03.11.1960
Efri deild: 15. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í C-deild Alþingistíðinda. (2263)

68. mál, Ræktunarsjóður Íslands og Byggingarsjóður sveitabæja

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Við umr. þessa máls hafa orð fallið, sem má telja að séu nokkuð á dreif og hafa gefið tilefni til þess, að hugurinn reiki nokkuð víða í sambandi við það. Sérstaklega kemur til umhugsunar, að mér virðist, það, sem er stórt atriði, hvaða stefna er nú á ferð í landbúnaðarmálum og atvinnumálum þjóðfélagsins yfirleitt.

Á mannfundi einum í haust sagði roskinn bóndi: „Það er hart að þurfa að lifa móðuharðindi af manna völdum.“ Hann átti við efnahagsaðgerðir núverandi hæstv. ríkisstj. Þarna voru staddir menn úr báðum stjórnarflokkunum, menn sem hæstv. ríkisstj. telur sig hafa fengið umboð frá í síðustu kosningum til að fara með völd og gera sínar ráðstafanir. Enginn þessara manna hreyfði andmælum, þegar bóndinn sagði þetta um efnahagsaðgerðirnar: ,,Það er hart að þurfa að lifa móðuharðindi af manna völdum.“

Svo er nú komið, að hæstv. ríkisstj., stefna hennar, á nálega engan forsvarsmann framar úti um land. Þegar ég hef hlustað á hæstvirta ráðh. tala í máli því, sem við erum hér að ræða, hafa mér dottið í hug þessi orð bóndans og í sambandi við þau og út frá þeim hendingar úr hinu mikla kvæði Jóns Helgasonar: Áfangar: „Eldflóðið steypist ofan hlíð, undaðar moldir flaka, — þegar hin rámu regindjúp, ræskja sig upp um Laka.“ Í Laka voru nefnilega upptök móðuharðindanna.

Ef skoðanir hæstv. menntmrh. á landbúnaðinum, eins og þær hafa komið hér fram í þessum umr., yrðu ráðandi, svo að nokkru næmi, í íslenzkum stjórnmálum, mundu moldirnar flaka, sveitirnar mundu eyðast. Í ræðu hans kemur fram það regindjúp óskilnings, ekki aðeins skilningsleysis, heldur óskilnings á landbúnaði, að líkja má við ræskingar upp um Laka.

En hvað er svo um afstöðu hins ráðherrans, hæstv. landbrh.? Hann er fulltrúi flokksins, sem vill, a.m.k. þegar málflytjendur hans eru staddir í sveitum, telja sig mikinn vin bændanna og atvinnuvegar þeirra. Framkoma þessa hæstv. ráðh. vakti í fljótu bragði a.m.k. furðu. Hann vék frá, þegar málið var tekið fyrir á fyrsta fundi þessarar umr., rýmdi til fyrir hæstv. menntmrh. og lét hann tala upp úr Lakagíg fyrir hönd ríkisstj. og þar með sína hönd sem landbrh. Hvers vegna gerði hann þetta? Ég kem að því síðar. Á næsta fundi lét hæstv. landbrh, líka hæstv. menntmrh. sitja fyrir orðinu og fara á undan sér sem aðalmálflytjanda ríkisstj. og halda áfram að tala upp úr Laka og spúa óskilningi sinum yfir landbúnaðinn, stofnanir hans og þá menn, sem þar vinna. Og það, sem enn þá meira var, þegar hæstv. landbrh. tók sjálfur til máls, lét hann vel yfir því, sem menntmrh., umboðsmaður hans, hafði sagt, og gerði það þar með að sínu máli, eða ekki varð annað skilið. Hann tók þannig afstöðu með því fyrir sitt leyti og síns flokks. Að öðru leyti sló hæstv. ráðh. í ræðu sinni úr og í. Öll þessi framkoma minnir á það, þegar Sjálfstfl. lét Alþfl. fara með ríkisstjórn árið 1959.

Alveg augljóst er, að hér er hið sama á ferðinni og þegar Alþfl.- stjórnin 1959 gaf út bráðabirgðalögin um verðlag landbúnaðarvaranna og fyrirskipaði, að þær skyldu ekki hækka. Sjálfstfl. stóð á bak við, sló úr og í, lézt vera á móti, en studdi þó. Hér er um að ræða sams konar samspil þessara flokka. Alþfl. ríður á vaðleysuna. Máske hugsar Sjálfstfl. á þá leið, sem máltækið segir, að fífli skuli á foraðið etja. Og hvað boðar svo þetta í íslenzkum stjórnmálum? Hér eru á ferðinni stefnubreytingar, sem boða miklu meira öskufall en orðið er, ef þær ná sér fram og verða veranlegar.

