11.11.1960
Efri deild: 20. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í C-deild Alþingistíðinda. (2216)

33. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Mér er það ljóst, að ég er í þeirri aðstöðu, að ég á aðeins rétt á aths. samkv. þingsköpum og þingvenju. Ég á það undir vinsemd hæstv. forseta, hve langan tíma hann gefur mér til þeirrar aths. En vegna þess að ég eins og aðrir þdm. hér þekki frjálslyndi hans og sanngirni, þá vil ég sízt af öllu syndga upp á hans náð í því efni. Ég bið hann því að gera mér viðvart í minni ræðu, þegar hann telur, að ég hafi fengið þann tíma, sem mér beri til minnar aths., um leið og ég vil þakka honum þá vinsemd hans að fresta hér umræðu þessa máls í gær, eftir að ég hafði skýrt honum frá því, að ég, þótt ég væri á mælendaskrá, yrði að víkja af fundi, og gert honum grein fyrir ástæðum til þess, sem hann mat gildar.

Þegar svo er ástatt fyrir mönnum eins og mér nú, að þeir eiga aðeins rétt á aths. eftir langar umr., þá virðist mér oft um tvennt að velja: annaðhvort að reyna að svara þeim ræðumönnum, sem áður hafa talað, en þeir eru nú orðnir allmargir, síðan ég talaði hér síðast, — hæstv. ráðherrar, sem talsmenn hæstv. ríkisstj. í þessu máli, hafa talað hér oft, síðan ég talaði, — eða þá hinn kostinn að reyna í stuttu máli að draga saman og gefa yfirlit um það, sem maður hefur sagt fyrr, svo að afstaða til málsins verði sem skýrust í lok umr. Ég vel hiklaust þann kostinn. En af því leiðir, að það má vel vera, að ég gangi fram hjá að svara ýmsum veigamiklum atriðum, sem hafa komið fram í ræðum hæstv. utanrrh. og hæstv. dómsmrh., sem hér hafa talað, síðan ég talaði hér síðast.

Umr. um þetta mál eru nú orðnar alllangar í þessari hv. d. og hafa stundum orðið allharðar. Þær munu hafa orðið allharðar hér í gær, eftir að hæstv. utanrrh. tók þann kost að víkja þeim alveg sérstaklega inn á þá braut að ræða um það, sem hefði gerzt á bak við tjöldin sumarið 1958 og ekki eru margir menn til frásagnar um. Við þm. Alþb. getum leitt þessar umr. hjá okkur að mestu leyti. En fyrir okkur er það ekkert nýtt, að það sé upplýst, að hæstv. utanrrh. hafi staðið í samningamakki víð þjóðir Atlantshafsbandalagsins og þar með Breta vorið og sumarið og fram á haustið 1958. Ég sagði frá því í minni ræðu, það hefur fyrir löngu veríð sagt frá því. Við vissum, hvað hæstv. ráðh. var að gera, en það er ekki allt komið fram. En um þetta vil ég aðeins segja það sama og ég sagði hér við hæstv. dómsmrh., þegar hann rengdi frásagnir mínar af því, sem gerðist hér vorið 1958, þegar hann var úti í löndum, — aðeins segja þetta: Við þessu er ekki nema eitt að gera, þ.e. að leggja skjölin á borðið. Og ég skoraði þá á hæstv. dómsmrh. að leggja á borðið öll þau gögn, sem eru undir hans höndum um meðferð landhelgismálsins vorið 1958 fram að þeim tíma, sem reglugerðin var gefin út 30. júní, og eftir þann tíma og draga þá ekki undan tillögur Sjálfstfl., sem komu fram á þessum tíma, eða tillögur Sjálfstfl., sem komu fram, eftir að reglugerðin var gefin út og eftir að hún tók gildi. Ég skora enn á hæstv. dómsmrh. að gera þetta og ég skora líka á hæstv. utanrrh. að leggja skjölin um það, sem hann hafðist að sumarið og haustið 1958 í sambandi við landhelgismálið, á borðið, svo að ekki þurfi að vera að deila um það hér í þingsölunum, hvað standi í þeim skeytum, sem hann sendi.

