31.10.1960
Efri deild: 13. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í C-deild Alþingistíðinda. (2255)

68. mál, Ræktunarsjóður Íslands og Byggingarsjóður sveitabæja

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. hefur haft hér orð fyrir hæstv. ríkisstj. og hefur rætt um þetta frv. næsta furðulega, eins og ég skal reyna að sýna fram á með fáum orðum.

Það er engu líkara en sjóðirnir séu persónur, sem hafi rekið og átt að reka pólitík, bankapólitík, alveg án tillits til þess, hvaða stefna ríkti í þjóðmálunum hverju sinni og hvaða stefna væri uppi hjá þeirri ríkisstj., sem fór með völdin á hverjum tíma. Vitanlega hefur lánapólitík sjóðanna alltaf verið og orðið að vera í samræmi við þá stefnu, sem ríkisstj. hafa fylgt, frá því að sjóðirnir voru stofnaðir. Til þess eru þeir stofnaðir og því hlutverki hafa þeir gegnt, og það er ekki ein stjórn, — ætli það nálgist ekki eitthvað á annan tug stjórna, sem hafa fyrirskipað sjóðunum að reka þá bankapólitík, sem þeir hafa rekið? Þess vegna er alveg furðulegt, þegar hæstv. menntmrh. talar á þann hátt sem hann hefur gert hér við þessar umr. Og sjóðirnir verða að gera meira. Þeir verða að taka afleiðingunum af þeirri pólitík, sem stjórnin rekur, m.a. viðkomandi skráningu gengisins. Ég fullyrði það, — og það er aðalatriðið, hvort það er rétt eða rangt, — ég fullyrði það, að hver einasta ríkisstj., sem hefur setið við völd nú á annan áratug, hlaut að sjá það fyrir, að hagur sjóðanna hlaut að geta farið versnandi, jafnvel fara versnandi af ástæðum, sem ég skal nú greina.

Sjóðirnir hafa tekið lán með miklu hærri vöxtum, — og nú nota ég orðið „látnir“, — heldur en ríkisstj. hafa látið þá lána til landbúnaðarins. Hvað haldið þið, að hefði verið sagt í þessu landi, ef sjóðirnir hefðu risið gegn þeirri stefnu, sem ríkisstj. hefur fylgt á hverjum tíma, og neitað að framkvæma fyrirskipanir hennar? En ríkisstj. hlaut að vita það, að um leið og sjóðirnir voru látnir lána, — og ég kem að þeirri pólitík síðar, hvort hún er eðlileg eða ekki, — það leiðir af hlutarins eðli, að um sjóði, sem eru látnir lána með lægri vöxtum en þeir þurfa að borga lánveitanda sínum, getur ekki farið á annan veg en að hagur þeirra fari versnandi. En það er alveg rétt, sem tekið er fram í grg. þessa frv.: Af þessum fyrirsjáanlegu ástæðum hefur verið hlaupið undir bagga og gefin eftir lán, ríkissjóður hefur tekið á sínar herðar lán, sem sjóðirnir hafa tekið. Það er vitanlega viðurkenning á þessari pólitík, sem ríkisstj. hefur rekið. Þessar ráðstafanir, sem gerðar hafa verið á undanförnum árum, að ríkissjóður hefur tekið að sér lánin, er fullkomin viðurkenning á því, að ríkisstj., sem setið hafa undanfarið, hafa gert sér grein fyrir því, að hjá því varð ekki komizt. Sjóðirnir eru, hvort sem þeir eru sjálfseignarstofnanir eða ríkiseign, engin vél, sem býr til peninga. Ef þeir lána með lægri vöxtum samkvæmt þeirri pólitík, sem ríkisstj. hefur talið rétt að fylgja, — og ég er ekki í neinum vafa um, eins og ég kem síðar að og bendi á, að er rétt, ef þeir lána með lægri vöxtum, þá hlaut hver ríkisstj. að sjá það, að sjóðirnir éta sig upp sjálfir, og jafnvel þótt það hefði ekki orðið gengisbreyting, hefðu þeir gert það samkvæmt þeirri stefnu, sem ríkisstj, skipaði þeim að fylgja. Hitt er annað mál, að nú hefur keyrt algerlega um þverbak með gengisbreytingunni, sem ríkisstj. hefur skellt á þessa sjóði, — alveg um þverbak, — þannig að hagur þeirra versnar margfaldlega við þær ráðstafanir samanborið við gengismuninn.