Kjördæmabreyt. var gerð með þessa stefnubreyt. fyrir augum. Með henni átti að skapa skilyrði til þess að kreppa að dreifbýlinu, sem þótti of sterkt til áhrifa. Uppbygging þess þótti of mikil. Stefnan dulbjó sig fyrst og neitaði tilveru sinni, en í ræðu hæstv. menntmrh. þrumar nú þessi stefna, og hæstv. landbrh. styður þá stefnu með því að draga sig í hlé fyrir hæstv. menntmrh. Og þessi stefna er víðtækari en svo, að hún sé gegn landbúnaðinum einum. Öskufall hennar nær líka til sjávarsíðunnar og yfirleitt til hins almenna framtaks í landinu.

Alþýðublaðið sagði frá því fyrir tveim dögum hlakkandi, að allur bátafloti landsmanna væri að komast undir uppboðshamarinn. Menn undruðust hlakkið í þessari frásögn, en þar voru hin rámu regindjúp líka að ræskja sig upp um Laka.

Hér er á ferðinni stefnubreyting, sem verður að gera sér grein fyrir og verður að hnekkja. Móðuharðindi af manna völdum mega ekki eyða byggðum Íslands. Það er grundvallaratriði að gera sér grein fyrir stefnunni, þess vegna hef ég rætt hana. Einstök atriði í ræðum, sem haldnar hafa veríð, skipta minna máli. Þó mun ég nú víkja að þeim nokkrum orðum, enda sanna þau stefnuna og falla inn í hana eins og þræðir í vel upp settum vef.

Hæstv. menntmrh. hafði stór orð um það, að tilkostnaðurinn við rekstur ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs væri óheyrilega mikill, þessar stofnanir væru illa reknar, hallinn sýndi það. Þetta taldi hann koma í ljós, þegar borið væri saman við aðra banka og lánastofnanir. Þetta voru sleggjudómar. Þær tölur, sem hæstv. ráðh. nefndi í þessu sambandi, bæði hjá Búnaðarbankanum og öðrum stofnunum, þurfa nánari samanburð en hann gerði á þeim, til þess að þær sanni nokkuð. Ég hef nú ekki skilyrði til að gera þennan samanburð, því að ég á ekkí aðgang að þeim tölum, sem til þess þarf að athuga, en ég vil minnast á nokkuð í þessu sambandi, sem sýnir, að samanburðurinn er mjög lauslegur og hreinn og beinn sleggjudómur.

Ráðherrann sagði, að ræktunarsjóður — hann nefndi prósentur — greiddi miklu meira fyrir rekstur sinn en t.d. Framkvæmdabankinn. Nú veit hæstv. ráðh. það, ef hann hugsar þetta nokkuð,, að starfsemi Framkvæmdabankans er ákaflega einföld, hann veitir stór lán og fá, og að bera þannig saman prósentur við útlán þessara stofnana er því út í hött út af fyrir sig. Ég hef leitað mér upplýsinga um það, að tala veittra lána 1959, — en það er það árið, sem um var rætt, — var hjá ræktunarsjóði 854 lán. bíörg þessara lána eru smálán. En það er eins mikil fyrirhöfn að lána 2000 kr. og 200 þús. kr., og með því að bera saman útlánin hjá þessum stofnunum, er ekki nema að partí til nefnt það, sem nefna ber. Ræktunarsjóðurinn þarf að annast innheimtu þeirra lána, sem eru ekki að fullu greidd og standa úti, og þau eru samkvæmt upplýsingum, Sem ég hef fengið, á þessum tíma 8320 lán. Þetta þarf líka að taka með i reikninginn, þegar meta á tilkostnað hjá þessum stofnunum.

Um byggingarsjóðinn er það að segja 1959, að ný lán hjá honum veitt voru 39, en framhaldslán veitt 141, svo að lánveitingar voru þar samtals 180. Nú vill svo til, að á árinu 1959 voru sérstaklega fá ný lán veitt, vegna þess að byggjendur flestir á því ári, nýbyggjendur, biðu eftir úrlausnum sínum fram á árið 1960, fram í maíbyrjun 1960. Hér er því tekið til samanburðar undantekningaár. Ég er ekki með þessu á nokkurn hátt að segja, að það hafi verið viðráðanlegt, — ég sé, að hæstv. landbrh. lítur á það sem ásökun til sín, — að lánin voru ekki veitt fyrr. Hann um það. En hér er ég ekkí að ræða það. Hins vegar er það ár, sem tekið er til samanburðar, ekki normalt að því er byggingarsjóðinn snertir, og um byggingarsjóðinn er það líka að segja, að hann hefur innheimtu að annast á eldri lánum, sem voru samtals 2460.