Það hittist svo á, að ég varð óvart vitni að því hér í hliðarsal þessarar hv. d., hvað fór á milli hv. 2. þm. Vestf. og hv. 1. þm. Austf. með honum og hæstv. utanrrh. Hæstv. utanrrh. var með undir hendinni möppu, þar sem voru í skeyti þau, sem hann sendi sem utanrrh. í ágúst, m.a. í ágúst 1958, og hv. 2. þm. Vestf. og hv. 1. þm. Austf, voru meðráðherrar þessa hæstv. utanrrh. í stjórninni. Þeir báðu um að fá afrit af þeim skeytum, sem höfðu verið gerð að umræðuefni. Þeir fengu að skrifa eitt skeytið, en ég heyrði óvart, að hv. 2. þm. Vestf. sagði: Hér er annað skeyti, má ég ekki fá að skrifa það líka? Það er um þetta mál. Það var sent þessa daga. — Nei, það færð þú ekki, sagði hæstv. utanrrh., það færð þú ekki, það er prívatskeyti.

Það er prívatskeyti, sem utanrrh. sendi. Það hefur stundum verið rætt í utanrmn., hvað það er, hvort utanrrh. getur sent nokkur prívatskeyti eða prívatorðsendingar, ef hann gerir það sem utanríkisráðherra. Það hefur komið fram í málum, merkum málum í þjóðarétti.

Það hittist svo á, að við vitum nokkurn veginn, hvað er í þessum prívatskeytum hæstv. utanrrh., á hverju þau voru byggð. Þau voru byggð á samningamakki hans við forustumenn Sjálfstfl. í Sjálfstæðishúsinu og hér í alþingishúsinu í ágústmánuði 1958. Og það fólst í þeim, hvað hann treysti sér til þess að bjóða Bretum sem samningsgrundvöll með Sjálfstfl., upp á það, að hann myndaði stjórn með Sjálfstfl. Við vitum það vel. Meðan hæstv. dómsmrh. lá úti í löndum, þá vissum við, hvað gerðist. Hæstv. utanrrh. var búinn að semja við Sjálfstfl. um að svíkja í landhelgismálinu. En hann varð að svíkja Sjálfstfl., eins og forustumenn Sjálfstfl. hafa sjálfir sagt, hæstv. forsrh. og hæstv. dómsmrh. og bankastjóri Landsbankans, Pétur Benediktsson, opinberlega. Hann var kúgaður til þess að hætta við að svíkja sína flokka og þjóðina, kúgaður og svínbeygður, eins og þeir hafa sagt, hæstv. forsrh. og hv. bankastjóri Landsbankans, Pétur Benediktsson, — það er satt. En hann var reiðubúinn til þess að semja bak við sinn forsrh., bak við sína meðráðherra, bak við sína eigin ríkisstj., með Sjálfstfl. kringum 20. ágúst 1958, nokkrum dögum áður en reglugerðin átti að ganga í gildi, sem hann hafði sjálfur undirskrifað. Við höfðum í höndunum undirskrifað plagg af hæstv. utanrrh., Guðmundi Í. Guðmundssyni. Ég vissi vel, hvað mikils virði undirskrift hæstv. utanrrh. er. Ég vissi, að hann mundi ganga á bak orða sinna, ef hann fengi tækifæri til og þyrði. En af hverju sömdu ekki þessir herrar? Af hverju sömdu þeir ekki, hæstv. utanrrh, og Sjálfstfl. með honum í ágúst 1958? Af því að þeir þorðu ekki.

