16.12.1960
Sameinað þing: 25. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

1. mál, fjárlög 1961

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég flyt nokkrar brtt. með hv. 2. þm. Vestf. við fjárlagafrv., og eru þær á þskj. 220.

Fyrsta brtt., sem við flytjum, er um 70 þús. kr. fjárveitingu í Gufudalsveg. Þessi vegur nær frá botni Þorskafjarðar vestur að Klettshálsi eða yfir allan Gufudalshrepp. Vegurinn er því partur af leiðinni til Ísafjarðar. Í mörg undanfarin ár hefur verið fjárveiting í þennan veg, minnst 70 þús. kr. og upp í 100 þús. kr. Samt eru alllangir kaflar í þessum vegi aðeins ruddur bráðabirgðavegur og því ekki til frambúðar. En við opnun Vestfjarðavegar í fyrra, þegar leiðin til Ísafjarðar opnaðist, jókst að sjálfsögðu umferð um þennan veg í stórum stíl, en þá skeður það fyrirbrigði, að um leið og umferðin eykst svona mikið um þennan veg, þá er hætt að veita fé til hans. Á fjárlögum fyrir yfirstandandi ár eru einar 10 þús. kr. til vegarins, það var til þess að greiða skuld frá árinu áður, og skv. till. í fjárlagafrv. nú á enginn eyrir að fara til vegarins. Þetta má heita einstakt fyrirbrigði, þegar þarfirnar aukast svo gífurlega vegna umferðarinnar, að þá skuli hætt við að leggja nokkurt fé til vegarins.

En fleira kemur til en þetta, sem sýnir það, hversu mikil þörf er á að veita nokkurt fé til þessa vegar. Í undirbúningi er að koma upp mjólkurbúi í Reykhólahreppi. Bændur í Gufudalshreppi hugsa sér að verða aðilar að þessu mjólkurbúi, enda er atvinna þeirra mjög einhæf, hún er ekkert nema sauðfjárbúskapur. En þeir hugsa gott til þess að geta haft hér nokkru meiri fjölbreytni og bætt hag sinn verulega á því að vera aðilar að hinu væntanlega mjólkurbúi. En þeir geta það ekki, nema vegurinn, sem þeir eiga að nota til þess að koma afurðum sínum til búsins, sé viðunandi, en það er hann ekki, eins og hann er. Þess vegna verður það að kallast mjög óheppilegt, svo að ekki sé harðar að orði komizt, að um leið skuli vera hætt við að leggja fé í þennan veg. Till. okkar er mjög hógvær, hún er aðeins 70 þús. kr., eða jöfn því, sem var, þegar minnst var lagt til vegarins áður, þrátt fyrir þá hækkun á kostnaði við lagningu vega, sem orðin er og allir vita um. Ég vænti þess, að hv. þm. sjái, að hér er um sanngirnismál að ræða.

Önnur till., sem við flytjum, er um 200 þús. kr. fjárveitingu í Suðurfjarðaveg í Arnarfirði. Um Arnarfjörð sunnanverðan liggja þrír vegir, Dalavegur um Ketildalahrepp, Suðurfjarðavegur um Suðurfirði og Bíldudalsvegur norðan Hálfdáns, sem tengir Bíldudal við Tálknafjörð. Í alla þessa vegi hafa verið fjárveitingar um langt skeið, ekki háar, en þó nokkrar. Á fjárlögum yfirstandandi árs voru þær lækkaðar mikið. En nú tekur steininn úr, því að nú á ekki að veita eina einustu krónu til neins vegarins af þessum þremur, — og þetta gerist sama árið og flugsamgöngur falla úr sögunni við Bíldudal, en þær hættu s.l. sumar. Það er því ekki hægt að gera það rækilegar en þetta að spara fé á Arnfirðingum. Bíldudalur er eini viðkomustaður flugvéla á. Vestfjörðum, sem hefur verið lagður niður, og nú fá þeir þessa kveðju, að fá ekki einn einasta eyri í neinn af þessum þremur vegum, sem þeir eiga að nota. En Arnfirðingar leggja mesta áherzlu á Arnarfjarðarveg. Það er vegna þess, að Vestfjarðavegur hinn nýi liggur yfir Dynjandisheiði, ofan við bæina í Suðurfjörðum, og síðasti kaflinn á Suðurfjarðavegi er ógerður, sá kaflinn, sem á að tengja byggðina við þennan veg. Það mun vera um 9 km vegalengd. Þeim er þetta ákaflega mikið áhugamál, Arnfirðingum, og í gær barst mér svo hljóðandi símskeyti frá hreppsnefndinni á Bíldudal, með leyfi hæstv. forseta: „Skorum eindregið á fjárveitinganefnd, að hún hlutist til um, að tekin verði á fjárlög fjárveiting til Suðurfjarðavegar á Norðdalshlíð og þannig verði stuðlað að því, að Bíldudalsvegur verði tengdur hinni nýju Vestfjarðaleið, eins og önnur þorp á Vestfjörðum. Hreppsnefnd Suðurfjarðahrepps.“