Vel má nú vera, — og ég skal ekkert um það fullyrða, ég hef ekki kunnugleika til þess, — að eitthvað mætti finna að kostnaðarskiptingunni á milli deilda þeirra, sem eru á vegum Búnaðarbankans. Vel má það vera. En þegar ásakað væri fyrir það, þá má geta þess, að hæstv. landbrh. samþykkir bréflega þessa skiptingu árlega, og það gerði. hæstv. núverandi ráðh..Í vetur sem leið, fyrir árið 1959, samþ. hann bréflega þessa skiptingu, svo að ádeilan, ef hún er að einhverju leyti réttimæt, lendir þá á honum líka.

Þegar byggingarsjóður og ræktunarsjóður eða Búnaðarbankinn yfirleitt er borinn saman við ríkisbankana, þá er rétt að taka tillit til þess, að hann hefur ekki tekjur af gjaldeyrisviðskiptum. upp í rekstur sinn: Á það má líta og er skylt að líta í samanburðinum.

Þá sagði hæstv. menntmrh., að þó að frv. yrði samþ., gagnaði það lítið, ræktunarsjóðinn. vantaði samt sem áður, 15 millj. árlega, til þess að hann gæti starfað eins og að undanförnu, og byggingarsjóðinn vantaði 10 millj. til þess. Þarna blandaði hæstv. ráðh. málum. Frv. miðast eingöngu við það að eyða rekstrarhalla, og þess vegna er ekki rétt í þessu sambandi að fella verð á því með því að vitna í greiðsluþörf.

Tilgangurinn með frv. er ekki sá að leggja grundvöll að útlánastarfsemi. Tilgangur frv. er sá að afla sjóðnum fjár eða réttara sagt að koma fjárhag sjóðsins á þann grundvöll, að hann geti verið rekinn án halla. Svo er hitt annað mál, að útvega sjóðnum fé til útlána. Annað höfuðatriðið er að fyrirbyggja rekstrarhalla, fyrirbyggja það, að sjóðurinn þurfi að lifa af sjálfum sér, hitt höfuðatriðið er svo að útvega sjóðnum fé til útlána.

Í sambandi við þetta frv. og tilgang þess er fyrst og fremst rétt að ræða rekstrarafkomuna. Ríkið hefur jafnan styrkt sjóðina og styrkurinn hefur verið misjafnlega hár, enda í misjafnlega stórum krónum og miðaður við misjafna veltuþörf. Ræktunarsjóðstíllagið var hækkað 1947 í 500 þús. kr. og þannig var það óbreytt, þrátt fyrir allar breytingar, sem urðu á verðlagi og gildi peninga, þangað til 1956, að þá var það hækkað upp í 1600 þús. kr., eins og það er nú, Síðan hefur það verið óbreytt. Það getur hver maður séð, að þessi tillög frá ríkinu eru alls ekki sniðin þannig, að þau fullnægi þeirri þörf, sem upphaflega átti að fullnægja, vegna þess að verðgildi peninganna hefur svo stórlega breytzt. Byggingarsjóðurinn fékk í tillag frá ríkinu 1937 200 þús. kr., 1842 var það hækkað upp í 620 þús. og 1946 i 2 millj. og 500 þús., eins og það er nú. Það sjá allir, að 2.5 millj. eru ekki sama upphæð og hún var 1946. En í stað þess að breyta tillaginu eftir því, sem verðgildi peninga breyttist og verðbólga gaf tilefni til, þá var tekin upp önnur aðferð af ríkisstj. og Alþingi. Hún var sú að létta af sjóðunum lánaþunga, létta af sjóðunum þunga af því fé, sem þeir höfðu verið látnir taka að láni til útlána hjá sér, og þetta var gert, eins og vitnað er í grg. frv., sem hér liggur fyrir, 1953 og aftur 1957. Með þessu frv. er lagt til, að þessari reglu sé haldið áfram og þannig réttur sá skakki, sem hefur orðið, með stuðningi af hálfu ríkisins til þessara lánastofnana. Vitað er, hver halli sjóðanna varð 1959, fyrra ár, og um það er enginn ágreiningur. En ef t.d. ræktunarsjóður fengi þá léttun skulda, sem frv. gerir ráð fyrir, og hefði haft hana þegar 1959, þá hefði verið 500 þús. kr. afgangur í hans rekstrarreikningi í staðinn fyrir 3 millj. kr. halla, sem varð. Þess. vegna segi ég, að það er rangt hjá hæstv: vera landbrh., menntmrh., að segja, að þó að frv. yrði samþykkt, þá bætti það ekki neitt úr þörf sjóðanna að því er reksturinn snertir.

