10.11.1960
Efri deild: 19. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í C-deild Alþingistíðinda. (2211)

33. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Flm. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég skal hafa aths. svo stutta sem mér er fært.

Fátt sýnir e.t.v. betur, í hvaða aðstöðu hæstv. ríkisstj. telur sig sjálfa vera komna, þegar það hefur nú komið í ljós, að hún í stað raka um málið reynir að sprengja það, sem hún heldur sjálf að séu bombur, en ég mun nú sýna fram á að eru gamlar púðurkerlingar.

Þessi tilraun til að rétta málstað sinn er gerð á seinasta stigi málsins hér í d., þegar ræðutími þeirra, sem málið flytja, er orðinn takmarkaður, og sýnir það enn hinar drengilegu aðferðir og í hvaða aðstöðu hæstv. ríkisstj. telur sig komna. En það hefur verið. gerð ráðstöfun til þess, að þetta mál verði ekki útrætt hér. á Alþ. með umr. hér í þessari hv. deild.

Það, sem ég hef haldið fram og margsannað hefur verið í þessum umr., er, að allir stjórnmálaflokkar hafa marglýst yfir undanfarið, í kosningum, í utanrmn., í blöðum., á Alþ., seinast 5. maí 1959, að aldrei skyldi samið við neina þjóð eða þjóðir um, hvenær eða hvernig við ákveðum fiskveiðitakmörkin. Það yrði að vera komið undir lífsnauðsyn þjóðarinnar og alþjóðareglum. Og í annan stað hefur verið yfir lýst, að þessir samningar sköpuðu hættulegt fordæmi fyrir framtíðina, lokuðu áframhaldandi leiðum til útfærslu einhliða og án samninga. Enn fremur, að við mættum ekki minnka aftur þá fiskveiðilandhelgi, sem við höfum ákveðið, kynnt heiminum að væri okkur lífsnauðsyn og við mundum ekki hvika frá. Þetta væri nauðsynlegt vegna þess og til þess að þjóðin stæði að baki okkur og aðrir tækju nokkurt mark á yfirlýsingum okkar, bæði heima fyrir og erlendis.

Umr. um þessi atriði hafa staðið í marga daga. Það hefur reynzt ofraun fyrir hæstv. ríkisstj. að neita því, að þetta væru loforð, þetta væru yfirlýstar stefnur, sem lofað hefur verið að standa við af öllum stjórnmálaflokkum. Og það hefur henni verið ofmun einnig að færa líkur fyrir því, að þessar stefnur í landhelgismálinu séu ekki lífsnauðsyn fyrir þjóðina. Við hvort tveggja hefur hæstv. ríkisstj. gefizt upp. En í stað þess kastar hæstv. utanrrh. hér inn í d., að hann álítur, bombu, sem á að rétta hlutinn, þegar umr. er að verða lokið.

Það hefur verið sannað í þessum umr., að nú er verið að rjúfa þá einingu, sem staðið hefur um þetta mál, með broti á þeim reglum, sem þjóðin hefur talið sér lífsnauðsyn að fylgja og flokkarnir á Alþingi hafa lýst yfir að þeir mundu standa að. Þá er gripið til þessara vinnuaðferða: Framsfl. er líka sekur. — Það er ekki verið að verja aðgerðirnar sjálfar, heldur er það vörnin: Framsfl. er líka sekur. Hann, Framsfl., hefur gert þetta 1959. Hann hefur farið út af sporinu og ekki fylgt reglunum. Það væri náttúrlega engin afsökun fyrir hæstv. ríkisstj., þó að Framsfl. hefði misstigið sig í þessu máli. Og ég geri varla ráð fyrir því, að aðgerðir Framsfl. séu svo óskeikular, að þær verði mælikvarði á það, sem hæstv. ríkisstj. a.m.k. telur hið eina rétta. Á þetta minnist ég til þess að sýna fram á, inn á hvaða brautir varnir ríkisstjórnarinnar fyrir gerðum sínum eru komnar. En vitanlega er það ekki þetta fyrst og fremst. Þetta minnir á drauga hinna fordæmdu, sem eru að reyna að draga aðra niður í sína eigin dys. Það er það, sem hér er á seyði. Til þess að sanna, að afstaða ráðherra Framsfl. væri önnur nú en 1958 og að við hefðum þá viljað semja, sagði hæstv. utanrrh., að með samþykki ráðh. Framsfl. hefði verið sent samningstilboð, eins og hann orðaði það núna, kallaði það áður ábendingu, — samningstilboð 18. maí 1958, og ég vek þegar athygli þdm. á þeirri vinnuaðferð hæstv. utanrrh., að hann las ekki símskeytið frá 18. maí, en hann las símskeyti dags 20. ágúst 1958, sem þannig hljóðar, með leyfi hæstv. forseta, — það er út af tilboðum, sem komu frá NATO:

„Höfum athugað fram komna tillögu um lausn landhelgismálsins og getum ekki fallizt á hana og ekki borið fram neinar tillögur til lausnar í málinu á þessum grundvelli, en minnum á okkar fyrri tillögu um viðurkenningu á 12 mílum gegn því, að erlendir verði á seinni 6 mílunum um takmarkaðan tíma, enda verði grunnlínum breytt.“

Þetta skeyti las hann og þetta skeyti hefur verið birt a.m.k. í sumum blöðum.

Ég vík nú frá þessu símskeyti og símskeytunum báðum, en ég kem ýtarlega að þeim síðar því að hér í liggur sú vinnuaðferð, sem prókúratorar eru stundum meistarar í, en á ekki að koma fyrir svokallaða hæstv. utanrrh. Ég vík að vinnubrögðunum í NATO. Samkv. sáttmála NATO, sem við höfum undirgengizt, reglum frá 1956, sem hæstv. utanrrh. skýrði réttilega frá, ber að leita sátta í ágreiningsmálum, sem bersýnilega eru að koma fram milli NATO-ríkjanna, til þess að reyna að leysa þau, áður en þau fara í hnút. Fyrir NATO-ríkin er fyrst og fremst framkvæmdastjórinn lögboðinn sáttasemjari og milligöngumaður til þess að koma í veg fyrir það, að deilur fari í hnút milli NATO-ríkjanna, þar sem við erum meðlimir. Viðræður við NATO voru því skyldur, sem við undir engum kringumstæðum vildum vanrækja og óskuðum eftir að halda. Viðræðurnar við NATO voru skyldur, sem við höfðum undirgengizt með því að gangast undir sáttmála NATO, eins og hæstv. utanrrh. skýrði frá. Vinnubrögðin í ríkisstj. eru þannig,. að ákvarðanir eru teknar um þessi mál eins og önnur og ráðherra sendir síðan símskeyti til fulltrúans eða fulltrúanna í NATO. Aðdragandinn að því, að símskeytið frá 18. maí, — nú kem ég að því aftur, — var sent, það var sent Henrik Björnssyni, sem hafði verið sendur til NATO til þess að skýra málin og standa í stöðugu sambandi við ríkisstj. fyrir milligöngu utanrrh., aðdragandinn að því, að skeytið 18. maí, sem er grundvöllurinn í þessu máli, sem um er deilt, var sent, var sá, að frá Henrik Björnssyni og í samtölum við utanrrh. og símskeytum komu upp ábendingar um það, að framkvæmdastjóri NATO teldi þá lausn líklega, að NATO-ríkin viðurkenndu rétt okkar til einhliða útfærslu í 12 mílur, ef við vildum gera þetta með þeirri tillitssemi að leyfa erlendum fiskiskipum veiðar upp að 6 mílum í allt að 3 ár. Þessar ábendingar komu til ríkisstj. Utanrrh. og þeir, sem trúðu á það sem vilja NATO, töldu ábyrgðarleysi að leita ekki eftir því, hvort þessi vilji væri til staðar hjá NATO. Og ég vil segja í þessu sambandi: Hvað hefði verið sagt, ef það hefði ekki verið leitað eftir þessum vilja? Ég býst við, að þá hefði komið bomba, sem hefði verið hægt að kalla því nafni, ef það hefði legið fyrir frá skrifstofustjóranum í utanrrn., sem hefði verið fulltrúi hjá NATO og milligöngumaður milli ríkisstj. og Spaaks sáttasemjara, framkvæmdastjóra: Það er nú komin svo að segja fullvissa um það, að við hefðum getað fengið einhliða viðurkenningu NATO á útfærslu í 12 mílur gegn því, að við einhliða til baka veittum tillitssemi eins og nefnd er hér og ég hef talað um. En þessu hefði verið hafnað. Hermann Jónasson og Alþb. hefðu neitað að leita eftir þessum vilja.

