04.11.1960
Efri deild: 16. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í C-deild Alþingistíðinda. (2203)

33. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Síðan ég talaði um þetta mál í hv. d. í s.l. viku, hafa tveir hæstv. ráðherrar, hæstv. dómsmrh. og hæstv. utanrrh., sem ég beindi einmitt sérstaklega máli mínu til, haldið alllangar ræður um þetta mál og svarað með þeim ræðum okkar hv. 2. þm. Vestf.

Ég játa það — svona til gamans, að það hvarflaði að mér eitt augnablik, eftir að ég hafði hlustað á ræður þessara tveggja hæstv. ráðherra, að það kynni að vera fróðlegt að gera samanburð á þessum ræðum frá því sjónarmiði, hvernig þær lýstu mönnunum, sem fluttu þær. En ég hef hingað til reynt að forðast það að láta nokkur persónuleg sjónarmið koma fram í umr. hér á hv. Alþ., og ég vil því að sjálfsögðu láta slíkan samanburð sem þennan niður falla í þessu máli. En málsins vegna er ekki unnt að komast hjá því að gera nokkurn samanburð á ræðum þessara hæstv. ráðherra, vegna þess að þær upplýsingar, sem komu fram í ræðum þeirra um þetta mál, eins og það stendur nú, vörpuðu mjög ólíku ljósi á það, hvernig þetta mál standi nú, svo mjög, að það er varla hægt að segja, að þær upplýsingar geti samrýmzt. En áður en ég vík að þessum samanburði á ræðum hæstv. ráðh., verð ég að minnast með nokkrum orðum sérstaklega á örfá atriði og sérstaklega eitt atriði í svörum hæstv. utanrrh. til mín.

Ég beindi allmörgum spurningum til hæstv. utanrrh. Þær spurningar voru flestar um gang þessa máls fram að þessu. Mér er skylt að þakka svör hæstv. ráðh. við spurningum mínum, svo langt sem þau náðu, — ég geri það hér með, — en hann hagaði öllum svörum sínum svo, að þau upplýstu sem allra minnst um það, sem hefði gerzt í þessu máli, um gang viðræðnanna, sem hefðu farið fram frá 1.–10. þ.m. hér í Reykjavík milli nefnda frá ríkisstj. Bretlands og ríkisstj. Íslands. Hann vildi sýnilega ekki gefa þingheimi né þjóðinni neinar upplýsingar um gang þessara viðræðna. Hann vildi ekki upplýsa þau atriði, sem ég spurði sérstaklega um. Ég segi: hann um það. Ég er þess fullviss, að svör við þessum spurningum um gang málanna frá 1.–10. okt. og fram á þennan dag eiga eftir að koma fram og þau verða geymd ásamt með þeim svörum, sem hæstv. utanrrh. leyfði sér að gefa um gang þessara mála. Þau svör hans verða borin saman við það, sem síðar upplýsist að hafi gerzt. Gangur málsins héðan af mun leiða svörin við þessum spurningum í ljós.

En það var sérstaklega ein spurning, sem ég beindi til hæstv. utanrrh. um skoðun hans á tilteknu atriði, sem ég tel mikilvægt, sem ég vil gera hér að umtalsefni, áður en ég vík að því að bera saman ræðu hæstv. utanrrh. og hæstv. dómsmrh. Ein af spurningum mínum var á þá leið, að ég spurði hæstv. utanrrh., hvort hann teldi unnt að neita öðrum þjóðum um sama rétt og Bretum kynni að verða veittur, ef það yrði niðurstaðan af samningsviðræðunum við þá nú, að þeir fengju tilslakanir innan 12 mílna fiskveiðilandhelgi Íslands. Það kom skýrt fram í ræðu minni, við hvað ég átti hér sérstaklega. Og ég held, að þessi spurning hafi verið svo einföld og ljós af minni hálfu, að hæstv. ráðh. hefði ekki þurft að misskilja hana. Það kom skýrt fram í ræðu minni, a.m.k. á einum stað, að ég hafði hér sérstaklega í huga þær þjóðir, sem hafa í verki viðurkennt 12 mílna fiskveiðilögsögu Íslands frá því um haustið 1958, sem hafa áður veitt við Ísland, en hafa hér við land nú síðan 1958 togaraflota, sumar stóran togaraflota, sem heldur sig utan 12 mílna fiskveiðitakmarkanna. Það mætti segja, að ég hafi, þegar ég talaði þessi orð, sérstaklega haft í huga eina þjóð fremur en aðrar, af því að hún á stærstan togaraflota við Íslandsstrendur eða á Íslandsmiðum fyrir utan Breta, það er Vestur-Þýzkaland. En sá togarafloti hefur síðan um haustið 1958 haldið sig utan 12 mílna markalínu. Það kom einnig skýrt fram, bæði beinlínis og óbeinlínis, í minni ræðu, að ég óttaðist, að það væri ekki hægt, hvorki siðferðilega né lagalega, að neita þessum þjóðum um þann rétt, sem Bretum yrði veittur, bæði samkvæmt eðli málsins og jafnframt t.d. vegna svonefndra beztu kjarasamninga, sem ýmsar þessar þjóðir kynnu að hafa gert við Íslendinga. Ég hefði þess vegna haldið, að þessi spurning mín til hæstv. utanrrh. á þessu stigi málsins væri bæði eðlileg og réttmæt. Ég hefði haldið, að sú ríkisstjórn, sem tæki það í mál að veita Bretum undanþágu og fríðindi innan 12 mílna fiskveiðilandhelgi Íslands, hlyti þegar að hafa íhugað þessa spurningu og jafnvel rannsakað alveg sérstaklega eða látið rannsaka, á hverju henni væri stætt í þessu efni gagnvart öðrum þjóðum. Ég veit, að öllum hv. þdm. og öðrum, sem kynnu að hafa hlustað, var það nægilega ljóst, að ég spurði ekki vegna þess, að ég óskaði eftir því, að Bretum yrðu veitt nein fríðindi innan 12 mílna fiskveiðilandhelgi Íslands, né heldur, að ég óskaði, að neinum öðrum þjóðum yrðu veitt slík fríðindi, — og ef það væri álitið, að það væri stætt á því lagalega að neita öðrum þjóðum um þau fríðindi, sem Bretum kynnu að verða veitt, þá er ekki eftir nema önnur spurning fyrir hæstv. ríkisstj., hvernig það liti út siðferðilega af hálfu okkar Íslendinga að neita öðrum þjóðum en Bretum um þau fríðindi, sem við veittum þeim innan íslenzkrar fiskveiðilandhelgi, eftir allt, sem þeir hafa framið í þessari 12 mílna fiskveiðilandhelgi gegn íslenzku þjóðinni. Ég þarf ekki að minna á, hvað það er, löndunarbann, viðskiptaleg kúgun í mörg ár og herskipavernd handa brezkum veiðiþjófum í tvö ár, þ.e.a.s. hernaðarlegt vopnað ofbeldi í tvö ár. Þetta er það, sem við höfum verið beittir af þeirri þjóð, sem ætti að koma til mála um að veita fríðindi fram yfir allar aðrar þjóðir. Kynni það ekki að vera, bæði hjá okkur Íslendingum og úti um heiminn, að það yrði litið svo á, ef við gerðum þetta, að við værum að verðlauna Breta fyrir ofbeldisaðgerðirnar, fyrir hinar efnahagslegu kúgunaraðgerðir, löndunarbannið, og fyrir hið vopnaða vald, sem þeir hafa sýnt hér við land, — að við værum að verðlauna þá, en refsa hinum þjóðunum, sem hafa þó, þótt þær hafi margar mótmælt lagalegum rétti okkar til 12 mílna fiskveiðilögsögu, virt hann í verki, — og virt hann hvers vegna? Virt hann af tillitssemi til okkar sem vopnlausrar smáþjóðar, sem eigi lífsafkomu undir þessum miðum, þó að þeir telji okkur ekki hafa haft lagalegan rétt til setningar 12 mílna fiskveiðilandhelginnar.

