11.11.1960
Efri deild: 20. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í C-deild Alþingistíðinda. (2217)

33. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Síðasti ræðumaður lauk máli sínu með því að vitna til þáltill., sem nú er komin fram í Sþ. og er í raun og veru þess efnis að flytja þær umr., sem hafa staðið hér í þessari hv. d. nú alllangan tíma, yfir í hv. Sþ. Ástæðan til þess tillöguflutnings virðist ekki geta verið önnur en sú, að eftir þessar býsna löngu umr. hér í d. hafi flm. þessa frv. — og tveir þeirra fremstu eru einnig meðal flm. till. í Sþ. — talið sig þurfa á liðsstyrk að halda vegna þess, að svo mjög hafi hallað á þá í þeim umr., sem hér hafa átt sér stað, og skil ég þá afstöðu þeirra mætavel.

Hv. síðasti ræðumaður talaði mikið um það, hvílík þjóðareining hefði verið um meginatriði þessa máls hingað til. Um þetta ræddi hann í öðru orðinu, en í hinu lýsti hann á hinn ferlegasta hátt þeim svikum, sem hæstv. utanrrh. hefði verið að undirbúa í þessu máli 1958 með þátttöku Sjálfstfl. Ef eitthvað væri til í þeim söguburði, er það ekkert sérstakt sannindamerki um mikla einingu um málið á fyrri stigum þess. En þessi áburður um svik af hálfu Alþfl. og Sjálfstfl. fyrirhuguð á árinu 1958 er því furðulegri vegna þess, hversu þessi hv. þm. var fámáll um þátt Framsfl. í málinu á því ári. Nú er það fram komið hér í hv. d. og hv. þm. lýsti því og raunar hv. 2. þm. Vestf. í gær einnig, að Alþb.-mönnum hefði a.m.k. verið kunnugt um nokkurn hluta þeirrar sögu fyrir löngu, að strax í maí 1958 voru send skilaboð í nafni ríkisstj. Íslands, skilaboð, sem mér skilst að Alþb. hafi ætíð lýst sig vera algerlega ,andvígt, og það hefur verið sagt hér frá því, að hv. 2. þm. Vestf. hafi sjálfur átt ríkan þátt í samningu þessa skeytis, þar sem talað er í nafni allrar ríkisstj. og viss skilaboð send áleiðis í nafni hennar.

Nú vil ég spyrja hv. 5. þm. Reykn.: Var honum eða hans flokki kunnugt um þetta skeyti, áður en það var sent? (FRV: Ég vissi, hvað hæstv. utanrrh. og hæstv. dómsmrh. voru að gera.) Já, hann vissi, hvað ég var að gera, því að eftir hans eigin sögn hér í d. áður var ég suður á Miðjarðarhafsströndu, og ég hef þá ekki verið í miklu makki hér við hæstv. utanrrh., og hv. þm. hefur margoft minnzt á það, að ég viti ekkert um það, sem gerðist, af því að ég hafi verið þarna suður frá, svo að það var ekki verið að tala um það, hvað ég gerði. En ég spyr: Vissi hv. þm. um þetta skeyti, sem hæstv. fyrrv. forsrh. samdi í samráði við eða ásamt hæstv. þáv. utanrrh.? Vissi hann um skeytið, áður en það var sent? (FRV: Ég skal svara hæstv. ráðh. þegar ég má.) Það er hægt að svara þessu með einföldu svari, já eða nei. (FRV: Ráðh. Alþb. áttu engan þátt í samningu skeytisins og tóku fyrirvara á móti sendingu þess, en ég vissi um efni skeytisins og var ekki hræddur við það.) Nú, hann var þá einn í samsærinu með þeim. Þá vitum við það. Það hefur verið sagt frá því í Þjóðviljanum og síðast þessa dagana, að þetta skeyti hafi verið sent án þess, að fulltrúar Alþb. hafi um það vitað, en nú höfum við játningu hv. þm. fyrir því, að hann hafi um það vitað. (FRV: Og vissi, að því yrði neitað.) Já, við heyrum, hvað maðurinn segir. Það er þá sem sagt rangt, sem Þjóðviljinn hefur sagt og hefur verið ein aðaluppistaðan í málflutningi Alþb. fram að þessu, að því hafi verið algerlega ókunnugt um þetta skeyti. Eða er það kannske svo, að þessi hv. þm. sé meiri trúnaðarmaður hv. 2. þm. Vestf. heldur en Alþb.? Það hefur stundum heyrzt, að hann væri eins konar flugumaður innan Alþb. (FRV: Ef hæstv. ráðh. meinar þetta, þá ætla ég að biðja um orðið til þess að bera af mér sakir.) Ég hygg, að hvað sem var um vitneskju Alþb. um þetta margumtalaða skeyti, þá sé það rétt, þó að ég hafi ekki veríð staddur hér á landinu, eð efni skeytisins hafi áður verið borið undir Sjálfstfl. og einmitt af hæstv. þáverandi forsrh., Hermanni Jónassyni, og sýnir það kannske nokkuð starfshætti innan þáverandi hæstv, ríkisstj., að hæstv. þáverandi forsrh. skyldi leita til stjórnarandstöðunnar í slíku máli og um afgreiðslu annars eins vanda, ef það er rétt, að hann hafi ekki borið sig saman við Alþb.-ráðherrana, heldur einungis hv. 5. þm. Reykn., eins og nú er komið fram.