Það er mjög skiljanlegt, að Arnfirðingar leggi áherzlu á að fá þennan stutta kafla, sem á vantar til að tengja þá við Vestfjarðaveginn. Það eru vaxandi samskipti þessara þorpa á Vestfjörðum við Ísafjörð, og nú er kominn akvegur til Ísafjarðar. En ef Arnfirðingar eiga að notfæra sér þennan akveg, þá verða þeir fyrst að fara yfir Hálfdán til Tálknafjarðar, síðan Mikladal til Patreksfjarðar, síðan Kleifaheiði til Barðastrandar, síðan Penningsdal á Dynjandisheiði, eða um 100 km leið til þess að komast upp á þennan veg, sem vantar um 9 km að ljúka við. Það er því af brýnni nauðsyn, að við flytjum þessa till. um, að byrjað sé á að veita fé í þennan stutta kafla, sem á vantar, og í fullu samræmi við óskir manna í Arnarfirði, eins og kemur fram í þessu símskeyti frá hreppsnefnd Suðurfjarðahrepps.

Þriðja till., sem við flytjum, er um hækkun á framlagi til Snæfjallastrandarvegar úr 100 þús. í 150 þús. Um þennan veg var flutt till. við 2. umr. fjárl., að hækka þessa fjárveitingu upp í 250 þús., en var felld. Við væntum þess, að hv. þm. geti þó fallizt á að hækka um einar 50 þús. Þarna stendur svo á, að þessi hreppur, þótt ekki sé hann stór, er ekki í neinu akvegasambandi við vegakerfið. Þar slitnar í sundur um Kaldalón, en aðeins vantar herzlumuninn til þess að tengja vegina saman í Nauteyrarhreppi og Snæfjallastrandarhreppi. Að vísu vantar brú á Mórillu, sem rennur niður í Kaldalón, en þó að sú brú fáist ekki á sama ári, þá geta þeir notfært sér veginn, því að áin mun vera fær undir flestum kringumstæðum að sumri til. Það er því ekki að ástæðulausu, að þessi till. er flutt, og má því líta á hana sem varatill. við þá, sem flutt var við 2. umr.

Fjórða till., sem við flytjum, er að hækka fjárveitingu í Reykjarfjarðarveg á Ströndum úr 390 þús. í 500 þús., en á fjárl. yfirstandandi árs voru þó veittar 525 þús. í þennan veg, svo að við förum ekki einu sinni upp í þá upphæð, sem nú er á fjárl. Árneshreppur er allfjölmennur og blómlegur hreppur, bæði til búskapar og til útgerðar, en þessi hreppur er ekki í neinu vegasambandi við þjóðvegakerfið. Það má því nærri geta, að þetta vegleysi hindrar mjög allar framfarir í þessum hreppi og kemur jafnvel í veg fyrir það, að nauðsynlegustu vélar fáist til ræktunar og annarrar starfsemi þar heima fyrir. En skv. óskum þeirra þar norður frá leggja þeir höfuðkappið á að koma veginum til Djúpavíkur. Vegna þess förum við fram á, að þessi upphæð sé hækkuð úr 390 þús. í 500 þús. kr.

Fimmta till., sem við flytjum, er um Strandaveg, að fjárveiting verði hækkuð úr 150 þús. kr. í 250 þús. Á s.l. sumri var unnið þarna að vegabótum fyrir lánsfé, og mun vera skuld um 170–180 þús. kr. Þessi fjárveiting, sem er núna í fjárlagafrv., dugir því ekki fyrir skuldinni. En auk þess er mjög aðkallandi að bæta lökustu kaflana í Kirkjubólshreppi rétt sunnan við Hólmavík, svo að sá vegur sé fær lengur en nú er raunin á. Það er því ekki hægt að segja, að þarna sé hátt farið, að óska eftir, að fjárveitingin verði þó ekki nema 25 þús. kr. lægri en hún var í fyrra. Ekki eru nú kröfurnar meiri hjá okkur en það. En Strandavegur er um 160 km á lengd, þó að hann sé ekki allur lagður, eins og sakir standa nú. Hann er álíka langur og frá Reykjavík og upp að Hreðavatni. Það sýnist því ekki fjarstæða, að það þurfi þessa upphæð í þennan veg.

