31.10.1960
Efri deild: 13. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 779 í C-deild Alþingistíðinda. (2256)

68. mál, Ræktunarsjóður Íslands og Byggingarsjóður sveitabæja

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þessar umr. hafa að því leyti orðið mjög gagnlegar, að nú liggur fyrir yfirlýsing — ég má eflaust einnig segja játning — tveggja forustumanna Framsfl. og ég vil einnig segja landbúnaðarins í landinu um það, að ástand aðalstofnlánasjóða landbúnaðarins sé nú orðið svo alvarlegt, að telja megi sjóðina gjaldþrota. (Gripið fram í: Finnst ríkisstj., gengisbreytingarstjórninni, ástæða til að gera þá gjaldþrota?) Ég skal koma að því á eftir, hver aðallega ber ábyrgð á þessu. — Þetta er sem sagt mjög athyglisvert, að það skuli hér koma fram og vera ómótmælt af þessum forustumönnum Framsfl., mönnum, sem báðir hafa gegnt og gegna mjög miklum trúnaðarstörfum í þágu landbúnaðarins, að þeirri minni fullyrðingu skuli látið ómótmælt, enda er hún tvímælalaust rétt, að hagur þessara tveggja sjóða er nú þannig orðinn, ef hann er skoðaður í einu lagi, að þá vantar tæpar 3 millj. til þess að eiga fyrir skuldum. Um þetta hefur í sjálfu sér ekki verið ágreiningur. En um hitt var ágreiningur, sem kom fram í ræðum þeirra, ágreiningur við mig og eflaust marga fleiri um, hver heri höfuðábyrgðina á þessu, og í því er í raun og veru fólginn kjarni málflutnings þeirra beggja, og þess vegna er eðlilegast að gera þennan kjarna þessa málflutnings að nokkru umtalsefni.

Hv. 2. þm. Vestf. (HermJ) lagði á það megináherzlu, eftir að hann hafði bæði beint og óbeint játað, hvernig komið væri fyrir þessum sjóðum, að það væri ekki stjórnendum sjóðanna um að kenna, heldur hefðu ríkisstjórnir hátt á annan áratug fyrirskipað stjórnum sjóðanna að reka þá pólitík, sem þeir hafa rekið og nú hefur haft þessar geigvænlegu afleiðingar. Hv. 2. þm. Vestf. vildi sem sagt koma ábyrgðinni af þessu hörmulega ástandi yfir á þær ríkisstjórnir; sem hér hafa setið undanfarna einn til tvo áratugi og að því er hann sagði hafa fyrirskipað stjórnum sjóðanna að reka þá pólitík, sem þeir hafa rekið og leitt hefur til þessa gjaldþrots sjóðanna nú. Þetta er misskilningur hjá hv. þm. Hann veit, ekki jafnvel og ég, heldur hefur á því miklu meiri þekkingu en ég, að um þessa sjóði gilda sérstök lög. Stjórnir sjóðanna eru ekki háðar neinum fyrirskipunum neinnar ríkisstjórnar um, hvernig þeir haga sínum ákvörðunum, sem og greinilega kom m.a. fram, eftir að á það var bent af mér og þáverandi viðskmrh., Lúðvík Jósefssyni, árið 1957 í vinstri stjórninni, að sú stefna væri mjög varhugaverð að taka erlend lán og lána út án gengisklásúlu. Þá var því einfaldlega til svarað, alveg réttilega að vísu, eins ég gat um áðan, að þetta væri alls ekki mál ríkisstj., sjóðirnir störfuðu samkvæmt sérstökum lögum og stjórn sjóðanna sjálf tæki ákvörðun um, með hvaða kjörum hún tæki lán og með hvaða kjörum hún lánaði þetta fé aftur, og það væri vitað, að stjórn þessara sjóða, þ.e. stjórn Búnaðarbankans, vildi með engu móti endurlána erlent fé með gengisklásúlu. Þar með var talað um, að það mál ætti að vera útrætt í ríkisstj., sem það líka var, því að við hæstv. þáverandi viðskmrh., sem í þessu máli reyndumst vera á sömu skoðun, höfðum þá ekkert meira um málið að segja.

