08.11.1960
Efri deild: 18. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í C-deild Alþingistíðinda. (2208)

33. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Þegar 1. flm. þessa frv. lagði það hér fyrir hv. d., ræddi hann eingöngu efni frv. sjálfs, og var bersýnilegt af hans málflutningi, að tilgangur hans var sá að halda sér innan þess ramma, sem frv. sjálft markaði, en stofna ekki að fyrra bragði til almennra umr. um landhelgismálið í heild.

2. flm. frv. fór hins vegar á annan veg að, eins og ég hef áður vikið að. Hann ræddi frv. litið sem ekki neitt, en hóf hins vegar miklar ásakanir á ríkisstj. í sambandi við meðferð landhelgismálsins. Ég tel það að vísu illa farið, að nú skuli hafa verið stofnað til illdeilna og átaka um landhelgismálið á Alþ., vegna þess að við Íslendingar þurfum á því að halda frekar en flestu öðru að geta staðið saman í þessu máli, en vera ekki að vekja sundrung og átök. En með því að bæði 2. flm. frv. og síðar 1. flm. þess í síðari ræðum sínum hafa deilt á ríkisstj. fyrir meðferð hennar í málinu, þá sá ég mér ekki annað fært en víkja nokkuð að þeim einstöku atriðum, sem hér hefur verið drepið á í sambandi við landhelgismálið í heild.

Ég vil fyrst rétt aðeins minna á, að í frumræðu minni tók ég fram, að hv. 5. þm. Reykn. (FRV) hefði í ýmsu haft rangt eftir mér í frumræðu sinni varðandi yfirlýsingar mínar á fundum utanrmn. Ég gat þess, að ég ætlaði ekki að fara að tína hér upp nein einstök atriði, en vék aðeins að einu sem dæmi. Ég tók það sérstaklega fram, að það væri algerlega rangt eftir mér haft hjá þessum hv. þm., að ég hefði í utanrmn. lofað því, að málið skyldi borið undir n., áður en viðræður við Breta væru teknar upp.

Hv. 5. þm. Reykn. reyndi í ræðu sinni á föstudaginn að færa rök fyrir þeim orðum, sem hann þóttist eftir mér hafa á fundum utanrmn., en það er athyglisvert, að í öllum þeim upplestri, sem hann hér viðhafði, fann hann ekki ein einustu ummæli frá mér, þar sem því var lofað, sem hann hafði haldið fram í sinni fyrstu ræðu að ég hefði lofað á fundum n., enda er slíkt ekki hægt, því að ég hafði ekkert það fyrirheit gefið, sem þessi hv. þm. hefur viljað upp á mig herma. Það má segja, að það sé lofsvert, að þessi hv. þm. reynir ekki lengur að halda þessum röngu fullyrðingum sínum fram. Hins vegar verð ég að segja, að mér þykir dálítið hvimleitt að sjá það í blaði hans í morgun, Þjóðviljanum, að þá er enn verið að halda á lofti röngum fullyrðingum, í sambandi við fyrirheit af hálfu ríkisstj. um samráð við Alþ. og utanrmn. að því er meðferð landhelgismálsins varðar. Í þessari grein Þjóðviljans er að vísu ekki rangt haft eftir mér, heldur hæstv. forsrh. Þjóðviljinn hermir í morgun, að forsrh. hafi við þingsetningu heitið því, að fullt samráð skyldi haft við Alþ. um allt það, sem gerðist í landhelgismálinu, að því er varðar viðræðurnar við Breta. Þingtíðindanna vegna þykir mér rétt að vekja athygli á því, að hér er algerlega rangt eftir forsrh. haft. Hann sagði það eitt, að málið mundi borið undir Alþ., áður en endanleg ákvörðun yrði tekin. Það er mjög leitt og ósæmilegt af stjórnarandstöðunni í þessu máli að vera hvað eftir annað að gera sér leik að því að gera ríkisstj. og einstökum ráðh. upp orð og loforð í sambandi við þetta mál, sem eiga sér ekki nein rök í veruleikanum. Læt ég svo útrætt um þetta.

Mikill hluti af ræðum þeirra stjórnarandstæðinga, sem í þessu máli hafa talað, hefur snúizt um það að deila á ríkisstj. fyrir að hafa tekið upp viðræður við Breta um lausn landhelgismálsins við þá, og hafa þeir fullyrt, stjórnarandstæðingar, að með þessu hafi ríkisstj. brotið „prinsip“ allra ríkisstjórna um a.m.k. 10 ára skeið og allra stjórnmálaflokka á Íslandi síðan 1948. Hv. 5. þm. Reykn. komst svo að orði, eð það hefði verið „prinsip“ allra ríkisstjórna á Íslandi að ræða ekki við Breta um víðáttu íslenzkrar fiskveiðilögsögu. Hann sagði, að meginstefna okkar í þessum málum sé sú að framkvæma nauðsynlegar aðgerðir með einhliða ákvörðunum, en ekki samningum eða viðræðum við aðrar þjóðir. Hann sagði enn fremur: Þetta er og hefur verið stefna Alþingis og allra flokka á Alþingi.

Hv. 2. þm. Vestf. tók mjög í sama streng. Hann komst svo að orði, að tvennt hafi verið óhagganlegt í landhelgismálum Íslendinga undanfarin 10 ár: í fyrsta lagi að semja ekki við aðrar þjóðir um, hvenær við færðum út fiskveiðilandhelgina eða hvað mikið, og í öðru lagi að víkja ekki frá teknum ákvörðunum um útfærsluna. Á sama hátt voru fleiri ummæli þessara tveggja hv. þm. um þetta atriði. Mér þykir nú rétt að rekja nokkuð í stórum dráttum, á hvaða rökum þessi og önnur slík ummæli eru reist.