Ég skal rifja upp aftur, hvernig ég spurði. Ég spurði: Telur hæstv. utanrrh. það unnt að neita öðrum þjóðum um þann rétt, sem Bretum kynni að verða veittur innan 12 mílna fiskveiðilögsögunnar? Svo einföld var spurningin í raun og veru. Ég veitti því athygli, að eitt af blöðum Sjálfstfl. fór rétt með þessa spurningu mína, prentaði hana eins og aðrar spurningar mínar orðrétt upp án nokkurra útúrsnúninga. En hvernig svaraði svo hæstv. utanrrh. þessari spurningu? Jú, hann svaraði henni með því að búa til aðra spurningu og leggja mér í munn í stað þessarar spurningar. Hann sagði, og nú tilfæri ég orðrétt eftir hæstv. ráðherra: „Þessi hv. þingmaður spurði, hvort nokkur hætta væri á því, að öðrum þjóðum en Bretum yrði neitað um að veiða innan 12 mílnanna, ef Bretum yrði leyft það. Þessi hv. þm. hafði afar mikinn áhuga fyrir að vita, hvort ekki væri alveg öruggt, að ef nú kynni að koma til þess, að Bretar fengju hér eitthvert leyfi um einhvern takmarkaðan tíma til að veiða innan 12 mílna, að aðrir fengju þetta líka.“ Þetta er orðrétt eftir hæstv. utanrrh., og þetta er meginsvar hans við þessari einföldu spurningu. Og hæstv. utanrrh. bætti við: „Mér kom þessi spurning ekki á óvart. Ég hef heyrt hana áður.“ Og svo kom hann með sögur frá Genfarráðstefnunni. Þar hafði hann heyrt hv. 4. þm. Austf., Lúðvík Jósefsson, spyrja, hvort tvær tilteknar þjóðir kynnu að fá að njóta hins sögulega réttar, sem þar var rætt um og deilt um, ef hann yrði samþykktur. Og svo sagði hæstv. utanrrh. til mín, og ég tek nú aftur orðrétt hans orð: „Nú tekur hv. 5. þm. Reykn. þetta sama mál upp og vill fá þessari sömu spurningu svarað.“ Svo svarar hann spurningunni, eftir að hann er búinn að búa hana til, og svarið er þetta, með leyfi hæstv. forseta: „Við spurningunni get ég ekkert sagt annað en það, að þetta mál liggur á engan hátt þannig fyrir, að nokkurt tilefni sé til að ræða það á þessum grundvelli og í mínum huga dreg ég það mjög í efa, að sú lausn sé til á þessu máli, sem þær þjóðir, sem hv. 5. þm. Reykn. er sérstaklega að hugsa um,“ og hann var áður búinn að segja, að þær væru tvær, — „þær þjóðir, sem hv. 5. þm. Reykn. er sérstaklega að hugsa um, telji sér aðgengilega eða eftirsóknarverða. En“ — heldur hæstv. utanrrh. áfram — „þegar að því kemur, að málið skýrist frekar, þá er sjálfsagt að taka þetta atriði upp og ræða það. En þessi nv. þm. verður að sætta sig við það, að áhuga hans í þessum efnum er ekki hægt að mæta frekar en svona, á meðan málið liggur ekki skýrara fyrir.“ Þetta var svar hæstv. utanrrh. við þeirri einföldu og skýru spurningu minni, hvort væri stætt á því fyrir hæstv. ríkisstj. að neita öðrum þjóðum um þann rétt, sem Bretum yrði veittur. Þannig svarar hæstv. utanrrh. spurningu, sem beint er til hans hér á hv. Alþingi. Hann býr einfaldlega til aðra spurningu, leggur manni hana í munn og þykist svo svara henni og svarar henni svona skýrt, eins og ég hef nú lesið. Ég vil segja hæstv. utanrrh., að hann getur komizt upp með það hér í hv. deild að svara þessari spurningu eins og hann hefur gert, en hann kemst ekki hjá því að svara henni, því að þetta er spurningin, sem allir sjómenn, allir okkar fiskimenn, öll alþýða, öll þjóðin spyr um: Ef á að koma til samninga við Breta eftir allt, sem þeir hafa haft í frammi við íslenzku þjóðina, hvað er þá um aðrar þjóðir, sem hafa virt okkar rétt, sem hafa virt okkar landhelgi? Og hæstv, ríkisstj. skal ekki halda, að hún komist hjá því að svara þeirri spurningu og taka afstöðu til hennar í þeim samningum, sem hún að öllum líkindum er að gera þessa dagana.

Ég minnist þess, að áður, þegar ríkisstj. hefur fjallað um það að stíga ákveðin spor í landhelgismálinu, víð útfærslu landhelginnar, þá hefur verið spurt um það, hvort aðgerðir okkar væru algildar gagnvart öðrum þjóðum eða kynnu að vera undantekningar frá því. Það lá fyrir mjög skýrt 1950, þegar fyrsta skrefið var stigið, og þá lét hæstv. núverandi dómsmrh. vitanlega rannsaka þetta atriði, áður en til aðgerðanna kom, sem sjálfsagt var. Ég veit ekkert, hvort hæstv. ríkisstj. hefur athugað þetta, en ég hef aðeins svör hæstv. utanrrh.

Ég kem þá að svörum hæstv. utanrrh. almennt við spurningum mínum. Þær voru velflestar um gang málsins í raun og veru frá 10. ágúst, að hæstv. ríkisstj. tók þá ákvörðun að ganga til samningsviðræðna við Breta, og fram á þann dag, þegar ég talaði, en þó alveg sérstaklega, hvað hefði komið fram í opinberum viðræðum, sem fóru fram dagana 1.–10. okt. hér í Reykjavík. Ég spurði vegna þess, að það höfðu komið fram í áreiðanlegum brezkum blöðum margvíslegar fréttir um það, sem hefði gerzt í þessum samningaviðræðum. Svör hæstv. utanrrh. voru í stuttu máli á þá leið, að það hefði ekki eitt einasta nýtt atriði komið fram í þessum tíu daga samningaviðræðum, það væri ekkert nýtt á ferðinni, og þetta sagði hæstv. utanrrh. daginn eftir, að hæstv. dómsmrh. hafði upplýst þessa hv. deild um ýmislegt, sem hefði komið fram og hefði gerzt, um ný viðhorf, sem væru komin fram í þessu máli. Daginn eftir að hæstv. dómsmrh. gaf sínar upplýsingar, sem ég skal koma að á eftir, kom hæstv. utanrrh. með skrifaða ræðu, sem þetta svar stóð í við hverri spurningu, eins og ég skal koma að. Það hefur ekkert gerzt, það hefur ekkert nýtt komið fram. — Hæstv. dómsmrh. sá strax, sá raunhyggjumaður sem hann er, að það þýddi ekki annað en segja Alþingi það, þremur vikum eftir að samningsviðræðunum í Reykjavík var lokið og eftir allt það, sem brezk og íslenzk blöð höfðu sagt um það, sem þar hefði gerzt, að það væri eitthvað nýtt á döfinni. Og hann rakti það frá sínu sjónarmiði, hver þessi nýju viðhorf væru. Hann hikaði ekki við það. Hann sagði t.d. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Verið er að kanna, hvort hægt sé að semja um miklu skemmri tíma,“ — ég skýt því hér inn í: það er skemmri tíma en 10 ár, — „með því að tryggja Íslendingum fiskveiðar á þeim tíma jafnvel eða betur en gert er með 12 mílna lögsögu. Þetta er viðfangsefnið.“ Þetta sagði hæstv. dómsmrh. Það er verið að kanna, hvort hægt sé að semja um skemmri tíma en áður hefur verið nefndur, — um skemmri tíma en 5 ár, sagði hæstv. dómsmrh. auk þess. Og hana sagði líka í þessari ræðu sinni: Það er ekki verið að tala um það að gera undanþágur frá 12 mílna reglunni einhvers staðar og einhvers staðar við landið. Nei, það er alls staðar. — Það er allsherjar frádráttur frá 12 mílna reglunni, sem er verið að kanna, hvort hægt sé að semja um. Annað mál er það, að hann bætti við, að það verður að kanna til hlítar, hvernig hægt er að bjarga þeim landsfjórðungum. Hæstv. dómsmrh. sagði enn fremur, með leyfi hæstv. forseta: Þarna verður að skoða hagsmuni hvers landshluta fyrir sig og íhuga hvort hægt er að finna lausn, sem tryggi okkar rétt jafnvel fyrir hvern landshluta, með því að veita mjög tímabundna heimild til fiskveiða innan 12 mílna gegn því, að við fáum ákveðin, ótvíræð hlunnindi þar á móti, — hlunnindi einnig til verndar fiskstofninum. — Og enn sagði dómsmrh.: Hitt veit allur þingheimur, að Íslendingar hafa ríka hagsmuni af því að láta deiluna við Breta eyðast, alveg eins og Bretar hafa ríka hagsmuni af því að fá þessa deilu út úr heiminum, ekki fyrst og fremst vegna sinna fiskveiðihagsmuna, heldur af öðrum ástæðum.

Ég átti ekki von á því, að hæstv. ráðh. gæfu Alþingi á þessu stigi málsins í umr. þessa máls nákvæmar, sundurliðaðar upplýsingar um ýmis atriði samningaviðræðnanna, sem hefðu komið fram. Ég tók það meira að segja fram, þegar ég lagði spurningarnar fyrir, að ég ætlaðist ekki til þess, en grundvallaratriðin, sem þegar hefðu komið fram, spurði ég um. Ég spurði um, hvort það væri lát á því grundvallaratriði, sem hefur verið alla tíð af Breta hálfu, að þeir viðurkenndu ekki rétt okkar Íslendinga til þess að taka okkur með einhliða ákvörðun 12 mílna fiskveiðilögsögu, og hvort af þessari breytingu á afstöðu Breta leiddi, að þeir væru nú reiðubúnir til þess að viðurkenna þennan rétt okkar, alþjóðarétt. Og ég spurði: Eru þeir nú reiðubúnir til þess að viðurkenna rétt okkar til landgrunnsins alls, sem við töluðum um í ályktuninni frá 5. maí 1959? Ég spurði um grundvallaratriði, ég spurði ekki um einstök atriði. En í upplýsingum hæstv. dómsmrh. gægjast fram mörg einstök atriði, eins og það, að það sé hér um að ræða, að það sé verið að kanna, hvort hægt sé að semja um allsherjar frádrátt kringum allt landið frá 12 mílna fiskveiðilandhelginni um einhvern tíma, skemmri tíma en tilboðið, sem barst íslenzku ríkisstj. um það bil, sem Genfarráðstefnan stóð yfir, sem við vitum um, íslenzkir alþm., aðeins úr þingtíðindunum brezku og brezkum blöðum, sem hefur aldrei verið upplýst hér um á Alþingi, fyrr en hæstv. dómsmrh. gerði það. Það kemur fram nú, að það muni hafa verið í 5 ár, sem okkur hafi þá verið boðið, eins og Færeyingum, og hæstv. dómsmrh. finnst það of langur tími. Það er of langur tími, en það verður hins vegar að ræða málið á þeim grundvelli og kanna, hvort það sé hægt að semja á þeim grundvelli, að það sé ekki dregið frá einstökum landshlutum, heldur frá landhelginni allri. — Þetta eru ekki veigalitlar upplýsingar, og ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þær. Hann hefur nú farið líklega um meiri hluta landsins og sagt sínum flokksmönnum það, sem honum býður við að horfa um það, sem fram hefur komið í þessu máli og hæstv. ríkisstj. veit um. Ég veit ekki, hvort það er meira eða minna en það, sem hann hefur sagt, þessi hæstv. ráðherra, í þessari hv. deild. En ég spurði og kann að meta það, að hæstv. dómsmrh. sagði meira en hæstv, utanrrh.