Hvað átti nú að gera til þess að sannreyna þessa afstöðu NATO, sem utanrrh. og skrifstofustjórinn álitu að væri til staðar, án þess að ganga inn á samninga? Það var ekkert launungarmál og er ekkert launungarmál, að ráðh. Alþb. voru mótfallnir því, að NATO tæki yfirleitt að sér milligöngu í þessu máli, og voru mótfallnir því, að það væri grennslazt eftir því, hvernig afstaða NATO væri, svo að þeir stóðu ekki að símskeytinu frá 18. maí. Alþfl. eða ráðherrar hans trúðu á það, að þessi vilji væri til staðar, og hæstv. ráðh. hefði áreiðanlega — ég geri honum ekki rangt til — kosið, að send væru tilboð og tilboð um samninga. En ráðherrar Framsfl. höfðu ekki mikla trú á jákvæðum aðgerðum NATO. Við vildum ekki ganga inn á samningaviðræður með því að gera tilboð, eins og ég mun sanna fullkomlega síðar í minni ræðu. En við vildum grennslast eftir afstöðu NATO, og niðurstaðan varð símskeytið, sem hæstv. utanrrh. las ekki. Símskeytið var sent skrifstofustjóra utanrrn., Henrik Björnssyni, sem var staddur erlendis, eins og ég sagði áðan. Skeytið frá 18. maí er þannig:

Ríkisstj. hefur tekið gildandi reglur um landhelgi og fiskveiðitakmörk til endurskoðunar og ákveðið að gera engar breytingar á sjálfri landhelginni, en færa fiskveiðitakmörkin út í 12 mílur og leiðrétta grunnlínur. Reglugerð um þetta verður gefin út 23. maí. Ríkisstjórninni er kunnugt um,“ — þar sem er sú vitneskja, sem ég talaði um áðan, að við hefðum talið okkur hafa gegnum skrifstofustjórann. — „Ríkisstjórninni er kunnugt um, að framkvæmdastjóri NATO hefur orðað þann möguleika, að NATO-ríkin viðurkenni útfærsluna í 12 mílur með grunnlínubreytingum, ef erlend skip fá rétt til að veiða 3 næstu ár á tilteknum svæðum milli 6 og 12 mílna. Vegna þessa tekur ríkisstj. það fram, að ef það liggur fyrir frá framkvæmdastjóra eigi síðar en 20. þessa mánaðar, að þetta sé aðgengileg lausn í málinu, mun hún taka það til athugunar.“

Þetta var það, sem hæstv. utanrrh. kallaði fyrst ábendingu, síðan tilboð og síðast tilboð um samninga. En hér er verið að grennslast eftir afstöðu NATO, hins lögboðna sáttasemjara, sem skrifstofustjóri í utanrrn. og utanrrh. álitu að væri til staðar. En svarið reyndist neikvætt. Og nú komum við að atriðum í þessu máli, sem eru nokkuð þýðingarmikil. Ég skal taka það fram, að ef það svar hefði borizt frá NATO, að við Íslendingar hefðum fullan rétt til þess að færa fiskveiðilandhelgina út einhliða í 12 mílur, en óskað, að við tækjum þau tillit að færa út í áföngum, t.d. í 6 mílur í 3 ár og síðan í 12, hefðum við ekki aðeins athugað málið, heldur svarað: Okkur er það gleðiefni, að NATO-ríkin viðurkenna rétt Íslendinga til einhliða útfærslu. Við höfum ákveðið, eftir að NATO hefur viðurkennt einhliða rétt okkar til útfærslu, að taka einhliða á móti framangreint tillit. — Það er ekki sagt annað en að við skulum athuga málið, en þetta segi ég nú. Þetta voru ekki samningar og ekkert í líkingu við það, sem nú er verið að gera, sem binda okkur í því að færa ekki út síðar án þess að gera á ný samninga. Það var þvert móti viðurkenning þess, að við mættum færa út síðar einhliða, án samninga. Og þó að ég væri ósamþykkur orðalagi utanrrh. á símskeytinu 20. ágúst, þá hefði ég viljað athuga það, eins og í maí, að taka nokkurt tillit, áður en reglugerðin tók gildi, ef yfirlýsing hefði komið frá öllum NATO-ríkjunum, að við hefðum rétt til að færa út með einhliða yfirlýsingu í 12 mílur. Svo mikils virði hefði sú yfirlýsing verið til þess að opna nýjar leiðir, í stað þess að þeim er lokað með tvíhliða samningum, eins og Bretar eru að beygja ríkisstj. inn á.

