07.11.1960
Efri deild: 17. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í C-deild Alþingistíðinda. (2205)

33. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Svo sem fram hefur komið fyrr í þessum umr., verður ekki lengur um það deilt, að 12 mílna fiskveiðilögsaga er sú regla, sem í framtíðinni mun verða talin hafa allsherjargildi. Samþykkt hennar á Genfarráðstefnunni síðustu var að vísu bundin skilyrði um tíu ára umþóttunarfrest af hálfu nær 2/3 hluta þeirra, sem tóku þátt í ráðstefnunni, og sumir þeirra — og þar með sérstaklega Bretland og Bandaríkin — lýstu því yfir, að úr því að þessu skilyrði fengist ekki fullnægt, þá mundu þau ekki telja sig bundin af 12 mílunum, heldur hverfa til þess, sem þessir aðilar hingað til hafa talið gilda. Engu að síður verður ekki um það deilt, að með atkvæðagreiðslunum á Genfarráðstefnunni og því, sem síðan hefur gerzt, þá verður ekki lengur staðið á móti því, að 12 mílna fiskveiðilögsaga taki gildi, enda sýna hinir nýgerðu samningar Breta og Norðmanna það, að jafnvel Bretar hafa gert sér þessa staðreynd ljósa. Við erum þess vegna búnir að sigra í meginmálinu, því, að frá 12 mílna fiskveiðilögsögu verður aldrei horfið framar við Ísland.

Sú orrusta, sem mátti virðast nokkuð vafasöm um tíma, er þess vegna þegar unnin. Öll þau viðtöl, sem hafa átt sér stað af hálfu íslenzku ríkisstj. við hina brezku, byggjast að sjálfsögðu á þessari staðreynd, að brezka stjórnin falli frá mótmælum gegn 12 mílna fiskveiðilögsögu hér við landið og að fiskveiðilögsagan sé nú þegar 12 mílur, að því leyti sem yfirráðaréttur Íslendinga tekur til. Þetta er augljós og óumdeild forsenda af hálfu Íslendinga. Það er því algerlega rangt, þegar gefið hefur verið í skyn í þessum umr., sem hafa átt sér stað hér í d. að undanförnu, að nú sé um það að ræða að gera að engu 12 mílna fiskveiðilögsögu eða slaka þar til. Þvert á móti er, eins og ég segi, óhagganleg forsenda af okkar hálfu, að hún sé viðurkennd.

Hitt er svo allt annað mál, að við ráðum því, hvernig við notum þennan rétt okkar. Er þar skemmst að minnast þess ríkis, sem hefur haft forustu um 12 mílna landhelgi, ekki eingöngu 12 mílna fiskveiðilögsögu, heldur 12 mílna landhelgi, Sovét-Rússlands, að það hefur gert samning við Breta og heimilað þeim takmarkaðar veiðar innan þessara 12 mílna. Með engu móti er hægt að halda því fram, að á þennan veg hafi Rússar afsalað sér 12 mílna lendhelgi, enda dettur það engum í hug. Það er alviðurkennt, að þeir hafi 12 mílna landhelgi, og það mun meira að segja hafa komið fram hér í umr. eða á það minnzt, að gert var ráð fyrir því, að þó að gagnstæð regla hefði verið samþykkt á Genfarráðstefnunni, þá mundu Rússar hafa haft hana að engu. En þeir hafa kosið þann hátt á að beita forræði sínu yfir þessari 12 mílna fiskveiðilandhelgi á þann veg að heimila erlendu ríki tímabundnar og takmarkaðar fiskveiðar innan hennar. Þetta hafa þeir vafalaust gert af því, að þeir töldu sér slíka réttindaveizlu til hags. Það hefur ekki heyrzt, að þeir hafi fengið nein fiskveiðiréttindi í staðinn, en hvort þeir hafa fengið hagkvæma verzlunarsamninga við Breta eða einhver önnur hlunnindi, er mér ekki kunnugt um.

