28.02.1961
Efri deild: 67. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í C-deild Alþingistíðinda. (2240)

64. mál, kornrækt

Frsm. minni hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Landbn. hefur haft þetta frv. til athugunar alllangan tíma, og gat n. ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins. Nm. eru þó sammála um, að hér sé um þýðingarmikið mál að ræða, sem full ástæða sé til að setja löggjöf um sem fyrst. Við, sem skipum minni hl. landbn., viljum samþ. þetta frv. óbreytt, eins og það liggur fyrir, en meiri hl. n. vill láta gera á því breyt., sem að dómi okkar, sem skipum minni hl., eru svo veigamiklar, að við getum ekki á þær fallizt.

Frv. um kornrækt hefur nú legið fyrir Alþ. á þrem þingum og fengið rækilega athugun, svo að málið á að vera hv. þm. vel kunnugt og ætti það að greiða fyrir því, að frv. yrði lögfest nú á þessu þingi.

Um alllangt skeið hafa verið gerðar tilraunir með kornrækt hér á landi á ýmsum stöðum á landinu, þó að sú ræktun sé í stærstum mæli framkvæmd á Sámsstöðum í Fljótshlíð. Þessar tilraunir hafa leitt í ljós, að í flestum sumrum getur korn náð góðum þroska víða hér á landi, og stundum verður uppskeran af hverjum hektara engu minni en á sér stað í nágrannalöndum vorum, þar sem kornrækt þykir sjálfsögð atvinnugrein. Þessu til sönnunar vil ég minna á, að um síðustu áramót var t.d. frá því skýrt opinberlega, að einn aðili á Austurlandi, Sveinn Jónsson á Egilsstöðum, hefði ræktað korn á 17 hekturum lands s.l. sumar og fengið uppskeru, sem nemur 450 tunnum samtals, eða um 26 tunnum af hektara, og þeir, sem kunnugir eru í nágrannalöndum okkar, telja, að þessi uppskera sé góð miðað við reynslu í þeim löndum. Þetta hefur m.a. leitt til þess, að á Austurlandi er nú mjög vaxandi áhugi á að stórauka kornrækt frá því, sem verið hefur, og ég hef það fyrir satt, að í undirbúningi sé að rækta korn á Austurlandi á a.m.k. annað hundrað hekturum lands næsta sumar, svo framarlega sem þeir aðilar, sem ætla sér að hefjast handa um þessa ræktun, sjái sér það kleift sökum stofnkostnaðar.

Það er einnig góður skilningur meðal bændastéttarinnar á nauðsyn þess að efla landbúnaðinn og gera innlenda framleiðslu sem fjölbreyttasta, en kornrækt getur átt sinn þátt í því. Yfirleitt má telja, að það bæti hag hvers bónda og auki öryggi í búskapnum, að framleiðslugreinar séu svo fjölbreyttar sem skilyrði eru fyrir hendi um á hverjum stað og hægt er að koma við með hóflegum kostnaði. Það má því ætla, að aukin kornrækt geti orðið bændum til fjárhagslegs stuðnings.

En aukin kornrækt er þó ekki fyrst og fremst hagsmunamál bændastéttarinnar, heldur hefur málið þjóðhagslegt gildi. Það er hagsmunamál allrar þjóðarinnar, að landið sé vel nytjað og hagnýtt séu góð atvinnuskilyrði, sem fyrir hendi eru, og með vaxandi fólksfjölda þurfa að koma nýjar atvinnugreinar og aukin atvinna, en efling landbúnaðarins og aukin fjölbreytni á því sviði stuðlar jafnframt að jafnvægi í byggð landsins.

Hins vegar er á það að líta, að ef stunda á kornrækt í verulegum mæli, verður annaðhvort að leggja fram til þess mikið vinnuafl, sem er torfengið, jafnvel ókleift að fá það til slíkrar ræktunar, eða hafa fullkominn vélakost í taki, en sá vélakostur, sem nauðsynlegur er til þess, að stunda megi kornrækt með góðum árangri, krefst svo mikils stofnkostnaðar, að þess er ekki að vænta, að bændur almennt sjái sér fært að ráðast í kaup á vélum og koma fótum undir þessa framleiðslugrein, nema fjárhagslegur stuðningur, ríkisvaldsins komi til.