Það liggja fyrir ótal skjöl og gögn í málinu, sem hægt er að styðjast við til þess að kryfja til mergjar, með hverjum hætti á landhelgismálinu hefur verið haldið á undanförnum áratug, að því er þetta atriði varðar. Ég vil fyrst aðeins minna á, að þegar verið var að undirbúa afgreiðslu landgrunnslaganna á Alþingi 1948, var það mál að sjálfsögðu rætt í utanrmn. Í 1. gr. landgrunnslagafrv. er sjútvmrn. heimilað að ákveða takmörk verndarsvæða við strendur landsins innan takmarka landgrunnsins með reglugerð. Við umr. í utanrmn. kom það greinilega fram, að þarna var um „prinsip“ að ræða, „prinsip“, sem heimilaði ríkisstjórnum að færa út með einfaldri reglugerð allt að endimörkum landgrunnsins. En það var þá skoðun allra þeirra, sem um frv. fjölluðu í utanrmn., að áður en í nokkra útfærslu yrði ráðizt samkv. landgrunnsl., þá yrði að athuga vel, hverjar undirtektir annarra þjóða yrðu undir slíka útfærslu. Fulltrúi kommúnista í n., Einar Olgeirsson, sagði á nefndarfundi 9. marz 1948 og lét bóka eftir sér, að það hefði alltaf verið litið svo á í utanrmn., að í frv. væri fólgin yfirlýsing um yfirráðarétt Íslendinga yfir landgrunninu. Hefði þá jafnframt verið gert ráð fyrir því, að athuga þyrfti undirtektir annarra ríkja, áður en frekari ráðstafanir væru gerðar. Það liggur sem sagt fyrir í utanrmn. yfirlýsing frá fulltrúa kommúnistaflokksins um það, að hann og hans flokkur séu samþykkir landgrunnsl. með því fororði og á grundvelli þess, að ekki verði ráðizt í útfærslu fiskveiðitakmarkanna án þess, að athugað sé áður, hverjar undirtektir annarra ríkja væru undir útfærsluna hverju sinni. Á þessum forsendum samþykkir fulltrúi kommúnistaflokksins landgrunnslögin og lýsir því yfir og lætur bóka eftir sér í utanrmn. Síðan kemur þm. þessa sama flokks 12 árum síðar hér á Alþ., hv. 5. þm. Reykn., og segir: Það hefur alla tíð verið „prinsip“ allra stjórnmálaflokka á Íslandi að ræða ekki við aðrar þjóðir um ákvarðanir í sambandi við útfærslu fiskveiðilögsögunnar. — Hann sem sagt snýr gersamlega við því, sem fulltrúi hans eigin flokks hafði gert að forsendu fyrir samþykki sínu við landgrunnslögin 1948. Þetta getur kallazt að snúa málunum við í heldur myndarlegum mæli. Og sannleikurinn er sá, að í framkvæmd hefur þessari grundvallarkenningu að ráðfæra sig við aðrar þjóðir, áður en í útfærslu væri farið, verið fylgt í hvert einasta skipti, sem til útfærslu á fiskveiðilögsögunni hefur komið.

Ég minnti á það í minni fyrri ræðu, að þegar ráðizt var í útfærsluna 1952, hafi þessu „prinsipi“ verið fylgt. Ríkisstj. gaf út hvíta bók 1954 um útfærslu fiskveiðilögsögunnar 1952. Í þessari hvítu bók er birt bréf, sem hæstv. utanrrh. 1952 ritaði sendiherra Breta í Reykjavík út af útfærslunni. Í þessu bréfi tekur utanrrh. mjög vel og skilmerkilega fram, að áður en ráðizt var í útfærsluna 1952 og gengið var frá reglugerð þar um, hafi forsrh., Ólafur Thors, farið til London til þess að ræða við brezku ríkisstj., láta hana vita, hvað væri að gerast á Íslandi, og kynna henni afstöðu okkar og undirbúning útfærslunnar. Í þessu bréfi er lögð alveg sérstök áherzla á, að um það sé ekki að villast, að viðræður hafi átt sér stað á milli ríkisstj. Íslands og ríkisstj. Bretlands, áður en reglugerðin um útfærsluna var gefin út. Það þýðir ekki neitt fyrir hv. stjórnarandstæðinga að ætla sér að reyna að komast fram hjá þessu. Það liggur fyrir skýrt og ótvírætt og skjallega sannað, að stefnunni frá 1948, þegar landgrunnslögin voru sett, um að ræða við aðrar þjóðir, áður en í útfærslu væri farið, var fylgt árið 1952.

Nákvæmlega hið sama á sér stað árið 1958, áður en farið er í útfærsluna þá, en þó bara í miklu ríkari og fullkomnari mæli en 1952. Við tókum árið 1958 ekki upp viðræður við einstök ríki, við ríkisstj. einstakra ríkja út af fyrir sig. Við tókum málið upp innan Atlantshafsbandalagsins, og til þess lágu tvær ástæður. Í fyrsta lagi bar okkur samningsleg skylda til þess gagnvart bandalaginu að ræða málið innan þess, og í öðru lagi var þetta hinn ákjósanlegasti vettvangur, sem var hægt að fá, vegna þess að innan Atlantshafsbandalagsins voru einmitt öll þau ríki saman komin, sem höfðu gagnstæðra hagsmuna að gæta við Ísland. Það var því mjög eðlilegt og heppilegt, að viðræðurnar skyldu teknar upp einmitt innan Atlantshafsbandalagsins og að hægt skyldi á þeim vettvangi að fullnægja því „prinsipi“, sem slegið var föstu 1948, sem sagt að ræða við aðrar þjóðir, áður en í útfærslu var farið.