Þetta skýtur mjög skökku við það, sem hv. 2. þm. Vestf. nú heldur fram, að stjórnir sjóðanna hafi verið háðar og séu háðar fyrirskipunum ríkisstjórnar um þeirra lánveitingapólitík. (HermJ: Má ég taka fram í?) Gerið svo vel. (Gripið fram í.) Ef hv. þm. hefur sem landbrh. gefið ákveðnar fyrirskipanir um það, þá er það lögleysa, þá er það slettirekuskapur, ráðh. hefur ekkert leyfi til þess, og brot á lögum. (HermJ: Ræður ráðh. engu um útlánapólitík bankanna nú? Ræður hann engu? — Forseti: Ekki samtal.) Það gilda ákvæði í lögum um útlánsvexti þessara sjóða beggja, það, veit hv. þm. Hann stóð að því eða hans flokkur árið 1953 að hækka ákvæði í lögum beggja sjóðanna um útlánsvextina. Það er í síðasta skipti sem Alþ. hefur skipt sér af því. Það m.a. minnir á, sem raunar allir þm. vita, að útlánsvextir sjóðanna eru ákveðnir í lögum, en ekki eftir neinni fyrirskipun frá neinum landbrh. (Gripið fram í.) Það er nú svolítið annað að blanda saman Alþ. og ríkisstj., svo að þetta er allt saman á fullkomnum misskilningi byggt, sem hv. þm. sagði. Sjóðirnir starfa samkvæmt lögum, og Alþ. hefur ákveðið útlánsvextina. Hitt er svo skylda forráðamanna sjóðanna, að gera annað tveggja, að sjá um að afla sjóðunum fjár með ekki hærri vöxtum en hinir lögskipuðu útlánsvextir Alþ. eru, eða gera hitt, ef slíkt fé er ekki fáanlegt, þá að tryggja sjóðunum tekjur til þess að greiða vaxtamuninn. Þetta er mergurinn málsins, og ég skal gjarnan endurtaka: Sú skylda hvílir á stjórnum sjóðanna auðvitað að hlýða lögum — ekki ríkisstjórnum, — að hlýða lögum um að hafa útlánsvextina 4½%, eins og þeir eru núna, og svo að afla sjóðunum fjár til þess að endurlána við hinum lögskipuðu vöxtum. Ef ekki er hægt að afla sjóðunum tekna, þ.e. lánsfjár, með jafnlágum vöxtum, á að sjá sjóðunum fyrir öðrum tekjum, t.d. fjárframlögum frá ríkinu, frá Alþ. á fjárlögum, sem jafni vaxtamuninn jafnóðum. Þessi skylda hvílir á stjórnum sjóðanna lögum samkvæmt, og þessari skyldu hafa þeir ekki farið eftir. Þess vegna er nú komið eins og komið er.

Hitt er náttúrlega hrein glæframennska af stjórnum þessara sjóða, að halda áfram ár eftir ár — ég vil segja áratug eftir áratug að taka lán með miklu hærri vöxtum en sjóðunum er fyrirskipað af Alþ. að lána út gegn og gera engar samhliða ráðstafanir til þess að afla sjóðunum tekna til þess að standa undir þessum vaxtamun, heldur láta höfuðstólana smám saman étast upp. Það má segja, að þetta sé verjandi, meðan einhver höfuðstóll er til að éta upp, en það er algerlega óverjandi, eftir að fyrirsjáanlegt er, að skuldir sjóðanna eru orðnar meiri en eignirnar. Það hefur verið fyrirsjáanlegt mörg undanfarin ár, að að því mundi koma innan skamms tíma, eins og tekjum þessara sjóða hefur verið hagað.

