11.11.1960
Efri deild: 20. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í C-deild Alþingistíðinda. (2219)

33. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég þurfti að vera við slit kirkjuþings, þar sem ég á sæti embættisstöðu samkvæmt, en gafst þó færi á að heyra þær fsp., sem til mín er beint og er sjálfsagt að svara.

Sú fyrri er um það, hvort eða hvaða rök ég færi fyrir því, að þetta frv. sé vanhugsað. Það litla, sem ég heyrði af ræðu hv. þm., sem síðast talaði (ÓlJ), hafði í sér fólginn ærinn rökstuðning fyrir þeirri skoðun minni. Eftir hans grg. lítur hann alveg málefnalega á þetta atriði og tærir fyrir því viss málefnaleg rök, að skynsamlegt sé að setja um þetta löggjöf.

Í fyrsta skipti, sem ég talaði um þetta mál hér í d., sagði ég, að sjálfsagt væri að íhuga þau rök til hlítar, sem kynnu að vera fyrir frv., þó að þau hefðu þá enn fá verið flutt fram. Síðar var því berlega lýst í ræðum ýmissa hv. flm., að frv. væri í raun og veru ekki af málefnalegum ástæðum flutt, heldur vegna vantrausts þessara hv. þm. á núv. ríkisstj. Nú vefengir enginn, að það vantraust sé fyrir hendi og hv. þm. hafi fullan rétt til þess að bera það í brjósti, en ég tel mjög vanhugsað að blanda því saman við löggjöf um fiskveiðilögsögu Íslendinga og því fremur sem það kom fram hjá hv. 5. þm. Reykn. (FRV) alveg sérstaklega, að hann gat vel hugsað sér að gera nú þegar á frv. veigamiklar breytingar. Hann nefndi þar nýjar landgrunnslínur og ef til vill frekari útfærslur og annað slíkt. Þetta eru slík meginatriði, að sjálfsagt hefði verið að íhuga þau áður, en sýna, að jafnvel frá málefnalegu sjónarmiði hefur þetta frv. ekki verið íhugað til hlítar. En aðalrök mín eru þessi, að það sé mjög varhugavert að blanda afstöðu þingminnihluta til sitjandi ríkisstjórnar inn í slíkt meginatriði löggjafar sem hér er um að ræða, það sé ekki líklegt, að lagafrv., sem flutt er með þeim skýringum, sem hér hafa verið fram færðar, muni leiða til þess samkomulags, sem allir ættu að óska að gæti orðið efnislega um sjálfa frambúðarákvörðun fiskveiðilögsögunnar.

Hér koma enn fremur þau rök til greina, sem hv. þm. taldi, að hér er verið að lögfesta reglugerð án þess að taka hana sjálfa upp í frv. Það er verið að fjalla um hluta af máli, sem þarfnast frekari íhugunar, og það eru reglur varðandi sjálfa landhelgina. En eins og ljóslega hefur komið fram í þessum umr., var það af ráðnum hug gert af þáv. hæstv. ríkisstj. 1958 að greina á milli landhelginnar annars vegar og fiskveiðilögsögunnar hins vegar. Og það var alls ekki ætlun hennar skv. einu því skeyti, sem hér var lesið upp, að færa landhelgina út, heldur eingöngu fiskveiðilögsöguna. En það var greinilegt eða ég skildi svo þann hluta ræðu hv. síðasta ræðumanns, sem ég hlustaði á, sem hann greindi ekki fyllilega hér á milli, – ég veit auðvitað, að honum er fyllilega ljós munurinn, sem á þessu er. En hér koma þó ýmis atriði til athugunar, sem vissulega þarf að íhuga betur, svo að alveg án tillits til þess, hvort menn telja, að það sé heppilegt að hafa löggjöf um þetta efni eða ráðstafa því með reglugerð, þá þarf það mál miklu frekar athugunar við en auðsjáanlega hefur enn átt sér stað, bæði hjá hv. flm. og eins hjá öðrum hv. dm.

Loks vil ég minna á það, að nokkuð snemma í þessum umr. lýsti hv. 2. þm. Vestf. (HermJ) því yfir, að hann hefði vissulega fengið setta löggjöf um þetta efni á árinu 1958, ef honum hefði dottið í hug, að nokkrum kæmi til hugar að hvika frá eða semja um minna en það, sem hér er tilskilið, eins og hann telur vera nú í hugum ríkisstj. Þetta sagði hv. þm., þó að hann hljóti þá að hafa haft í huga og vitað um skeytið frá 22. ágúst 1958, þar sem hann sjálfur bauð fram frávik frá reglugerðinni, sem hans stjórn hafði sett um vorið. Og hann bauð þau frávik, að því er manni skilst, án þess að hafa fengið til þess samþykki þáverandi sjútvmrh., sem einn réð því stjórnskipulega, hvernig reglugerðin var. En þessi tvíkinnungur, bæði í afstöðu 1958 og í málflutningi nú, sýnir, að allur er þessi málatilbúnaður við samning og flutning þessa frv. vanhugsaður, a.m.k. af hálfu sumra flm., — ég segi engan veginn, að það sé af hálfu allra, en það er sízt ofmælt, að það sé af hálfu sumra, og var því síður en svo ofmælt af minni hálfu.

