28.02.1961
Efri deild: 67. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 763 í C-deild Alþingistíðinda. (2241)

64. mál, kornrækt

Frsm. meiri hl. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. 5. þm. Austf. (PÞ), að því er snertir brtt. við 1. gr., sem meiri hl. n. hefur flutt.

Eins og ég gat um í þeim orðum, sem ég lét fylgja þessum breytingum áðan, tel ég þetta ekki neitt stórt atriði. Hins vegar vil ég benda hv. þm. á það, þar sem hann var að tala uns sinnaskipti meiri hl. n., að hv. minni hl. hefur líka tekið sinnaskiptum í þessu máli frá því, sem var í fyrra, því að þá fluttu þeir sömu þm., sem nú flytja þetta frv., frv. með þessari grein nákvæmlega eins og við leggjum til að hún verði nú gerð. Það er rétt hjá hv. þm., að ræktunarmál heyra yfirleitt undir Búnaðarfélag Íslands, og ég tel það vel farið, og mér þykir ákaflega líklegt, að þetta mál yrði einmitt falið Búnaðarfélagi Íslands. En þó þykir mér það ekki vera víst. Það hafa sum ræktunarmál og það meira að segja mjög veigamikil ræktunarmál, eins og nýbýlalögin, sem eru bæði byggingarlög og ræktunarlög, verið látin heyra undir alveg sérstaka stofnun. Mér þykir geta komið til mála líka, að vélanefnd ríkisins hefði máske eðlilegri aðstöðu til þess að hafa þessi mál með höndum, — þetta eru aðallega vélakaup, sem þarna yrði um að gera af hálfu ríkisins. Fleiri stofnanir gætu og máske komið til greina, — ég er ekki svo kunnugur, — en það er ekki endilega sjálfsagt að binda það í lögum, að öll búnaðarmál heyri undir Búnaðarfélagið. Ég vil t.d. benda á lög um útrýmingu refa og minka, sem kveða svo á, að Búnaðarfélagið hafi yfirstjórn þeirra mála, og hafði ekkert út á það að setja í sjálfu sér, þegar þau ákvæði voru sett, en í framkvæmd heyra þessi lög, ég held nánast tiltekið algerlega undir veiðistjórann svokallaða. Og þau sinnaskipti, sem hv. þm. var að tala um hjá meiri hl. n., eru sízt meiri en hjá minni hl., því að hann hefur tekið þeim sinnaskiptum frá í fyrra, minni hl., að vilja breyta tölum í frv. á mjög veigamikinn hátt. Ég held, að þar hafi kröfurnar verið reistar svo háar, að það stuðli sízt að því, að málið fái þá afgreiðslu hér á hv. Alþingi, sem ég hef óskað að það geti fengið — og máske fær, því að málið er, eins og ég sagði áðan, svo mikilsvert, að ég hefði talið mikið fengið, að það fengist fram á þessu þingi, þótt ekki væru hærri fjárkröfur gerðar til þess opinbera en brtt. okkar meirihlutamanna gera ráð fyrir.