Því er haldið mikið á lofti í umr. hér af hv. formælendum ríkisstj., hæstv. utanrrh. alveg sérstaklega, að það sé fáránlegt að segja, að það sé eitthvað nýtt, að þeir tala við þessar þjóðir, viðkomandi þjóðir. Þegar við segjum: Það er nýtt að semja, að semja við Breta, — þá segja þeir: Það er ekki nýtt. — Það er alveg rétt hjá þeim, það er ekki nýtt, því miður. En þessir hæstv. ráðherrar mega ekki gleyma því, að það eru til gögn í landhelgismálinu, fleiri en þau, sem felast í ræðum þeirra hér á hv. Alþ. og frammi fyrir íslenzku þjóðinni. Það eru til gögn, sem ríkisstjórnir Íslands hafa lagt fram fyrir aðrar þjóðir, fyrir allar þjóðir heims, hvítar bækur, sem ríkisstjórnir Íslands hafa gefið út um afstöðu íslenzkra ríkisstjórna fyrr og síðar í landhelgismálinu. Og þau gögn vitna um það, að það hefur alltaf verið afstaða allra ríkisstjórna, sem hafa haldið á málinu, að semja ekki við einstakar þjóðir eða neina um framkvæmdaratriði í málinu. Ég gæti hér, ef ég hefði tíma til, lesið upp niðurstöður — aðeins niðurstöður — þessara fjögurra hvítu bóka, sem eru til. Þær eru allar á þessa leið. Ég hef ekki tíma til þess, en þessar hvítu bækur voru gefnar út, hin fyrsta í september 1954, önnur í október 1955, hin þriðja haustið 1958 og hin síðasta í júní 1959. Þar er saga málsins skráð, eins og hún horfir við gagnvart öðrum þjóðum, og það er sá málflutningur, sem hæstv. ráðherrar mega ekki gleyma.

Ég hef sagt hér: Með samningum okkar við Breta nú erum við að brjóta niður allar röksemdir okkar, alla málfærslu okkar — eins og við höfum lagt hana fyrir í meira en áratug — gagnvart öllum þjóðum heimsins, — við erum að brjóta hana niður og gera hana að engu. Eða er hér nokkur maður, sem leggur það í alvöru að jöfnu að gera nú sérsamning við Breta um landhelgismálið og þar með alveg tvímælalaust um landhelgismörkin, fiskveiðimörkin sjálf, eða það, sem hefur gerzt, að ráðherrar, sem hafa verið að því komnir fyrir hönd þjóðarinnar að ákveða sérstakar aðgerðir í landhelgismáli okkar, þó að þeir hafi, áður en til framkvæmdanna kom, tilkynnt og skýrt fyrir öðrum ríkisstjórnum, þ.á.m. ríkisstj. Breta, hvað íslenzka ríkisstj. hefði í hyggju að gera? Er hér nokkuð maður, sem leggur þetta að jöfnu? Er hér nokkur maður auk þess, sem hefur gleymt því, sem Bretar hafa gert íslenzku þjóðinni síðan 1. sept. 1958?

Svo kemur hæstv. dómsmrh. og leyfir sér að segja, að við höfum fordæmi í þessum málum, fordæmi Norðmanna, Norðmenn séu nýbúnir að semja við Breta. Ég veit, að hæstv. dómsmrh. kynnir sér alltaf vel mál, og honum er það allra manna ljósast, að dæmi okkar og Norðmanna er algerlega ósambærilegt. Norðmenn voru með sögulega réttinum. Þeir álíta, að sögulegi rétturinn sé til, og þess vegna er eðlilegt, að þeir semji við Breta á þeim grundvelli. Við höfum neitað því. En Bretar hafa ekki framið þau afbrot í garð norsku þjóðarinnar, sem þeir hafa framið í garð íslenzku þjóðarinnar.