Eins og allir alþm. vita, er stofnað til þessara sjóða til þess að efla framkvæmdir í landbúnaði, húsabyggingar, íbúðarhúsabyggingar, útihúsabyggingar og ræktun. Ég hef ekki athugað það sérstaklega í lögunum, hvað stendur um það, hvers eign þeir eru, — það stendur sennilega ekkert, ég hef ekki athugað það, — en það gefur að skilja, og það vita allir, að Búnaðarbankinn í heild er eign ríkissjóðs. Hann er eign ríkisins, og hann er samsettur af sparisjóðsdeild, veðdeild, byggingarsjóði og ræktunarsjóði, og ég get ekki verið í neinum vafa um það, — það er lögfræðiatriði, sem kannske má deila um, — að ríkissjóður ber ábyrgð á bankanum í heild. Bankinn er mjög efnaður, eins og við vitum, vegna þess, hve eignir sparifjárdeildarinnar eru stórfelldar. En það er enginn efi á því, — og ég býst við, að það mundi hver lánveitandi vinna það í máli, það er enginn efi á því, að þar sem ríkisstj. hefur tekið það á sig að lána þessum sjóðum fé með miklu hærri vöxtum en hún hefur fyrirskipað þeim að lána það út, breytt gengi, þó að hún vissi, að á lánunum, sem bankinn veitti einstaklingum, voru engar gengisklásúlur, þá hlýtur hver ríkisstj. að ganga út frá því, ef hún hefur nokkurn fjármálamóral, að vitanlega ber hún ábyrgð ð þessum gerðum og ber ábyrgð á sjóðunum, ber ábyrgð að sínu leyti. Og ég er ekki í neinum vafa um það, að hver og einn, sem á aðgang að sjóðunum, mundi vinna það í máli. Það er umdeilanlegt, en ég er ekki í neinum vafa um, að hann mundi vinna það í máli.

Ekki eingöngu þess vegna, heldur vegna þess, að það er ríkið, sem með pólitík sinni á hverjum tíma hefur ráðið stefnu sjóðanna, látið þá taka lán og látið þá veita lán, sem er alveg óhjákvæmilegt auðvitað að sjóðsstjórnirnar hlýddu, hefur það tekið á sig þá skyldu að sjá fyrir því, að sjóðirnir gætu staðið undir skuldbindingum sínum, svo að þetta um skylduna er tvímælalaust og ekkert annað en bábilja hjá hæstvirtum ráðherra, að hún sé ekki til staðar, enda er það sýnt, eins og hér hefur verið tekið fram oftar en einu sinni. Hvers vegna er það, að oftar en einu sinni og svo að milljónum króna skiptir hefur ríkissjóður tekið á sig skuldbindingar, sem sjóðirnir voru búnir að taka á sig áður með lögum frá Alþingi? Hvers vegna? Vegna þess vitanlega, að ríkissjóður og þær ríkisstj., sem hafa ráðið, hafa talið sér það skylt og Alþingi hefur talið þetta skylt.

Svo kemur aftur hin hliðin á málinu, sem hér hefur verið gerð að umræðuefni, hvort rétt hafi verið að lána fé sjóðanna út með þeim vöxtum, sem það hefur verið lánað, lægri vöxtum en sjóðirnir hafa þurft að borga til lánveitenda sinna, og í annan stað, hvort rétt hafi verið að lána það út án gengisklásúlu til einstaklinga.