Aðra fyrirspurn heyrði ég hjá hv. síðasta ræðumanni til mín. Hann spurði, hvort ég mundi hafa talið það samning, ef einhver aðildarríki Atlantshafsbandalagsins hefðu 1958, eftir það, sem á undan var farið og hér hefur nógsamlega verið lýst, tilkynnt íslenzku stjórninni, að þau viðurkenndu 12 mílna fiskveiðilögsögu, að því áskildu, að þau hefðu fiskveiðirétt um t.d. 3 ára bil, og síðan hefði íslenzka ríkisstj. gefið reglugerðina út með þessum ákvæðum. Ég tel alveg hiklaust, að ef íslenzka ríkisstj. hefði síðan meinað þessum ríkjum fiskveiðar á hinu umtalaða svæði á hinum umtalaða og áskilda tíma, þá hefði Ísland þar með brotið samninga við þessi ríki. Á því getur enginn vafi leikið. Það má segja, að samningurinn hafi ekki verið um annað en þennan áskilnað. Það er mál fyrir sig, hversu langt menn segja að samningurinn nái, en að samningur hafi verið gerður varðandi það atriði, eins og þetta er í pottinn búið, getur ekki vafizt fyrir mönnum.

Hv. þm. sagði síðan, að það væri nokkurt ósamræmi í því, sem ég og hæstv. utanrrh. hefðum sagt um það, með hverjum hætti ætti að bera þetta mál undir þingið, og sagði, að það væri æskilegt, að hæstv. forsrh. skæri úr þeim ágreiningi. Ég hef ekki heyrt neinn skilsmun í þessu milli okkar, og er mér ekki hans vitandi. En ég hygg, að við munum báðir una því, sem hæstv. forsrh. hefur þegar lýst yfir við þingsetningu, að samráð verði haft við Alþingi, áður en úrslitaákvarðanir í málinu eru teknar. Þetta er skýr og ótvíræð yfirlýsing, sem fyrir liggur.

Og þó að margt hafi upplýstst í þessum umr. og ég fagni því þess vegna, að þær hafa átt sér stað, — við erum hér fróðari um margt í sögu málsins og það liggur að ýmsu leyti miklu skýrara fyrir nú en áður, — þá er sá annmarki á öllum þessum löngu umr., að menn eru að tala um það, sem ekki er fyrir hendi enn þá, samninga við Breta. Það er ómögulegt að bera saman samninga núv. ríkisstj., eins og gert hefur verið í þessum umr. og nú síðast af hv. síðasta ræðumanni, við tilboðin frá 1958, á meðan þessir samningar á milli íslenzku og ensku ríkisstjórnanna eru ekki einu sinni hafnir. Þeir eru ekki hafnir. Það eina, sem hefur gerzt í málinu, er að það er verið að kanna, hvaða möguleikar eru fyrir hendi. Ég hef að vísu skýrt frá því hér og við það stend ég, að það er nú þegar komið fram af hálfu Breta og voru vissar hugmyndir um það raunar strax á Genfarráðstefnunni, að hægt væri að ná nú eins hagkvæmum kjörum og boðin voru fram af hæstv. ríkisstj. Hermanns Jónassonar 1958. En þó að þetta sé nokkurn veginn vitað, þá er málið engan veginn kannað til hlítar enn þá. Ég hef sagt á fyrra stigi málsins: Það er jafnfávíslegt að segja: Það skal semja — eins og að segja: Samningar eru svik, — alveg eins og hv. síðasti ræðumaður sagði: Hér hlýtur að lokum allt að verða undir mati komið á því, hvaða kjör eru fáanleg til þess að eyða þessari deilu. — Enn liggur það ekki nógu ljóst fyrir. Ég veit, að því verður tekið með vissri tortryggni af hv. stjórnarandstöðu og sagt: Hér er rangt með farið. Það hefur verið sagt: Það er búið að semja, það var búið að semja, áður en viðræður hófust. Það er sagt: Það á að koma hingað nú á mánudaginn kemur til þess að ganga frá samningum. — Þetta er miklu meira en ég veit. Ég hef ekki hugmynd um þetta. Ég hef ekki heyrt neina opinbera tilkynningu um, að það eigi að hefjast hér lokasamningaviðræður n.k. mánudag. En þegar við lítum á það, hversu langan tíma það tók Breta og Norðmenn að koma sér saman um þann samning, sem þeir gerðu, og voru þeir þó sammála í raun og veru um öll meginatriði málsins, áður en þeirra viðræður hófust, og í raun og veru búnir, alveg eins og hv. 5. þm. Reykn. sagði áðan, að ráða málinu til lykta á Genfarfundinum, þá þarf maður ekki að furða sig á, að það taki töluvert langan tíma að kanna til hlítar, hvaða möguleikar raunverulega eru fyrir hendi, þegar þó ber svo mikið á milli eins og á milli Íslendinga og Breta í þessu máli, því að á það legg ég áherzlu, að þó að Bretar séu nú búnir að hverfa frá öllum sínum meginkröfum, þeim er þeir héldu fram allt þangað til nú í vor, á Genfarráðstefnunni síðari, þá er ekki enn nógu ljóst, hvaða kjör eru í raun og veru fáanleg og hvort þau eru fullnægjandi, til þess að það verði réttilega metið, hvort samningar séu gerlegir eða ekki. Og einmitt þetta var skýrt í stuttu máli af hæstv. forsrh., þegar þing var sett, og enn er of margt óljóst í þessu máli, til þess að tími sé til þess kominn að taka í því nokkrar úrslitaákvarðanir. Það er þess vegna af auðskildum og ótvíræðum ástæðum, sem ríkisstj. hefur ekki enn þá talið tímabært að hafa það samráð við hv. Alþingi, sem hún hefur ætíð ásett sér að hafa og marglýst yfir að hún mundi hafa.