Við skulum nú athuga þessa bombu svolítið nánar. Sannleikurinn er sá, að þetta er eldgömul lumma, bomban er gömul lumma, og ég get sagt við hæstv. utanrrh. eins og nábúi sagði við ríkan bónda: Ja, þú býrð vel, Lárus minn, þú átt gamlar lummur. — Þetta er gömul lumma, því að í kosningahandbók Alþb. er skýrt frá símskeytinu frá 18. maí og það er rökrætt á tugum funda í kosningunum, en er hér kastað fram sem ægilegu leyndarmáli, hræðilegu leyndarmáli, alveg ógurlegri bombu. Og hæstv. fyrrv. sjútvmrh., sem var ekkert sérstaklega velviljaður því, að þetta skeyti væri sent, og ekki eru vanalega gefnar velviljuðustu skýringar á þeim hlutum, sem menn eru andstæðir, einkanlega í kosningabókum, hann kallar þetta símskeyti spurninguna, sem var send NATO.

Ég hef nú gert grein fyrir því, að í símskeytinu til NATO, sem ég las, en utanrrh. hæstv. færðist undan að lesa, er eftirgrennslan eftir afstöðu NATO til að framkalla tilboð þeirra um það, að við höfum rétt til þess að færa út einhliða í 12 mílur, enda ber efni símskeytisins frá 18. maí — og þess vegna var það ekki lesið — þetta með sér. Það er reynt að grennslast eftir afstöðu NATO án þess að fara inn á samninga.

Ef enn þykir skorta rök, ætla ég nú samt sem áður að leiða vitni, sem ég hygg að flestir menn taki nokkurt mark á. Raunar er þetta vitni um leið dómari, sem hefur þegar dæmt í þessu máli, sem deilt er um. Það kom sem sé skeyti, dags. 20. maí, frá sjálfum framkvæmdastjóra NATO, þar sem hann segir í símskeyti til mín, og ég skal reyna að lesa þetta upp í íslenzkri þýðingu:

„Atlantshafsráðið og NATO hefur haldið fund um skilaboð stjórnar yðar 19.“ — þið takið eftir því, að það er „message“, það er skilaboð, það er ekki tilboð, eins og utanrrh. á Íslandi skilur það, — „og rætt málið. Ég finn mig skuldbundinn til þess að láta í ljós þann skilning minn persónulega, sem hér fer á eftir: Ég er sannfærður um, að stjórnir eru áreiðanlega mótfallnar vegna lögfræðilegra ástæðna og vegna meginreglna einhliða útfærslu stjórnar yðar á fiskveiðitakmörkunum.“

Hverju eru þeir að svara? Hann er ekki í vafa um, hvernig hann á að skilja símskeyti ríkisstj. Það er honum ljóst, einum reyndasta stjórnmálamanni í Evrópu, að það, sem ríkisstj. er að reyna að ná í hjá NATO-ríkjunum, er yfirlýsing um það, að við höfum einhliða rétt til að færa út fiskveiðitakmörkin. Þannig skilur hann símskeytið, og þannig svarar hann því. Hann segir: Ég skil, af hverju þér eruð að fara fram á þetta. En þetta get ég ekki. — Ég skal lesa þetta aftur, því að ég hef þetta hér í þýðingu:

„Eftir fund NATO, þar sem skilaboð stjórnar yðar 19. maí,“ — skeytið var sent 18. og skilaboðin hafa komið 19. maí, — „voru rædd, tel ég mér skylt að skýra frá eftirfarandi persónulegum skilningi mínum: Ég er sannfærður um, að ríkisstjórnir eru áreiðanlega mótfallnar af lagalegum ástæðum og grundvallarástæðum einhliða ákvörðun ríkisstjórnar yðar í ákvörðun nýrra fiskveiðitakmarka.“

Síðan segir hann, þessi æfði stjórnmálamaður, sem er einn af þekktustu stjórnmálamönnum a.m.k. í Evrópu, — hann segir: „Þetta get ég ekki.“ — Þið getið sjálfir lesið beint það, sem stendur í skeytinu. — En hann stingur upp á annarri lausn. Hann stingur upp á því í löngu máli hér á eftir, að við tökum upp samninga og helzt að það sé höfð sérstök ráðstefna til þess að standa fyrir þeim samningum.