Það þýðir því ekki fyrir hv. þm. eða þessa formælendur Framsfl. að halda því fram, að Alþ., hvað þá ríkisstj., beri ábyrgð á því, sem hér er um að ræða. Það eru fyrst og fremst stjórnir sjóðanna, sem bera ábyrgð á því, hversu illa er komið. Þær hafa ekki rækt það hlutverk, sem þeim hefur verið falið í lögum um ræktunarsjóð og byggingarsjóð sveitanna. Skylda þeirra hefði verið að gera a.m.k. tilraunir til ráðstafana í þá átt að afla reglulegra árlegra tekna til að standa undir hallanum, í stað þess að horfa upp á það, að höfuðstóllinn ætist upp og sjóðirnir yrðu gjaldþrota, en vilja hafa hina aðferðina glæfraaðferðina — að koma öðru hverju með nokkurra ára millibili til Alþ. og heimta eða leggja til, að þetta árið fáist 29 millj., annað árið fáist 38, eins og ég nefndi áðan, og núna 160 millj. Það er þessi fjármálastefna, sem ég leyfði mér að segja áðan að ætti ekki annað heiti skilið en að teljast einhver alvarlegustu mistök í íslenzkum fjármálum, síðan bankakerfið varð innlent.

Við skulum gera okkur skýra grein fyrir því, hvað það er, sem er í raun og veru að, fyrst málefni þessara sjóða eru komin á dagskrá almennt, og á því var sannarlega ekki vanþörf. Það er fernt, sem að er og snertir málefni sjóðanna.

Í fyrsta lagi er það, að stórkostlegur árlegur vaxtahalli er á sjóðunum. Hann nemur samtals um 6½ millj. kr. Útlánsvextir sjóðanna eru árlega hvorki meira né minna en 6½ millj. kr. lægri en vextirnir, sem sjóðirnir greiða af því fé, sem þeir hafa lánað út. Hv. 2. þm. Vestf. sagði að þessi útlánastefna væri liður í landbúnaðarstefnu íslenzka ríkisins og hefði verið það um langan tíma undanfarið, og þetta er rétt. Auðvitað má styrkja landbúnaðinn með þeim hætti að sjá honum fyrir ódýrum lánum. En af ýmsum ástæðum má um það deila, hvort það sé bezta aðferðin til að styrkja landbúnaðinn. Ég mun á engan hátt andmæla því, að nauðsynlegt sé að styrkja íslenzkan landbúnað, líkt og gert er í flestum löndum Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum. Ég er hins vegar ekki viss um, að rétta formið á styrk til landbúnaðarins sé að hafa lánin á öllum stofnlánum hans jafnódýr og þau hafa verið hér um langt skeið undanfarið. En það er annað mál. Það skiptir ekki máli í þessu sambandi. Í þessu sambandi þurfum við ekki að deila um, hvaða stefna sé skynsamlegust í landbúnaðarmálum. Við þurfum ekki heldur að deila um það, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. vildi láta liggja að, að ummæli mín áðan bæru vott um sérstakan óvildarhug til landbúnaðarins. Ég hygg, að ég hafi sýnt það í öðrum málum og á öðrum sviðum að öll svigurmæli um það eru algerlega ástæðulaus. Það þýðir ekki, að ég telji ekki skipta neinu máli, hvernig því fé er varið, sem íslenzka ríkið vill verja til styrktar landbúnaðinum og telur sig hafa efni á að verja til styrktar honum. Það skiptir auðvitað meginmáli. Eins og ég sagði áðan, er ég ekki viss um, að það sé rétta aðferðin að veita fé til landbúnaðarins í því formi að láta hann njóta alveg óeðlilega lágra vaxtakjara, miðað við ástandið á íslenzkum fjármálamarkaði. En þetta þurfum við ekki að deila um í þessu sambandi. Það er ástæðulaust að snúa þessu máli upp í deilur um það, hvaða hátt eigi að hafa á styrkjum til landbúnaðarins, alveg óþarfi, því að það er því máli algerlega óviðkomandi. Það, sem er mergurinn málsins í sambandi við hag sjóðanna og framtíð sjóðanna, er, að það er auðvitað algerlega óverjandi að halda því áfram, ekki aðeins ár eftir ár, heldur áratug eftir áratug, að afla fjár til þessara stofnlánasjóða, sem er miklu dýrara en lögskipaðir útlánsvextir eru, og láta þannig höfuðstól sjóðanna beinlínis étast upp. Það er þessi stefna, sem er algerlega óforsvaranleg. Á henni getur enginn borið ábyrgð annar en stjórn sjóðanna sjálfra. Frá stjórn Búnaðarbankans hefur mér vitanlega aldrei komið nokkur heildartillaga um það, hvernig tryggja eigi hag ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs um langa framtíð, — engin heildartillaga komið um það. Það hugarfar, sem hefur verið ráðandi hjá forráðamönnum þessara sjóða landbúnaðarins, er að láta þetta ganga allt í sukki, til þess síðan að geta komið með 4–5 ára millibili til Alþingis og heimtað fjárframlög frá því. Það, sem beðið var um, var fyrst 29 millj. kr., þremur árum seinna, vegna þessarar stefnu, var fært upp á skaftið, þá var beðið um 37 millj. kr., og nú er beðið um 160 millj. kr. Það er þetta, sem ég vil leggja megináherzlu á að er óforsvaranlegt og ekki hægt að koma ábyrgð á þessu á neina aðra en þá, sem hljóta að bera ábyrgðina, hina lögskipuðu stjórnendur sjóðanna.