Viðræðurnar innan Atlantshafsbandalagsins stóðu frá því í byrjun maí 1958 og fram í september 1958. Það var allt gert, sem hægt var, af okkar hálfu til þess að fá bandalagsþjóðir okkar til að fallast á fyrirætlanir okkar um útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Og þó að þessar viðræður hafi ekki borið þann árangur, að þær viðurkenndu allar okkar útfærslur, þá báru þær samt mjög þýðingarmikinn árangur. Það var vitað, að margar bandalagsþjóðir okkar hugsuðu sér að halda áfram að veiða við Ísland með sína togara innan 12 mílnanna, eftir að útfærslan gengi í garð, hvað sem við segðum og hvert sem við færum. Viðræðurnar innan Atlantshafsbandalagsins leiddu til þess, að Bretar urðu einir um þetta, en aðrir drógu sig til baka.

En meðferð málsins innan Atlantshafsbandalagsins sumarið 1958 var ekki eingöngu viðræður og ekkert annað, heldur var það miklu meira. Það fóru tillögur á milli ríkisstjórnar Íslands og Atlantshafsbandalagsins um lausn á þessu vandamáli. Ég minnti á það í minni fyrri ræðu, að ríkisstj. Íslands hafi í maímánuði sent tilboð til Atlantshafsbandalagsins um lausn á ágreiningnum út af fiskveiðilögsögunni. Að þessu tilboði stóðu Framsfl. og Alþfl., og ég efast ekki um, að Sjálfstfl. hafi einnig verið þessu samþykkur. Þetta símskeyti var sent til Atlantshafsbandalagsins frá ríkisstj. Íslands 18. maí 1958. Í þessu skeyti býður íslenzka ríkisstj., að ef bandalagsríki okkar vilji viðurkenna þegar í stað 12 mílurnar, vilji viðurkenna vissar grunnlínubreytingar gegn því að fá um nokkurra ára skeið að veiða takmarkað á seinni 6 mílunum, þá sé ríkisstj. reiðubúin til að taka málið upp til endurskoðunar og athugunar á þeim grundvelli. Og það var látið fylgja með, að þessi orð okkar þýddu það, að ef Atlantshafsbandalagsríkin vildu á þetta fallast, þá mundi ríkisstj. beita sér fyrir því, að inn á þetta yrði gengið hér heima líka. Þarna bjóðum við beinlínís upp á að gera samkomulag um það við bandalagsríki okkar að haga ákvörðunum okkar í sambandi við útfærslu fiskveiðilögsögunnar með vissum hætti, sem þau geti fallizt á, ef þau vilji viðurkenna aðgerðir okkar. Við bjóðum þeim þarna að láta aðeins koma til framkvæmda strax 6 mílurnar fyrri, en seinni 6 mílurnar ekki nema að takmörkuðu leyti fyrr en eftir nokkur ár.

Þegar maður lítur á þetta tilboð, sem þarna er gert um lausn á málinu, þá furðar mann að heyra hv. 2. þm. Vestf. segja, að það hafi verið alveg ófrávíkjanlegt „prinsip“, að við semdum ekki um það við aðrar þjóðir, hvenær við færðum út fiskveiðilandhelgina og hve mikið, eftir að hann sjálfur hefur átt aðild að því að bjóða bandalagsríkjum okkar í Atlantshafsbandalaginu að haga framkvæmd okkar í landhelgismálinu þannig, að þær geti sætt sig við, ef þær vilji viðurkenna aðgerðir okkar. Það liggur því svo greinilega fyrir sem frekast má vera, að þarna er ekki aðeins rætt við aðrar þjóðir um útfærslu fiskveiðilögsögunnar, heldur er einnig boðið upp á samkomulag, bæði að því er víðáttu útfærslunnar varðar og einnig að því er tímamark varðar. En þessu okkar tilboði var hafnað. Bandalagsríkin voru á þessu stigi málsins ekki við því búin að viðurkenna 12 mílurnar, jafnvel þó að þessi fríðindi kæmu á móti.

En málinu var ekki lokið innan Atlantshafsbandalagsins með þessu. Reglugerðin um útfærslu fiskveiðilögsögunnar var að vísu gefin út 30. júni, en umr. innan Atlantshafsbandalagsins til lausnar á málinu héldu engu að síður áfram. Þann 13. ágúst leiddu þessar umr. til þess, að ríkisstj. barst uppástunga um lausn á fiskveiðideilunni frá Atlantshafsbandalaginu. Uppástungan var þess eðlis, að bandalagsþjóðir okkar vildu á það fallast, að landgrunnið sunnan Reykjaness og út af Vestfjörðum skyldi friðað fyrir botnvörpuveiðum, en útfærslan kringum landið skyldi ekki fara fram þegar í stað. Það kom fram af þessu tilboði og öðrum upplýsingum, sem við fengum í sambandi við það, að hér var ekki um endanlegt tilboð að ræða, heldur aðeins um umræðugrundvöll, og var óskað eftir því, að frá okkur kæmi gagntilboð í þessu efni. Þetta mál var rætt á milli Alþfl. og Framsfl. og við Sjálfstfl. Niðurstaðan varð sú, að það þótti ekki aðgengilegt að víkja landhelgismálinu úr þeim farvegi, sem því hafði verið veitt inn í með ákvörðuninni um 12 mílurnar, og þess vegna var því slegið föstu, að þessu tilboði skyldi hafnað og að ekki skyldi gert annað tilboð á sama grundvelli. En þegar við vorum að athuga þetta tilboð og ganga frá svarinu, þá lýsti Framsfl. því yfir, að hann væri reiðubúinn að fallast á þá lausn landhelgismálsins, að ef bandalag okkar vildi fallast á 12 mílna landhelgina, þá megi þeir fiska á seinni 6 mílunum næstu 3 árin, enda verði grunnlínum yfir Húnaflóa og fyrir austan Langanes og á einum stað við Suðausturlandið breytt. Það var till. Framsfl., að þessu tilboði Atlantshafsbandalagsins yrði svarað með því að hafna lausn málsins á þeim grundvelli, en minna á okkar fyrra tilboð í því formi, sem ég nú hef lesið upp, og bjóða fram lausn málsins á þeim grundvelli. Sjálfstfl. fylgdist með þessum umr., og ég hef ekki ástæðu til að efast um, er miklu frekar sannfærður um, að hann var þessu einnig samþykkur. Þetta varð til þess, að við ákváðum, Alþfl. og Framsfl., í samráði við Sjálfstfl. hinn 20. ágúst 1958 að senda Atlantshafsbandalaginu svo hljóðandi svarskeyti við þessu tilboði, með leyfi hæstv. forseta:

„Höfum athugað fram komna tillögu um lausn landhelgismálsins og getum ekki fallizt á hana og ekki borið fram neinar tillögur til lausnar málinu á þessum grundvelli, en minnum á okkar fyrri tillögu um viðurkenningu á 12 mílum gegn því, að erlendir veiði á seinni 6 mílunum um takmarkaðan tíma, enda verði grunnlínum breytt.“

Þarna standa Alþfl. og Framsfl. ásamt Sjálfstfl. að því þann 22. ágúst 1958 að bjóða það til samkomulags við Atlantshafsbandalagið, að ef þjóðir þess vilji viðurkenna 12 mílurnar og fallast á vissar grunnlínubreytingar, þá séum við reiðubúnir til þess að heimila þeim að veiða á seinni 6 mílunum kringum allt landið um takmarkaðan tíma. Þetta tilboð, sem hér liggur fyrir, þarf engrar skýringar við. Reglugerðin hafði verið gefin út 30. júní. Þrátt fyrir það standa þessir þrír stjórnmálaflokkar að því að gera bandamönnum sínum tilboð um að hnika um takmarkaðan tíma til á 12 mílunum, ef þeir vilji veita viðurkenningu fyrir þeim. Þegar maður lítur á þessa staðreynd, er enn furðulegra að heyra hv. 2. þm. Vestf. fullyrða hér í hv. d., að það hafi verið óhagganlegt í landhelgismáli Íslendinga undanfarandi tíu ár í fyrsta lagi að semja ekki við aðrar þjóðir um, hvenær við færðum út fiskveiðilandhelgina eða hve mikið, og víkja ekki frá teknum ákvörðunum um útfærsluna, — hann, sem sjálfur hefur boðið að víkja frá settri reglugerð, hann, sem sjálfur hefur boðið að hnika til um framkvæmdatíma á seinni 6 mílunum.

Ég held, að ég þurfi ekki að færa frekari rök fyrir því og leggja fram frekari gögn fyrir því, að það, sem hv. stjórnarandstaða hefur haldið hér fram um prinsipbrot af hálfu núv. ríkisstj. í sambandi við þetta mál, er hið mesta öfugmæli. Það, sem núv. ríkisstj. er að gera og hefur gert, er ekkert annað en að fylgja eftir þeirri línu, sem farið hefur verið eftir, frá því fyrst var verið að ganga frá setningu landgrunnslaganna. Þau voru, eins og ég sagði áðan, byggð á því „prinsipi“, að rætt yrði við aðrar þjóðir, áður en farið yrði í útfærsluna, og þessu hefur verið vel og dyggilega fylgt eftir af þeim ríkisstj., sem með málið hafa farið alla tíð síðan.

Ég furða mig að vísu ekki svo mikið á því, að flokkur hv. 5. þm. Reykn. hefur skipt um skoðun á því, hversu á landhelgismálinu skuli halda. Þegar landgrunnslögin voru sett á sínum tíma, var það áreiðanlega einlægur vilji allra stjórnmálaflokka á Alþ. að reyna að halda þannig á landhelgismálinu, að við fengjum út úr því sem allra mesta útfærslu, sem mesta vernd fyrir okkar fiskimið, og gera það með þeim hætti, að við kæmumst sem vandaminnst út úr því við aðrar þjóðir. En Atlantshafsbandalagið var ekki til í þá daga. Það kann vel að vera, að eftir að það bandalag varð til, sé það e.t.v. nokkru ríkara í huga hv. 5. þm. Reykn. að halda þannig á landhelgismálinu, að sem mestir árekstrar fáist út úr því við þessar bandalagsþjóðir okkar. Hugsunin um það að vinna málinu sem mest gagn án þess að skapa þjóðinni of mikla erfiðleika virðist eftir tilkomu Atlantshafsbandalagsins hafa orðið að víkja í huga þeirra Alþb.-manna fyrir áhuganum á illdeilum og árekstrum.

En á afstöðu hv. 2. þm. Vestf. furða ég mig mjög. Þegar hann sjálfur styður ríkisstj. og þegar hann sjálfur á sæti í ríkisstj., þá telur hann sjálfsagt að undirbúa og vinna að þessu máli með viðræðum við aðrar þjóðir. Hann telur sjálfsagt að gera öðrum þjóðum tilboð um lausn á málinu, til þess að Íslendingar fái sem mest út úr því á sem hagkvæmastan hátt. En þegar hann er kominn í stjórnarandstöðu, þá eru það höfuðglæpir, þá er það reginhneyksli í íslenzkri stjórnmálasögu, að ríkisstj. skuli leyfa sér að reyna að gera það sama sem hann sjálfur gerði, meðan hann var ábyrgur stjórnarformaður. Það er þessi framkoma hjá hv. 2. þm. Vestf., sem mig furðar mjög.

