af hv. 2. flm. þessa frv., hlýtur að vekja upp þá spurningu, hvort ekki sé brýn nauðsyn til þess, að öll þau gögn verði nú gefin út, þannig að almenningur eigi þess fullan kost að átta sig hlutlaust, eftir því sem skýrslurnar sjálfar segja til um, á tillögugerð hvers og eins á öllum stigum þessa máls. Mun það vissulega verða athugað.

En það er víst, að 1958 hefði málið hlotið mun heppilegri meðferð, ef Alþingi hefði þá fengið að ræða málið, t.d. við meðferð lagafrv. um lögfestingu ákveðinnar fiskveiðilögsögu, í stað þess að þá var málinu ráðið til lykta af þáv. stjórnarflokkum. Um sum atriði var á sumum stigum málsins haft nokkurt samráð við Sjálfstfl., en um lokaákvörðunina er það að segja, að hún var tekin einhliða og Sjálfstfl. var ekkert frá henni skýrt, fyrr en nokkrum dögum eftir að sú ákvörðun hafði verið gerð.

En það má vel vera, að þó að það hefði leitt til betri meðferðar 1958 á þessu máli, að löggjöf hefði verið um það sett, þá hafi verið fullgildar ástæður til þess, að sú aðferð var ekki viðhöfð, að hæstv. ríkisstj. hafi talið, að með slíkri lögfestingu 12 mílna fiskveiðilögsögu af hálfu Íslendinga væri gefin slík yfirlýsing um, að þar væri lokatakmarki náð í þessu máli, að hún hafi ekki talið æskilegt að viðhafa þá leið, enda er ég ákaflega hræddur um, að ef slík löggjöf yrði nú sett, þá mundi merking hennar fyrst og fremst vera talin sú, sem væntanlega hefur ráðið því, að til þessa ráðs var ekki tekið 1958. En það er einmitt einkennandi um hv. 1. flm. og suma hans skoðanabræður, að þeir telja ætið, að annað henti, þegar þeir eru í stjórnarandstöðu, en þegar þeir fara sjálfir með völdin. Látum það vera. Sjálfsagt er að athuga þetta frv. frá öllum hliðum, taka það til meðferðar í n. og íhuga kosti þess og galla, hvort æskilegt sé að láta það ná samþykki.

En ég get ekki varizt því, að nokkuð kynlega brá við, þegar hv. þm., sem hefði getað lögfest slík ákvæði strax 1958, óskaði nú eftir því að n. hraðaði sérstaklega meðferð málsins. Sú ábending verður trauðlega skilin nema af því, sem systurblað hans eitt, Þjóðviljinn, hélt nýlega fram, að það væru stjórnarflokkarnir, sem hefðu hindrað meðferð þessa máls í þinginu nú um nokkurra daga bil. Hv. þm. veit ósköp vel, að fyrsta daginn, þegar þetta mál var tekið á dagskrá, óskaði hann sjálfur eftir því, að það væri ekki tekið til meðferðar. Það var síðan tekið annan dag á dagskrá í fyrri viku. Þá er það rétt, að ég óskaði eftir því, sökum þess að ég var heima vegna kvefs, að málið biði þann dag. Síðan átti enn að taka það mánudag og þriðjudag í þessari viku, en þá var það hv. 2. þm Vestf., sem óskaði þess, að málið væri ekki tekið til umr., þannig að sá dráttur, sem hefur orðið á umr. um þetta mál, er fyrst og fremst að kenna, — ef um sök á að vera að ræða, eins og látið var í Þjóðviljanum, — sjálfum aðalflutningsmanni málsins. Þess vegna er því furðulegra, að hann skuli há láta svo sem það geti oltið á einhverju, hvort málið verði afgr. deginum fyrr eða seinna úr n. En látum það vera, það skiptir ekki ýkjamiklu máli. Það er sjálfsagt að athuga, hvort heppilegt sé að lögfesta þetta frv. eða ekki. En það þarf íhugunar við og því eðlilegt, að það fái venjulega, þinglega meðferð.