Eins og við vitum víst flestir, þá er í flestum löndum veraldarinnar greitt stórfé úr ríkissjóði til styrktar landbúnaðinum í margs konar myndum. Fyrst var fylgt þeirri pólitík t.d. viðkomandi landbúnaðinum hér, að það voru veittir styrkir að nokkru leyti í staðinn fyrir lán. Þessu var breytt þannig, að vextirnir voru lækkaðir, en ýmsir styrkir voru lagðir niður. Þetta var meira að segja gert m.a. samkvæmt norskri fyrirmynd, þar sem landbúnaðurinn greiðir miklu lægri vexti en nokkurs staðar er hægt að fá lánsfé fyrir samkvæmt ákvörðunum og vegna styrkja, sem ríkið veitir, til þess að hægt sé að veita þessi lán.

Ég minnist þess, að þegar landbrh. Lúxemburgar kom hér fyrir mörgum árum, þá var hann að spyrja mig um styrki til landbúnaðarins, og hann skýrði mér frá því, að þá veitti ríkisstj. í Lúxemburg um 150 millj. í styrki til landbúnaðarins, sem var gífurleg upphæð á þeim tíma, það eru svo mörg ár síðan hann kom hér. Og hann sagði, að þeir gerðu það eingöngu vegna þess, að þeir vissu, að landbúnaðurinn getur ekki staðizt nema með því móti, og þeir vilja ekki láta hann leggjast niður.

Það þarf ekki að taka slík lönd. Ég vil ekki fara með tölur, sem ég man ekki, en ég minnist þess, að þegar ég fór um England nú í seinasta skipti, þá heyrði ég um þær tölur, sem enska stjórnin greiðir í styrkjum og ívilnunum með vöxtum til landbúnaðarins í Englandi. Það eru gífurlegri upphæðir en mig hefði nokkurn tíma órað fyrir.

Og hvernig er með þau ríku Bandaríki, þar sem landbúnaður ætti að vera arðvænlegur? Hvað eru það miklar fjárupphæðir, sem Bandaríkjastjórn leggur fram á hverjum tíma til að kaupa upp afurðir, leggja þær til hliðar, selja þær úr landi fyrir lítið verð og lána um langan tíma, eins og hefur verið gert hingað til lands, og fyrir miklu lægra verð en þeir borga bændunum aftur? Hvað eru það háar fjárhæðir, sem fara til þess að kaupa upp þessar vörur, og hvað er verðmismunurinn mikill á því, sem þeir selja, og því, sem þeir liggja með vaxtalaust ár eftir ár, birgðum, sem eru svo gífurlegar, að talnafræði mín a.m.k. nær ekki yfir þær fjárhæðir, sem þar liggja geymdar, vegna þess að það er gert í því formi að styrkja landbúnaðinn þar?

Dettur hæstv. menntmrh. Íslands í hug, að það sé hægt að komast af með landbúnað á Íslandi án þess að styrkja hann í einhverju formi, með lágum vöxtum eða á annan hátt? Hann segir, að hann hafi sýnt landbúnaðinum þá góðvild að koma fram með till. um það í þeirri ríkisstj., sem hann átti sæti í ásamt mér, að þessir peningar, sem lánaðir væru út úr sjóðunum, á meðan hann var við völd og síðan þá væntanlega, væru lánaðir út með gengisklásúlu. Ég man nú ekkert eftir þessu, ég verð að segja það eins og er, en mótmæli því alls ekki, ég geri ekki ráð fyrir því, að ráðh. fari með rangt mál. En það hefði verið algerlega sama, hvort þessi till. hefur komið fram eða ekki. Mér hefði aldrei dottið í hug að samþykkja hana, af því að ég hef gert mér það ljóst, að þessir lágu vextir eru til þess að efla framkvæmdir í þeim landbúnaði í heiminum, þar sem allt þarf að byggjast upp frá rótum, og það er þess vegna, að þessi landbúnaður þarf fremur en landbúnaður nokkurrar annarrar þjóðar á því að halda að vera styrktur á einhvern hátt til uppbyggingar og framkvæmda. Ég geri mér ljóst, að við mundum síður en nokkur önnur þjóð sleppa hjá því, og þar sem þessar þjóðir, sem ég hef nefnt, gera það í margs konar formum, hvernig á að láta sér detta í hug, að hægt sé að komast af með það hér að veita ekki landbúnaðinum styrk og aðstoð á einhvern hátt?