Viðfangsefnið — segir hæstv. dómsmrh. — er að tryggja Íslendingum fiskveiðar innan 12 mílna landhelginnar. Það er þá m.ö.o. að tryggja Íslendingum fiskveiðar á þeim hluta 12 mílna landhelginnar, sem Bretar hafa meinað okkur að veiða á undanfarin tvö ár með sínum herskipum. Þetta er þó vissulega eitthvert viðfangsefni. Hvað er þetta mikill hluti af landhelginni? Fróðir menn hafa talið, að þetta mundi vera um einn tíundi hluti. Og þetta er það, sem er kjarni málsins. Það er sem sé verið að kanna, hvort sé hægt að semja um, að Íslendingar fái að veiða á þessum tíunda hluta landhelginnar, sem Bretar hafa haft í sínum ýmsu hólfum undanfarin ár undir fallbyssukjöftunum, gegn því að veita þeim svo rétt upp að 6 mílum kannske — ég veit ekki breiddina — til eitthvað færri ára en fimm ára. Þetta voru að vísu í ræðu hæstv. dómsmrh. hálfkveðnar vísur. En ég kann þá ekki mál að skilja, ef þetta í meginatriðum fólst ekki í upplýsingum hæstv. dómsmrh., að þetta væri meginviðfangsefnið, hvort það væri hægt að semja um ákveðinn tíma, minni en 5 ár, til þess að Íslendingar mættu veiða innan 12 mílna landhelgi, gegn því, að Bretar mættu það líka. Hæstv. dómsmrh. hætti sér ekkert út í að segja, hvaða hlunnindi það væru, sem Íslendingar ættu kost á fyrir þetta, né heldur hverjar þær væru, þessar ríku ástæður, sem Bretar hefðu til þess að semja við okkur, sem væru allt aðrar en fiskveiðihagsmunir Breta. En fróðlegt væri að fá að vita betur um þetta: Hvaða hlunnindi eru það, sem við eigum að fá? Og hvaða ástæður eru það aðrar en fiskveiðihagsmunir Breta, hagsmunir nokkurra tuga togaraeigenda og hagsmunir nokkurra þúsunda brezkra togaramanna, — hvaða ríkari ástæður eru það, sem reka Breta til að semja? Væri ekki gott fyrir samningsaðila Íslendinga að vita af því, hvað rekur þá til að semja?

Úr því að hæstv. dómsmrh. var svo góður að segja okkur undan og ofan af því, sem hann hefur kannske verið að segja sínum flokksmönnum úti um landið undanfarnar vikur og þessa daga, mættum við þá ekki fá meira að heyra um þetta, um væntanleg hlunnindi okkur til handa, og nákvæmar, um viðfangsefnið, sem verið er að kanna, hvort hægt sé að semja um? Væntanlega hefur samningunum miðað eitthvað áfram, síðan við hæstv. dómsmrh: vorum að tala hér í hv. d. um þetta mál fyrir rúmri viku. Það eru samningamenn frá hæstv. ríkisstj. úti í Bretlandi, og hæstv. ríkisstj. hefur væntanlega einhverjar fréttir af því, hvernig þeim miðar áfram. Ég vænti þess, að dómsmrh. gefi okkur fyllri upplýsingar en hann hefur þegar gert.

En það er mikill munur á málflutningi hæstv. dómsmrh. og hæstv. utanrrh. Hæstv. dómsmrh. leggur hér fyrir og rökræðir skýrt, eins og hans var von og vísa, þau nýju viðhorf, sem hann telur liggja fyrir. En hæstv. utanrrh. vill fela allt saman fyrir hv. Alþingi. Hann neitar því, að það hafi komið fram eitt einasta nýtt atriði, eitt einasta nýtt viðhorf. Hæstv. utanríkisráðherra rakti það í löngu máli, að það hefði ekkert komið fram, að það hefði ekkert gerzt, alla leið frá 10. ágúst og dagana 1.–10. október og fram á þann dag, sem þetta frumvarp var fyrst rætt hér í hv. deild. Hann sagði: Við bárum fram okkar kröfur um landgrunnið allt. Við fylgdum því ákveðið eftir, sem yfir hafði verið lýst, og málstaður okkar skýrður á sama hátt og víð höfðum gert áður, og Bretar, — það er bezt að vitna í orð hæstv. ráðh. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Bretar gerðu einnig grein fyrir sinni afstöðu. Þeirra afstaða er þekkt. Hún kom seinast fram opinberlega á alþjóðaráðstefnunni í Genf. Þar kom það fram, að þeir vildu láta af andstöðu gegn 12 mílunum gegn tímabundnum rétti til að veiða á seinni 6 mílunum. Þessa afstöðu sína skýrðu Bretar í þessum umræðum. Af hálfu Íslendinga komu engar nýjar tillögur fram og engin tilboð. Bretar endurtóku og útskýrðu sina fyrri afstöðu. Þegar þetta hafði gerzt, var umræðunum frestað.“ Þetta sagði hæstv. utanrrh. Þetta voru allar upplýsingarnar, sem hann hafði að gefa hæstv. Alþ., og annað ekki. Þetta er það, sem fram hefur komið í umr. milli Breta og Íslendinga út af fiskveiðideilunni. Hæstv. forsrh. skýrði Alþ. frá því í heild í stórum dráttum, og við það er í raun og veru engu að bæta, sagði hæstv. utanrrh. mánuði eftir að viðræðurnar hér í Reykjavík hófust: engu að bæta. — Ja, ég verð að segja: Hafa þá ekki þessir tíu völdu menn af hálfu ríkisstj. Breta og Íslendinga til lítils setið í 10 daga, ef þeir hafa ekkert getað gert annað en að segja nákvæmlega það sama sem aðrir fulltrúar ríkisstj. Íslands og Breta höfðu áður sagt og þessum 10 völdu mönnum hefur ekki tekizt að gera þetta betur en svo, þ.e. endurtaka það, sem áður hefur verið sagt, betur en svo, að málin hafa ekkert skýrzt betur, en það voru óbreytt orð hæstv. utanrrh.? Hæstv. utanrrh. lofaði utanrmn. þann 10. ágúst, að strax þegar málin hefðu skýrzt betur, þá skyldi utanrmn. að sjálfsögðu verða sagt frá því og vera haft samráð við hana. En eftir allt þetta, mánuði eftir að samningsviðræður hefjast, hafa málin ekkert skýrzt betur. Hæstv. dómsmrh. hefur gefið upplýsingar, bæði hér á hv. Alþ. og ekki síður flokksmönnum sínum úti um landið. En það verður geymt, en ekki gleymt, að slíkan utanrrh. höfum við, sem ég hef hér lýst með hans eigin svörum. Þá sagði hæstv. utanrrh., að ég hefði sagt rangt frá um afstöðu hans fyrr og síðar og ósatt. Ég ætla ekki að eyða löngu máli á þennan hæstv. utanrrh. Ég ætla aðeins að spyrja hann: Er það rangt og ósatt, sem ég las upp úr fundargerð utanrmn. 27. apríl 1959, þar sem var bókað þetta, með leyfi hæstv. forseta: „að áliti utanrrh. kemur ekkert nýtt fram, ef við tökum málið aftur upp innan NATO, en í stað þess kunna að geta skapazt nýir örðugleikar“? Og er það rangt, sem eftir honum er haft í þessari sömu fundargerð, þar sem hann segir um tilmæli Breta til samningsviðræðna, sem hann réttilega sagði að væru ekkert nýtt mál, — er það rangt, sem ég hafði eftir honum, að bókað væri í fundargerð utanrmn. 27. apríl 1959, þetta: „En við hefðum svarað þessum tilmælum, að við séum ekki til viðræðna um stærð fiskveiðilögsögu Íslands“? Ég vil líka spyrja hæstv. utanrrh.: Er það rangt, ósatt, sem ég hafði eftir honum, sem hann lét lesa upp í ríkisútvarpinu 7. maí 1960, þetta orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Við miðum allt okkar starf að því að tryggja 12 mílna fiskveiðilögsögu og stöndum gegn öllu, sem skemmra gengur. Við munum berjast gegn öllum frádrætti, hverju nafni sem nefnist, tímatakmörkunum eða öðru, gegn öllu, sem veitir öðrum þjóðum fiskveiðiréttindi innan 12 mílna við Ísland“? — Og síðast, en ekki sízt, spyr ég hæstv. utanrrh., — er hann ekki hér nærstaddur, hæstv. ráðh., svo að hann heyri? (Gripið fram í: Hann heyrir, ráðherrann.) Það er gott. — Síðast, en ekki sízt, vil ég spyrja hæstv. utanrrh., hvort það sé rangt með farið og ósatt hjá mér, sem er bókað í fundargerð utanrmn. 13. júlí 1960, þar sem haft er eftir honum í sambandi við það, að það hafði oft komið fram hjá Bretum, að þeir leggja áherzlu á að taka upp viðræður við íslendinga um landhelgismálið, — er það rangt bókað, sem hér fer á eftir, með leyfi hæstv. forseta, sem svar utanrrh. 13. júlí s.l.: „Afstaða ríkisstj. nú“ — það er ekki vafi um það, að það er núverandi hæstv. ríkisstj. — „hefði verið sú sama og fyrri ríkisstjórna, að hafna tilmælum um samningaviðræður, þar eð ekkert væri við Breta að semja um víðáttu fiskveiðilögsögu við Ísland“?