Af Rússa hálfu var því berum orðum lýst yfir við þessa samningsgerð, að hún fæli ekki í sér neinn afslátt af hálfu þeirra varðandi fullveldi þeirra innan þessarar 12 mílna landhelgi. Það er beiting þeirra á þeirra eigin fullveldi, sem kemur fram í því, að þeir veita öðru ríki viss réttindi innan landhelginnar, alveg á sama veg og maður afsalar sér ekki eignarrétti á húsi, þó að hann leigi einhverjum herbergi í húsinu um takmarkaðan tíma, vegna þess að hann telur það sér henta af einhverjum ástæðum. Hann er jafnt eigandi hússins, þó að hann veiti öðrum manni afnotarétt. Það er nauðsynlegt, að menn geri sér þetta ljóst, vegna þess að engum hefur komið til hugar að hvika í nokkru frá þeirri samþykkt, sem hér var gerð 1959 um fulla fiskveiðilögsögu Íslendinga að 12 mílna markinu. En einmitt vegna þess, að við höfum full umráð yfir þessari fiskveiðilögsögu, getum við ráðið því sjálfir, það er beiting á okkar rétti, hvort við heimilum öðrum einhver takmörkuð, tímabundin fiskveiðiréttindi innan þessara marka. Það haggar ekki á neinn veg réttargrundvellinum og dregur ekki á neinn veg úr okkar fullveldi á þessu lögsögusvæði, að því leyti sem við höfum tileinkað okkur það, sem er einungis varðandi fiskveiðarnar.

Hitt er svo allt annað mál, hvort menn telja hyggilegt að veita öðrum slík réttindi innan fiskveiðilögsögunnar. Það verður ekki um það deilt, að við höfum heimild til þess að veita þau, ef við viljum, og það haggar ekki rétti okkar yfir fiskveiðilögsögunni, það minnkar ekki okkar fiskveiðilögsögu. En hitt kann, eins og ég segi, að vera umdeilanlegt: Er það hyggilegt á nokkurn veg að veita öðrum slík réttindi? Um það getur mönnum sýnzt sitt hvað. En alveg eins og við höfðum sjálfir haft um það mismunandi reglur, að hve miklu leyti erlend skip mættu umþótta sig innan íslenzkrar fiskveiðilögsögu, — ný löggjöf var um það sett rétt eftir 1920 með miklu strangari ákvæðum en áður giltu, og síðan hafa stundum verið veittar með sérstöku lagaákvæði og samningum undanþágur frá þeim reglum, sem þar voru settar, en þrátt fyrir það datt engum í hug, að við værum að svipta okkur ákvörðunarvaldinu eða skerða á nokkurn hátt okkar fullveldi, jafnvel þó að við kynnum að telja það skynsamlegt að heimila öðrum ríkjum einhver tímabundin, takmörkuð fiskveiðiréttindi innan, 12 mílna fiskveiðilögsögunnar.

En það verður ekki metið, svo að rétt sé, hvort skynsamlegt sé að gera slíka samninga, nema því aðeins að íhugað sé, hvers eðlis sú deila er, sem við eigum nú í við Breta, og þá að sjálfsögðu ekki heldur nema íhugað sé, hvers eðlis þeir samningar eru, sem kunna að verða gerðir. Um þá samningsgerð er það að segja, sem áður hefur komið fram, að hún hefur enn ekki verið hafin. Það hefur einungis verið, eins og ég sagði í minni fyrri ræðu, kannað, hvort unnt væri að gera samninga um viss atriði. Menn hafa þreifað hver á öðrum, en sjálf samningsgerð er ekki einu sinni hafin. Engin tilboð hafa verið gerð af hálfu hvorugs aðila, og að sjálfsögðu kemur það ekki til mála, að Ísland verði á nokkurn hátt bundið, nema því aðeins að fullt samráð hafi verið haft við Alþingi Íslendinga, eins og margoft hefur verið yfir lýst.