Hv. 2. þm. Vestf. tíndi hér fram ýmis rök fyrir því, að við mættum ekki undir neinum kringumstæðum leysa málið með samkomulagi víð þær þjóðir, sem hér hafa hagsmuna að gæta, sérstaklega ekki við Breta. Eitt af því, sem þessi hv. þm. minntist á, var, að ef við semdum einu sinni, þá yrði talið, að við gætum aldrei fært út síðar án þess að semja. Það, sem ríkisstj. er að gera nú með viðræðunum við Breta, er nákvæmlega það sama, eins og ég hef áður sagt, og þessi sami hv. þm. var að gera 1958. Er það virkilega svo, að hv. 2. þm. Vestf. hafi gengið til viðræðnanna víð bandalagsþjóðir okkar 1958, hafi gert þeim okkar tilboð um lausn á málinu með það í huga, að ef samkomulag yrði á grundvelli þeirrar lausnar, þá værum við búnir að binda okkur svo, að við gætum aldrei hreyft okkur meira? Og ef þetta hefur ekki átt við 1958, þegar hv. þm. var í viðræðunum við Breta og okkar bandamenn, hvers vegna á það við nú? Hvers vegna er meiri hætta á því nú, 1960, heldur en var 1958, þegar þessi hv. þm. átti sjálfur aðild að ríkisstjórn? Þessi hv. þm. sagði líka, að ef við gæfum Bretum svæðis- og tímabundinn rétt á seinni 6 mílunum nú, væri eins víst, að þeir að þeim tíma liðnum fyndu upp nýjar leiðir í lok tímans til að neita að þola 12 mílurnar, — undanhald undan ofbeldinu býður meira ofbeldi heim. — Ég spyr hv. þm.: Hvers vegna á þetta við 1960, en ekki 1958, þegar hann sjálfur átti þátt í þessum viðræðum? Hvers vegna óttast þessi hv. þm. þetta svo mjög nú, en gerði það ekki þá?

Ein af veigamestu rökum hv. 2. þm. Vestf. að hans eigin dómi, — að hans eigin dómi, segi ég, í þessum umr., — voru þau, að það væri óþarfi að ræða þetta mál við Breta nú, því að við værum búnir að sigra í deilunni, Bretar væru búnir að gefast upp. Betra, að satt væri. En það er þó staðreynd, að frá 1. sept. 1958, að útfærslan gekk í gildi, hafa Bretar verið hér með togara sína og herskip innan 12 mílnanna og beitt okkur því ofbeldi, sem við öll þekkjum. Það varð hlé á þessu, rétt á meðan á Genfarráðstefnunni stóð, og rétt áður en þær viðræður, sem nú standa yfir við Breta, hófust, þá hættu þeir veiðum innan 12 mílnanna með yfirlýsingu um það, að þetta hlé væri aðeins á meðan verið væri að sjá, hvort lausn fengist út úr viðræðunum. Því miður blasir það við, að ef ekki tekst að leysa deiluna eða eyða deilunni með þessum viðræðum, þá eigum við von á sama ofbeldinu og áður var. Og hvernig hefur hv. 2. þm. Vestf. lýst ástandinu á fiskimiðunum kringum Ísland innan 12 mílnanna á öðrum vettvangi? Hann hefur rætt um þetta ástand viðar en hér. Hann ræddi það í utanrmn., nokkru áður en viðræðurnar við Breta hófust, og hvað segir hann þar? Þar segir þessi hv. þm. og lætur bóka eftir sér, — hann tók fram, að undanfarnir atburðir sýndu, að Bretar væru að færa sig upp á skaftið í landhelgismálinu, enda væri senn þriggja mánaða frestur sá, sem brezkir togaraeigendur hefðu boðað að þeir mundu banna togurum sínum að veiða innan 12 mílna fiskveiðilögsögu við Ísland, útrunninn. Óskaði hann því, að ríkisstj. gæfi n. skýrslu um viðhorf hennar til málsins og hvaða mótaðgerðum gegn Bretum hún hygðist nú beita umfram venjuleg mótmæli. Þessi hv. þm., sem segir okkur hér í gær, að það sé óþarfi að ræða þetta mál víð Breta, og við séum búnir að sigra í deilunni og Bretar séu búnir að gefast upp, hann hefur fyrir skömmu lýst því yfir í utanrmn., að Bretar séu að færa sig upp á skaftið, og spyr ríkisstj., hvaða úrræðum hún hafi nú í huga að beita, vegna þess að það, sem gert hefur verið hingað til, dugi ekki. Og þessi sami hv. þm. gerði svolítið meira í utanrmn. Hann segir síðar á þessum sama fundi: Væri það greinilegt nú, eftir að lokið væri alþjóðafundum um þessi mál, að Bretar væru að færa sig upp á skaftið hér við Ísland, og gæti slíkt endað með stórslysum. — Og síðan ber hann fram till., og till. er sú, að við snúum okkur til ríkisstjórnar Bandaríkjanna og biðjum hana um að koma með bandaríska flotann til þess að reka Breta burt úr íslenzkri fiskveiðilögsögu og vernda hana fyrir okkur. Maðurinn, sem segir okkur í gær, að deilunni sé lokið, það sé óþarfi að semja við Breta, því að við séum búnir að vinna, Bretar séu búnir að gefast upp, — hann hefur fyrir örskömmu sagt: Deilan hefur aldrei verið jafnhörð og erfið og nú, og hún er svo hörð og erfið, að við verðum að biðja bandaríska flotann um að koma inn í íslenzka fiskveiðilögsögu og vernda okkur fyrir þessum yfirgangi Breta. — Ég verð að segja það, að mig alveg furðar á, hvernig þessi hv. þm. getur talað. Ég hygg, að þess séu fá dæmi í þingsögunni, að það sé hægt að segja í svo ríkum mæli eitt í dag og annað á morgun, alveg eftir því, hvað passar í hvert skipti.