Þá komum við að skeytinu frá 20. ágúst eða þar um bil, sem einnig er ómótmælt að hæstv. forsrh. átti hlut að því að senda. Var það skeyti sent með vitund Alþb. alls eða kannske einungis eins manns í Alþb. eða ef til vill einskis? Þetta er mjög fróðlegt að fá vitneskju um, þegar verið er að ræða um þá miklu þjóðareiningu, sem haldið er fram að ætíð hafi ríkt í þessu máli fram á síðustu daga. (FRV: Fróðlegt væri að fá öll skeytin á borðið og ræða svo.) Það væri fróðlegt að fá öll skeytin á borðið, það er alveg rétt, og Sjálfstfl. bar fram um það till. í ágúst 1958 og skrifaði hæstv. forsrh. um það, að öll skeyti, sem send hefðu verið, og öll gögn varðandi samninga á milli flokka væru birt af hálfu hæstv. ríkisstj. Hæstv. forsrh. vildi þá ekki verða við þessari sjálfsögðu ósk. En ég tel það sjálfsagt, að áður en yfir lýkur, verði þjóðinni gerð grein fyrir öllum gangi þessa máls. Það er í samræmi við ósk okkar frá 1958 og í samræmi við það, sem ég lét uppi strax í fyrsta skipti, sem ég talaði um þetta frv. hér. En það er mjög athyglisvert, að hvorki hv. 5. þm. Reykn. né hæstv. fyrrv. forsrh. fást til þess að segja neitt um þetta skeyti frá því í ágúst 1958. (FRV: Ég hef ekki séð það.) Ekki séð það. Þá var jafnvel trúnaðurinn við hann búinn af hálfu Hermanns Jónassonar. Það væri synd að segja, að það kæmi ekki sitt hvað fram í þessum umr.

Þá kem ég að hinu, þegar sagt er, að það hafi aldrei átt sér stað samningaumleitanir af hálfu Íslendinga um þetta mál við aðrar ríkisstj. fyrr en nú, og hv. 5. þm. Reykn. sagði, að það hefðu engar samningaumr. verið, og byggði það á þeim rökum, sem hv. 2. þm. Vestf. flutti hér í gær, að það væri allt annað að áskilja að gera eitthvað einhliða gegn því, að einhver annar gerði eitthvað einhliða á móti, heldur en að gera samning.

Þetta er ákaflega snjöll hugsun, en hún er ekki alveg frumleg.

Það var sem sé einu sinni á lögreglustjóraárum hv. 2. þm. Vestf., að maður hér í Reykjavík var kærður fyrir sprúttsölu. Ég veit ekki, hvort hv. þm. yfirheyrði manninn sjálfur eða ekki. En það er auðsjáanlega alveg sama hugsunin, sem felst á bak við. Maðurinn var spurður um það, hvort hann hefði nokkurn tíma selt áfengi. Nei, hann sagðist aldrei hafa selt áfengi, en hann sagðist stundum hafa gefið mönnum áfengi og þeir hefðu gefið sér peninga í staðinn. Þetta er auðsjáanlega fyrirmynd hv. 2. þm. Vestf. og hv. 5. þm. Reykn. í lögskýringum þeirra nú, og þarf ég ekki að rekja þá sögu frekar. Það var auðvitað, að maðurinn var dæmdur þrátt fyrir þessar gjafir á báða bóga.