Ákvæði þessa frv. eru og miðuð við, að stuðningur verði veittur af hálfu ríkisins í því formi, að ríkisframlag nemi allt að 50% af kaupverði þeirra kornyrkjuvéla, sem nauðsynlegar eru á hverjum stað, þó ekki yfir 200 þús. kr. til hvers kornræktarfélags, enda sé þá akurlendið minnst 10 hektarar, svo að tryggð sé full nýting hverrar vélasamstæðu, þar sem hún á að notast. Þess vegna er frv. þannig gert, að miðað er við, að kornræktarfélög séu stofnuð til þess að tryggja það, að ræktunin sé ekki minni en 10 hektarar á bak við hverja vélasamstæðu, sem styrks nýtur.

Enn fremur er gert ráð fyrir því, að greitt verði svipað framlag á hvern hektara akurlendis, sem brotinn er að nýju, eins og nú er gert samkvæmt jarðræktarlögum vegna túnræktar. Til viðbótar þessu er gert ráð fyrir því í frv., að síðan sé greitt hálft jarðræktarframlag vegna endurvinnslu akurlendis ár hvert. En kornrækt er að því leyti frábrugðin túnrækt, að þegar búið er að koma túni í fulla rækt í eitt skipti, þarf ekki að endurvinna það sama land til að fá uppskeru af því ár frá ári, en þegar um kornakra er að ræða, verður að endurvinna það land árlega vegna ræktunarinnar. Þess ber þó að gæta, að það er léttara verk og kostnaðarminna að vinna akur, sem áður hefur verið brotinn, heldur en að brjóta land að nýju til að gera það að akurlendi. Með tilliti til þess er miðað við í frv., að hinn árlegi styrkur vegna endurvinnslu akurlendis sé aðeins hálft framlag miðað við það, sem greitt er til nýræktar.

Þar sem ekki er sett hærra mark í þessu efni en svo, að miðað er við að rækta íslenzkt korn til fóðurs, svo að fella megi niður að öllu eða mestu leyti innflutning á erlendu fóðurkorni, er auðsætt, að með þessu frv. eru ekki stigin of stór skref á þessari braut.