En alveg eins og það hefur komið fram, m.a. verið margsagt af mér, að það lá í loftinu og var vitað á Genfarráðstefnunni, að þá gátum við samið um viðurkenningu á 12 mílna fiskveiðilögsögu okkar, ef við veittum öðrum 5 ára fiskveiðirétt innan þessarar lögsögu, þá voru þeir samningar aldrei gerðir, þeir voru ekki einu sinni hafnir, engu að síður vitum við, að það var mögulegt að ná slíkum samningum, alveg á sama veg hefur ríkisstj. talið nauðsynlegt að kanna nú, með hverjum hætti sé hægt að ná samningum til að eyða deilunni við Breta. Niðurstaða þeirrar könnunar liggur ekki fyrir enn, og skal ég því ekki rekja það mál frekar í einstökum atriðum en ég gerði í minni fyrri ræðu. Ég vil einungis taka það fram vegna mishermis, sem átt hefur sér stað, bæði í blaðafrásögnum og jafnvel í ræðum hér á Alþingi, að þegar ég talaði um að veita tímabundinn, takmarkaðan fiskveiðirétt innan okkar 12 mílna fiskveiðilögsögu og lagði áherzlu á, að það værum við, sem leyfið gæfum til þess, þá tók ég það berum orðum fram og alveg ótvírætt, að það gæti því aðeins komið til álita af minni hálfu, að önnur fiskveiðihlunnindi kæmu í staðinn, sem tryggðu okkar rétt betur eða a.m.k. jafnvel og 12 mílna fiskveiðilögsagan, og stæðu þó slíkir samningar af okkar hálfu ekki nema um mjög stutt árabil. Þetta er berum orðum skráð í minni ræðu og ekkert um að villast. Ég talaði þarna fyrst og fremst um önnur fiskveiðihlunnindi og þá ekki, eins og hv. 5. þm. Reykn. talaði hér um, hlunnindi á þann veg, að við ættum að hafa frið á einhverjum svæðum innan þessara 12 mílna, heldur vitanlega um fiskveiðihlunnindi utan 12 mílna fiskveiðilögsögunnar núgildandi. (Gripið fram í.) Ég heyrði ósköp vel, hvernig hv. þm. lagði út af ummælunum, og því verra er, ef hann hefur haft ummælin fyrir sér, að hann skyldi svo misfara með þau í sinni túlkun. Það hefði verið sök sér, ef hann hefði ekki lesið þau. (Gripið fram í.)

Það liggur fyrir allt, sem ég hef sagt í þessu máli, og ég hef ekki oftalað mig í því, og færi betur, að svo væri um hv. stjórnarandstæðinga einnig. Hitt er svo rétt, sem fram kom hér í ræðu hjá einum þm., að að lokum verður það auðvitað metið, — ef til samninga kemur, sem enginn, getur sagt enn, — þá verður það metið, hvernig til tekst, og það er bezt að vera með sem minnsta spádóma um það á þessu stigi. Þeir samningar eru þess eðlis, að það er ekki hægt að ræða einstök atriði þeirra hér á opnum þingfundi, eins og sakir standa, það vita allir þm. ofur vel, en málið verður lagt fyrir þm., eins og áður hefur verið lýst, áður en til úrslitaákvarðana kemur.

En þá kem ég að því, hvort deilan við Breta sé þess eðlis, að við höfum hag af því að eyða henni. Og þá er rétt að rifja það upp enn og aftur, að deilan við Breta er nú orðið efnislega í sjálfu sér ekki lengur um gildi 12 mílna fiskveiðilögsögu til frambúðar, heldur um hitt, hvort eigi að veita þeim heimild til þess að umþótta sig, að koma sínum málum í það horf, að þeir geti að eigin dómi við unað breytinguna. Þeir hefðu vafalaust verið fáanlegir á Genfarráðstefnunni til þess að semja um 5 ára frest. Það töldum við ekki aðgengilegt.