Hv. 5. þm. Reykn. sagði, að ég og við sjálfstæðismenn hefðum gleymt hættunni, sem sjómenn voru í — mér skildist stundum á öllu árinu 1959, stundum var talað um eitt og hálft ár, stundum raunar bara frá því í apríl 1959 og eitthvað fram á þetta ár, svo að eitthvað var málum blandað um sagnfræðina eins og oft hjá þessum ágæta hv. þm. Sannleikurinn er sá, að við höfum ætið lagt á það ríka áherzlu, hvílíka hættu þessi deila færði yfir íslenzka sjómenn, og — við teljum, að þáv. hæstv. ríkisstj., vinstri stjórnin, hafi látið ýmislegt ógert á árinu 1958, sem hægt var að gera til þess að eyða þessari deilu. Við héldum áfram að vekja athygli stjórnarvaldanna á þessu, eins og hv. þm. segir, langt fram á árið 1959, að sérstakra ráðstafana væri þörf. En þá var búið að ákveða, að kölluð skyldi saman sérstök ráðstefna, þar sem menn vonuðust til þess að málið leystist, og þess vegna var mjög eðlilegt, að beðið yrði með frekari ráðstafanir, þangað til þeirri ráðstefnu lyki.

Von okkar allra var sú fyrir ráðstefnuna og við getum sagt fram yfir ráðstefnuna, að það tækist að bægja þessari hættu frá. Nú er því miður komið á daginn, að hún er vöknuð upp aftur enn á ný, e.t.v. í hættulegra formi, eins og hæstv. utanrrh. las upp eftir hv. 2. þm. Vestf. hér á dögunum, heldur en nokkru sinni áður, ef ekki verður að gert. Og það er alveg eins og hv. 5. þm. Reykn. sagði, í utanríkismálum tjáir ekki að láta tilfinningar, hvað þá gremju ráða gerðum sínum. Hvort sem okkur líkar betur eða verr við framkomu Breta, — og ég held, að við getum a.m.k. allir verið sammála um það, að okkur líkar illa við hana í þessu máli, um það er enginn ágreiningur, — þá verðum við að meta staðreyndirnar eins og þær eru og gera okkur grein fyrir því, hvernig við eigum að eyða þessari hættu.

Í öðru orðinu tala hv. stjórnarandstæðingar um það, að hættan sé í raun og veru engin og þess vegna þurfi ekkert að aðhafast. Tíminn muni leysa málið fyrir okkur, eins og hv. 2. þm. Vestf. sagði, og var þó nokkur ábending, eða eins og hv. 5. þm. Reykn. sagði: Á okkur er ráðizt, en við vitum bara ekkert, fyrir hverjum á að kæra.

Ég lagði á það áherzlu í minni fyrstu ræðu, hvaða leiðir eru til þess að eyða þessari deilu og þar með þeirri miklu hættu og margs konar óhagræði, sem með henni er fært yfir okkar þjóð.

Ég skal athuga hverja einustu leið og till., sem fram kemur um, hvernig þeirri hættu skuli eytt. En ég hef ekki heyrt enn þá bent á eina einustu raunhæfa leið í þeim efnum hér í þessum umr. Meginyfirlýsingar hv. þm., þeirra sem ég hef oftast vitnað til, voru, að það væri ekkert hægt að gera. Hv. 2. þm. Vestf. vitnaði raunar á seinna stigi málsins í þá hugmynd, að hægt væri að kæra málið fyrir Bandaríkjastjórn. Hann veit það jafnvel og ég, að það er ekki líkleg leið til þess að leysa þessa deilu, enda vitum við það öll, sem hér erum, að ef hann hefði sjálfur litið svo á, á meðan hann var æðsti valdamaður þessarar þjóðar, þá hefði hann kært fyrir Bandaríkjamönnum strax haustið 1958, þegar ofbeldi Breta hér við landið hófst. Og hvað sem öðru líður, þá er afstaða okkar um kæru nú á þeim vettvangi mun veikari, vegna þess að það ráð var ekki tekið þá strax.