Samkvæmt hagskýrslum eru fluttar til landsins nú árlega — eða svo hefur verið hin síðustu ár — um 18500 smál. af erlendum fóðurvörum, og þó að ræktun korns yrði framkvæmd, svo sem gert er ráð fyrir að heimilt sé samkvæmt þessu frv. að veita styrk til, þá er auðsætt, að það tæki alllangan tíma að ná því marki að rækta 18–19 þús. smál. af íslenzku korni. Samkvæmt Hagtíðindum hefur innflutningur á fóðurvörum á árinu 1960 kostað íslenzka þjóðarbúið 53 millj. 144 þús. ísl. kr., eða réttara sagt jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendum gjaldeyri. Nú má ætla, að raunverulega sé þessi tala allmiklu hærri, vegna þess að eitthvað af mjöli, sem flutt er inn í þeim vöruflokki, sem ætlaður er til manneldis, sé notað til fóðurbætis, og ef tillit er tekið til þess, þá ætla ég, að það sé ekki fjarri lagi, sem fram kom hjá frsm. meiri hl., að raunverulega sé sá kostnaður, sem þjóðarbúið leggur fram árlega vegna innflutnings á fóðurvörum, allmiklu hærri en hinar beinu tölur hagskýrslnanna segja til um. En til viðbótar þessu ber að geta þess, að samkvæmt frásögn hæstv. viðskmrh. í svari hans við fsp. um niðurgreiðslur úr ríkissjóði á þessu ári er áætlað, að varið verði úr ríkissjóði hvorki meira né minna en 12 millj. kr. á þessu ári í niðurgreiðslur á verði á innfluttum fóðurvörum. Ef gert er ráð fyrir, að þessar niðurgreiðslur gætu fallið niður, þegar íslenzkir bændur væru orðnir sjálfum sér nógir með ræktun korns til fóðurbætis, þá er augljóst, að í þessu efni geti orðið um beinan sparnað að ræða, sem nemur verulegum fjármunum. Þetta ber að hafa í huga, þegar litið er á þann kostnað, sem af frv. þessu leiðir, ef að lögum verður, en sá kostnaður er, eins og frsm. meiri hl. tók réttilega fram, miðaður við það, að heimilt sé að verja árlega einni millj. kr. sem ríkisframlagi til styrktar kaupum á kornyrkjuvélum. Auk þess yrði svo greiddur styrkur á hvern hektara lands, sem korn er ræktað á. Það liggur nú ljóst fyrir, að þótt brotið yrði árlega 50 hektarar lands til akurlendis, þá er ríkisframlag vegna þess ekki há fjárhæð, miðað við það framlag, sem greitt er samkvæmt jarðræktarlögunum. Það mundi aldrei nema meira en frá 60–137 þús. kr. vegna 50 hektara eftir því, hvort miðað væri við þá reglu um útreikning framlagsins, sem gildir, þegar jarðir eiga í hlut, sem hafa minna en 10 hektara tún, eða þegar þær jarðir eiga í hlut, sem hafa meiri ræktun, en eins og kunnugt er, þá eru jarðræktarframlögin misjafnlega há eftir aðstöðu hvers bónda eða hverrar jarðar út af fyrir sig.

Það er ekki hægt að fullyrða, hvað kostnaður vegna þess að greiða hálft ríkisframlag vegna endurvinnslu akurlendis gæti numið hárri fjárhæð. Þó ætla ég, að samkvæmt þessu frv. yrði kostnaður fyrst í stað, meðan akurlendi nemur ekki mjög mörgum hekturum, en hins vegar miðað við að styrkja kaup á 5 vélasamstæðum árlega, ekki meiri en 1–2 millj. kr. Hins vegar finnst mér líkur benda til, að ef því marki yrði náð, að korn væri ræktað á 7–8 þús. hekturum lands, sem ætti að nægja til þess að koma í stað þess fóðurvöruinnflutnings, sem nú á sér stað, þá muni kostnaður samkv. frv. aldrei fara fram yfir 4–5 millj. kr. árlega. Þegar þetta er haft í huga annars vegar og hins vegar sá beini sparnaður bæði í erlendum gjaldeyri og vegna niðurgreiðslna, sem ég hef áður drepið á, þá tel ég það rétt, sem hv. frsm. meiri hl. n. sagði, að í raun og veru væri hér krónunni fleygt, en eyririnn sparaður með því að láta undir höfuð leggjast að lögfesta það frv., sem hér liggur fyrir.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að þeim brtt., sem meiri hl. n. flytur og frsm. meiri hl. hefur nú gert grein fyrir.

Meiri hl. vill orða 1. gr. frv. þannig: „Landbrh. skal hafa yfirstjórn þeirra mála, er lög þessi varða, en hann getur falið Búnaðarfélagi Íslands eða öðrum aðila framkvæmd þeirra, eftir því sem henta þykir á hverjum tíma.“

Það er rétt, að upphaflega var þessi grein orðuð á þennan veg, þegar frv. var lagt hér fyrir hv. Alþ. En við endurskoðun á frv. og nánari athugun á því töldum við flm., að við værum í raun og veru einungis að gera leiðréttingu, eðlilega og sjálfsagða, með þeirri orðalagsbreyt., sem við gerðum á 1. gr. frv. Samkvæmt jarðræktarlögum, ákvæðum þeirra í 2. gr., segir svo:

„Búnaðarfélag Íslands, sem stjórnað er af fulltrúaráði, er nefnist búnaðarþing, hefur á hendi umsjón með framkvæmd þeirra ræktunarmála, sem lán eða ríkisframlag er veitt til samkvæmt lögum þessum, enda sé skipulag þess og starfsreglur í samræmi við ákvæði laganna.“

Nú er samkv. þessu frv. fjallað um einn þátt ræktunarmála, sem lán og ríkisframlag á að vera heimilt að veita til. Þegar þetta er athugað, virðist það alveg falla inn í þann ramma, sem lagður er með jarðræktarlögunum, að Búnaðarfélag Íslands, sem stjórnað er af fulltrúaráði, sem nefnist búnaðarþing, hafi á hendi umsjón með framkvæmd á þessum þætti ræktunarinnar.

Þess ber einnig að gæta, að Búnaðarfélagið veitir stuðning starfsemi jarðræktarráðunautanna, sem búnaðarsamböndin hafa í þjónustu sinni, setur þeim reglur og fylgist með störfum þeirra og þangað, þ.e.a.s. til Búnaðarfélagsins, ber jarðræktarráðunautunum að skila sínum skýrslum. Nú virðist vera fullkomlega eðlilegt og raunar sjálfsagt, að kornræktin falli undir starfssvið jarðræktarráðunautanna, sem eru í þjónustu búnaðarfélagsskaparins í landinu, alveg eins og önnur ræktun. Enn fremur yrði í framkvæmd óhjákvæmilegt að láta mæla árlega það land, sem korn er ræktað á, því að samkvæmt þeim mælingum, sem árlega yrðu framkvæmdar, færi um styrkgreiðslu vegna akurlendisins. Nú eru það annaðhvort jarðræktarráðunautarnir eða sérstakir mælingamenn, sem eru trúnaðarmenn Búnaðarfélags Íslands, sem hafa á hendi mælingar á nýrækt túna í landinu. Það virðist því eðlilegt og sjálfsagt, að þeir sömu menn yrðu látnir mæla þá nýrækt, sem gerð er vegna kornræktar árlega og greiðslur ríkisframlagsins ættu að ná til.

Þegar þetta er athugað, vil ég endurtaka það, að mér finnst breyting sú, sem við gerðum að athuguðu máli á 1. gr. frv., vera svo eðlileg og sjálfsögð, að hún væri í raun og veru leiðrétting, sem hv. þm. ættu að taka tillít til í atkvgr. sinni. En til viðbótar þessu vil ég drepa á, að um ýmis önnur búnaðarmál, sem má segja að standi í lausara sambandi við starfsemi Búnaðarfélags Íslands en jarðræktarlögin sjálf, er gert ráð fyrir því, að Búnaðarfélagið hafi umsjón og eftirlit með framkvæmdinni. Þannig er það t.d. samkvæmt lögum um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum, að þar er það bæði Búnaðarfélag Íslands og vélanefnd ríkisins, sem eiga að hafa í sameiningu umsjón og eftirlit með framkvæmd þeirra laga. Og svo að ég nefni fleiri dæmi, þá skal ég geta þess, að í lögum nr. 52 frá 1957, um eyðingu refa og minka, er þetta tekið fram: „Búnaðarfélag Íslands hefur undir yfirstjórn landbrh. stjórn allra aðgerða til útrýmingar refum og minkum.“

Þegar meiri hl. n. tekur sig fram í því að flytja sérstaka brtt. um þetta ákvæði frv., þ.e.a.s. 1. gr. þess, þá virðist það gefa undir fótinn, að fyrir þeim vaki, að það geti aðrir aðilar komið til greina en Búnaðarfélag Íslands að þessu leyti. En við í minni hl. teljum eðlilegt og sjálfsagt, að það sé beint tekið fram, að Búnaðarfélagið fari með stjórn þeirra mála, er lög þessi varða, undir yfirstjórn landbrh. Af þessum ástæðum gátum við ekki fallizt á að gera þá breyt. á 1. gr., sem meiri hl. leggur til.