Þetta voru orðin, sem ég benti á, um afstöðu hæstv. ráðh. fyrr og síðar. Ég tók það fram, að ég leyfði mér hér að vitna í fundargerðir utanrmn., vegna þess að hér væri um ákveðnar stefnuyfirlýsingar af hálfu ríkisstj. að ræða og af hálfu utanrrh. í stórmáli. Ég veit ekki til þess, að ég hafi borið hæstv. utanrrh. öðrum sökum en þeim að hafa gefið þessar ákveðnu stefnuyfirlýsingar fyrir hönd hæstv. ríkisstjórnar, sem nú situr, í þessu máli, sem hann sagði vera nákvæmlega í samræmi við stefnu og stefnuyfirlýsingar fyrri ríkisstjórna, — og það er hárrétt hjá honum. Stefna okkar í landhelgismálinu út á við hefur verið ein og hin sama, frá því að við tókum það upp, í raun og veru hin sama í meginatriðum síðan 1948, og allar ríkisstjórnir hafa haft þessa sömu stefnu út á við gagnvart öðrum þjóðum, og það var höfuðatriði málflutnings ráðh., og það var höfuðatriði í þeirri ræðu, sem ég flutti hér fyrir þessu frv. Ég hef ekki borið hæstv. utanrrh. neinum sökum. Það hafa aðrir gert. Ég gæti vitnað í ummæli t.d. hæstv. forsrh. og hæstv. dómsmrh., sem hafa borið hæstv. utanrrh. sökum um afstöðu hans í landhelgismálinu. Hæstv. forsrh. sagði það á árinu 1959, að hæstv. utanrrh. hefði verið kúgaður til þess að standa að útgáfu 12 mílna reglugerðarinnar vorið 1958, hann hefði verið svínbeygður til þess, hann hefði ekki gert það með glöðu geði. Og hæstv. dómsmrh. sagði líka á landsfundi Sjálfstfl., — ég hygg það hafi verið 14. marz 1959, það kann að vera, ég man ekki svo vel, hvenær var landsfundur Sjálfstfl., en ég held, að það sé rétt, — hann sagði orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Sök Guðmundar Í. Guðmundssonar er fólgin í því, að hann skyldi ekki hindra Lúðvík í þessu,“ þ.e.a.s. að gefa út 12 mílna reglugerðina. Þessir hæstv. ráðherrar hafa borið hæstv. utanrrh. sökum, nefnilega þeim sökum, að þegar hann gaf út 12 mílna reglugerðina, hafi hann verið að gera eitthvað gegn betri vitund, gegn sannfæringu sinni, af því að hann hefði verið kúgaður og svínbeygður til þess. En ég vil aðeins segja, að ef einhver hefur kúgað hann og svínbeygt hann til þess gegn sannfæringu hans, þá var það rétt og fallega gert að kúga hann til þess að hætta við að svíkja.

Ég held, að ég láti með þessu útrætt um hæstv. utanrrh. og lofi honum að sleppa með þetta. Ég vildi óska þess, að hæstv. utanrrh. væri úr þessu máli þar með. Ég veit, að það er ekki. En það er hæstv. utanrrh., sem skipti um skoðun eins greinilega og nokkur maður hefur skipt um skoðun, eða virðist hafa skipt um skoðun, frá 13. júlí í sumar og til 10. ágúst, þegar hann féllst á það þvert ofan í sínar fyrri yfirlýsingar margfaldar að fara að ganga að samningaviðræðum við Breta um fiskveiðilandhelgina. Hann vill ekki segja hv. Alþ. í þessari hv. þd. neitt um, hvað er að gerast. Hæstv. dómsmrh. hefur gert það lítillega, ekki nógsamlega, og ég vil nú snúa mér að því, sem hann upplýsti okkur um í ræðu sinni hér fyrir rúmri viku.

Hæstv. dómsmrh. fór, eins og raunar hæstv. utanrrh., hörðum orðum um minn málflutning. Hæstv. dómsmrh. sagði, að ég hefði sagt rangt frá ýmsum atriðum, sérstaklega um aðdraganda að setningu landhelgisreglugerðarinnar 1958, og a.m.k., sagði hæstv. dómsmrh., hefði ég átt að vita betur í ýmsum atriðum. Ég verð að segja, með allri virðingu fyrir hæstv. dómsmrh., að hann er ekki bezta vitnið um það, hvað gerðist hér á landi, hér í sölum Alþingis og annars staðar, vikurnar áður en landhelgisreglugerðin frá 30. júní 1958 var gefin út, og það af einfaldri ástæðu, þeirri ástæðu, að hæstv. ráðh. var þá ekki hér á landi og veit það ekki af eigin raun, hvað gerðist. Hæstv. ráðh. var einhvers staðar suður í sólríkum löndum að hvíla sig og sóla sig, — og segi ég það hæstv. ráðh. alls ekki til hnjóðs. Hann hafði staðið um tveggja ára skeið í harðri stjórnarandstöðu og gengið að henni með sínum alkunna dugnaði, svo að það var auðvitað, að hann væri þreyttur og allur af lagi genginn og þyrfti að hvíla sig og sóla sig, því að árangurinn af hans erfiði hafði ekki orðið eins mikill og hann hefði kosið. (Dómsmrh.: Ekki lifði nú stjórnin lengi.) En það var þá ekki fyrir aðgerðir hæstv. dómsmrh., því að hann var þar fjarri. Hitt kann að vera, að hæstv. dómsmrh. hefði orðið eitthvað órótt í sólbaðinu, ef hann hefði vitað, hvað nærri vinstri stjórnin var komin að því að gefa upp öndina, meðan hann var að sóla sig. En ég sagði ekki um þetta, svo að ég muni, nema það, sem var aðalatriðið í mínum huga a.m.k., að ég minntist þess ekki, að Sjálfstfl. hafi opinberlega mótmælt setningu landhelgisreglugerðarinnar frá 30. júní 1958. Ég minnti á það, að það komu fram frá honum raddir, sem settu út á ýmislegt í meðferð málsins og kannske á einhvern hlut í reglugerðinni. en ég minnist þess ekki, að hann hafi sem flokkur mótmælt setningu reglugerðarinnar, þótt hann tæki hins vegar sem stjórnarandstöðuflokkur ekki ábyrgð á henni. En það var haft samráð við Sjálfstfl., eins mikið samráð og Sjálfstfl. kaus að hafa, um allan undirbúning við setningu reglugerðarinnar.

Hæstv. dómsmrh. sagði að vísu, að það mætti vel vera, að þegar ég setti út á meðferð núv. hæstv. ríkisstj. á þessu máli, þá kynni að vera eitthvað til í því, eins og það kynni að vera eitthvað til í því, sem hæstv. dómsmrh. setti út á meðferð landhelgismálsins af hálfu vinstri stjórnarinnar, og þannig kynni svo að vera, að við hefðum báðir rétt fyrir okkur í þessu. Ég er ekki fjarri því að vera á sama máli og hæstv. dómsmrh. í þessu. Ég hef aldrei sagt, að meðferð landhelgismálsins í höndum vinstri stjórnarinnar hafi verið hin eina rétta, ekki einu sinni hin ákjósanlegasta. En ég er ekki að tala hér um þau atriði, sem snerta aðferðir í þessu máli, við höfum verið meira og minna ósammála um þau. Ég var að tala um hitt, þau höfuðatriði, sem við höfum verið sammála um, og ég lagði enga höfuðáherzlu á þessa ádeilu mína um meðferð málsins, því að það er vitanlegt, að við erum margir ósammála um aðferðir til að ná því marki, sem við höfum sem þjóð sett okkur í þessu máli. En það er ekkert nýtt, að menn geti verið ósammála og deilt hart um aðferðir, þótt þeir séu hjartanlega sammála um markmiðið.