Ég sendi ekki Spaak neitt símskeyti og sagði: Ég hef æfðan utanrrh., sem er prókúrator, líka æfður, og hann álítur, að þetta sé alveg rangt hjá yður, Spaak. Hann hafði sent tilboð. Við höfum verið að senda tilboð um samninga. Hvers konar villu eruð þér í, maður? Hvers vegna eruð þér að stinga upp á því og biðja um samninga, þegar við vorum að bjóða þá? — Ég sendi ekki slíkt símskeyti. Og ég varð ekki var við, að hæstv. utanrrh. gerði nokkrar athugasemdir við þennan skilning framkvæmdastjóra NATO, Spaaks, á símskeyti okkar.

Þetta mundi nú nægja í sjálfu sér. En það er samt sem áður svolítið meira til. Eins og ég sagði áðan, var þessu símskeyti svarað, þar sem hann fór fram á samninga, og með leyfi hæstv. forseta, ætla ég að lesa þann kafla svarsins, sem um þetta fjallar. Og ég ætla að lesa það hægt, vegna þess að orðalagið er hnitmiðað í samræmi við þetta, að við vildum aldrei ganga inn á samninga:

„Í samræmi við stofnskrá Atlantshafsbandalagsins,“ segi ég í svarinu, „og áhuga Íslendinga fyrir góðri samvinnu þátttökuþjóðanna hefur ráði Atlantshafslandalagsins verið skýrt frá fyrirætlunum Íslendinga um útfærslu fiskveiðilandhelginnar. Jafnframt hafa“ — takið eftir — „fyrir atbeina Atlantshafsbandalagsins verið reyndar vissar leiðir til viðurkenningar, en þeim hefur eindregið verið hafnað af hinum þátttökuþjóðunum. Þau úrslit urðu mér mikil vonbrigði. Ég get ekki fallizt á sérstaka ráðstefnu um þetta mál, og tel ég hana ekki líklega til að bæta viðhorfið. Misheppnuð ráðstefna gæti hins vegar hæglega orðið til meira tjóns en bóta, eins og svo mörg dæmi sýna. Að athuguðu máli hefur verið ákveðið efni reglugerðar um 12 mílna fiskveiðilandhelgi, sem verður gefin út 30. júní, en útfærslan taki þó ekki gildi fyrr en 1. september. Tíminn til 1. sept. verður notaður til að vinna að skilningi og viðurkenningu annarra þjóða. Málavextir verða skýrðir nánar fyrir yður.“

M.ö.o.: samningum er neitað. Það er hann, sem stingur upp á samningum. Það erum við, sem krefjumst viðurkenningar fyrir því eða er um að kalla á viðurkenningu fyrir því, að við höfum rétt til þess að færa út einhliða. Hann hefur svo alveg neitað því, eins og við þekkjum. Hann stingur upp á samningum, við neitum þeim. Það voru ekki allir sammála um það. Ég skal ekki nota tímann til að rekja það hér. En þetta er svarið. Þeir, sem eru í vafa um það eftir þetta svar, eftir svar Spaaks sjálfs, eftir orðalaginu á símskeytinu, — þeir, sem eru í vafa um málstaðinn, þeir eru áreiðanlega skilningslitlir. — Þetta er púðurkerling, sem er tilbúin vegna þess, að mennirnir hafa vondan málstað, og hún brennir engan, ef rétt er á henni tekið, ekki einu sinni fingurna.