2. brtt. er við 5. gr. frv. og er um það, að ríkisframlag vegna kaupa á vissum tækjum, sem nánar er tilgreint í frvgr., skuli því aðeins koma til greina, að um 50 hektara akra eða meira sé að ræða. Við í minni hl. teljum eðlilegt, að þetta sé ekki bundið í lögunum. Hins vegar verður framkvæmd laganna vitanlega þannig, svipað og á sér stað um framkvæmd laganna um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum, að vélanefnd ríkisins verður að meta þörfina á hverjum stað. Þangað verður að senda umsóknir um framlag vegna vélakaupa og skýringar á því, hvaða vélar er fyrirhugað að kaupa, og í því sambandi gera sér fulla grein fyrir kostnaðarverði þeirra. Vélanefnd ríkisins og síðar landbrn. og raunar að lokum, áður en greiðsla ríkisframlags fer fram, fjmrn. verður vitanlega að meta í hvert sinn, hvort réttur umsækjanda til framlags er fyrir hendi og hvort þörfin er brýn hverju sinni.

Þá vill meiri hl. n. fella niður það ákvæði frv., að jarðræktarframlag eða framlag vegna endurvinnslu á akurlendi skuli greitt. Á þessa breyt. getum við ekki fallizt í minni hl. og teljum hana rýra gildi frv. verulega frá því, sem það er. Og á það vil ég benda, að á síðasta þingi var fullkomin samstaða í landbn., sem þá var skipuð sömu mönnum og nú, um að halda þessu ákvæði í frv. og þannig var frv. afgreitt frá þessari hv. d. á síðasta þingi. Hér virðast því hafa orðið einhver sinnaskipti hjá þeim mönnum, sem skipa nú meiri hl. landbn.

Þá höfum við lagt til í frv., eins og það liggur nú fyrir, flm. þess, að hámark þess, sem greiða má úr ríkissjóði vegna kaupa á hverri vélasamstæðu til kornyrkju, nemi 200 þús. kr., en í frv., eins og það var í fyrra, var þetta hámark 100 þús. kr. Víð lítum þannig á, að meginstefnan, sem mörkuð er í frv., sé sú, að ríkisframlag nemi 50% stofnkostnaðar, alveg hliðstætt því, sem er vegna kaupa á beltadráttarvélum skv. lögum um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum. Og þar sem við lítum þannig á að þetta sé og eigi að vera meginstefna frv., þá teljum við rétt, að hámarkið, sem sett er, sé ekki svo lágt, að það skerði verulega þá meginreglu, sem ég var að lýsa. Með tilliti til þess, að ekki verði of þröngur stakkur skorinn að þessu leyti með hámarksákvæðunum, og enn fremur með tilliti til þess, að verðlag á kornyrkjuvélum er hátt og hefur farið hækkandi, þá virðist okkur með hliðsjón af tölum, sem við höfum fengið um kostnað á allstórvirkum kornyrkjuvélum, að hér sé alls ekki of í lagt með það hámark, sem í frv. er, í 8. gr. þess.

Þær brtt., sem ég hef nú farið nokkrum orðum um og ollu því, að nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu málsins, stefna að því annars vegar að halda því opnu í löggjöfinni, að landbrh. geti falið öðrum aðila en Búnaðarfélagi Íslands eftirlit með framkvæmd laganna, og hins vegar að því að draga úr fjárhagslegum stuðningi ríkisins við þá, sem hefjast handa um kornyrkju, frá því, sem lagt er til í frv. Við, sem skipum minni hlutann, teljum hins vegar fullkomlega tímabært, að sett verði þegar á þessu þingi löggjöf um kornrækt og að með frv., eins og það liggur fyrir, sé ekki of langt gengið um fjárhagslegan stuðning af hálfu ríkisins. Þess vegna leggjum við til, að brtt. meiri hl. verði felldar, en frv. samþykkt óbreytt, eins og það var flutt af hv. 1. þm. Vesturl. og mér.