En hæstv. dómsmrh. sagði: Það má vera, að það væri bezt að gefa út öll gögnin um aðdraganda að setningu landhelgisreglugerðarinnar 1958. — Ég er hæstv. dómsmrh. algerlega sammála, og ég skora á hann hér með að gefa út öll gögnin um aðdraganda að setningu reglugerðarinnar og öll gögn, sem eru til a.m.k. fram á þann dag, sem hún gekk í gildi, 1. sept. 1958. Ég skora auðvitað á hann að gefa út öll gögnin og draga þar ekkert undan. Þá mun koma í ljós, hvaða tillögur hver flokkur flutti. Þá mun koma í ljós, hvort Sjálfstfl. sem stjórnarandstöðuflokkur hafði sérstaka tillögu að gera um grunnlínurnar, sem dregnar voru, um víðáttu landhelginnar og um önnur atriði, sem þá snertu málið. Ég veit ekki betur en ég hafi tekið það fram, að ég minntist þess vel, að Sjálfstfl. hafði enga tillögu aðra en þá að fresta útgáfu reglugerðarinnar, vegna þess að það hefði ekki verið talað nógu lengi og nógu vinsamlega við Breta og aðrar vinaþjóðir okkar, en þetta var líka eina till., sem ég man eftir. En þessa tillögu, sagði ég, hefur einmitt hæstv. utanrrh. hrakið allra manna mest og bezt, og hæstv. utanrrh. er ekkert lélegur málflutningsmaður. Hann hefur hrakið hana margsinnis, þessa gagnrýni Sjálfstfl. á vinstri stjórnina um, að það hafi ekki verið talað nógu lengi við Breta og aðrar Atlantshafsbandalagsþjóðir, svo rækilega, að þegar forustumenn Sjálfstfl., hæstv. forsrh. og hæstv. dómsmrh., komu á nýjan leik með till. um að taka upp viðræður innan Atlantshafsbandalagsins við Breta og aðrar vinaþjóðir í Róm 1958, þá snerist hæstv. utanrrh. á móti því, og hann kvað niður og drap endanlega þessa einu till. Sjálfstfl. í landhelgismálinu 1958 á fundi utanrmn. þann 27. apríl 1959. Í staðinn var þá af forustumönnum Sjálfstfl., hæstv. forsrh. og hæstv. dómsmrh., samþykkt önnur till., sú till. sem við þekkjum allir, að lágmarkslandhelgi við Ísland í öllum tilfellum sé 12 mílur frá grunnlínum. Það var búið að hamla á móti því, svo að ég segi ekki berjast á móti því, að þessi setning væri í þessari sameiginlegu yfirlýsingu Alþingis, — það var búið að berjast á móti því mánuðum saman, — en hún er þar, og það var vel hugsað um það af jafnskýrum manni og hæstv. dómsmrh., hvers vegna hún hlaut að vera þarna, hvers vegna hann hlaut og Sjálfstfl. allur að samþykkja þar með aðgerðir vinstri stjórnarinnar í þessu máli, — og að því er hæstv. utanrrh. sagði: hafna nýjum viðræðum þar með við Breta og aðra vini okkar í Atlantshafsbandalaginu.

Það þýðir ekkert að koma nú með þau rök af hálfu Sjálfstfl., að það sé lífshætta sjómannanna á hafinu, íslenzkra sjómanna, íslenzkra varðskipsmanna, sem nú reki á eftir að taka upp samninga við Breta. Sú lífshætta er ekki meiri í dag en hún var þennan dag, 27. apríl 1959. Hún var allt árið 1959 og það sem liðið er af árinu 1960.

Það þýðir ekkert fyrir forustumenn Sjálfstfl. að koma nú með krókódílstár um lífshættuna, því að þeir gleymdu lífshættunni, frá því að þeir mynduðu ríkisstj. Alþfl. um áramótin 1958–59 til a.m.k. 10. ágúst í sumar, — þá gleymdu þeir henni. Hún er ekki meiri nú en hún hefur verið.

Það þýðir ekki heldur að koma nú og benda á þann efnahagslega háska, sem okkur sé búinn af löndunarbanni Breta. Ég veit, að það vofir yfir okkur. Og hæstv. utanrrh. upplýsti það rækilega í sinni ræðu hér fyrir viku, að löndunarbannið væri svo yfirvofandi, að brezka stjórnin hefði orðið að koma í veg fyrir það sjálf, að það gengi í gildi eftir tvo daga, þá 12. okt. Við höfðum fjögurra ára reynslu af löndunarbanninu, og það kom okkur ekki á kné. Það var almannamál og almenn skoðun meðal íslenzku þjóðarinnar, að það hefði orðið okkur til góðs, þó að Bretar hefðu ætlað okkur það til ills.

En hæstv. dómsmrh. ræddi um nokkur meginatriði í þessu máli, eins og það horfir við í dag, eins og hans var von og vísa. Ég þóttist gera það líka. Það var ekki uppistaðan í minni ræðu að vekja upp deilur um fortíðina. Allt, sem ég lagði áherzlu á í minni ræðu, var það, sem við höfum getað sameinazt um, allir flokkar hér á hv. Alþingi og öll íslenzka þjóðin, og þetta er auðvitað höfuðatriðið, sem að okkur snýr alþm. og okkar þjóð, jafnt í dag og það hefur verið, frá því að við tókum fyrst upp þetta mál.

Og hvað er það, sem hefur sameinað okkur alla, alla þingflokka, sem höfum gerhugsað þetta mál í áratug eða meira? Það er sú stefna, að öll skref, sem við tækjum í landhelgismálinu til útfærslu íslenzkrar fiskveiðilögsögu á grundvelli landgrunnslaganna frá 1948, yrðu tekin sem einhliða ákvörðun íslenzkra ríkisstjórna. Þetta er meginstefna okkar, allra ríkisstj., þetta er meginstefna íslenzku þjóðarinnar í málinu. Þetta hefur verið stig af stigi að fordæmi margra þjóða, sem á undan okkur hafa stigið sams konar spor til þess að færa út fiskveiðilandhelgi sína. Allar hafa þær gert það með einhliða ákvörðun, en ekki samningum, og þessar þjóðir eru nú orðnar milli 30 og 40 í heiminum. Við höfum stigið þrjú spor, hið fyrsta 22. apríl 1950. Þá var það hæstv. forsrh. núv., sem stýrði því. Hann tók ákvörðun, ef ég man rétt, um fyrstu reglugerðina, sem var sett þann dag á grundvelli landgrunnslaganna um útfærslu landhelginnar fyrir Norðurlandi. Ég skal játa, að það var erfitt, það var á ýmsan hátt smátt og fálmandi spor, en það var líka erfitt að taka á málinu þá. Málin stóðu þannig, að brezk-danski samningurinn frá 1901 var enn í gildi og gilti þangað til 3. október 1951, og samt vildu menn ekki bíða með að færa út landhelgina fyrir Norðurlandi. Og þá skapaðist það furðulega ástand, að Bretar fengu meiri rétt til fiskveiða við Ísland en nokkur önnur þjóð, meiri en íslendingar, meiri en allar aðrar þjóðir. Þetta var mikill ágalli á málinu, en samt var það gert og rökin eins og fyrr og síðar þau, að það mætti ekki bíða vegna nauðsynjar þjóðarinnar og að það mætti ekki semja.

Hæstv. utanrrh. kom að því vel og rækilega í umr. hér fyrir viku, að árið 1952, þegar hæstv. forsrh. fór með málið, þegar næsta reglugerðin var sett, hefði hann farið til London til að semja við Breta, áður en hún var sett. Ég er ekki svo nákunnugur setningu reglugerðarinnar 1950, að ég hafi neinar sannar fregnir af því, að þá hafi verið byrjað á því að kanna vilja Breta. Ég held, að það hafi ekki verið. Ég veit, að það kom á hæstv. dómsmrh. að starfa mikið að undirbúningi þeirrar reglugerðar, og hann hugsaði málið vel, og hans meginniðurstaða var þessi: Þegar við fyrsta skrefið, sem við Íslendingar tökum, verður það að vera alveg ljóst, vera meginatriði, að við tökum það samkvæmt rétti, sem við teljum okkur hafa, með einhliða aðgerðum okkar. En um setningu reglugerðarinnar 19. marz 1952 þarf ekkert að deila. Þar liggur það svo skýrt fyrir, hvaða rök voru flutt fyrir setningu hennar af hálfu þeirrar ríkisstj., sem þá sat. Það liggur fyrir í hvítri bók, sem gefin var út af hálfu utanrrn. íslenzka í sept. 1954 og útbýtt m.a. meðal fulltrúa í Evrópuráðinu. Þar var lögð megináherzla á þrennt:

1) Aðgerðirnar geta ekki beðið. Það er lífsnauðsyn íslenzku þjóðarinnar, sem krefst þess, að þær verði framkvæmdar þegar í stað, án nokkurs undandráttar.

2) Það liggja almenn vísindaleg rök fyrir því, að aðgerðirnar megi ekki dragast vegna verndunar fiskstofnanna.

3) Þær geta ekki beðið, vegna þess að það er þegar sýnt af reynslunni, að við fáum enga samninga. Þó að við kynnum að vilja fara þá leið, þá náum við engum samningum við viðkomandi þjóðir. Reynslan hefur sýnt okkur það. Við vitum líka, að það liggur ekki við borð, að það fáist innan skamms eða eins fljótt og lífsnauðsyn íslenzku þjóðarinnar krefst ákveðin alþjóðleg réttarregla um málið.

Þetta voru rökin, og þar með fylgdi auðvitað sterkur rökstuðningur fyrir því, að frá lögfræðilegu sjónarmiði væri íslenzku þjóðinni fullkomlega heimilt að gera þetta einhliða og á eigin spýtur og að það væri stefna hennar — ófrávíkjanleg stefna — að haga öllum aðgerðum í þá átt að færa út landhelgi sína með þeim hætti, eins og aðrar þjóðir hafa gert, að gera það með einhliða ákvörðun.

Allt þetta liggur fyrir í hvítri bók ríkisstj., sem gefin var út í sept. 1954. Þar var líka rakin framkoma Breta, síðan reglugerðin 1952 var sett, og hvernig þeir voru kærðir af hálfu ríkisstj. Íslands fyrir þá framkomu sína að beita íslenzku þjóðina efnahagslegum þvingunarráðstöfunum, löndunarbanni, vegna þessara aðgerða. Það var bent á það og sannað, að þetta löndunarbann var brot á samningum milli Íslands og Bretlands.

