14.11.1960
Efri deild: 21. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í C-deild Alþingistíðinda. (2222)

33. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Ég þakka sanngirni hæstv. forseta enn að gefa mér orðið til þess í örstuttu máli að bera af mér sakir.

Hæstv. dómsmrh. hefur síðustu dagana virzt vilja innleiða þann fundarsið hér í hv. d. að halda hér úr ræðustól eins konar yfirheyrslu yfir þingmönnum og krefjast þess, að þeir svari úr sætum sínum, eða þar sem þeir eru staddir innan veggja þessarar hv. d. eða í nærliggjandi herbergjum, spurningum, sem hann leggur fyrir þá, einkanlega þegar hann veit, að þeir eru dauðir og eiga ekki rétt á að svara hæstv. ráðh. Hann lagði þannig fyrir mig nokkrar spurningar, sem hann krafðist svars við á stundinni, á síðasta fundi þessarar d. Hvað sem má segja um þennan sið hæstv. dómsmrh., ef upp væri tekinn, — og ég held, að hann væri ekki til bóta, — þá hefur hann þann ókost, að svör hv. þdm. ná ekki héðan úr sætum eða úr hliðarherbergjum þeim hljóðnema, sem er við þennan ræðustól og er ætlaður til þess að skila máli þingmanna inn á þau tæki, sem aftur flytja þau í þingtíðindin. Þetta veit hæstv. ráðh. Og þetta vitum við af reynslunni, t.d. líka af því, hvernig það, sem sagt er hér sem innskot í ræður hæstv. dómsmrh., kemur í hans blaði. En vegna þess að ég veit, að mín svör hafa ekki náð hljóðnemanum, þá vil ég árétta þau í örstuttu máli.

Hæstv. ráðh. spurði, hvað mér væri kunnugt um viss skeyti, sem hefðu farið milli vinstri stjórnarinnar og ríkja Atlantshafsbandalagsins. Ég vil segja: Ég sá ekki eitt einasta af þessum skeytum á sínum tíma, sá aðeins í fyrsta skipti afrit af einu þeirra, sem hæstv. fyrrv. forsrh., þm. Vestf. (HermJ), fékk fyrir náð hjá hæstv. utanrrh. En mér var kunnugt um það eins og ráðherrum Alþýðubandalagsins í maí 1958, að meiri hluti vinstri stjórnarinnar ákvað þá að senda skeyti til ríkja Atlantshafsbandalagsins eða fulltrúa þess í höfuðstöðvum þess í París sem fyrirspurn. Það kemur svo skýrt sem verða má í ljós í bæklingi, sem var gefinn út af hálfu Alþb. fyrir kosningarnar 1959, að ráðh. Alþb. skildu þetta sem fyrirspurn, og þetta var fyrirspurn. En því, sem í fyrirspurninni fólst, var hafnað. Og ég sagði: Ég var ekki hræddur við, að þessi fyrirspurn væri send, vegna þess að ég vissi, að henni yrði hafnað. En meiri hluti sambræðslustjórnar hefur vitanlega leyfi til þess að ákveða eitt og annað, m.a. hlut eins og þennan. Á eftir verður það svo að ráðast, hvort viðkomandi ríkisstj. getur haldið áfram sem heild. En ég veit hins vegar, hvers vegna hæstv. dómsmrh. heldur áfram spurningum sinum um þessi skeyti í maí og þó einkum í ágúst 1958. Ég veit, að hann gerir það ekki af því, að hann hafi minnstu von um að fá þar rök fyrir því að semja nú einhliða við Breta, því að það liggur alveg ljóst fyrir öllum mönnum, að það er ósambærilegt. En hæstv. ráðh. er bragðvís. Hann gerir þetta, að tala svo mikið og spyrja svo mikið um skeytin í ágúst, til þess að undirstrika í leiðinni undirferli hæstv. utanrrh. og það, sem hann gerði á bak við meðráðherra sína í vinstri stjórninni, í makki við Sjálfstfl., þ. á m. sjálfan hæstv. dómsmrh. Hann gerir þetta, hæstv. dómsmrh., að spyrja allra þessara spurninga um þessi skeyti í ágúst, til þess að gera sem mesta smán félaga síns, hæstv. utanrrh. En hæstv. dómsmrh. sagði í leiðinni, að það, að ég hefði haft vitneskju um skeytin, fyrirspurnarskeytin, sem send voru í maí, það sýndi, að ég væri flugumaður Framsfl. innan Alþýðubandalagsins. Og það eru þær sakir, sem ég vil fá að bera af mér, því að ég tel það alvarlegar sakir að vera flugumaður eins eða neins flokks.