Þá flytjum við á sama þskj. till. um bryggjuna á Kaldrananesi; það er við 13. gr. C, hafnarmannvirki. Á Kaldrananesi er hálfgerð bryggja, vantar þar bryggjuhaus og umbætur, bæði handa þeim, sem stunda þarna útgerð, og ekki síður vegna strandferðaskips; sem þarna á að koma við, en getur ekki komið við, af því að það vantar þessa viðbót við bryggjuna, nema aðeins í einstöku tilfellum, þegar veður er blíðast. Þetta eru einar 100 þús. kr., sem við förum fram á að veittar verði að þessu sinni til þess að endurbæta þessa bryggju, svo að þetta eina strandferðaskip, Herðubreið, þurfi ekki að fara fram hjá þessum stað, eins og verið hefur svo oft að undanförnu.

Loks flytjum við tvær till. um flugvelli við 20. gr. fjárlagafrv. Fyrri till. er um 150 þús. kr. framlag til flugvallar í Patreksfirði. Eins og ég nefndi áðan og eins og hv. þm. mun vera kunnugt, hafa Vestfirðir fram að þessu haft eingöngu sjóflugvélar til afnota, vegna þess að flugvellir hafa ekki verið til á Vestfjörðum fyrir stærri flugvélar, þar til nú í sumar, að unnt er loks að lenda á hinum ófullgerða flugvelli á Ísafirði, en skv. áætlun flugráðs er m.a. ráðgert, að flugvöllur komi á Patreksfirði. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það, hvers virði flugvellir eru fyrir þessar byggðir, jafnvel sjúkraflugvellir koma oft að verulegu liði og eru mjög eftirsóttir. En Patreksfjarðarhreppur, Rauðasandshreppur og Tálknafjarðarhreppur hafa enga flugbraut, ekki fyrir sjúkraflugvél heldur, og er þarna um fjölmennt hérað að ræða. Það er því skiljanlegt, að þetta byggðarlag leggi áherzlu á það, að byrjað verði á fyrirhuguðum flugvelli þarna, því þó að ekki verði hægt að gera mikið fyrir þær 150 þús. kr., sem við leggjum til í þessu skyni, þá getur byrjunin haft þá þýðingu, að það verði sem. sjúkraflugvöllur fyrst, og er því til mikils öryggis fyrir þessi byggðarlög. En á Patreksfirði einum búa um 900 manns. Ég vona því, að hv. þm. sjái sér fært að samþykkja þessa byrjunarfjárveitingu. Nú hef ég frétt fyrir skömmu, að endanlega muni sjóflugvélin, sem veríð hefur í samgöngum, hætta ferðum seinni hluta vetrar, lengur muni hún ekki fá undanþágur til flugs. Verði það, þá má Vestfirðingum bregða við, þegar falla niður allar ferðir flugvéla til þessara staða, sem hafa notið þeirra um langa hríð til mikilla hagsbóta. Það er því ekki með nokkurri sanngirni hægt að neita þessum héruðum um, að farið sé að hefjast handa um byggingu flugvalla í staðinn fyrir þær flugsamgöngur, sem nú hljóta endanlega að falla niður.

Mjög svipað er að segja um aðra tillöguna, sem við flytjum á þessu þskj. um fjárveitingu til Hólmavíkurflugvallar. Þar er allgóður flugvöllur, en þarf tiltölulega litla lengingu til þess að Dakotaflugvélar geti lent þar. Sömu ástæður eru til þess að lengja þennan flugvöll. Þegar sjóflugvélin fellur úr sögunni fellur annars allt flug niður þangað, en Hólmavík hefur löngum verið viðkomustaður Ísafjarðarflugvélarinnar. Fáist engin fjárveiting til þess að lengja þennan flugvöll,. þá er fallið úr sögunni flug til Hólmavíkur. En við leggjum til, að 150 þús. verði einnig varið til þess að lengja þennan flugvöll á Hólmavík, svo að flugsamgöngur við það hérað þurfi ekki að fella niður, þó að svo fari,,sem búizt er við, að sjóflugvélin falli úr sögunni nú í vetur.

Ég held, að þessar till., sem engar eru stórvægilegar, séu það sanngjarnar, að hv.. þm. hljóti að líta á þær með velvilja.