Um ræðu hv. 2. flm., 5. þm. Reykn., mætti í raun og veru margt segja, ef ég hirti um og nennti að fara að eltast við hans frásögn af liðnum atburðum, því að að mestu leyti fjallaði ræðan um það. Sú ræða var að ýmsu fróðleg. En hún hefði verið enn þá fróðlegri og merkilegri líka, ef hv. þm. hefði sagt satt frá, en ekki hallað svo réttu máli sem hann gerði. Látum vera þau hnotabit um það, sem liðið er. Vafalaust gefst nægur tími til þess að ræða þá hlið málsins, og ég skal ekki eyða tíma þingsins í það á þessu stigi þessa máls, enda verð ég að segja, að hér er um slíkt vandamál að ræða, að miklu sæmra er að snúa sér að og hugsa um, hvernig eigi að leysa það vandamál, sem við stöndum frammi fyrir, heldur en hitt, að bera sakir á sína andstæðinga í innanlandsmálum, jafnvel þó að þær væru betur á rökum reistar en þær sakir, sem þessi hv. þm. bar sína andstæðinga.

Það er eftirtektarvert, að hv. þm. minntist ekki einu orði á, hvers eðlis sú deila er, sem við nú stöndum í við Breta. Hann minntist ekki einu orði á, hvers eðlis sú deila er, hvorki að hve miklu leyti hún kann að varða okkar hag né heldur hvernig hana eigi að leysa. Fram hjá þessu gekk hann gersamlega. Það má vel vera, að margt hafi misfarið í meðferð þessa máls af hálfu núverandi ríkisstj., eins og hv. 5. þm. Reykn. hélt fram, og af hálfu hæstv. stjórnar Hermanns Jónassonar, eins og ég tel. Það má vel vera, að við höfum báðir rétt fyrir okkur í þessu. En það er ekki þetta, sem nú skiptir máli, heldur verðum við að gera okkur grein fyrir, hvers eðlis vandinn er, sem við þurfum að leysa, og hvaða ráð við eigum að hafa til að leysa vandann. Hv. þm. talaði um það hér eins og málið stæði í raun og veru enn í sömu sporum og gert hefði fyrir Genfarráðstefnuna seinni nú í marz-apríl 1960. Sannleikurinn er þó sá, að málið horfir nú allt öðruvísi við en það áður gerði. 1958 var um það deilt, hvort 12 mílur ættu að vera heimilar sem yztu takmörk fiskveiðilögsögu, sem ákveðin væri einhliða af strandríki, hvort þessi yztu takmörk ættu að vera heimil fyrirvaralaust eða með eilífri sögulegri kvöð, er stæði um alla framtíð, — sögulegri kvöð, er veitti þeim, sem um visst árabil hefðu fiskað á vissum miðum, rétt til þess ótímabundið að halda þeim fiskveiðum áfram.

Það var ljóst, að inn á slíkar 12 mílur með eilífri sögulegri kvöð gat aldrei komið til mála að Íslendingar gætu gengið. Með því var 12 mílna meginreglan, sem sögð var vera lögfest, okkur a.m.k. lítils virði, ef ekki gersamlega ónýt. Þess vegna var þá ástæða til róttækra aðgerða af hálfu Íslendinga til þess að sýna fram á, að að slíkum afarkostum mundu Íslendingar aldrei ganga. Nú hefur það hins vegar áunnizt á tveggja ára tímabili, að það, sem áður átti að vera eilífðarkvöð, er nú að tillögum sömu aðila orðið að 10 ára fiskveiðikvöð. Það eru að vísu einnig harðari kostir en við viljum á fallast. En við skulum þá líka minnast þess, að það munaði einungis einu atkv., okkar sjálfra, á Genfarráðstefnunni, hvort þessi tíu ára kvöð yrði lögfest eða viðurkennd með lögáskildum meiri hluta á þessari ráðstefnu, ef við kjósum það orðalag heldur.