Það var brot á stofnsamningi Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu. En í þeim málflutningi, sem bæði þetta ár, 1954, og 1955 fór fram fyrir þessari stofnun, sem kölluð er Evrópuráð, um aðgerðir okkar í landhelgismálinu, en sá málflutningur liggur fyrir í hvítum bókum tveimur, eins og ég áður hef sagt, sem eru skrifaðar af sérfræðingum ríkisstj. Íslands í þessum málum, þá gengur það eins og rauður þráður í gegnum allan málflutninginn, að Íslendingar verði, hljóti að framkvæma stækkun landhelgi sinnar stig af stigi með einhliða aðgerðum.

Allur málflutningur okkar fyrir Evrópuráðinu, innan Atlantshafsbandalagsins og á þingum Sameinuðu þjóðanna og ráðstefnunum 1958 og 1960 byggðist á þessu sama, á þessum meginrökum, sem ég hef nú skýrt frá. Meginstefna okkar, stefna okkar ófrávíkjanleg í þessum málum er sú að framkvæma nauðsynlegar aðgerðir með einhliða ákvörðunum, en ekki samningum, enda hafa samningar aldrei verið til neins. Og við höfum líka fullan rétt til allra þeirra aðgerða, sem við höfum framkvæmt. Þetta er stefna og hefur verið stefna Alþingis, allra flokka á Alþingi, í raun og veru síðan 1948, en hún hefur komið skýrast fram í öllum þeim aðgerðum, sem gerðar hafa verið til að stækka fiskveiðilögsöguna 1950, 1952 og 1958. Og það var það, sem ég lagði megináherzlu á í minni fyrri ræðu, að ef við tökum upp samningsviðræður við Breta í því skyni, sem vitanlega er, að semja við þá um stærð, víðáttu fiskveiðilögsögunnar, þá erum við að brjóta niður ekki aðeins einingu okkar inn á við, við erum að brjóta niður alla málfærslu okkar gagnvart öðrum þjóðum í 10 ár. Við erum að gera okkur að viðundri á alþjóðavettvangi. Og það eru sömu mennirnir sem hafa farið á fund Breta, eins og hæstv. forsrh., og sagt við þá: Við getum ekki samið við ykkur um viðáttu lögsögunnar. — Ég er sannfærður um, að hæstv. forsrh. hefur sagt þetta við þá: Það er mál, sem við getum ekki samið við ykkur um, það er prinsipmál, af því að ef við semdum við ykkur einu sinni, þá stæðum við fastir þar. Svo einfalt er þetta. Þá ættum við það undir ykkur, hvort og hvenær við gætum tekið næsta skref til að stækka lögsöguna. Við yrðum bundnir við þennan samning við ykkur, ef við gerðum hann. En það viljum við ekki, því að við viljum stækka okkar fiskveiðilandhelgi eftir því, sem lífsnauðsyn íslenzku þjóðarinnar krefur, og eftir því, sem þjóðarétturinn þróast og segir þjóðunum í heiminum, að þær megi gera það, þ.e.a.s. þeim þjóðum, sem hafa vegna nauðsynjar sinnar áhuga á því að stækka fiskveiðilögsögu sína.

Þetta er stefna okkar, meginstefna okkar í áratug eða meira. Hverjir hafa mótað þessa stefnu? Það eru fyrst og fremst þeir, sem höfðu með það að gera að framkvæma fyrstu skrefin í landhelgismálinu 1950 og 1952, enda hafa þeir hælt sér af því, að þeir hafi mótað þessa stefnu. Og hverjir eru það? Það er Sjálfstfl. fyrst og fremst. Og ætlar svo Sjálfstfl. nú að ganga fram fyrir skjöldu og brjóta niður það, sem hann hefur talið stefnu þjóðarinnar, meginstefnu, prinsipstefnu þjóðarinnar í þessu máli, og stefnu sína? Það er hægt að segja: Verðum við ekki að ræða við Breta? Er það ekki bára kurteisisskylda að ræða við Breta? Það hefur verið sagt áður. Það hefur verið rætt við Breta, og það benti hæstv. utanrrh. einmitt réttilega á. Með sterkum rökum hefur hann kveðið niður yfirlýsingar Sjálfstfl. vorið 1959 um að fara nýja leið. Ég skal ekki segja, hvort það var gert 1950, en við ræddum áreiðanlega við þá 1952, áður en reglugerðin var sett. Við ræddum við þá eftir að reglugerðin var sett. Ábyrgir fulltrúar íslenzkrar ríkisstjórnar suður í París ræddu við þá 1954, meira og minna allt árið 1955 og fram á árið 1956. En hvað kom í ljós? Auðvitað það, sem gefið var að kæmi í ljós. Þegar okkar menn sýndu fram á ofbeldiskenndar aðgerðir Breta gagnvart okkur, ögranir, þá sögðu fulltrúar brezku stjórnarinnar, sem þar sátu: Þetta kemur ekki okkur við. Það eru togaraeigendur og yfirmenn á brezkum togurum í Hull og Grimsby, sem standa fyrir þessu, en ekki við. — En, sögðu þessir sömu brezku fulltrúar, hvers vegna gera brezku mennirnir þetta? Það er vegna þess, að þið hafið með óbilgirni bannað þeim að veiða við Ísland. Þess vegna, ef við förum að tala um þetta á annað borð, þá verðum við að tala um eitt, og það eru fiskveiðitakmörkin, sem þið hafið sett við Ísland. — Þá sögðu þeir skýru og góðu menn, sem stóðu á annað ár a.m.k. í þessu samningaþófi innan Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu með samþykki íslenzkrar ríkisstjórnar við brezka fulltrúa, — þá sögðu þeir: Nei, það megum við ekki tala um við ykkur, því að ríkisstjórn okkar segir: Það er ykkur alveg bannað að tala um. Það er prinsipmál allra ríkisstjórna á Íslandi að ræða ekki við Breta um víðáttu íslenzkrar fiskveiðilögsögu. — Ja, þá er ekki um neitt að tala, segja fulltrúar Breta vitanlega. Þá er ekki um neitt að tala. — Og ef nú í dag er ekki verið að tala um víðáttu íslenzkrar fiskveiðilögsögu, hvað er þá verið að tala um?

Nei, við höfum svo margra ára reynslu af samningsviðræðum við Breta, að ég fyrir mitt leyti trúi ekki á, að þær hafi verið hafnar, að skýrir og skarpir menn, eins og hæstv. dómsmrh., hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., láti sér detta í hug að byrja upp á nýtt, eftir að búíð er að reyna það öll þessi ár, nema þeir hafi vitað, að hverju þeir gátu gengið, að þeir gætu með einhverjum hætti fengið þá samninga um víðáttu fiskveiðilögsögu Íslands, þvert ofan í allt, sem þeir hafa sagt í 8 eða 10 ár, þvert ofan í allt, sem allir þingflokkar á Alþingi hafa verið sammála um, heldur brjóta það allt saman niður og semja um einhverja ákveðna stærð fiskveiðilandhelgi handa okkur og handa Bretum, hvernig ætti þar að skipta. En eins og ég sagði áðan, hefur það verið meginstefna okkar í öllum okkar aðgerðum, hvort sem þær hafa verið meiri eða minni, frá 1950–1958, að þær eru í fyrsta lagi einhliða og þær hafa allar verið gerðar vegna lífsnauðsynjar íslenzku þjóðarinnar, það hefur verið knýjandi nauðsyn, sem má ekki bíða. En þær eru allar gerðar í samræmi við þjóðarétt, eins og hann hefur verið á hverjum tíma. Við fórum ekki lengra en í 4 mílur 1952, ef því að við höfðum þá ekki fyrir okkur annað en úrskurð alþjóðadómstólsins í Haag í máli Norðmanna og Breta. Við sættum okkur við það, allir þingflokkar, að fara ekki lengra. Við sættum okkur við, að grunnlínurnar, sem enn þá gilda kringum Ísland, væru þá ákveðnar eins og þær voru ákveðnar, — þær eru ákveðnar í samráði við erlenda sérfræðinga, að þær væru lágmark, a.m.k. lágmark þess, sem þjóðarétturinn leyfði. Við fórum ekki lengra en í 12 mílur 1958, af því að við vildum ekki, að neinn gæti samið við okkur um það, að við færum lengra en væri áreiðanlega leyfilegt að þjóðarétti. Við höfðum þá fyrir okkur álit alþjóðalaganefndar Sameinuðu þjóðanna frá 1956, sem við byggðum þessa skoðun á að verulegu leyti, auk allra annarra raka okkar. En hver hefur svo þróun þjóðaréttarins orðið síðan í júní 1956, að alþjóðalaganefnd Sameinuðu þjóðanna gaf út sitt álit, sem við byggðum aðgerðirnar 1958 á?