Ég sagði áðan, að ég hefði ekki tíma til þess nú að lesa svo mikið sem niðurstöður hinna 4 hvítu bóka, sem íslenzkar ríkisstjórnir hafa gefið út um landhelgismálið. En eina eða tvær af niðurstöðunum í hinni síðustu þeirra, hinni síðustu, sem gefin var út í júní 1959, ætla ég að leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta. Hún er rituð á ensku máli og hún heitir á ensku máli British Agression in Icelandic Waters — Brezk árás á hafinu við Ísland. Og niðurstaðan er sú, að árás Breta á hafinu við Ísland samrýmist ekki stofnsamningi Sameinuðu þjóðanna og meginreglum annarra félagsstofnana, svo sem Atlantshafsbandalagsins og Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu, sem bæði Ísland og Bretland séu meðlimir í. M.ö.o.: íslenzka ríkisstj. segir: Brezka árásin á Ísland, sem hefur átt sér stað frá 1. sept. 1958 og þangað til í sumar, skulum við segja, hún er brot á stofnsamningi Sameinuðu þjóðanna, hún er brot á samningi Atlantshafsbandalagsins, og hún er brot á stofnsamningi Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu. Þetta segir íslenzk ríkisstj. Ég veit, að hæstv. utanrrh. hefur ekki tekið saman þessar bækur. Hann nennir ekki slíku verki. En þessar bækur eru vel gerðar, fullsómasamlega lagður fram málstaður Íslands frammi fyrir öðrum þjóðum, — en þetta er lokaniðurstaða hinnar síðustu þeirra: Alvarleg slys geta átt sér stað, hvenær sem er, og þess vegna verður að kalla brezk herskip í burtu frá Íslandi þegar í stað.

Þetta var krafa íslenzkrar ríkisstj. Þessari bók og þessum kröfum hefur verið útbýtt meðal allra þjóða í sambandi Sameinuðu þjóðanna, þessari kröfu íslenzku þjóðarinnar. Hvað er svo gert í þessu máli? Það, sem hefur gerzt í þessu máli, ég leyfi mér, með leyfi hæstv. forseta, að rifja það upp:

Þann 10. ágúst í sumar — í dag er 11. nóvember — fyrir rúmum þremur mánuðum ákvað íslenzk ríkisstj. að ganga til samninga við þessa ríkisstj. að ganga til samninga við þessa ríkisstj. Breta sérstaklega, sem hún hefur opinberlega borið þessum sökum. Í þessa þrjá mánuði hefur hvorki Alþingi né þjóðin fengið neinar fregnir af því, hvað sé að gerast né að hverju sé stefnt. Við vitum, að í 10 daga sátu fulltrúar ríkisstjórna Bretlands og Íslands á fundum hér í Reykjavík. Við vitum, að þegar fulltrúar Breta komu heim til síns lands, þá gáfu þeir nákvæmar skýrslur um gang þessara samninga, ráðherrum sínum tveimur, mikils metnum ráðherrum í stjórn Bretlands, og brezkum togaraeigendum. Við vitum, að skömmu síðar voru enn sendir tveir mikilsvirtir fulltrúar íslenzku ríkisstj. til London, til þess að undirbúa frekari samninga. Og við vitum af opinberri tilkynningu, að á mánudaginn kemur, þann 14. þ.m., koma brezkir fulltrúar hingað til Reykjavíkur til þess vitanlega að ganga frá samningum.