En hversu lengi er hætta á, að þessi deila geti staðið, ef ekki eru gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að eyða henni, og hvaða tjóni kann þessi deila að vera búin að valda okkur, áður en henni lýkur, ef ekki er að gert? Það eru atriði, sem við verðum að meta, og það vil ég segja hiklaust, sem ætti ekki að þurfa, að í því mati tjáir ekki að fara eftir því, þótt við teljum, að Bretar hafi rangt fyrir sér, hafi beitt okkur ofbeldi, hafi komið öðruvísi fram en skyldi. Um þetta erum við öll innilega sammála, og það ætti ekki að þurfa að verða ágreiningsefni okkar í milli. En því miður er það oft svo í mannlegu lífi, að menn verða að taka hlutunum eins og þeir eru, þó að þeir séu öðruvísi en við kysum, að byggja á staðreyndunum eins og þær eru, þó að þær séu ekki eins og við vildum að þær væru. Það er að vísu talað um það af sumum, að það sé lítillækkandi fyrir litla þjóð að sættast við aðra, sem hafi beitt hana ofbeldi. Það má vel vera, að það sé lítillækkandi. En þótt mjög ólíku sé saman að jafna, þá hygg ég, að þeir séu ekki margir, sem taki undir það, að t.d. Finnar hafi lítillækkað sig með því að semja við Rússa og una því sambandi á milli þeirra tveggja ríkja, sem nú er. Við vitum, að meginþorri Finna vildi fremur kjósa að vera í öðru nágrenni og óskaði að geta strokið um frjálsara höfuð en finnska þjóðin gerir. En enginn hefur orðið til þess að vefengja, að hún gerði rétt, þegar hún sættist við Rússa, og það er hin eina skynsamlega og framkvæmanlega stefna, sem valin var af hálfu finnskra stjórnmálamanna. Eins er það, að við verðum auðvitað að átta okkur á í skiptum okkar við Breta, að svo ógeðfelld sem þau hafa verið á margan veg í þessari deilu, þá hafa þjóðir fyrr og síðar komið fram á svipaðan veg og Bretar hafa gert gagnvart okkur. Það er að vísu liðinn tími sums staðar, en sums staðar ekki. Það er náttúrlega eftir því, hvar menn eru staddir í heiminum, og við skulum minnast þess, að í þessari deilu erum við nú þegar búnir að sigra að meginstefnu til.

Þegar Bretar hófu sitt herhlaup til Íslands 1. sept. 1958, var það ekki til þess að knýja okkur til samþykktar stutts samningstímabundins réttar þeim til handa um fiskveiðar innan 12 mílna. Ég hygg meira að segja, — og það geta þeir ráðherrar, sem voru í þáv. hæstv. ríkisstj., betur upplýst en ég, — ég hygg, að það hafi legið fyrir af hálfu þeirrar hæstv. ríkisstj., að hún mundi þá hafa verið fús til að semja við Breta um einhvern tímabundinn rétt þeim til handa til fiskveiða innan 12 mílnanna, ef það væri einungis mjög takmarkaður, tímabundinn réttur. Það vildu Bretar þá alls ekki fallast á. Þá kröfðust þeir eilífrar sögulegrar kvaðar. Þá kröfðust þeir þess, að mega fiska a.m.k. upp að 6 mílum um alla framtíð. Nú eru þeir gersamlega horfnir frá þessari kröfu, sem var meginkrafan og aðaldeiluefni þannig að ég hygg, að þeir séu nú þegar reiðubúnir til þess að samþykkja þá skilmála, sem íslenzka stjórnin lét fala á árinu 1958. Það hefðu einhvern tíma ekki þótt léleg endalok á baráttu eins minnsta ríkis í heimi við þriðja mesta stórveldið, ef að lokum baráttunnar væri svo komið, að stórveldið vildi fallast á þá friðarsáttmála, sem smáríkið setti, áður en baráttan hófst, og það hefur heldur aldrei verið talið skynsamlegt að láta hita baráttunnar egna sig svo upp að gleyma því, hver var tilgangurinn og hvað fyrir mönnum vakti í fyrstu.

Það er að vísu sagt nú, að þessi deila við Breta skipti okkur ekki miklu máli. Og þó eru með réttu höfð sterk orð um það, hversu svívirðilegt ofbeldi þeirra sé og þeirra ágangur. Og ég verð að segja, að mér fannst það heldur kaldranalega mælt af hv. 5. þm. Reykn. hér um daginn, þegar hann sagði: Íslenzkir sjómenn eru hættunum svo vanir, að það munar ekki mikið um, þó að þessi hætta verði lögð á þá til viðbótar.