Mér hefði þess vegna aldrei dottið í hug að fallast á þessa reglu, enda geri ég mér það ljóst, að landbúnaðurinn á Íslandi, — takið eftir, ef þessari reglu hefði verið fylgt, þá væri hann gjaldþrota í dag, svo að segja annar hver bóndi, með þeim ráðstöfunum, sem ríkisstj. hefði gert.

Það er enginn efi á því, fyrir því hef ég fyllstu sannanir. Ráðstafanir ríkisstj., svokallaðar viðreisnarráðstafanir, fara illa með allt atvinnulíf, eins og sést á útveginum og greinilega hefur komið fram og allir hér á Alþ. vita. En þessar ráðstafanir hafa komið þyngra niður á landbúnaðinum en nokkrum öðrum atvinnuvegi á Íslandi. Það fullyrði ég, og það fullyrða bændur sjálfir og vita það mætavel. Þess vegna er það, að ef þetta hefði komið í ofanálag, ef þetta hefði komizt fram, að þeir áttu að taka vaxtamismuninn og fá síðan gengisbreyt. ofan á sig í viðbót við það, sem þeir höfðu fengið með svokölluðum viðreisnarráðstöfunum, þá fullyrði ég, að annar hver bóndi á Íslandi væri gjaldþrota. Það er ekkert annað en það. Þetta mundi sennilega hafa verkað, ef hæstv. ráðh. hefði tekizt að koma þessu fram, álíka og gengishækkunin mikla, sem framkvæmd var skömmu fyrir 1930 — ég man ekki, hvaða ár hún var framkvæmd — af fjmrh. Jóni Þorlákssyni. Þetta mundi hafa verkað á svipaðan hátt. En sú gengishækkun orkaði þannig á landbúnaðinn, að eins og við vitum, þá varð annar hver bóndi gjaldþrota og varð að gera þá upp með sérstökum kreppulánasjóðum.

Það er þess vegna alger misskilningur og bendir á annaðhvort vanþekkingu hæstv. ráðh. á landbúnaði eða litla velvild, að ég ekki segi mikla óvild í garð landbúnaðarins, að láta sér koma til hugar, að það hafi verið nokkur möguleiki á því að setja gengisbreytingar á bak landbúnaðinum, á bak bændum, og það er alveg fullkominn misskilningur, að það hafi nokkurn tíma verið hægt hér frekar en annars staðar að lána til landbúnaðarins þannig, að vextirnir væru ekki lægri en það, sem menn hafa orðið að sætta sig við á hinum almenna lánamarkaði. Þetta eru raunverulega þeir einu styrkir í stóru formi, sem hér hafa verið látnir af hendi til landbúnaðarins, til þess að byggja upp landbúnaðinn og til þess að sjá um, að það væri hægt að reka hann.

Eins og ég sagði áðan, efast ég um, að þetta sé meira en hefur verið gert í mörgum löndum, þar sem aðstæður fyrir landbúnaðinn eru miklu betri, og nefni ég þar England, Bandaríkin og fleiri lönd. Það er þess vegna alveg tvímælalaust, að þó að megi deila um það að mínu áliti, hver skyldan er fyrir ríkissjóð gagnvart þessum sjóðum, þá er enginn vafi á því í mínum augum, að hún er til staðar og hún er afleiðing af þeirri pólitík, sem fylgt hefur verið til þess að byggja upp landbúnaðinn í landinu, — pólitík, sem var alveg rétt í samræmi við pólitík margra annarra landa, og afleiðingarnar af því, að ríkisstj. hefur látið sjóðina reka þessa pólitík, gátu aldrei orðið aðrar en þær hafa orðið, og það var vitanlega í þágu ríkisstj. Þess vegna er það, að gripið hefur verið til þess sjálfsagða ráðs að gefa sjóðunum upp skuldir og ríkissjóður tæki þær á sitt bak.