Alþingi hefur setið að störfum síðan 10. okt. Þetta mál var eitt það fyrsta, sem flutt var hér á Alþ., og eitt hið fyrsta, sem við sögðum, stjórnarandstæðingar, var: Megum við spyrja um, hvað er að gerast? — Ég leyfði mér í frumræðu minni að rifja upp nokkur höfuðatriði þessa máls og þá ekki fyrst og fremst þau, sem hafa aðgreint okkur og valdið ágreiningi milli okkar, þingflokka hér á Alþ., heldur hin, sem hafa sameinað okkur þrátt fyrir allt, Þetta var meginuppistaða minnar fyrstu ræðu. Ég lagði áherzlu á það, að allar ríkisstjórnir, sem hafa haldið á þessu máli, hafa reynt að ná samstöðu allra þingflokka um hverja aðgerð í málinu. En allar aðgerðir þeirra hafa vitanlega miðað fram á við, þær hafa verið um útfærslu landhelginnar. En þann 10. ágúst í sumar tilkynnti hæstv. ríkisstj. stjórnarandstöðunni, að hún ætlaði að ganga til samninga við Breta. Og hún lét stjórnarandstöðuna vita, að hún ætti engan þátt að eiga í þeim samningum, hún vildi enga samvinnu við stjórnarandstöðuna um þetta. Þetta er auðvitað höfuðsök hæstv. ríkisstj., mesta brotið, sem hún hefur framið. Með þessu hefur hún gengið berast á móti stefnu allra ríkisstjórna, sem hafa setið í þessu landi og haldið á þessum málum. En ég sýndi fram á það í fyrstu ræðu minni um þetta mál, að með þessu gerðu hæstv. ráðherrar, sem halda sérstaklega á þessu máli nú af hálfu ríkisstj., sig sjálfa að viðundri, af því að þeir höfðu sagt opinberlega og látið bóka eftir sér í utanrmn., t.d. hinn 13. júlí í sumar, tæpum mánuði áður en hæstv. ríkisstj. tilkynnti stjórnarandstöðunni þá afstöðu sína, að hún ætlaði að ganga til samninga við Breta, þá tilkynnti hæstv. utanrrh, að það kæmu ekki til mála neinir samningar við Breta. Ég hef lesið þessa stuttorðu yfirlýsingu hæstv. utanrrh., sem var gefin fyrir hönd ríkisstj., í báðum þingsölunum, en með leyfi hæstv. forseta, ætla ég að leyfa mér að gera það enn. Orð hans eru þannig, hinn 13. júlí í sumar, með leyfi hæstv. forseta :

„Hins vegar hefur það oft komið fram hjá Bretum,“ sagði hæstv. ráðh., „að þeir leggja áherzlu á að taka upp viðræður við Íslendinga um málið. Afstaða ríkisstj. nú hefði verið sú sama og fyrri ríkisstjórna að hafna öllum tilmælum um samningaviðræður, þar eð ekkert væri við Breta að semja um víðáttu fiskveiðilögsögunnar við Ísland.“

Þetta var í fyllsta samræmi við aðra yfirlýsingu, sem hæstv. utanrrh. gaf á fundi utanrmn. 27. apríl 1959, þar sem hann sagði:

„Við höfum svarað, að við séum ekki til viðræðna um stærð fiskveiðilögsögu Íslands. Að áliti utanrrh.“ — stendur hér bókað — „kemur ekkert nýtt fram, ef við tökum málið upp aftur innan NATO, en í þess stað kunna að geta skapazt nýir erfiðleikar.“

Þannig hefur hæstv. utanrrh. gert sjálfan sig að viðundri með yfirlýsingum sínum í utanrmn. og gerðum sínum, eftir að hann ákvað með hæstv. ríkisstj. að taka upp samninga við Breta. En, hef ég sagt, það er ekki verst, þó að þessir hæstv. ráðherrar geri sig að viðundri og þó að þeir gerist svikarar við sína flokka, svikarar við það, sem þeir hafa sagt í kosningum og frammi fyrir þjóð sinni. Það er ekki verst. Verst er það, ef íslenzka ríkisstjórnin, sú íslenzka ríkisstj., sem nú situr, gerir sig að viðundri, af því að hún gerir allt annað en hún hefur byggt allan sinn málflutning á frammi fyrir heiminum í 10 ár. Það liggur hér fyrir í hinum hvítu bókum ríkisstj.