Guð gefi, að ekki rætist, að sú hætta þurfi að verða lögð á þá til viðbótar. Það eru ærnar hættur hér af höfuðskepnum, þó að við umfram lífsnauðsyn aukum ekki á þá hættu, sem okkar sjómenn leggja sig daglega í. (FRV: Hæstv. ráðh. gleymdi þessari hættu allt árið 1959. — Forseti: Ég bið hv. þm. að reyna að hafa stjórn á sjálfum sér.) Ég held, að þessi hv. þm. geri nú betur í að koma með skrifaðar ræður eftir vikuvinnu heldur en að vera hér stöðugt að gjamma fram í. Það væri þó frekar von, að hann gæti eitthvað sagt af viti. (FRV: Það verður nú að segja eitthvað um þetta af viti, hvers vegna hann gleymdi þessari hættu á þessum tíma.)

Það verður því miður ekki um deilt, að þessi hætta er fyrir hendi, og sá, sem neitar að horfast í augu við það, hann vanrækir sína skyldu, alveg eins og hættan getur leitt til þess, að þessi deila magnist og verði alvarlegri en nokkur af okkur, sem hér erum inni, í raun og veru vill, því að auðvitað vitum við það öll, að enginn vill að óþörfu leggja þessa hættu á okkar sjómenn. En ef hér yrði manntjón, og ég minni á það, að það var guðs mildi, að svo skyldi ekki verða á s.l. sumri, þá eru sköpuð þau atvik, sem eins og ég segi gera það að verkum, að málið að verulegu leyti kemst úr okkar höndum og verður mun alvarlegra og örlagaríkara en okkur hefði órað fyrir. Þar tjáir ekki að kenna öðrum aðila um og segja: Hann gæti gætt sín betur. — Við verðum bara að horfa á atburðina eins og þeir eru og sem góðir og skynsamir menn gera okkar varúðarráðstafanir fyrir fram, en ekki bíða þangað til ófarnaðurinn er yfir okkur kominn.

Það er einnig óvefengjanlegt, að löndunarbannið í Englandi er okkur mjög til tjóns. Hv. 5. þm. Reykn. sagði raunar, að það væri skoðun sín og margra, að löndunarbannið skaðaði okkur ekki. Við vitum það að vísu, að okkur tókst að komast fram úr löndunarbanninu árin 1952–56. En allir vitum við, að það varð okkur til tjóns, enda var mikil áherzla á það lögð af hálfu þáverandi ríkisstj. allrar að fá því löndunarbanni eytt, og það var eitt af fyrstu verkum vinstri stjórnarinnar hæstv. að semja um það við Breta, að það skyldi úr sögunni. Og okkur tjáir ekki að neita því, það liggur í augum uppi, að einkanlega togaraútgerð okkar og þá togbátaútgerð er það verulegur hnekkir og getur ráðið úrslitum um möguleika hennar til starfrækslu nú á næstu mánuðum og vissum árstímum, meðan deilan stendur, hvort unnt er að sigla til Englands eða ekki. Þetta veit hver einasti maður, sem eitthvað er kunnugur útgerð og háttum við sjávarsíðu hér, og þarf ekki að fjölyrða um.

Við skulum játa það hreinlega, að við höfum ríka hagsmuni af því, að þessi deila hverfi. Hitt er annað mál, að við erum sammála um það, að þó að þeir hagsmunir séu ríkir, þá er það ekki óendanlegt, sem við getum innt af hendi í staðinn til að fá deilunni eytt. Það gat aldrei komið til mála, að við veittum Bretum eilífðar sögulegan fiskveiðirétt innan 12 mílna fiskveiðilögsögu til þess að fá deilunni eytt. En ef, — og ég segi ef, — ef einungis er um það að ræða, að Bretar sætti sig nú við það sama sem þeir neituðu að sætta sig við sumarið 1958, en við hefðum þá talið mikinn sigur í þessu máli, og ef einungis er nm svo skamman frest að ræða, að þar sé hámark 5 ár og þó helzt eitthvað verulega skemmri tími, sem um er að ræða, og ef við fáum önnur fiskveiðihlunnindi fyrir utan 12 mílna fiskveiðilögsöguna núgildandi, sem séu jafnmikils virði a.m.k. og þau fiskveiðihlunnindi, sem við þennan takmarkaða tíma veitum Bretum innan fiskveiðilögsögunnar, þá vil ég kanna alla þá samningsgerð og möguleika til hlítar, áður en þeim möguleikum er hafnað.