Hæstv. dómsmrh. sagði einhvers staðar í sinni ræðu, að ég vildi ekki af einhverjum ástæðum tala mikið um það, hvað hefði gerzt síðan í vor. Það má vel vera, að ég hafi ekki talað nóg um það, sem hefur gerzt síðan í vor. En það, sem gerðist í vor á þjóðréttarráðstefnunni í Genf, var það, að 12 mílna reglan varð að lágmarkskröfu, það er ljóst. Ég man vel eftir því, og ég veit, að hæstv. dómsmrh, man vel eftir því, að áður en ráðstefnan hófst og áður en aðalfulltrúi Bandaríkjastjórnar lagði af stað á þá ráðstefnu, þá sagði hann í viðtali við mörg merkustu blöð Bandaríkjanna, að ef það tækist ekki að kveða 12 mílna regluna niður á þessari ráðstefnu, mundi hún flæða yfir heiminn á næstu árum og verða lágmarksregla og þjóðaréttur.

Sjútvmrh. Breta hældist um í viðtali við Morgunblaðið í sumar, að við hefðum, Íslendingar, veikt okkar málstað með flutningi brtt. okkar í Genf, og það er kannske í skjóli þess, að ríkisstj. Breta heldur okkur standa svo veikt í dag, að hún geti fengið okkur og hafi fengið okkur að samningaborði þvert ofan í allt, sem við höfðum sagt, þegar við höfum neitað því s.l. 8 ár. Það er kannske þess vegna. En það breytir engu um það, þó að brtt. okkar um sögulegan rétt og till. okkar um rétt strandríkis utan 12 mílna hafi ekki fengið nægilegt fylgi.

Það, sem kom í ljós á þjóðréttarráðstefnunni í Genf í vor, var það, að Bandaríkin með öllum sínum peningum og öllu sínu áhrifavaldi ráða ekki lengur yfir 2/3 hlutum atkvæða á neinni alþjóðaráðstefnu í heiminum, hvorki innan Sameinuðu þjóðanna né nokkurri ráðstefnu, þó að það séu eins og á hafréttarráðstefnunni kölluð til ríki og látin greiða atkv. á móti góðum málstað eins og á móti okkur. Það þýðir ekki neitt. Og þó að þessi hv. mister Dean færi umhverfis jörðina og kæmi við í meira en 50 ríkjum til þess að fá þau með góðu og illu til þess að standa með sér og Bretum á ráðstefnunni í vor, þá hafði hann ekkert upp úr því. Og það verður aldrei: Héðan af verður 12 mílna reglan ekki kveðin niður. Hún hefur þegar verið tekin upp með einhliða ákvörðun af milli 30 og 40 þjóðum, og þeim fjölgar óðum með hverju árinu sem líður. Í því efni höfum við ekkert að óttast.

Ég skal játa það, að ég hafði ekki búizt við því fyrir 10 árum, að þróun þjóðaréttarins í þessu efni yrði svo ör eins og hún hefur orðið. Ég hefði ekki búizt við því, að Bandaríkjunum tækist að glata á einum áratug áhrifavaldi sínu innan Sameinuðu þjóðanna og þar af leiðandi á öllum ráðstefnum innan þeirra og utan, eins og Bretar gerðu, en það land er nú úr sögunni.

Um þátt Bandaríkjanna í deilunni við okkur þarf ég að segja mörg orð, en sú saga er ljót. Ég get vel skilið þjóðirnar í Vestur-Evrópu, sem eru okkur andstæðar. Þær eiga allar hagsmuna að gæta. Þær hafa sótt á Íslandsmið, sumar öldum saman, Bretar næstum í 5 aldir. Þær eru okkur allar andvígar og neita okkur um allan rétt, en þær hafa hagsmuna að gæta. En afstaða Bandaríkjanna í landhelgismálinu, og þau hafa haft forustuna í þessari réttardeilu, sem er meira að segja á móti hagsmunum Bandaríkjanna, hún er tekin aðeins til þess að þóknast Bretum og kúga aðrar þjóðir af pólitískum ástæðum. Það er hægt að benda á mörg merk blöð í Bandaríkjunum, sem lýstu því, á meðan ráðstefnan í Genf stóð yfir, að ef sú samþykkt, sem þeir beittu sér fyrir, um sögulegan rétt, yrði að alþjóðlegri samþykkt, þá væri það alveg víst, að hún yrði ekki samþykkt um landhelgi Bandaríkjanna, hún væri ekki í svo góðu samræmi við hagsmuni amerískra fiskiskipa. Þannig er nú þeirra þáttur.

En það, sem hefur gerzt síðan ráðstefnan í Genf í vor fór út um þúfur, var ekki í samræmi við þetta. Héðan af er 12 mílna fiskveiðilandhelgi lágmarksregla að þjóðarétti um allan heim. Spurningin er aðeins fyrir þjóð eins og okkur, hvað lengra verður komizt.

Þetta viðurkenndi hæstv. dómsmrh. í sinni ræðu. Hann sagði: Landhelgismálið er leyst, 12 mílurnar er búið að vinna. — Það er rétt. En þá gerist fyrirbrigðið. Skömmu eftir þetta gerist það, að íslenzka þjóðin, sem hefur einn áratug staðið einhuga undir forustu Alþ. um það að stíga sín skref með einhliða ákvörðunum fast að þeim mörkum, sem væru lágmarkskrafa alþjóðaréttar, hún skiptir um stefnu. Hún vill taka upp samninga við Breta um minni landhelgi, samninga, sem hún hefur áður hafnað, um minni landhelgi en 12 mílur, hvað miklu minni, vitum við ekki, um einhvern ákveðinn tíma, sem hefði auðvitað þær afleiðingar, að við yrðum bundnir við þá samninga. En það eru rök okkar fyrir því alla tíð að gera ekki samninga um víðáttu lögsögunnar.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að hér væri vandi að gæta þess sigurs, sem þegar væri unninn, að tefla honum ekki úr hendi sér. Ég þekki hæstv. dómsmrh. vel frá fornu fari. Ég trúi því ekki, að hann ætli sér að vinna meiri sigur með samningum við Breta en við höfum þegar unnið. Hann álítur þá, að við höfum beðið mikinn ósigur í átökunum við Breta, bæði að því er löndunarbannið snerti forðum og herskipavernd Breta. Ég játa að vísu, að það kann að vera, að þetta hvort tveggja vofi yfir okkur. En við höfum reynt hvort tveggja áður, og Bretar hafa ekki komið okkur á kné með því. Við vitum, að ofbeldi Breta hér við land hefur mælzt illa fyrir um allan heim, og þó að ég viti, að brezka ríkisstj. hefur látið í það skína við íslenzku ríkisstj., að hún mundi eiga erfitt með að neita brezkum togurum um vernd hér við land, ef ekki yrði samið, og að í þessu liggi auðvitað hótun, þá trúi ég ekki, fyrr en ég tek á, að þeir þori enn þá, frammi fyrir öllum heiminum, að beita sínum herskipum enn og taka upp að nýju ofbeldi herskipanna við Ísland. Um löndunarbannið er það að segja, að það er sannfæring mín og það er sannfæring fjölda annarra manna, að eins og það kom okkur ekki á kné, þótt því væri framfylgt í a.m.k. þrjú ár, þá verður það ekki heldur nú.

Hæstv. dómsmrh. sagði um mig, að ég virtist ekki vilja gera mér ljóst, í hverju deilan við Breta væri fólgin, ég forðaðist eins og heitan eldinn að skýra það, í hverju deilan við Breta væri fólgin. Við höfum átt í deilum við Breta og fjölda annarra þjóða, réttardeilum. Hvað hafa þeir sagt? Þeir hafa sagt — undir forustu Bandaríkjanna: Þið hafið ekki rétt til þeirrar fiskveiðilandhelgi, sem þið hafið ákveðið. Þið hafið tekið ykkur hana sjálfir. Þið eruð sekir. Þessum ágreiningi eigið þið að skjóta undir alþjóðadómstólinn í Haag eða undir úrskurð Sameinuðu þjóðanna. Það á að skera úr um það þar. — Við höfum margoft neitað þessu. Við neituðum þessu með þeim rökum, meðan löndunarbannið stóð yfir, að Bretar skyldu fyrst upphefja sitt löndunarbann, og þá skyldum við taka þetta til athugunar. Við svöruðum því síðar, eftir að Bretar tóku upp hernaðaraðgerðir við Ísland, á þingi Sameinuðu þjóðanna, — aðalfulltrúi Íslands á þingi Sameinuðu þjóðanna, Thor Thors, svaraði þessu mjög vel. Hann sagði: Ætlast menn til þess, að við skjótum þessu viðkvæma deilumáli, sem er lífshagsmunamál Íslands, undir úrskurð alþjóðadómstólsins í Haag, meðan brezk herskip vaða um með hlaðnar fallbyssur við Ísland? — Nei, við höfum svarað þessu áður, og ég álít, að hvorugt þetta kæmi til mála sem lausn á deilu okkar við Breta, ef þessum þvingunarráðstöfunum og ofbeldisráðstöfunum er beitt. Ég er ekki frekar en hæstv. dómsmrh. afskaplega hræddur um það, að við hlytum að tapa málinu fyrir alþjóðadómstólnum í Haag. En það geta verið þær ástæður og þau prinsip, að við viljum ekki skjóta málinu þangað, vegna þess m.a., að við álítum það svo mikið lífshagsmunamál, að við megum með tilliti til þjóðar okkar ekki á neitt hætta.