En ég hygg, að ef rétt er skoðað, þá sé sú ástæða til þess, að hv. 2. þm. Vestf. kærði ekki, hin sama og hv. 5. þm. Reykn. sagði nú að réttlætti samninga Norðmanna við Breta. Hann sagði: Þeir eru sammála Bretum um það, sem deilt er um að meginefni til í málinu, þ.e.a.s. hinn sögulega fiskveiðirétt. Á sama veg hygg ég, að það sé skýringin á því, að hv. 2. þm. Vestf. kærði ekki fyrir Bandaríkjastjórn eða Atlantshafsbandalaginu haustið 1958, að hann vissi fyrir fram, að bæði Bandaríkjastjórn og öll aðildarríki Atlantshafsbandalagsins önnur en við voru á annarri skoðun en Íslendingar í þessu máli. Þau töldu, að þarna væri um réttarágreining að ræða og að Bretar hefðu rétt fyrir sér, en við rangt. Það var í ljósi þessa, sem þáv. hæstv. forsrh. vildi ekki kæra, eða a.m.k. hef ég ekki getað fundið aðra skýringu á athafnaleysi hans þá. Það gefst vonandi síðar betra tækifæri til þess að ræða þá hlið málsins, og ég hygg, að ástæðan til þess, að þessir hv. þm. hafa nú ekki tekið undir það, sem þó kommúnistar a.m.k. eða Alþb.-menn hafa mjög haft á oddi öðru hverju, að við ættum að kæra fyrir Sameinuðu þjóðunum, — að skýringin á því, að þessir hv. þm. hafa ekki tekið undir þá till., sé sú, að þeir vita, að yfirgnæfandi meiri hluti Sameinuðu þjóðanna er á annarri skoðun um réttarstöðu málsins en við Íslendingar. Okkur kann að þykja þetta hart, og við vildum, að þetta væri allt öðruvísi, en þetta er því miður ein af þeim staðreyndum, sem við komumst ekki hjá að taka tillit til í þessu máli.

En einmitt þess vegna horfir málið nú mun betur við og er hægara til samninga en áður var, að ágreiningurinn er nú orðinn miklu lítilvægari en hann var. Áður var deilt um það, hvort yfirleitt mætti fara út fyrir 4 eða 6 mílur með fiskveiðilögsögu og jafnvel út fyrir 3 mílur á vissu stigi, og síðar var deilt um, hvort ætti að haldast eilíf söguleg fiskveiðikvöð. Nú eru þessi miklu ágreiningsefni úr sögunni. Og ég skil ákaflega vel, að það var erfitt að finna lausn á þessu máli, meðan staðið var bjargfast á þessum atriðum af hálfu okkar gagnaðila. En eftir að þeir eru komnir í það, að hin sögulega fiskveiðikvöð eigi í lengsta lagi að vera 10 ár, og við vitum allir, að þeir eru fáanlegir til þess að semja um miklu skemmri tíma og sennilega með skilmálum, sem að öðru leyti eru okkur hagkvæmir, þá horfir málið allt öðruvísi við en það áður gerði. Og ég skora nú mjög á þessa hv. þm., sem ég, þó að ég deili hart við þá stundum, veit að eru engir skynskiptingar — (FRV: Þegar þeir eru dauðir, þá á að skora á þá að svara.) Nei, ekki svara, mér datt það ekki í hug, að ég fengi svar út úr þeim, en mér datt kannske í hug, að ég gæti fengið þá til þess að hugsa. (FRV: Hæstv. ráðh. veit, að við getum ekki svarað nú hér í hv. d.) Nú þetta á að byrja aftur í sameinuðu þingi eftir nokkra daga, og þá geta þeir hugsað sig um þangað til og komið með skrifaðar ræður. Það ætti ekki að vera svo ákaflega mikill vandi fyrir þá. En ég vil biðja þá um að íhuga efni málsins öfgalaust og gera okkur þá grein fyrir, af hverju það á nú að vera óverjandi og ósæmilegt að leita eftir hagkvæmari skilmálum en hv. 2. þm. Vestf. hvað eftir annað bauð 1958 og hann, að því er nú er komið upp í fyrsta skipti, bauð þá með vitund og samþykki hv. 5. þm. Reykn. Af hverju er það nú alveg fráleitt að leita eftir því, hvort við getum leitt málið til lykta á sams konar grundvelli, en þó okkur hagkvæmari?

Jú, það er sagt: Bretar hafa farið í stríð við okkur, þeir hafa beitt okkur ofbeldi.

Það er mikið til í því, að Bretar hafa beitt okkur ofbeldi. En getum við vænzt meiri sigurs yfir ofbeldismanninum heldur en að geta eftir á sett sömu friðarskilmála og við buðum fyrir fram? Eitt mesta stórveldi í heimi leggur í deilu við máttarminnsta ríki veraldar, og henni lyktar þannig, að eftir rúmra tveggja ára viðureign er hægt að fá hagkvæmari friðarskilmála en boðnir voru af hæstv. þáv. forsrh., áður en deilan hófst, að vísu undir ofbeldishótun Breta í seinna skiptið, þegar hann ítrekaði þá. Ég mundi segja, að í venjulegum alþjóðadeilum og ef við rennum augum til þeirra margföldu ógæfuríkra styrjalda, sem háðar hafa verið í heiminum, þá mundu slík endalok ekki vera talin til skammar eða svívirðu, heldur til sæmdar fyrir þann, sem kynni að taka þeim sigri, sem þannig er unninn.