Ég tek það skýrt fram, að enn er þetta mál ekki svo ljóst, að unnt sé að segja, að þessi kjör séu fáanleg, en ríkisstj. telur það þess virði að kanna til hlítar, hvort þau séu fáanleg og hvort nokkrir afarkostir fylgi þá, sem geri það að verkum, að ekki sé ráðlegt að leysa deiluna með þessum hætti, um leið og ég geri mér grein fyrir, að þarna eru auðvitað mörg vandasöm matsatriði, sem skoða verður til hlítar. Það er jafnfráleitt að segja: Það skal semja — eins og að segja, að samningar séu svik. Það er hvort tveggja jafnmikil fávizka og óvit.

Hver eru þá þau úrræði önnur, sem til greina koma, heldur en þessar viðræður og könnun, sem ég hef nú rætt um? Ég spurði hv. flm. að því í minni fyrri ræðu: Hvernig vilja þeir eyða deilunni við Breta? Ég játa, að þeir tveir aðaltalsmenn frv., sem þessu reyndu að svara, voru hreinskilnir, bæði hv. 2. þm. Vestf. og hv. 5. þm. Reykn.

Hv. 2. þm. Vestf. sagði: Það er tíminn. Tíminn leysir deiluna.

Það voru hans einu svör. Þá vitum víð það. En er vert að taka þau óþægindi, þá áhættu, sem samfara er því, að deilan stendur um óákveðinn tíma, ef við getum leitt málið til lykta á okkur hagkvæman hátt með mjög skömmum tímafresti. Það er að vísu rétt, að við Íslendingar erum þrautseigir, og við höfum staðið okkur, þegar á allt er litið, vel í þessari deilu þrátt fyrir innbyrðis ágreining um sum atriði. En Bretar eru einnig nokkuð þrautseigir, og það var hv. 5. þm. Reykn., sem viðurkenndi það í orðum sínum hér um daginn, að af hálfu Breta væri hér um réttardeilu að ræða. Við teljum, að Bretar hafi rangt fyrir sér. Þó að sumir hafi af einhverjum ástæðum verið allsendis ófúsir og nánast talið það landráð, ef sagt væri, að við ættum að vera viðmælandi um það að leggja það mál fyrir alþjóðadómstólinn, þá teljum við samt, að við höfum rétt fyrir okkur. En gallinn er sá, eins og hv. 5. þm. Reykn. sagði á dögunum, að Bretar telja sig líka hafa rétt fyrir sér. Þeir telja, að við höfum brotið á þeim réttarreglur. Þeir telja þess vegna, þegar þeir eru að okkar dómi með ofbeldi innan íslenzkrar fiskveiðilögsögu, að þeir séu að hindra óheimilt ofbeldi okkar. Og það er meira en hugsanlegt, það er því miður líklegt, að ef Bretar telja, eftir að þeir eru búnir að falla frá sinni meginkröfu, að við séum með öllu óviðmælandi um að þeirra mati nauðsynlegan frest til þess, að þeirra sjómenn og útvegsmenn geti umþóttað sig, þá taki þeir sér þennan rétt sjálfir og haldi áfram að athafna sig eins og þeim líkar innan fiskveiðilögsögu, ekki aðeins í 5 ár, heldur um óákveðinn tíma. Þetta er sú lækning tímans, sem hv. 2. þm. Vestf, vísaði á. Það er áframhaldandi ofbeldi af hálfu Breta um óákveðinn tíma með óákveðnum og ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir alla aðila.