Rökin fyrir því að ganga nú til samninga við Breta eru fyrst og fremst þau, að það verði að koma í veg fyrir hættu af árekstrum á hafinu, og í sambandi við þessi rök sérstaklega hæstv. dómsmrh., — hæstv. utanrrh. hefur reyndar líka gert sig klökkan hér í ræðustólnum um þessa hættu, þessa lífshættu íslenzkra sjómanna, — um þessi rök hef ég haft það að segja að minna á, að forkólfar Sjálfstfl., hæstv. forsrh. og hæstv. dómsmrh., höfðu einu sinni till., sem var byggð á þessum rökum. Þeir höfðu þessa till. haustið 1958 og fram að áramótum 1958–59, en þá felldu þeir hana niður og hættu að tala um hana. Þá hættu þeir að tala um hættuna á árekstrum, þá hættu þeir að tala um lífshættu sjómannanna á hafinu, og þann 5. maí 1959 létu þeir þessa till. niður falla með öllu, till. um að taka upp viðræður við Breta vegna hættunnar af árekstrum á hafinu. Síðan hafa þeir ekki minnzt á hættuna af árekstrum á hafinu fyrr en 10. ágúst 1960. Langt á annað ár gleymdu hæstv. dómsmrh. og hæstv. forsrh. alveg hættunni, lífshættunni. Eða hafa þeir talað um hana? Hefur hæstv. dómsmrh. haldið þessu vakandi fyrir þjóðinni þennan tíma, allt árið 1959, lífshættunni, sem sjómennirnir séu í? Hefur hann gert það? Hefur hann gert það í hverri ræðu, sem hann hefur haldið fyrir þjóðinni, í hverju blaði Morgunblaðsins? Hann er þarna inni. Hann getur svarað, ef hann hefur gert þetta. Hann var hér að heimta í gær, er mér sagt, að honum væri svarað úr sæti. Hefur hann svarað? Getur hann svarað? Eða gleymdu þeir, þessir herrar, lífshættu íslenzkra sjómanna, gleymdu þeir henni í hálft annað ár? Jú, auðvitað. En eru þessir hæstv. ráðh. vissir um, að þeir séu að þurrka burt lífshættuna á hafinu við Ísland fyrir brezkum herskipum, fyrir brezkum togurum, með samningum við Breta, með þeim samningum, sem þeir standa nú í við Breta?

Þó að okkur hafi verið neitað um allar upplýsingar um það, hvað hafi verið talað um í 8 mánuði milli fulltrúa íslenzku ríkisstj. og brezkrar, þó að okkur sé neitað um allar upplýsingar um þetta og ekki svarað nema skætingi og útúrsnúningum af hæstv. utanrrh., þá hefur þó gægzt fram í ræðum hæstv. dómsmrh., um hvað sé verið að tala. Það hefur verið talað um það að veita Bretum hlunnindi, rétt til þess að veiða milli 6 og 12 mílna, annaðhvort einhvers staðar eða alls staðar við Ísland, gegn því, að íslenzk fiskiskip fái að veiða einhvers staðar eða alls staðar utan 12 mílna við Ísland, þ.e.a.s. á opna hafinu, sem Bretar kalla, á opna hafinu, þar sem Bretar vilja ekki vera, og við eigum að selja réttinn til þess að fá að veiða milli 6 og 12 mílna, hleypa þangað brezkum togurum og borga í staðinn fyrir réttinn til þess að veiða einhvers staðar utan 12 mílnanna. Þetta er málið. En ef brezku togararnir koma eftir samninga hæstv., ríkisstj. inn á svæðin milli 6 og 12 mílnanna, sem bátaflotinn okkar hefur verið á síðustu 2 árin, nema í þeim hólfum, sem brezk herskip hafa gætt, eru þá hæstv. ráðh. vissir um, að hættan, lífshætta okkar sjómanna, verði minni? Við skulum segja, að brezku herskipin fari, þau gæti ekki brezku togaranna, eins og þau hafa gert í hólfunum. Ég geri ekki ráð fyrir því, að hæstv. dómsmrh. ætlist til þess, að lögsagan milli 6 og 12 mílna verði bæði okkar og Breta, þ.e.a.s. brezku herskipin verði þar. Nei, ég geri ráð fyrir því, að okkur verði ætlað að halda uppi lögum og rétti, við eigum lögsöguna milli 6 og 12 mílnanna. En brezku togararnir koma, og ekki aðeins þeir, segi ég, heldur togarar allra annarra þjóða eða flestallra, sem hafa veitt við Ísland. Ég hef að vísu ekki fengið svar við þeirri veigamiklu spurningu, sem ég bar hér fram og lagði einna þyngsta áherzlu á, nema skæting einn. En ég veit það, það þarf ekki hæstv. utanrrh. að segja mér, um það hefur hæstv. ríkisstj. hugsað, og það er ekki hugsanlegt í því máli annað en það, að togarafloti allra þeirra þjóða, sem hafa veitt við Ísland, fái sama rétt og Bretar — eða flestallra.