Ríkisstj. hefur að undanförnu kannað möguleikana á því að eyða landhelgisdeilunni við Breta. Í þessum viðræðum liggur alveg ljóst fyrir, að það er grundvallarskilyrði af okkar hálfu nú sem fyrr, að ekki getur leitt til neins samkomulags við okkur, nema því aðeins að fyrir liggi óafturkallanleg viðurkenning á okkar 12 mílum. Þegar séð verður, hvort líkur eru til að fá þessa viðurkenningu með þeim hætti, að ríkisstj. telji, að við sé hlítandi, þá verður málið lagt fyrir Alþingi, og það segir til um, hvað gera skuli. En eins og það var mat vinstri stjórnarinnar 1958, að nokkuð væri tilvinnandi til að fá þessa viðurkenningu, þá er það einnig mat núverandi ríkisstj., að það sé beinlínis skylda að freista þess með viðræðum, — hvort ekki sé hægt að finna einhvern þann flöt, sem hægt sé að leysa málið á.

Við Íslendingar höfum háð alllanga baráttu og þó ekki svo ýkjalanga út af útfærslu okkar fiskveiðilögsögu. Okkur hefur orðið mjög mikið ágengt í þeim efnum, sérstaklega nú á seinustu tímum, og ég er alveg jafnsannfærður um það í dag og ég var 1958, að þó að við þyrftum að hnika eitthvað til á takmörkuðu svæði um takmarkaðan tíma innan 12 mílnanna, ef þær væru viðurkenndar, og annað kæmi í staðinn á móti, þá sé það atriði, sem við fullkomlega eigum að athuga og ekki kasta frá okkur, nema við séum alveg sannfærðir um, að hag okkar sé ekki bezt borgið með að ganga að því. Við megum í þessu sambandi vel minnast þess, að við höfum vissulega ríka ástæðu til að vera ánægðir og fagna þeim árangri, sem þegar hefur náðst í landhelgismálinu, og það jafnvel þó að eitthvað smávegis yrði að hnika til um takmarkaðan tíma. Mér finnst oft, þegar menn eru að ræða um landhelgismálið í heild, að þá geri þeir sér ákaflega litla grein fyrir því, hversu ör þróunin hefur orðið í þessum málum og hversu miklu lengra við erum komnir, jafnvel í dag, en við gerðum okkur vonir um að geta komizt fyrir örskömmum tíma. Mér finnst þessar staðreyndir svo athyglisverðar, að ég get ekki stillt mig um að rifja nokkuð upp þróun þessara mála.

Menn minnast þess, að þegar landgrunnslögin voru sett árið 1948, þá var litið á þau sem „prinsip“-yfirlýsingu. Þá voru menn á einu máli um það, að okkur skorti alþjóðlegan grundvöll til þess að færa fiskveiðilögsöguna út frá því, sem þá var. Þess vegna var ekki hafizt handa um útfærslu fiskveiðilögsögunnar strax. Árið 1952 gengur dómur í deilumáli Breta og Norðmanna í Haag. Þar fáum við fyrsta grundvöll á alþjóðlegum vettvangi til þess að ráðast í útfærslu fiskveiðilögsögunnar eftir setningu landgrunnslaganna, sem við teljum nokkru máli skipta. Og í þessa útfærslu er farið 1952. Þegar vinstri stjórnin er mynduð sumarið 1956, er það tekið upp í stefnuskrá ríkisstj. að vinna að útfærslu fiskveiðilögsögunnar. En sumarið 1956 er hugmyndin um það, hversu mikil útfærslan skuli verða, ekki orðin svo fastmótuð, að í stefnuyfirlýsingu eða stjórnarsamningi vinstri stjórnarinnar sé vikið einu orði að því, hversu mikil útfærslan skyldi verða. Það mál var óleyst og óráðið sumarið 1956, þegar vinstri stjórnin er mynduð. Um sama leyti skilar alþjóðalaganefnd Sameinuðu þjóðanna áliti um víðáttu fiskveiðilögsögunnar og kemst að þeirri niðurstöðu, að fiskveiðilögsagan geti ekki verið meira en 12 mílur. Menn gerðu sér vonir um það, að þing Sameinuðu þjóðanna mundi í ársbyrjun 1957 setja um þetta fastar reglur, en það varð ekki, heldur var ákveðið að halda alþjóðaráðstefnu í Genf, eins og kunnugt er. En snemma á árinu 1957 fer vinstri stjórnin virkilega að athuga, hvaða möguleikar séu á útfærslu og hversu langt sé hægt að fara í þeim efnum, og einmitt þeir atburðir, sem gerast þarna innan vinstri stjórnarinnar, og hvernig þróunin verður í þessu máli, sýna mjög greinilega, hversu langt við höfum komizt á skömmum tíma og lengra en jafnvel þeir í okkar hópi, sem bjartsýnastir voru, gerðu sér vonir um um þessar mundir.

Það var í febr. 1957, að sjútvmrh., sem þá var, Lúðvík Jósefsson, kallar saman ráðstefnu í Reykjavík með fulltrúum svo að segja af öllu landinu til þess að undirbúa aðgerðir um útfærslu fiskveiðilögsögu og ræða málið í heild. Það er þó tekið fram, að ekki sé ætlazt til þess, að þessi ráðstefna geri neinar till. Á þessari ráðstefnu er málið rætt fram og aftur, en engar till. koma fram í málinu um það, hversu mikið skuli fært út og hvenær útfærslan skuli hefjast.

Í aprílmánuði 1957 sendi sjútvmrh. ríkisstjórninni grg. um þessa ráðstefnu, og þá eru enn engar till. til um það, hversu mikið skuli færa út eða hvenær útfærslan skuli gerð.

Í júnímánuði, eða 21. júní 1957, sendir síðan sjútvmrh. Lúðvík Jósefsson ríkisstj. enn grg. um málið, og nú hefur hann tillögur um það, hversu mikið skuli fært út og hvenær skuli í útfærsluna ráðizt. Þetta er fyrsta till., sem til verður innan vinstri stjórnarinnar um það, hvernig skuli á þessu máli haldið.