En hæstv. dómsmrh. sagði, að ég hefði forðazt bæði að segja, hvers eðlis deilan væri við Breta og hvaða úrlausnir við stjórnarandstæðingar hefðum að leggja til í málinu. Deila okkar við Breta síðan haustið 1958 á ekki skylt við þá réttardeilu, sem við höfum verið í við þjóðirnar, sem standa á móti stækkaðri fiskveiðilögsögu, af því að í sept. 1958 ákvað brezka stjórnin að beita flota sínum gegn Íslendingum, og þessi verknaður hefur af sjálfum utanrrh. Íslands í hvítri bók verið nefndur brezk árás á Ísland, og það er nýtt atriði í málinu. Það er ekki deila, af því getur hlotizt deila, — en það er ekki deila milli manna, þó að maður ráðist á mann úti á götu og berji hann, veiti honum líkamlega árás. Það er þetta, sem er óafgreitt. Maðurinn, sem verður fyrir slíkri árás, er ekki í vandræðum, hann kærir þetta. En við vitum ekki, fyrir hverjum við eigum að kæra, því að við búum ekki við fullkomið alþjóðaréttlæti. Það er því miður ekki til enn. Lítil þjóð, sem verður fyrir vopnaðri árás af stórri þjóð, eins og við höfum orðið, veit ekki, hvert hún á að kæra til að leita réttar síns. En það að kaupa árásarmanninn til þess að hætta árásinni getur verið sjónarmið, en það er sjónarmið, sem ég fellst ekki á, og það er sjónarmið, sem ég trúi ekki að íslenzka þjóðin fallist á. Auk þess getum við bent á það, að hernaður Breta hefur verið svo árangurslítill þau tvö ár, sem honum hefur verið haldið uppi, að hann hefur ekki skaðað okkur að sama skapi sem hann er gerræðisfullur og ofbeldisfullur af þeirra hálfu. Við vitum, að þeir hafa orðið að draga saman herskipaflota sinn í ofur lítil hólf og skipa brezkum togurum að stunda þar veiðar, og þetta tekst illa.

Við höfum, eins og fleiri, eins og ýmsar þjóðir aðrar, gripið til varna hinna vopnlausu að þvælast fyrir og hafa ekki neitt ofbeldi í frammi á móti ofbeldi, og þetta hefur gefizt okkur vel, eins og það gafst Indverjum vel, og það eru fleiri, — Bretar kannast við þessar aðferðir, sem taka ofbeldi þeirra, vopnuðu ofbeldi, með þolinmæði, þangað til þeir verða að láta af því. Ég er sannfærður um, að það eru engin vandræði fyrir íslenzku þjóðina að grípa til þess ráðs, eins og hún hefur gert. Það er sannleikurinn. Við höfum hagað svo okkar landhelgisgæzlu, að við höfum varazt árekstrana og þreytt þá samt. Þetta er ekki háski. Löndunarbann er ekki heldur háski. Það eina, sem er satt, er auðvitað það, að sjómenn okkar og ekki sízt varðskipsmennirnir geta verið í lífshættu af völdum Breta, það höfum við getað sannað, þeir hafa verið í lífshættu af völdum brezkra togara, og við getum ekki komið í veg fyrir það. Því hefur ekki verið haldið fram af öllum flokkum, t.d. ekki hv. stjórnarflokkum, staðfastlega þau tvö ár, sem liðin eru, síðan þessi ofbeldisaðferð var tekin upp, að við yrðum vegna þessarar lífshættu að setjast að samningaborði við Breta og semja við þá til þess að firra okkar menn lífshættunni. Þvert á móti. Tillaga eða krafa Sjálfstfl. um, að við gengjum til viðræðna við Breta vegna þessarar lífshættu, sem ég viðurkenni, var látin liggja niðri alla vetrarvertíðina 1959, hún var látin niður falla með samþykkt Alþingis 5. maí 1959, og það hefur ekki heyrzt um hana talað, þessa till., þangað til 10. ágúst s.l. Þá var hún tekin upp og nú á auðvitað að framkvæma hana með því að leita eftir samningum á þeim fremur óljósa grundvelli, sem enn þá er kominn fram. En þær upplýsingar, sem þegar eru komnar fram, eru þó nógar til þess, að þær sýna, að það er verið að tala um það, eins og hæstv. dómsmrh. sagði, hvort það er hægt að semja um eitthvað minna en 12 mílna landhelgi.

M.ö.o.: mín niðurstaða er, að við höfum enga ástæðu til þess að setjast að samningaborði við Breta, í fyrsta lagi vegna þess, að það er þvert á móti meginstefnu Alþingis og íslenzku þjóðarinnar í 10 ár, þvert á móti yfirlýstri stefnu allra ríkisstjórna, sem hafa setið á Íslandi s.l. áratug, að núverandi hæstv. ríkisstj. meðtalinni, samkv. yfirlýsingu hæstv. utanrrh. Við höfum enga ástæðu til þess að setjast að samningaborði við Breta, því að ef upp úr slitnaði í fyrsta lagi, þá fengjum við aðeins verra ástand en áður; eins og hæstv. utanrrh. hefur líka bent á. En ef samið yrði, þá lokum við fyrir frekari aðgerðir í landhelgismálinu nema með samþykki Breta, og það hafa verið meginröksemdirnar fyrir því að semja ekki við Breta. Við höfum ekki heldur ástæðu til þess að semja við Breta vegna þess, að þeir hóti nú ofbeldi, sem við vitum að þeir gera, því ofbeldi, sem þeir hafa áður beitt okkur, löndunarbanni og herskipavernd. Við höfum ekki ástæðu til þess, af því að þetta hefur ekki skaðað okkur. Og í raun og veru hefur enginn flokkur, ekki hæstv. forsrh. og hans flokkur heldur, staðið við tillögur, sem þeir hafa að vísu skotið fram, um að við ættum að semja við Breta af þessum sökum, heldur hafa þeir hætt við það. Hæstv. forsrh. var nógu nákominn þeim mönnum, sem stóðu í samningunum suður í París í Efnahagssamvinnustofnun Evrópu 1954–56, til þess að geta haft nóg áhrif á það, hvort þá væri samið eða samíð ekki. Og mér er vel kunnugt um það, að hann sagði þá í samræmi við yfirlýsta stefnu ríkisstjórnar og Alþ.: Það má ekki semja við þá, og það má ekki einu sinni tala við þá um viðáttu landhelginnar.

Ef verið er að undirbúa samninga í þessu máli þvert ofan í allt, sem Alþ. hefur samþykkt einróma og einhuga, og verið er þar með að rjúfa þá samstöðu, sem þrátt fyrir allt hefur verið um höfuðatriði þessa máls milli allra þingflokka og með þjóðinni, þá er verið að vinna eitthvert hið versta verk, ekki aðeins í þessu málefni, heldur versta verk, sem hægt er að vinna.

Hv. talsmenn stjórnarflokkanna hafa sagt: Þetta frv. felur í sér aðeins 12 mílur frá núverandi grunnlínum, og hvorugt, hvorki núverandi grunnlínur né þessar 12 mílur, er neitt endanlegt mark Íslendinga. Þess vegna er varasamt að festa þetta í lög. — Ég vil taka það skýrt fram um hvor tveggja þessi atriði, að það er ekki af hálfu okkar flm. þessa frv. tilgangurinn að slá því föstu, að 12 mílna fiskveiðilandhelgin frá núv. grunnlínum sé neitt endanlegt takmark. Við erum reiðubúnir til samkomulags, — og það er í fullu samræmi við fyrri afstöðu okkar margra, — að færa út grunnlínurnar, færa þar meir til samræmis við það, sem við vitum nú að er viðurkennt lágmark að þjóðarétti. Við erum reiðubúnir til samkomulags um aðgerðir af hálfu Íslendinga til verndar sinna fiskstofna í samræmi við þeirra fyrri tillögur fyrir utan 12 mílurnar.

En ég sagði í upphafi máls míns: Þetta frv. er af hálfu okkar flm. aðvörun til hæstv. ríkisstj. Það er skýr yfirlýsing um það, að engin eining verður hér á hv. Alþ. né með þjóðinni um nokkurn afslátt nokkurs staðar við landið um nokkurn tíma frá þeirri 12 mílna fiskveiðilandhelgi, sem við höfum allir samþykkt og samþykkt að sé lágmarkskrafa okkar. Það verður engin eining um það. Og þess vegna er það aðvörun til hæstv. ríkisstj. um að láta ekki hafa sig til þess, hvorki með loforðum um fríðindi eða hlunnindi né hótunum um ofbeldi að semja um hana, því að þá gerist það versta, sem getur gerzt í þessu máli, að við berjumst innbyrðis. Eins og ég margoft hef sagt, þá hefur það þó, þrátt fyrir allar okkar deilur, verið vilji okkar allra að reyna að ná einingu um höfuðatriði, aðalatriði, þó að við höfum deilt um smærri atriði og þar með í landhelgismálinu.

Eins og þetta frv. er, eins og ég hef sagt, aðvörun til hæstv. ríkisstj., þá skal ég líka segja: það er tilboð til hæstv. ríkisstj. og hv. stjórnarflokka af hálfu stjórnarandstöðunnar. Ef hæstv. ríkisstj. vill standa og standa fast á því, sem hefur verið einhuga stefna Alþ. og allra ríkisstjórna, þá er stjórnarandstaðan reiðubúin til þess að fylgja hæstv. ríkisstj. fast í því. Ef hæstv. ríkisstj. vill ganga lengra, þá erum við reiðubúnir til þess að leita að samkomulagi um það. (Gripið fram í: Við Breta?) Ekki samninga við Breta, í fyllsta samræmi við allt það, sem hæstv. forsrh. — líka hæstv. forsrh. — hefur sagt við Breta af hálfu Alþingis og af hálfu íslenzku þjóðarinnar nærri til þessa dags, kannske ekki síðustu daga.