Meiri uppgjöf um ráðleggingar til þess að komast úr alvarlegu vandamáli hef ég aldrei heyrt á Alþ. Íslendinga, nema ef vera skyldi, þegar hv. 5. þm. Reykn. bættist í hópinn s.l. föstudag og fór að segja frá sínum úrræðum. Þau voru nánast engin. Hann sagði ekki einu sinni: Tíminn. — Hann sagði: Við erum beittir ofbeldi, en við vitum bara ekkert, fyrir hverjum við eigum að kæra. (Gripið fram í.) Ég vildi kæra atferli Breta strax haustið 1958. Það liggur ótvírætt fyrir, og ég skal segja það bara í einni setningu, að allt það, sem hv. 5. þm. Reykn. hefur að segja um tillögur okkar um viðtöl frá haustinu 1958 og þangað til fram á vorið 1959, er gersamlega rangt og alveg snúið við því, sem fyrir liggur í skjölum málsins. Að öðru leyti skal ég ekki fara að eltast við hans ósannindarugl. (FRV: Vill hann þá kæra núna, hæstv. ráðh., og fyrir hverjum?) Ég er að benda á leið til þess að leysa þessa deilu, og ég skora á þá, sem hafa aðra leið, að gera grein fyrir henni, og þá skulum við athuga það mál.

Það er mjög athyglisvert, að hv. 5. þm. Reykn., sem sagðist ekkert vita, fyrir hverjum ætti að kæra, er málsvari sama flokksins og Þjóðviljinn, þar sem hvað eftir annað hefur verið vísað á ákveðnar leiðir til að leysa þetta mál. Hv. 5. þm. Reykn. sagði: Við eigum að viðhafa friðsamlega mótspyrnu. Hún hefur verið reynd annars staðar og gefizt vel og hefur einnig gefizt okkur vel í þessari deilu við Breta.

Þjóðviljinn hefur þarna verið á allt annarri skoðun. Í því blaði var í sumar birt grein, þar sem ráðizt var á landhelgisgæzluna fyrir dugleysi í þessu máli og sagt, að ráðið væri ósköp einfalt. Það væri ekki annað en að setja vélbyssu um borð í flugvél, sem landhelgisgæzlan hefur yfir að ráða, og hefja skothríð á brezka togara innan íslenzkrar fiskveiðilögsögu. Þá mundi skjótlega fara svo, að togararnir færu.

Er þetta sú leið, sem hv. þm. telur vænlega? Ég tel það honum til lofs, en ekki til lasts, að hann skuli ekki taka undir annað eins óvit og þarna var upp á stungið.

Í Þjóðviljanum birtist grein eftir nafngreindan mann ekki alls fyrir löngu, þar sem stungið var upp á þremur úrræðum, sem öll mundu vera mjög áhrifarík gagnvart Bretum. Það fyrsta var að slíta stjórnmálasambandi við Breta, annað að kæra þá fyrir Atlantshafsbandalaginu og þriðja fyrir öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Í þessu sambandi er einnig rétt að minnast þess, að í Tímanum hefur hvað eftir annað verið um það talað, að rétt væri að kæra Breta fyrir Bandaríkjastjórn með tilvísun til varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna. Enn fremur var nýlega grein í Þjóðviljanum, þar sem talið var sjálfsagt, að við ættum að kæra fyrir Sameinuðu þjóðunum, og þegar farið að lýsa því, hversu áhrifaríkt það yrði, þegar umboðsmenn Sameinuðu þjóðanna væru komnir um borð í okkar skip, sem færu að stugga Bretum út fyrir línuna.

Blöð þessara hv. þm. skortir sem sagt ekki ráðin til þess að leiða deiluna til lykta. En það er mjög athyglisvert, og ég legg ríka áherzlu á það hér, að hvorugur, hvorki hv. 2. þm. Vestf. né hv. 5. þm. Reykn., tekur undir þessar tillögur. Það er vegna þess, að þeir hljóta að hafa gert sér grein fyrir, að þær eru verri en gagnslausar. Annars mundu þeir vafalaust gerast talsmenn þeirra hér. Annars mundi hv. 2. þm. Vestf. ekki vísa bara í tímann, sem muni frelsa okkur, og hv. 5. þm. Reykn. ekki gera sig svo bágan að segja:, Það er á okkur ráðizt, en ég veit ekkert, fyrir hverjum ég á að kæra, — og geta ekki bent á eina einustu leið til að leysa deiluna.