En áður en ég lýk máli mínu, vil ég minnast á annað. Það hefur einu sinni áður verið gerð svipuð árás á mig hér á Alþingi. Það var út af því, að ég átti að hafa haldið leyndum skjölum, sem mér höfðu verið send fyrir styrjöldina. Ég ætla ekki að rekja það í lengra máli, ég býst við, að ýmsir muni eftir því. Það var lesið upp úr bréfum og símskeytum, eins og núna. En það skal viðurkennt, að þegar ég krafðist þess að fá öll símskeytin í hendur, eftir að árásarræðan hafði verið haldin, og öll bréfin í hendur, þá var það núv. hæstv. forsrh., sem lét þingsvein fara til mannsins, sem hafði skjölin, taka skjölin í sínar hendur og afhenda mér þau. Það var siðaðra manna háttur og sá háttur, sem vitanlega tíðkast í öllum þingum veraldar, að ef einhver ráðherra hefur setið í ríkisstj. og er slitið úr samhengi og lesið upp úr bréfum, sem hafa orðið til í hans ríkisstj., þá eru þau afhent. Eftir að ég hafði fengið þessi bréf í hendur, fór málið þannig, svo lítill ræðumaður sem ég er, að málið snerist þannig í höndum þeirra, sem fyrir árásinni stóðu, að ég skal ábyrgjast, að hver einasti þeirra hefði óskað eftir að hafa ekki gert hana. Það þurfti svo lítið til, að ég gat með mínum litlu mælskuhæfileikum hnekkt því svo gersamlega, að mennirnir ætluðu ofan í stólana.

Ég get jafnvel nú þegar, þótt ég fái ekki nema þau símskeyti, sem hafa verið lesin, og á þann hátt, sem ég hef þegar gert, hnekkt þessari árás. En árás utanrrh. er svipaðs eðlis og sú, sem ég minntist á áðan. Hann slítur úr sambandi símskeyti, les upp sumt, sem honum líkar betur, vísar til hinna og les þau ekki upp og ætlar að halda þeim leyndum.

Hann hefur að vísu orðið við þeirri kröfu, sem hann gat ekki komizt hjá, að afhenda þau símskeyti, sem hann sendi í samráði við mig. En nú veit utanrrh., að ég hef rökstuddan grun um, að hann hafi á laun og bak við þá ríkisstj., sem ég veitti forstöðu, sent til NATO skeyti í landhelgismálunum. Hæstv. ráðh. veit vel, á hverju ég styð þetta mál mitt. Það stóð nefnilega þannig á, þegar þessi skeyti voru send, að raunverulega var ágreiningur milli flokkanna um framhald viðræðnanna. Sjálfstfl. lýsti því yfir, að ég hygg 21. maí, að hann vildi áframhaldandi viðræður, að maður segi ekki samninga, a.m.k. áframhaldandi viðræður og líklega samninga við NATO. Við lýstum því yfir opinberlega þá, að við teldum þá þýðingarlausa. Þessar yfirlýsingar munu allar vera til í prentuðum blöðum og meira að segja í dagblöðum. En þegar við tókum af skarið með það á þennan hátt, Framsfl. og Alþb., þá kemur í ljós það, sem nú er að koma í ljós, þá gerist það, sem nú er að koma í ljós: Mér hafði verið sagt hvað eftir annað, að hæstv. utanrrh. stæði í sambandi við Sjálfstfl. og mundi meira í viðskiptum sínum við NATO taka tillit til hans en ríkisstj. Ég sagði: Þetta er ósatt. Ef ráðh. er í ríkisstj., þá sendir hann símskeyti fyrir ríkisstj., og þar er ekkert persónulegt eða privat til. — Og sannleikurinn er sá, að ef það hefði ekki verið tekið fyrir þetta með skeytinu til Spaaks, framkvæmdastjóra NATO, skeytinu, sem ég las, þá hefði ekki orðið af útfærslu í 12 mílur, ef Sjálfstfl. og hæstv. utanrrh, og flokkur hans hefðu ráðið. En sleppum því.