Verður þá hættan minni fyrir íslenzka sjómenn milli 6 og 12 mílnanna heldur en hún er í dag? Ef þetta eru aðalrök hæstv. utanrrh., hæstv. dómsmrh., hæstv. ríkisstj. í heild sinni, eigum við þá að ræða þau betur?

Jú, það verður áreiðanlega spurt, þegar þeir segja, þessir hæstv. ráðh., um mig, að ég tali kaldranalega til íslenzkra sjómanna, þeir mega gera það eins mikið og þeir vilja, en það verður spurt: Hvernig er verið með þessu að tryggja líf íslenzkra sjómanna?

Eins og ég hef sagt áður, þó að hæstv. ráðh. fáist ekki til að gefa Alþ. nein svör, þó að þeir hafi sannanlega staðið í samningum, sannanlega í mánuð, við brezka ríkisstj., þá koma svörin fram. Þau koma einhvern tíma.

Það er auðvitað ekki spurt af þjóðinni í dag um það, hvað hafi farið á milli okkar, einna eða annarra, vorið, sumarið eða haustið 1958. Þjóðin er ekki að spyrja um það í dag, og það karp okkar má bíða, þangað til hæstv. ráðh. koma með skjölin á borðið, sem er frumskilyrði til þess, að hægt sé að tala um það. En það er spurt af þjóðinni í dag: Þegar brezku sendimennirnir koma hingað á mánudag, hvað gerist þá? Verður þá samið við Breta? Það er ein spurning. Þorir hæstv. ríkisstj. að semja við Breta? Þorir hún, eftir allt, sem á undan er gengið, og með þeim rökum, sem hún þykist hafa, — þorir hún?

Ég veit, að hæstv. ríkisstj. telur sig hafa lagalegan rétt til þess, ég veit, að hún telur sig hafa meiri hl. á hv. Alþ. til þess. Bretum, sem í sínum blöðum hafa sagt margt skynsamlegt orð um þetta mál, þó að þeir séu andstæðir okkur, hefur þótt meiri hl. hæstv. ríkisstj. hér á Alþ. heldur knappur til þess að tryggja þeim örugga samninga. Já, hann er knappur, en ég býst ekki við því, því miður, að það reynist vera í liði hæstv. ríkisstj. nokkur Pétur Ottesen lengur, nokkur maður, sem hlýðir ekki hæstv. ríkisstj.

Við höfum rifjað hér upp í karpi okkar um það, sem gerðist 1958, yfirlýsingarnar og hvað var verið að gera bak við tjöldin. Við höfum rifjað upp þennan óheppilega tvískinnungshátt að standa í samningum við aðrar þjóðir, allan fjöldann af þeim viðkomandi þjóðum, um leið og við erum að undirbúa einhliða aðgerðir í málinu.