Það er auðvitað hægt að benda á ýmsa annmarka, sem því séu samfara að semja um þetta mál við Breta. Því hefur verið haldið fram, að ef við semdum við þá, þá mundi það hindra okkur í því að gera einhliða ákvarðanir síðar til frekari friðunar fiskimiðum. Ég vil einungis minna á það, að Ísland hefur þegar markað sína stefnu í þeim málum. Það var með þeirri tillögu, sem lögð var fram af hálfu vinstri stjórnarinnar á Genfarráðstefnunni 1958 og endurtekin nú á Genfarráðstefnunni 1960, og í ályktun Alþingis frá vorinu 1959, þegar talað er um að leita viðurkenningar annarra ríkja á rétti okkar til landgrunnsins. Þarna er af réttum aðilum mörkuð stefnan í þessum málum og hvernig sókn skuli fram haldið.

Það var einnig sagt hér, að ekkert ríki hefði stækkað fiskveiðilögsögu sína með samningaumleitunum við önnur ríki. Nú er alls ekki um það að ræða hér af okkar hálfu, að mönnum komi til hugar að semja um sjálfa fiskveiðilögsöguna við Breta, heldur einungis er um það að ræða að eyða þessari deilu og kanna til hlítar, hvort hægt sé að gera það á þann veg, að við í senn fáum þá ótvíræðu hagsmuni, sem eru því samfara, að deilan hverfi, og jafnframt þá skipan á fiskveiðum við landið, meðan á skömmum samningstíma stendur, sem sé ekki óhagkvæmari frá íslenzku sjónarmiði en núverandi skipan. En af þessu tilefni er þó rétt að minna á, að samtímis því, sem hér er sagt á Alþingi, að ekkert ríki hafi leitað samninga við aðra um stærð sinnar fiskveiðilögsögu, heyrum við daglega um, að okkar nánasta frændþjóð, Norðmenn, er að semja við Breta og nú við Vestur-Þjóðverja um stækkun á sinni fiskveiðilögsögu, — sú þjóð, sem er okkur nánust að frændsemi, hefur um margt svipaða hagsmuni og tilheyrir sama réttarsamfélagi og víð Íslendingar.

Það stendur á sama, hvar niður er gripið: Af hálfu stjórnarandstæðinga er því miður svo víða málum blandað eða villandi með farið, að það væri löng saga, ef rekja ætti til hlítar, sem ég ætla ekki að gera. Ég tel miklu nær að ræða um sjálft vandamálið heldur en taka þátt í einskisverðu karpi um það, sem þrátt fyrir allt eru aukaatriði.

Að lokum vildi ég aðeins víkja að því frv., sem hér liggur fyrir og á þá væntanlega að ræða um, þó að hv. flm. þess hafi eytt tíma sínum mest í annað. Það er komið upp, að það er alls ekki efni frv., sem þeir eru um að hugsa, og hv. 5. þm. Reykn. sagði það berum orðum: Það má alls ekki skilja frv. eins og það stendur þarna. Ef þið viljið setja eitthvað meira í það, ef þið viljið færa út grunnlínur, ef þið viljið gera landhelgina stærri, þá er þetta tilboð til ykkar, sem við skulum athuga til hlítar. — Þó stendur í frv., að fiskveiðilögsagan skuli vera sú, sem nú er, með núgildandi grunnlínum og þeim 12 mílum, sem ákveðnar eru. Hefur þá mannlegt mál enga merkingu lengur, ef þannig er gersamlega hægt að hlaupa frá meginefni eins frv. strax við 1. umr. þess?

Það kom líka glögglega fram, bæði hjá þessum hv. þm., hjá hv. 2. þm. Vestf. á dögunum og hv. 5. þm. Austf., að hér er alls ekki um neitt venjulegt lagafrv. að ræða. Efni málsins er það, að þeir segja: Við treystum ekki núv. ríkisstj.. og víð viljum binda hennar hendur, þess vegna er þetta frv. sett fram. — Þetta er kjarni þess, sem þeir hafa sagt um sjálft málið. Þá segi ég: því bera þeir ekki frekar fram einfalda vantrauststillögu heldur en bera fram jafnvanhugsað frv. og það, sem hér liggur fyrir?