31.10.1960
Efri deild: 13. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í C-deild Alþingistíðinda. (2252)

68. mál, Ræktunarsjóður Íslands og Byggingarsjóður sveitabæja

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Frv. þetta er þessari hv. d. kunnugt frá því á síðasta þingi. Þá lögðum við hinir sömu þm. fram samhljóða frv. Því var vísað til n., en fékkst ekki afgreitt þar. Enginn mælti á móti frv., en hv. stjórnarstuðningsmenn lögðust á það með þagnarþunga og afgreiðslutregðu meirihlutaaðstöðu sinnar.

Nú gat manni dottið í hug, að meiri hl. vildi sjálfur bera fram till. um meðferð skulda þeirra, sem Ræktunarsjóður Íslands og byggingarsjóður sveitabæja eru í og nú hafa vaxið þessum stofnlánadeildum fullkomlega yfir höfuð. Ekki var ólíklegt, að hæstv. landbrh. hefði áhyggjur af þessum fyrirtækjum, sem komin eru undir hans forsjá og orðið hafa m.a. fyrir hinni stórfelldu gengisfellingu, sem hækkar afborganir og vexti erlendra lána í einni svipan stórlega. Satt að segja hefði átt að mega vænta þess, að strax í fyrra legði hæstv. ríkisstj. fram tillögur um sárabætur handa ræktunarsjóði og byggingarsjóði sveitabæja eða samþykkti frv. okkar um þær. En þetta varð ekki.

Svo fór sumarið í hönd. Mundu þá ekki ferðir um sveitir í sumarskrúði hafa minnt hæstv. ríkisstj. á nauðsynlegt hlutverk þessara umræddu sjóða fyrir landið og þjóðina? Fá sumur minna eins fallega á það og hið nýliðna, veðursæla og gróðurprúða sumar gerði, hve ómetanlegt gildi „bændabýlin þekku“ hafa fyrir íslenzkt þjóðlíf. Jafnframt minnti þetta sumar á mun numins lands og ónumins og víðerni, sem bíða landnámsins og aðstoðar ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs sveitabæja á næstu árum og eftirleiðis um langa framtíð.

En ekkert frv. hefur sézt frá hæstv. stjórnarflokkum um þetta efni. Tugir stjórnarfrv. hafa komið fram, en ekkert um það, að vandræði umræddra stofnlánadeilda Búnaðarbankans skuli leyst.

Eftir að hafa beðið, að við flm. töldum, hæfilega lengi eftir tillögum frá hæstv. stjórnarflokkum til úrbóta í þessum efnum, lögðum við fram þetta frv. eins og í fyrra. Frv. er um að létta af ræktunarsjóði 5 tilgreindum erlendum lánum, sem hann er talinn skulda, enn fremur að létta af byggingarsjóði sveitabæja 2 slíkum lánum, en meira skuldar hann ekki af erlendum lánum. Það er ekkert nýmæli, að ríkið létti skuldum af þessum sjóðum. Samband ríkissjóðs og þessara sjóða hefur frá upphafi vega verið þannig, að ríkissjóður hefur létt af þeim skuldum með nokkru millibili. Í grg. á þskj. 75 segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Aldrei hefur verið við öðru búizt, þegar Ræktunarsjóður Íslands og byggingarsjóður sveitabæja hafa verið látnir taka lán, en að ríkið þyrfti við og við að létta lánabyrðina. Þessir sjóðir lána féð með lægri vöxtum yfirleitt heldur en þeir verða að borga fyrir féð, sem handa þeim er aflað, og lána það einnig oft út — byggingarsjóður ævinlega — til lengri tíma.

Það hefur verið venja, að ríkissjóður hefur með nokkru millibili — eða þegar rekstrarhalli sjóðanna hefur farið að segja til sín — tekið kúfinn af skuldum þeirra, svo að þeir gætu starfað án halla. Annars mundu sjóðirnir hafa komizt í þrot með rekstur sinn, sem eðlilegt er. Árið 1953 ákvað Alþingi með lögum, að ríkissjóður skyldi létta: 1) af ræktunarsjóði ca. 14.4 millj. kr., 2) af byggingarsjóði ca. 14.4 millj. kr. Eftir fjögur ár, 1957, ákvað Alþ. aftur með heimild í fjárlögum, að ríkissjóður létti: 1) af ræktunarsjóði ca. 32.3 millj. kr., 2) af byggingarsjóði ca. 4.3 millj. kr.

Nú er enn svo komið, sem enginn þarf að undrast, að sjóðirnir búa við mikinn hallarekstur. Rekstrarhalli ræktunarsjóðs s.l. ár var 3 millj. 66 þús. kr. og rekstrarhalli byggingarsjóðs 1892849.42 kr. Er því tími til þess kominn, að ríkissjóður hlaupi undir bagga, eins og venjulegt hefur verið og skylda hans er, þar sem sjóðirnir eru stofnanir ríkisins.“

Þetta var sagt á s.l. vetri og stendur enn í sama gildi. Gengisfellingin á þessu ári hækkaði erlendu skuldirnar, sem á stofnunum þessum hvíla, og þar með árgjöldin um þriðjung í íslenzkum krónum. En auðvitað eru tekjur bankans allar í íslenzkum krónum, svo að hann hefur ekkert annað fram að leggja en þær hinar stýfðu krónur. Hallinn hlýtur að aukast frá því, sem hann var í fyrra. Vaxtahækkun og stytting lánstíma á fé því, er sjóðurinn lánar bændum, snertir aðeins ný lán og gagnar því lítið til mótvægis í ár og næstu ár.

Ég rakti nokkuð starfssögu sjóðanna, þegar ég fylgdi frv. þessu úr hlaði í febrúar s.l., og sýndi fram á það, hve mikils virði þeir hafa verið í framfarabaráttu bænda og uppbyggingu sveitanna. Ég sé ekki ástæðu til að rekja þessa sögu nú; því að hún á að vera öllum kunn. Gildi sjóðanna er óumdeilanlegt.

Ég leyfi mér að vænta þess, að hv. þm. taki frv. vel. Ef sjóðirnir ættu að sitja með skuldirnar, mundu þeir étast upp á stuttum tíma. Hins vegar geta þeir, ef frv. þetta verður samþykkt, komizt af um hríð.

Við, sem frv. flytjum, höfum viljað fara svo hófsamlega sem hægt er í því að leggja byrðar stofnlánasjóða þessara á ríkissjóðinn nú, ekki fara frekar í þær sakir en áður hefur tíðkazt. Auðvitað mundum við geta fyrir okkar leyti samþykkt hærri upphæðir, ef hæstv. ríkisstj. telur sér fært að láta ríkissjóðinn leggja þær fram. Samkv. frv. verða árgjöldin, sem falla á ríkissjóð, um 10.8 millj. kr. vegna ræktunarsjóðs og um 3.1 millj. kr. vegna byggingarsjóðs, en það eru samtals um 13.9 millj. kr.

Ég ætla svo ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni, legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari og til hv. fjhn.