Það er aukaatriði, að eftir því sem hæstv. ráðh. segir, þá er kostnaður við rekstur sjóðanna óeðlilega hár. Ég get nú upplýst það, að rekstrarkostnaður bankans í heild mun a.m.k. í hlutfalli við umsetningu hans vera sízt hærri, — ég vil ekki fara í neinn meting, — en kostnaðurinn við rekstur annarra banka. Hins vegar er það þannig, að bankastjórinn skiptir þessu eftir áætlun, — það er ekki hægt að gera það upp, hver starfar við hverja deild, ég held, að hann geri það eftir áætlun, — hvað á að skiptast niður á ræktunarsjóð af þessum kostnaði og hvað á byggingarsjóð, og hvort þessi skipting er þannig, að áætlað er meira fyrir rekstur þessara sjóða en vera ætti, það skal ég ekki fullyrða á þessu stigi. Ég verð að kynna mér það nánar til þess að geta fullyrt það. Rekstrarkostnaðinum er skipt af bankastjóranum eftir áætlun milli þessara fjögurra sjóða, veðdeildar, sparisjóðsdeildar, byggingarsjóðs og ræktunarsjóðs.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar, nema tilefni gefist til, um þetta mál. Ég tel, að það sé alveg sjálfsagt og í samræmi við þau rök, sem ég hef fært fram, að það nái fram að ganga, af þeirri einföldu ástæðu, að þessi pólitík, sem sjóðirnir hafa verið látnir reka, er sú pólitík, sem ríkisstj. undanfarinna ára og ég vil segja áratuga, á annan áratug, hafa fyrirskipað sjóðunum að reka. Eða talar kannske hæstv. menntmrh. fyrir hönd Sjálfstfl., að hann hafi viljað láta sjóðina reka allt aðra pólitík á undanförnum árum en þeir hafa rekið? Talar hann þar fyrir hönd Sjálfstfl., að ríkisstj., sem hafa setið undanfarið, mörg undanfarin ár, hafi viljað, að bændur tækju á sig hallann af gengisbreytingum, sem hafa orðið í ýmsum formum? Talar hann þar fyrir hönd Sjálfstfl., að það hafi verið vangá af sjóðunum, á móti vilja þeirra ríkisstj., sem hafa setið, að þessi lánapólitík hafi verið rekin? Ég spyr og vil fá svar um það: Talar hann fyrir hönd Sjálfstfl. um það? Talar hann fyrir hönd Sjálfstfl. um það, að hann álíti, að vextirnir til bændanna hafi átt að vera hér, mótsett því, sem er í öðrum löndum, í samræmi við hinn almenna lánamarkað, eða m.ö.o. tvisvar til þrisvar sinnum hærri en vextirnir hafa verið, sem sjóðirnir hafa tekið? Það hefði verið leiðin til þess, að sjóðirnir hefðu borið sig og ekki þurft að hlaupa undir bagga. Ef það er, þá getur hann deilt á Framsfl. fyrir það, og við erum fúsir til að taka þeirri ábyrgð. Ég vildi gjarnan fá að vita, hvort hann talar fyrir hönd Sjálfstfl. í þessu efni. En ef hann gerir það ekki, og hvort sem hann gerir það eða gerir það reyndar ekki, þá komumst við alltaf að sömu niðurstöðunni. Það eru ríkisstjórnirnar, sem hafa rekið þessa lánapólitík, sem sjóðirnir hafa verið látnir reka. Þeir hafa gert það eftir fyrirskipun þeirra ríkisstjórna, sem hafa setið, og þar af leiðandi vitanlega sér hver einasti maður og hver ríkisstjórn sá það, sem kann svo mikið í reikningi að leggja saman tvo og tvo, að sjóðir, sem lána út með lægri vöxtum en þeir verða að borga sjálfir, hljóta að tapa, þannig að það verður að hlaupa undir bagga, þegar gengisbreyting kemur. Þess vegna er það skylda að samþ. þetta frv. eða gera ráðstafanir því samsvarandi, þó að það verði í öðru formi.