Ég segi, að það fyrsta, sem að er í þessu máli, er, að á sjóðunum er þessi stórkostlegi vaxtahalli, árlegi vaxtahalli, um 6½ millj. kr. á ári.

Hið annað, sem er að, er, að hagur beggja sjóðanna, einkum byggingarsjóðs, versnar árlega vegna hins óhagstæða munar á lengd lánanna, því að það er ekki aðeins að sjóðirnir taki lánin með miklu hærri vöxtum en þeir endurlána féð gegn, heldur lána þeir féð einnig til miklu lengri tíma en lánin eru, sem sjóðirnir taka, einkum byggingarsjóður. Þetta á sinn þátt í því, að greiðslugeta sjóðanna stórrýrnar ár frá ári. Ég veit, að hv. 2. þm. Vestf. kemur ekki til hugar að halda því fram, að þetta hafi verið fyrirskipað af hálfu ríkisstj. Hann veit það vel, eins og allir þm. vita, að það er engin fyrirskipun um þetta í lögum eins og um vextina, og ég vil ekki trúa því á hann, að hann hafi nokkurn tíma sem landbrh. gefið stjórnum sjóðanna nein fyrirmæli um að taka lán til skemmri tíma en lánin eru lánuð út til. Hér á í raun og veru við það sama og ég sagði um vaxtahallann. Ef ekki tekst að fá lán til jafnlangs tíma og sjóðirnir lána fé sitt út til, er það skylda sjóðsstjórnarinnar að gera samtímis ráðstafanir til þess að jafna þann greiðslumun, sem af þessu hlýzt. Það er það, sem hefur ekki verið gert, og hér geta sjóðsstjórnirnar ekki komið ábyrgð á neinn annan.