Nú er það þannig, að það hefur verið talið, að ekki mætti birta skjöl, sem fara milli ríkisstj. og NATO. Nú virðist þessu banni aflétt. Nú virðist því aflétt, a.m.k. getur hæstv. utanrrh. birt þau skjöl, sem honum þóknast, og það hlýtur þá að mega birta þau öll. Nú skora ég hér með í þjóðar áheyrn á hæstv. utanrrh. að birta öll þau skjöl, sem farið hafa á milli NATO og þeirrar ríkisstj., sem ég veitti forustu, á hans tíma sem utanrrh. Ef hann gerir þetta, þá hagar hann sér eins og siðaður maður og eins og síður er að ráðherrar hagi sér í löndum, þar sem sæmilegir mannasiðir ríkja. En ef hann gerir það ekki, verður það ekki skilið öðruvísi en sem siðleysi, fullkomið siðleysi, að vega þannig með skjölum, sem hann snýr út úr og birtir, en birtir ekki skjölin í heild og þar á meðal þau, sem ég hef sterkan grun um að séu til og ég hef aldrei séð né vitað af. Og ef ráðh. vill mótmæla þessu strax, því að ég hef ekki tíma til að tala oftar, þá getur hann mótmælt því, sem ég sagði seinast, en þá ætla ég að svara því strax úr ræðustólnum. (Utanrrh.: Það hafa engin skjöl frá utanrrn. farið til NATO með tilboði eða einu eða neinu slíku, án þess að þáv. forsrh. vissi um.) Með tilboði eða neinu slíku, engin skjöl með tilboði eða neinu slíku. Já, hvað er með skeytið 22. ágúst? (Utanrrh.: Það hef ég lesið upp.) En þá verð ég að segja frá því, þó að mér þyki það leitt, að hann afhenti mér skjalamöppuna, stóð yfir mér, meðan ég var að lesa hana, og þar kemst ég í skeyti, sem ég hef aldrei haft hugboð um, og hann hrifsar möppuna, þannig að við gátum ekki afskrifað skeytin, og segir: Þetta er skeyti, sem ég hef sent persónulega. — Við Eysteinn vorum þarna inni. (Utanrrh.: Það var ekki símskeyti til NATO.) Þá er það ágætt, hann hefur ekki sent neitt, þá getur hann birt það allt. (Gripið fram í.) Já, það er sannsögli, ég varaði mig ekki á prókúratornum. Það var til fulltrúa okkar, sem átti að bera skilaboðin á milli. Það er nefnilega það.

Eitt er ljóst orðið — og ég vil segja það að lokum — af þessum bardagaaðferðum: Hæstv. ríkisstj. er hrædd við sinn eigin málstað. Engir nema rökþrota og hræddir menn beita slíkum bardagaaðferðum, sem ég hef lýst og flett ofan af. Engum nema rökþrota mönnum kemur til hugar að bera saman sem hliðstæður þá leið að reyna með eftirgrennslan að framkalla viðurkenningu NATO á því, að við höfum rétt til einhliða útfærslu, og leið núv. ríkisstj. að semja um minnkun landhelginnar, sem við höfðum ákveðið og barizt fyrir, og það við þá einu þjóð, sem hefur níðzt á okkur, sýnt okkur ofbeldi og hótað meira ofbeldi, ef við ekki semjum, — bera þetta tvennt saman. Fyrri leiðin opnar nýjar leiðir til útfærslu. Hin leiðin lokar þeim nema með samningum og samþykki þjóða. Það var af þessum ástæðum, að NATO-þjóðirnar neituðu skeytinu frá 18. maí, eins og Spaak segir skýrt í svari sínu. En þær heimtuðu hins vegar, að farin væri samningaleiðin, sem hæstv. ríkisstj. er nú að fara, og þó í miklu auvirðilegri mynd, þar sem hún er að semja við eina þjóð, sem hefur sýnt okkur ofbeldi, og segir við hinar: Ég hef ekkert við ykkur að tala. Þið hafið komið þannig fram, að þið hafið ekki sótt inn í landhelgina. — En þeir semja við einu ofbeldisþjóðina í NATO. Hvað er líkt með þessu tvennu? En þetta leyfir hæstv. ríkisstj. sér að bera saman.

Hæstv. ríkisstj. lítur sjálfsagt ekki á það sem holla ráðleggingu, sem frá mér kemur. En ég ræð henni áreiðanlega heilræði, þegar ég ræð henni til að snúa af þeirri leið, sem hún er að fara, en í stað þess standa við þær yfirlýsingar, sem allir þingflokkarnir hafa gefið: semja aldrei við ofbeldið, halda fast á rétti Íslands og án afsláttar. Ef ríkisstj. gerir þetta, þá er það alveg fullvíst, að hún hefur þjóðina einhuga á bak við sig í þessu máli. Á þann hátt einan er hægt að tryggja þann sigur, sem unninn er, því að sigur höfum við unnið, eins og hæstv. dómsmrh. hefur oftast tekið fram hér í þessari hv. d. og annars staðar, og til þess að tryggja þennan sigur er það eina leiðin, og þá leið á ríkisstj. að fara.