Við vitum það vel, þó að við segjum það ekki hér í hverri ræðu, hvers vegna hv. Sjálfstfl. og hv. Alþfl. þorðu ekki að vera á móti reglugerðinni 1958. Það var af því, að það voru kosningar fram undan 1959, og af engu öðru. Ég veit, að hæstv. ríkisstj. þyrði ekki að semja, þó að hún hafi hér eins eða tveggja manna eða nokkurra atkv. meiri hl. á Alþ., — hún þyrði ekki að semja, ef það væru kosningar fram undan, því að hún veit, hvernig þjóðin hugsar.

Ég er ekki talsmaður þess, að í utanríkismálum séu tilfinningar látnar ráða, en ég veit, hvernig íslenzka þjóðin finnur til í þessum málum. En ég er talsmaður þess, að hver þjóð og ekki sízt svo lítil þjóð sem Íslendingar eru hafi einhvern metnað, og það veit ég að hún á. Ég veit, að hún hefur meiri metnað en hæstv. ríkisstj. á til að bera.

Hæstv. utanrrh. ætlaði mér það hér í einni ræðu sinni, að ég bæri sérstaklega fyrir brjósti hagsmuni tveggja þjóða, tveggja erlendra þjóða. Ég ber ekki fyrir brjósti hagsmuni nema einnar þjóðar, og við vitum allir, hvaða þjóð það er. Og ég hef ekki borið það á neinn mann, neinn þm., neinn Íslending, að hann beri hagsmuni annarrar þjóðar fyrir brjósti. Ég ber það ekki jafnvel á hæstv. utanrrh. En ég er hræddur um, að hæstv. dómsmrh., svo merkur og ágætur maður sem hann er, hann kunni aldrei að rétta úr sér og standa beinn í baki, þegar hann talar við Breta og Ameríkumenn. Ég er hræddur um, að hann hafi ekki — og hæstv. utanrrh. svo miklu síður — þann metnað fyrir hönd íslenzku þjóðarinnar, sem öll tilvera hennar byggist á, því að ef hún hefði ekki slíkan metnað, þá væri það vonlítið fyrirtæki, vonlítið fyrir svo litla þjóð að lifa í þessu landi. Það er þetta, sem ég óttast. Ég ber ekki föðurlandssvik eða neitt slíkt á hæstv. ráðh., ég hef aldrei gert það hér. En ég er hræddur um, að það komi í ljós, að við alþm. fáum ekkert að vita um þá samninga, sem hæstv. ríkisstj. hefur staðið í, fyrr en þeir eru gerðir. Ég hef aðvarað hæstv. ríkisstj. Í frv. okkar, sem er hér til umr., felst aðvörun til hæstv. ríkisstj., en það felst líka í því tilboð um það að standa allir sameinaðir, allir flokkar á Alþ., sameinaðir um þau höfuðatriði þessa máls, sem við höfum verið sammála um og höfum staðið sameinaðir um, að standa í hinni erfiðu árás Breta sameinaðir og þolgóðir, eins og við höfum gert. Ég er sannfærður um það, að mikill meiri hl. íslenzku þjóðarinnar krefst þessa, og þess vegna er hæstv. ríkisstj. ekki óhætt að gera samninga við Breta, sem hún er nú að gera og ef til vill að ganga frá, — alls ekki. Hæstv. ríkisstj. getur ekki tryggt brezkum togaraeigendum, sem eru hér aðilar þrátt fyrir allt, hún getur ekki tryggt brezkum togurum þá aðbúð hér í íslenzkum höfnum, sem þeir þurfa að tryggja sér m.a. í þessum samningum, nema íslenzka þjóðin sé með þessum samningum. En hún er það ekki. Hún verður á móti þeim. Af hálfu stjórnarandstöðunnar verður barizt á móti þeim, eins og yfir hefur reyndar verið lýst með flutningi þessa frv. Sú barátta mun halda áfram hér innan skamms, næstu daga hér á Alþ., þegar sú þáltill., sem við flm. þessa frv. flytjum ásamt öðrum hv. þm., fær að koma til umr.