Það, sem í þriðja lagi er að, er, að þessir sjóðir hafa á síðasta áratug tekið hvert útlenda lánið á fætur öðru. Nú hefur hver einasti maður vitað það, að því fylgir áhætta, gengisáhætta, að taka erlend lán. Samt sem áður hefur stjórn þessara sjóða landbúnaðarins skellt skolleyrum við öllum viðvörunum um þá áhættu, sem af þessu hefur leitt, þegar gengisbreytingar hafa orðið. Gengisbreyting hefur ekki orðið ein á þessum áratug, eins og hv. þm. vildi láta liggja að, þær voru fjórar á áratugnum: 1950, 1956, 1958 og 1960. Það er því auðvitað algerlega úr lausu lofti gripið, þegar hv. þm. vill halda því fram, að það, hvernig hag sjóðanna sé nú komið, sé eingöngu að kenna gengisbreytingunni frá 1960, þeirri síðustu. Reynslan af því, að á þessum áratug hafa verið fjórar gengisbreytingar, hefði vissulega átt að opna augu forráðamanna sjóðanna upp á gátt fyrir því, að því hlýtur að teljast fylgja mikil áhætta að taka lán í erlendum gjaldeyri og endurlána þau án gengisklásúlu.

Það er auðvitað alger misskilningur, að nokkur ríkisstj., hvað þá Alþingi, hafi fyrirskipað stjórnum sjóðanna að skella skolleyrum við þessari áhættu. Gleggsta sönnunin fyrir því er einmitt það, sem ég hef vitnað í um umr. um þetta í vinstri stjórninni á árinu 1958, þar sem þar var einmitt á það bent, að þetta væri mál sjóðsstjórnanna sjálfra og kæmi ríkisstj. í sjálfu sér ekkert við.

Það fjórða og síðasta, sem er að rekstri þessara sjóða, er svo það, hvað kostnaður sjóðanna samkv. skiptingu stjórnar Búnaðarbankans er óhæfilega mikill. Hann er svo mikill, að rekstrarkostnaður þessara tveggja sjóða gerir meira en að gleypa allt það fé, sem Alþ. veitir til sjóðanna á ári hverju og Alþ. hefur auðvitað hugsað að ætti að fara til þess að auka höfuðstól sjóðanna og gera þeim kleift að auka útlán sín árlega. Í staðinn fyrir það, að sjóðirnir hafi getað endurlánað árlega fjárveitingar Alþingis, hafa allar fjárveitingarnar farið í rekstrarkostnað þessara tveggja sjóða og meira að segja ekki dugað til, svo að höfuðstólar sjóðanna hafa einnig rýrnað af þessum sökum.

Þetta eru allt saman svo alvarlegir hlutir varðandi hag og framtíð þessara sjóða, að það er vissulega rétt hjá hv. 1. þm. Norðurl. e., að hér er um stórkostlegt vandamál að ræða. Fram hjá því er ekki hægt að horfa, að þannig skuli vera komið fyrir þessum máttarstólpum landbúnaðarins, ræktunarsjóði og byggingarsjóði sveitabæja, eftir að Framsfl. hefur farið með landbúnaðarmál í ríkisstjórnum nú hátt á annan áratug. Ef það væri rétt, sem hv. 2. þm. Vestf. sagði áðan, að ríkisstjórnir hafi í raun og veru haft þetta mál allt saman í hendi sinni, útlánapólitíkin hefði í raun og veru verið á valdi ríkisstjórnanna, ríkisstj. hefði gefið fyrirskipanir um hitt og þetta, — ef þetta væri rétt, hversu ægilegur dómur væri þetta ekki um flokk hans sjálfs, þann flokk, sem hann sjálfur er formaður í? Ef ríkisstjórnir s.l. hálfan annan áratug hefðu haft það vald, sem hann var — mér liggur við að segja að gorta af eða að undirstrika að þær hefðu haft, ef þær hefðu ráðið allri pólitík sjóðanna jafngersamlega og hann talaði um, þá get ég ekki hugsað mér öllu þyngri dóm um ráðsmennsku flokks hans í málefnum landbúnaðarins en þetta: að skilja svo við þessa sjóði, eftir að hafa haft landbrh. í hálfan annan áratug.