Ég ætla ekki að rekja grg. fyrrv. sjútvmrh. til ríkisstj. um þetta atriði í einstökum atriðum, en ég vil aðeins lesa hér upp niðurstöðuna af hans grg., því að í niðurstöðunni setur hann fram till. sína um það, hvernig okkar fiskveiðilögsögu skuli breytt. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Með sérstöku tilliti til þess, að umrædd alþjóðaráðstefna er fram undan um víðáttu landhelginnar, þá tel ég rétt að fara að þessu sinni þá leið, sem meðfylgjandi uppdráttur sýnir, en hún byggir á breyttri grunnlínu og tímabundinni útfærslu á 3 stöðum við landið. Með þessari leið breytum við ekki 4 mílna reglunni að þessu sinni, en náum hins vegar þeirri stækkun á friðunarsvæðinu, sem mestu máli skiptir.“

Sem sagt, sumarið 1957, 21. júní, erum við ekki lengra komnir í okkar fiskveiðilögsögumáli en það, að till. sjútvmrh. er sú, að við hreyfum ekki við 4 mílunum, við látum 4 mílurnar út af fyrir sig standa óhaggaðar, við breytum nokkrum grunnlínum, fækkum grunnlínupunktum og friðum 3 svæði utan 4 mílnanna. Eitt af þessum svæðum var út af Faxaflóa, annað út af Vestfjörðum og þriðja út af Austfjörðum.

Þessi till. sjútvmrh. í júní 1957 sýnir mjög greinilega, hvar við erum staddir í landhelgismálinu þá. Þessari till. var illa tekið bæði af Framsfl. og Alþfl. Við bentum á, að þessi útfærsla væri gersamlega ófullnægjandi fyrir okkur og að hún mundi vekja svo miklar deilur á milli okkar og grannþjóða okkar, rétt áður en alþjóðaráðstefnan hæfist, að þær deilur mundu leiða til þess, að málstaður okkar á ráðstefnunni stórspilltist og miklu erfiðara yrði fyrir okkur að ráðast í útfærslu síðar.

Sjútvmrh. var ekki hrifinn af þessari röksemdaleiðslu Framsfl. og Alþfl. Hann lét kyrrt liggja um sinn. En það verður ekki sagt, að hann hafi fallizt á niðurstöður okkar, sem kom m.a. fram í því, að þann 15. okt. 1957 snýr þessi sami ráðh. sér til Sjálfstfl. Hann sendir Sjálfstfl. grg. um málið og leggur fyrir hann þá sömu till. sem hann hafði lagt fyrir okkur hina stjórnarfl. í ríkisstj., og hann endar hugleiðingar sínar í bréfi sínu með því að segja, — hann er svo ákveðinn í, að þessi till. sín sé sú eina rétta, að hann endar með því að segja, að ekki geti verið um ágreining að ræða um það, hvernig stækkunin eigi að vera, ágreiningurinn sé eingöngu um framkvæmdartímann, og ráðh. vill fá samkomulag við Sjálfstfl. um framkvæmdartímann.

Mér þykir rétt, til þess að orð mín verði ekki vefengd um þetta, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér tvær eða þrjár setningar úr niðurlagi bréfs sjútvmrh. frá 15. okt. 1957 til Sjálfstfl., eftir að hann hefur skýrt frá till. sinni:

„Ekki er líklegt, að teljandi ágreiningur þurfi að verða um, hvernig stækkunin á að vera. En augljóst er, að mismunandi skoðanir eru uppi um framkvæmdartímann. Ríkisstj. hefur nú leitað eftir samkomulagi við stjórnarandstöðuna um framkvæmdir í málinu og þá alveg sérstaklega um framkvæmdartímann. Ríkisstj. leggur áherzlu á að heyra álit stjórnarandstöðunnar um framkvæmdartímann, því að hún telur, að ákveða beri hann þannig, að allir flokkarnir geti staðið saman í málinu. Sjútvmrh. mun fallast á að ákveða framkvæmdartímann strax að Genfarfundinum loknum, ef það er nauðsynlegt til þess að skapa samstöðu allra flokka um málið.“

Ég læt upplestrinum úr bréfinu lokið. En það kemur sem sagt greinilega fram hér, að sumarið og haustið 1957 erum við þar staddir í landhelgismálinu, að það er skoðun og till. sjútvmrh., að við getum ekki ráðizt í útfærslu á 12 mílunum, en eigum að reyna að breyta grunnlínum og friða 3 svæði fyrir utan 4 mílurnar, og hann tekur það fram, hann er svo sannfærður um, að þetta sé sú sjálfsagða leið, að ekki þurfi að ræða um annað en framkvæmdartíma, og sérstaklega vill hann um það ræða, hvort við eigum að ráðast í þessar framkvæmdir fyrir Genfarráðstefnuna eða eftir. Það er athyglisvert, að sjútvmrh. vill haustið 1957 fara að slá því föstu, að svona hlutir skuli jafnvel gerðir eftir Genfarráðstefnuna, meðan ekki er vitað, að hvaða niðurstöðu hún kemst.

Þegar við höfum það nú í huga, hvar við höfum verið staddir í landhelgismálinu 1957 með okkar útfærslu og hvaða till. og tilboð við töldum réttmætt og eðlilegt að gera 1958 til lausnar á málinu, þá þarf engan að undra, þó að núverandi ríkisstj. reyni að halda þeim hlutum áfram, þar sem áður hafði verið til stofnað, með það fyrir augum að reyna að finna lausn á málinu.

Það var skoðun okkar, a.m.k. Framsfl. og Alþfl., 1958, að ef tilboð okkar til Atlantshafsbandalagsins hefði verið samþ. og það hefði leyst málið, þá hefðum við unnið stórsigur í málinu. Það var skoðun okkar þá, og það er skoðun mín enn í dag, að ef okkur tækist að leysa málið á þann hátt, sem við mættum vel við una, þó að eitthvað þyrfti að hnika til, þá væri það stór og ómetanlegur sigur fyrir Íslendinga í málinu.