Að vísu lá í loftinu, þó að aldrei kæmi fram um það neitt formlegt tilboð, svo að ég vissi, — þá lá í loftinu, að við Íslendingar mundum geta fengið fimm ára tímabil viðurkennt í stað tíu ára, sem væri hin almenna regla. Það upplýstist, að Danir sömdu fyrir hönd Færeyinga og með samþykki réttra aðila þar í landi um slíka fimm ára kvöð, sem var sem sagt fimm árum styttri, helmingi skemmri tími en hin almenna regla átti að vera. Eins og ég segi, þá tel ég mjög sennilegt, að við Íslendingar hefðum átt kost á svipuðum kjörum, ef við hefðum óskað. Við töldum ekki ráðlegt af okkar hálfu að fallast á slíka kosti. Á það reyndi ekki, hvort lengra hefði verið fært að komast en þessu nam. En jafnvel miðað við fimm ár, sem við erum allir sammála um að vilja ekki ganga að, eru líkur til, að Bretar hefðu strax í vor viljað fallast á eitthvað minna, ef þess hefði verið gefinn nokkur kostur. Eins og málin stóðu á Genfarráðstefnunni, var ekki talið eðlilegt né heppilegt að leita fyrir sér um nokkra slíka samninga, heldur sjá, hvernig ráðstefnunni lyktaði, og kanna til hlítar, hver afstaða yrði að henni lokinni. Og það stendur óhaggað sem mín skoðun og sem skoðun ríkisstj. allrar, að slík kjör, sams konar og Danir sömdu um fyrir hönd Færeyinga, sé hvorki ástæða fyrir Íslendinga að fallast á né höfum við hagsmuni af því að gera slíkt.

Spurningin er hins vegar: Þegar deilan frá því að verða um eilífðar sögulega fiskveiðikvöð er ekki lengur um frambúðargildi tíu ára fiskveiðikvaðar, heldur um, hvernig sé hægt að ryðja úr vegi á sem skemmstum tíma þeim hindrunum, sem nú eru á því, að við njótum þessa okkar skýlausa réttar til fulls, þá kemur þar auðvitað á móti skoðun þess, hversu langan tíma tekur að ryðja þeim hindrunum úr vegi eftir þeim leiðum, sem tiltækilegar eru, ef nokkrar eru, öðrum en með samningum. Er nokkur leið, sem verður skjótvirkari til fullrar nýtingar okkar réttar heldur en viðræður og samningar við Breta, ef við getum gert þá á okkur hagkvæmari hátt?

Og þá kem ég að því, sem hv. 5. þm. Reykn. sagði: Við verðum að halda í 12 mílna fiskveiðilögsöguna, vegna þess að sú hætta er á, að fiskstofninum verði gersamlega útrýmt, ef erlendir togarar komast jafnvel á takmörkuðu svæði inn fyrir þessar 12 mílur. Eyðingarhættan er algerlega komin undir því, hversu langan tíma erlendum togurum er leyft, — ég segi: er leyft að veiða innan 12 mílna og hvað við fáum í staðinn. Fáum við í staðinn eitthvað, sem jafngildi eða meira en jafngildi því, sem þarna er látið í té af okkar hálfu?

Það kemur ekki til greina, eins og fullyrt hefur verið af hálfu hv. stjórnarandstæðinga, að það standi til að fórna hagsmunum einstakra landshluta vegna annarra. Þarna verður að skoða hagsmuni hvers landshluta fyrir sig og íhuga, hvort hægt sé að finna lausn, sem tryggi okkar rétt, jafnvel fyrir hvern landshluta, með því að veita mjög tímabundna heimild til fiskveiða innan 12 mílnanna, gegn því að við fáum ákveðin ótvíræð hlunnindi þar á móti, — hlunnindi einnig til verndar fiskstofninum. Þetta er atriði, sem verður að hugleiða og kemur ekki til mála að neita fyrir fram að skoða til grunns.

Það tjáir ekki að neita því, að deilan við Breta er fyrir hendi. Það má segja, að frambúðartrygging 12 mílna fiskveiðilögsögu umhverfis allt Ísland sé nú þegar fyrir hendi. Það er sá mikli sigur, sem unninn er. Við getum skammað hver annan fyrir það, hvernig á málinu hefur verið haldið, eða við getum hælzt um yfir þeim mikla sigri, sem unninn hafi verið. Það er eftir því, í hvaða skapi við erum, eftir því, hvort við viljum gera hlut hvor annars og sjálfra okkar sem minnstan eða sem mestan. Og einhvern tíma hefði það þótt forsögn, að þó þyrfti ekki lengri tíma en þann, sem liðinn er, til þess að vinna þennan mikla frambúðarsigur.