En þannig háttar ekki málum. Þessi staðhæfing hv. þingmanns var ekki rétt. Ríkisstjórnirnar bera ekki þá ábyrgð, sem hann vildi láta þær bera. Það gilda um sjóðina ákveðin lög, þar sem eru ákveðin fyrirmæli um vaxtakjör og lánstíma. Sú skylda hvíldi svo á stjórnum sjóðanna að halda þannig á málum þeirra, að höfuðstólarnir ætust ekki upp á skömmum tíma, hvað þá að sjóðirnir stofnuðu til skulda umfram eignir.

Hv. 2. þm. Vestf. sagði, að ef sú stefna hefði verið tekin upp á sínum tíma að endurlána hin erlendu lán með gengisklásúlu, þá hefði það haft þær afleiðingar að annar hver bóndi væri nú gjaldþrota. Ég hygg, að þetta sé að vísu mjög ofmælt. En það gildir sama um þetta og hitt, að ef þetta væri rétt, bera þeir menn sannarlega þunga ábyrgð, sem efnt hafa til þess, að erlend lán hafa verið tekin til þessara sjóða í jafnríkum mæli og gert hefur verið. Þeir bera sannarlega þunga ábyrgð. Ef sá baggi, sem af því hlýzt, að ræktunarsjóður og byggingarsjóður hafa tekið svo mikil erlend lán, að endurgreiðsla á núverandi gengi mundi þýða gjaldþrot annars hvers bónda í landinu, þá er ábyrgð þeirra manna, sem að þessu hafa staðið, sannarlega þung, því að það megum við vita, að einhver þarf að borga þetta.

Þetta frv. hv. Framsfl. er um það, að bændurnir, sem fengið hafa peningana, skuli ekki borga þetta, heldur þjóðin öll. Það á að jafna ábyrgðinni á stórkostlegum mistökum forráðamanna þessara sjóða á þjóðina alla. Það vil ég undirstrika, — og má öllum raunar vera ljóst, það ætti ekki að þurfa að undirstrika það, að þetta er reikningur, sem er fallinn í gjalddaga og einhver verður að borga.

Ég vil í viðbót við þær upplýsingar, sem ég gaf í fyrri ræðu minni, gefa nokkrar aðrar upplýsingar, sumpart leiðrétta eina tölu, sem ég hafði þá ekki alveg rétta, og gefa nokkrar aðrar upplýsingar um málefni sjóðanna, fyrst þau almennt hefur borið á góma. Ég mun hafa sagt, reiknaði það lauslega í huganum, að höfuðstóll þessara lána, sem 1. gr. fjallar um, sé 140 millj. Það er ekki rétt, það eru 160.6 millj. króna. Höfuðstóll þeirra tilfærðu lána, sem frv. fjallar um, er 1. nóv. 1960 160.6 millj. kr. Það, sem frv. fjallar um, er m.ö.o. það, að ríkissjóður gefi ræktunarsjóði og byggingarsjóði 160.6 millj. kr. Auk þessa skulda sjóðirnir í erlendum gjaldeyri 26.8 millj. kr., þannig að erlendar skuldir ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs eru samtals 187.4 millj. kr. Heildargreiðslubyrði lánanna, sem frv. fjallar um, er 13.7 millj., og hinna lánanna, sem frv. fjallar ekki um, er 2.1 millj. Heildargreiðslubyrði af erlendum lánum ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs er 15.8 millj. kr. árlega. Þessir sjóðir Búnaðarbankans skulduðu Framkvæmdabankanum og ríkissjóði nú 1. nóv. rúmlega 13 millj. kr. vegna þegar áfallinna vaxta og afborgana. Þessi lán eru í vanskilum.