Með því að taka upp viðræðurnar við Breta um landhelgismálið er ríkisstj., eins og áður hefur verið sagt, að hlýða fyrirmælum Alþ., beinum fyrirmælum Alþ., um að reyna að vinna viðurkenningu fyrir málinu út á við. Ríkisstj. er líka ljós sú hætta, sem vofað hefur yfir íslenzkum sjómönnum á hafinu kringum Ísland síðan 1. sept. 1958, og henni er ljóst, að þessi hætta mun halda áfram einhvern tíma, ef ekki tekst að finna lausn á þessari deilu. Ríkisstj. telur þá hættu, sem sjómönnum okkar er búin af þessari deilu og þessum árekstrum, svo mikla og svo alvarlega, að það sé bein skylda ríkisstj. að láta einskis ófreistað til þess að reyna að eyða þessari hættu og koma í veg fyrir, að hún haldi áfram.

Ég heyrði, að hv. 5. þm. Reykn. taldi það ekki eftir okkar íslenzku sjómönnum að búa áfram við þessa hættu, sem þeir hafa orðið að búa við nú um alllangan tíma. Ég býst við, að íslenzkir sjómenn muni veita þessum ummælum þessa hv. þm. nokkra athygli og telja þau ein hin kuldalegustu ummæli, sem mælt hafa verið í þeirra garð á hv. Alþ. nú í síðari tíð.

Ástæðan fyrir því, að ríkisstj. leitar samkomulags í þessari deilu við Breta, er einnig sú, að við erum vopnlaus smáþjóð, sem eigum alla okkar tilveru undir því, að lög og réttur fái að ríkja í viðskiptum þjóða í milli, en að ofbeldið verði látið víkja til hliðar. Ef við fyrir okkar leyti gerum ekki það, sem með sanngirni verður af okkur krafizt, til þess að eyða deilum okkar við aðra, hvernig getum við þá af öðrum stærri þjóðum krafizt, að þær semji um deilumálin sin á milli og leysi þau með friðsamlegum hætti?

Hv. 2. þm. Vestf. sagði, að það mundi verða stórfelldur álitshnekkir fyrir okkur út á við, að við erum að ræða málið við Breta og leita samkomulags. Mér finnst ummæli þessa hv. þm. henda til þess, að hann geri sér alllitla grein fyrir því, hvernig þetta mál okkar stendur út á við. Það er að vísu rétt, að það er viðurkennt, almennt viðurkennt, á alþjóðavettvangi, að Íslendingar eiga allt sitt undir fiskveiðum og að Íslendingar eiga bæði siðferðilegan og vissan lagalegan rétt til verndar sinna fiskimiða. Þetta er viðurkennt, og þetta er óumdeilt. En hinu verður ekki neitað, að meðferð okkar á málinu út á við og víðskipti okkar við aðrar þjóðir hafa sætt nokkru ámæli og það frá þjóðum, sem eru okkur mjög vinsamlegar og vilja okkur vel í þessu máli. Við verðum að minnast þess, að þegar við færum út okkar fiskveiðilögsögu, þá erum við að leggja undir okkar ríki hafsvæði, sem áður var talið almenningseign. Því er haldið fram af andstæðingum okkar á alþjóðavettvangi, að við förum ekki þarna að lögum, og okkur er boðið að bera það undir alþjóðadóm, hvort við förum að lögum eða ekki. Við segjum nei. Við förum að vísu að lögum. Við byggjum allt á lagalegum grundvelli. En við viljum ekki láta alþjóðlegan dóm hafa neitt um það að segja, hvort við höfum á réttu að standa eða ekki. Þegar við neitum þessu, þá er lögð á það áherzla af fjöldamörgum þjóðum, að við reynum með viðræðum að finna lausn á málinu, sem við sjálfir getum við unað. Ef við segjum nei við því líka, við neitum að láta alþjóðlegan dómstól fjalla um okkar deilumál og færum fyrir því okkar rök og neitum líka að ræða þau til þess að finna lausn á þeim, þá verð ég að segja, að vegur Íslands út á við á ekki eftir að vaxa á því og hefur ekki vaxið á því, ef Íslendingar ætla sér að viðhafa slík vinnubrögð í málinu. Vegur okkar út á við af þessu máli vex fyrst og fremst á því, að við sýnum fram á, — og það höfum við gert, — að við erum hér að verja okkar lífshagsmuni, en að við höldum þannig á málinu út á við, að ekki verði sagt annað en við höfum sýnt fulla sanngirni, fulla lipurð og fullan vilja til að leysa málið. Hitt er annað mál, að okkur ber engin skylda til í þessum viðræðum að fallast á annað en það eitt, sem við teljum bezt, og að við höldum þannig á málinu út á við, að ekki verði sagt annað en við höfum sýnt fulla sanngirni, fulla lipurð og fullan vilja til að leysa málið. Hitt er annað mál, að okkur ber engin skylda til í þessum viðræðum að fallast á annað en það eitt, sem við teljum að bezt samrýmist okkar eigin nauðsyn á vernd okkar fiskimiða.

Það er enn með öllu óvíst, hver niðurstaðan verður af þeim umr., sem farið hafa fram á milli ríkisstj. Íslands og Breta. Ég skal engu um það spá og ekkert um það segja á þessari stundu. Það er von mín, að þær umr. megi leiða til þess, að þessi deila eyðist og það sem allra fyrst. En jafnvel þó að ekki tækist svo giftusamlega til, að viðræðurnar leiddu til þess, að deilan eyddist, þá er betur á stað farið en heima setið, vegna þess að með þessum aðgerðum sínum hafa Íslendingar þó sýnt, að þeir vilja ræða deilu og vandamál sín við aðrar þjóðir, en láta sér ekki nægja að berja bara höfðinu við steininn.