Ég tel það enga sök að vera framsóknarmaður. Ég tel það enga sök að vera í Sjálfstfl. Ég tel það enga sök að vera kommúnisti. Ég tel það enga sök að hafa sannfæringu og standa við hana. En ég tel það sök, saknæmt, að vera í flokki og vinna fyrir annan flokk. Ég þykist ekki hafa gert það. En hitt er satt, að í vinstri stjórninni, frá upphafi til enda, reyndi ég af mínum litla mætti að auka á samheldni flokkanna, sem að henni stóðu, af þremur ástæðum: Af því fyrst og fremst, að ég vil, að menn, sem taka að sér verk, ekki sízt ef þeir taka að sér verk fyrir alla þjóðina, haldi því áfram til loka og ljúki því, og það vildi ég um vinstri stjórnina. Í öðru lagi vil ég, að það sé unnið af heilindum milli flokka í ríkisstj. og milli manna, sem þurfa að hafa samvinnu og hafa ákveðið að hafa samvinnu. Þess vegna dreg ég ekki dul á það, að í mörg, mörg skipti, ekki aðeins í maí 1958, reyndi ég að miðla málum milli flokkanna, sem stóðu að vinstri stjórninni. Og ég veit, að það eru fleiri en framsóknarmenn, ég veit, að t.d. líka hæstv. viðskmrh. núv. muni viðurkenna, að ég hafi reynt að gera þetta af heilindum, en ekki verið þar að vinna fyrir Framsfl.

En ég hef kannske annað til þess að benda á til þess að sýna, að ég er ekkert háður Framsfl. Framsfl. hefur nefnilega sem heild staðið að einni illvígustu og harðvítugustu árás, sem gerð hefur verið á nokkurn mann í íslenzkum stjórnmálum, á mig, og það er ekki langt síðan, með Sjálfstfl. að vísu og með Alþfl. En mér er ánægja að geta sagt, að í öllum þessum flokkum voru til þeir menn, að þeir vildu ekki standa að þessu, ekki aðeins hv. 2. þm. Vestf., heldur líka maður eins og hæstv. dómsmrh. og maður eins og hæstv. fjmrh. En það vantaði ekkert upp á það, að öllu, sem Framsfl. sem heild hefur yfir að ráða, væri beitt gegn mér til þess að koma mér pólitískt á kné og hafa mig úr sögunni, — fé, völd og allt, sem hann hafði yfir að ráða og hans foringjar, sem réðu þessum aðgerðum. Ég hef margoft tekið á móti árásum frá framsóknarmönnum á mig heima í héraði og annars staðar, og ég er ekki hræddur við það. Ég væri ekkert hræddur við að vera í Framsfl., ef ég væri framsóknarmaður og sömu skoðunar og þeir, en ég er það ekki. Ég hygg, að ég hafi gert ljóst, að ég er ekki og ætla mér ekki að vera erindreki hvorki Framsfl. né annarra flokka, heldur þess þingflokks, sem ég er í. Það má vel vera, að ég eigi ekki heima vegna stjórnmálalegrar sannfæringar minnar í neinum af þeim skipulögðu flokkum, sem hér eru. Alþb. er bandalag manna með mismunandi pólitískar sannfæringar í meginatriðum, en mér finnst það stundum svo lítið og lítilfjörlegt, sem verið er að deila um hér, að ég væri ekki að hafa nein afskipti af því, ef það væru ekki til stórmál, utanríkismál eins og landhelgismálið, sem er fyrir okkur nú, sem ég vil hafa afskipti af, ef ég hef afskipti af opinberum málum á nokkurn hátt. Það er þess vegna, sem ég beiti mér í því máli fyrir mína þjóð, en ekki fyrir neinn sérstakan flokk.