Þetta frv. fjallar um að létta af ræktunarsjóði um 10–11 millj. kr. Sé gert ráð fyrir, að sjóðurinn fengi 20–25 millj. kr. að láni hjá Framkvæmdabankanum hvert ár af mótvirðisfé, mundi samt vanta 15 millj. kr., til þess að sjóðurinn gæti haldið áfram útlánastarfsemi sinni á sama hátt og hingað til. Þótt byggingarsjóður losnaði við þær byrðar, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, mundi þurfa 10–12 millj. kr. árlega í viðbót, til þess að byggingarsjóðurinn gæti haldið starfsemi sinni áfram, eins og hún hefur verið hingað til. Þetta er kannske allra gleggsta sönnunin fyrir því, í hvert hyldýpi málefni þessara stofnlánasjóða landbúnaðarins eru komin, hversu djúpt þessir sjóðir eru sokknir, að jafnvel þessir skeleggu fulltrúar landbúnaðarins í Framsfl., sem hér hafa lagt fram frv. um, að þjóðin gefi þessum sjóðum 180 millj. kr., hafa samt sem áður ekki treyst sér til þess að fara lengra en svo, — og eru þeir ekki hikandi í sínum tillögugerðum yfirleitt, — þeir hafa samt sem áður ekki treyst sér að fara lengra en svo, að eftir eru málefni sjóðanna skilin algerlega óleyst. Ég kalla það, að málefni sjóðanna séu alveg óleyst, þó að þessi ósköp hér yrðu samþykkt, ef ræktunarsjóðinn vantar áfram 15 millj. kr. árlega, til þess að hann geti haldið áfram starfsemi sinni, og byggingarsjóðinn 10–12 millj. kr. árlega til að geta haldið áfram óbreyttri starfsemi.

Þetta er ekki að leysa málefni sjóðanna, sem hér er lagt til, — alls ekki. Þó að þetta yrði gert, er það einungis að leysa málið til bráðabirgða. Grundvallarvandamál sjóðanna yrði algerlega óleyst. Svo illa er hag þeirra raunverulega komið.

Með hliðsjón af þessu lætur það undarlega í eyrum að þurfa að hlusta á, að það eitt að benda á hörmulegt efnahagsástand sjóðanna beri sérstakt vitni um skeytingarleysi, jafnvel beinan illvilja um málefni landbúnaðarins. Slíkan áburð þarf maður sannarlega ekki að taka alvarlega. Það væri þó a.m.k. fljótlegt að svara því þannig eða spyrja: Hvað er það þá að hafa farið með landbúnaðarmál í hálfan annan áratug og láta ástand sjóðanna vera slíkt eftir þennan hálfan annan áratug? Hvers konar hugarfar er það í garð landbúnaðarins? Hvers konar vilji er það? Er það góðvilji eða er það illvilji? Um hvað ber það hugarfar eiginlega vott að láta málefni sjóðanna reka svo gersamlega á reiðanum, að þeir skuli nú vera orðnir gjaldþrota og að ekki sé nóg að gefa þeim 160 millj., heldur sé grundvallarvandamál þeirra þrátt fyrir það í rauninni algerlega óleyst?

Nei, hér þarf sannarlega enn meira átak en það, sem felst í þessu frv., og er ég þó engan veginn að segja, að rétta leiðin sé sú, sem hér er bent á, — alls ekki. Nei, það er tvennt, sem er nauðsynlegt: Það þarf að taka málefni þessara mikilvægu fjárfestingarsjóða til gagngerðrar endurskoðunar og með einhverjum hætti gera hreint borð. En það, sem er þó enn mikilvægara, er að skipa tekjum og gjöldum sjóðanna í framtíðinni þannig, að sá höfuðstóll, sem þeir kunna að eignast við einhvers konar endurskipulagningu, geti vaxið, en þurfi ekki að minnka, eins og hann hefur minnkað undanfarin ár og undanfarna áratugi. Með því móti mundi landbúnaðinum mestur greiði gerður, að málefnum sjóðanna yrði komið á þann grundvöll með einhverjum hætti, að höfuðstóll þeirra þyrfti ekki að minnka framvegis, eins og hann hefur gert undanfarið, heldur gæti vaxið.