En við skulum líka minnast þess, að oft hefur sigurvegari slegið sigurinn úr hendi sér með því að gera sér ekki grein fyrir, hvernig málin lágu í raun og veru, með því að leggja áherzlu á aukaatriði, með því að halda uppi fornum og e.t.v. réttmætum fjandskap, í stað þess að skoða málin einfaldlega í ljósi þess, hvernig eigi að tryggja það, sem áunnið er, hvernig eigi að komast út úr þeim vanda, sem er því samfara að hafa unnið sigurinn. Vandinn, sem við erum í vegna þessara sigurvinninga, er sá, að deilan við Breta stendur óleyst enn. Spurningin er: Hvernig eigum við að komast út úr deilunni við Breta án þess að fórna því, sem þegar er búið að vinna í þessu máli, heldur í þess stað að tryggja tilvist þess um alla framtíð?

Það hefur verið sagt: Landhelgismálið er leyst. 12 mílurnar er búið að, vinna. — Það er rétt. Héðan af verður ekki til lengdar staðið á móti því, að 12 mílur verði viðurkenndar sem alþjóðlega gild regla. Ég hef talið, að hún hafi verið í gildi allan tímann. Ég hef aldrei óttazt að bera það mál undir alþjóðadómstól, þótt sumir hafi virzt gera það. Ég hef haft örugga sannfæringu fyrir því, að alþjóðlegur dómstóll mundi viðurkenna í senn rétt okkar og nauðsyn. Eu við vitum, að það munaði aðeins okkar eina atkv. á alþjóðaráðstefnunni í Genf, að því yrði hnýtt aftan í, að 10 ár skyldu veitast þeim, sem áður höfðu fiskað á þeim miðum, sem nú átti að bægja þeim frá, til þess að umþótta sig. Það er vafalaust, eins og ég sagði, að hægt er að semja um miklu skemmri tíma. Það er verið að kanna, hvort hægt sé að semja um miklu skemmri tíma, með því að tryggja Íslendingum fiskveiðar á þeim miklu skemmri tíma jafnvel eða betur en gert er með 12 mílna lögsögunni. Þetta er viðfangsefnið. Og ég vil segja, að ef við getum tryggt verndun fiskstofnsins og fiskveiðimöguleika bátaflotans betur eða jafnvel og við gerum nú um örfárra ára bil með slíkum samningum og sloppið við deiluna við Breta, þá er það mál, sem eðlilegt er að kannað sé til hlítar og Alþingi Íslendinga taki afstöðu til, áður en slíkum möguleikum er hafnað.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fara að rekja nú í einstökum atriðum þau óþægindi, sem fiskveiðideilan við Breta skapar okkur. Ég hef haldið mér þrátt fyrir óþurftartal stjórnarandstæðinga frá að segja nokkuð það, sem eftir mér væri hægt að hafa, á þann veg, að borist gæti til Breta, sem gæti talið þeim trú um, að íslendingar teldu sinn málstað á nokkurn hátt slíkan, að við værum tilneyddari til að semja við Breta en við erum. Ég mun ekki gera það hér. En hitt veit allur þingheimur, að Íslendingar hafa ríka hagsmuni af því að láta deiluna við Breta eyðast, alveg eins og Bretar hafa ríka hagsmuni af því að fá þessa deilu út úr heiminum, ekki fyrst og fremst vegna sinna fiskveiðihagsmuna, heldur af öðrum ástæðum. Þess vegna hef ég trú á því, að skynsamlegar viðræður, þar sem skoðað er ofan í kjölinn, hvar hagsmunirnir í raun og veru rekast á, kunni að geta leitt til góðs. Og málið er svo alvarlegt, að óheimilt er að hafna nokkrum möguleika í þessu máli, sem kann að vera til góðs. Í hinni löngu ræðu hv. 5. þm. Reykn., sem við vitum að er enginn skynskiptingur og kann vel að halda á sínu máli, forðaðist hann ekki einungis að gera grein fyrir eðli deilunnar við Breta, heldur forðaðist hann eins og heitan eld að minnast á, hvernig á að eyða deilunni við Breta.

Hvaða leiðir aðrar en þær, sem ríkisstj. nú bendir til og er að kanna, getur hv. stjórnarandstaða bent á til þess að eyða þessari deilu?