Hæstv. menntmrh. vék með furðulegum orðum að uppbyggingu umræddra sjóða og taldi hana hina fráleitustu. Ég held, að hæstv. ráðherra missýnist eða hann hafi ekki athugað vel, um hvað er að ræða. Sjóðirnir eru byggðir upp, hugsaðir þannig, að ríkið útvegar þeim fé til þess að geta unnið sitt hlutverk í útlánastarfseminni, og innan stundar var gert ráð fyrir því, að það fé, sem, sjóðirnir hefðu þannig yfir að ráða og ættu, gæti orðið nóg til þess að mynda þá hringrás, sem uppbygging þeirra gerir ráð fyrir, að lán, setu kæmu inn í afborgunum, gætu staðið undir útlánaþörfinni og þannig hefðu sjóðirnir yfir að ráða fé, sem gæti „sirkúlerað“ til að fullnægja þeim hlutverkum, sem þeir eru stofnaðir fyrir. Og þetta hefði tekizt, þetta er svo rétt hugsað, að það hefði tekizt, ef tímarnir hefðu ekki brjálazt. Þegar verðbólga og byltingar í peningamálum hafa komið til sögunnar, hefur það ekki raskað því, að sjóðirnir eru byggðir upp af rökréttrí hugsun. Það hefur aðeins vikið málunum inn á þá braut,. að Alþingi hefur meira og lengur þurft að vaka yfir þeim og fullnægja því, sem ég kalla skyldir þess gagnvart þeim.

Hæstv. menntmrh. sagði í því sambandi: Alþingi ber ekki ábyrgð á sjóðum Búnaðarbankans og skylda ríkisstj. er engin gagnvart sjóðunum. — Þetta þótti mér furðulegur málflutningur. Ég vil segja, að þetta sé hjal eitt, því að sjóðirnir eru skilgetin börn Alþingis og hafa verið í fóstri þess, og forsjá ríkisstj. verður á hverjum tíma að ná til þeirra. Þeir eru að vísu auðheyrilega nú í forsjá — að því er a.m.k. hæstv. menntmrh. snertir — vondrar stjúpu.

„Enginn alþm.,“ sagði hæstv. ráðh. „hefur ætlazt til þess, að sjóðirnir beri sig ekki.” Þetta er furðulega talað út í hött: enginn hefur ætlazt til þess, að sjóðirnir beri sig ekki. Hvaða alþm. hefur getað ætlazt til þess undir kringumstæðunum, að sjóðirnir bæru sig? Hér er komið' öfugt að máli. Það óskar enginn alþm. eftir því,. að það ástand vari, sem gerir það að verkum, að sjóðirnir beri sig ekki, það er rétt, en enginn heilskyggn alþm. getur ætlazt til þess, að þeir beri sig undir kringumstæðunum.

Við skulum athuga, hvort sjóðirnir hafa í raun og veru farið út fyrir sitt hlutverk og lánað meira en þeir upphaflega gerðu til bænda og þannig megi ásaka þá, sem fyrir þeim hafa staðið.

Fyrir 20 árum var byggingarkostnaður ekki meiri en það, að nú telja menn, að hann sé orðinn tvitugfaldaður. Lánin þá, 1940, voru 6 þús., hæstu lán til íbúðarhúss í sveit voru 6 þús. En nú, eftir að byggingarkostnaður hefur tvítugfaldazt beint og farið er að byggja vandaðra en áður og dýrara, sem verður að teljast rétt, þá eru lánin aðeins 75 þús., hámarkslán á íbúðarhús. En þau ættu að vera, miðað við tvítugfaldan tilkostnað, 120 þús., og ef tekið er tillit. til þess, hvað hús eru vandaðri nú og meira til þeirra kostað, þá ættu lánin miklu frekar að vera 150 þús. Þau eru þess vegna ekki nema helmingur af því, sem þau voru fyrir 20 árum, ef rétt er á litið. Það er þess vegná ekki hægt að segja, að byggingarsjóður ausi meira út fé en hann áður gerði, — það er síður en svo.

Um ræktunarsjóðinn gildir það, að þar er lánað hlutfallslega út á kostnað eftir tilteknum ákvæðum laga og reglugerða, svo að þar er ekkert um að sakast við þá, sem með málin fara.

Hæstv. menntmrh. talaði mikið um það, að stofnlánadeildirnar væru komnar í þrot, og hann talaði um í því sambandi, hvað skuldir þær, sem þessar stofnlánadeildir eru í, væru orðnar háar, og hins vegar, hvað eignir í útistandandi lánum væru þar á móti. Og hann komst að þeirri niðurstöðu, sem var prentuð með mjög stóru letri í blaði hans á eftir, að sjóðirnir væru gjaldþrota. Þess var ekkert getið í því sambandi, hvað á hefur bjátað og hvers vegna málum væri svona komið. Hann vildi skella skuldinni af þessu á þá sem með málefni bankans hefðu farið, vildi sýkna Alþingi, og alveg sérstaklega vildi hann telja, að engin ábyrgð á þessu hvíldi á honum eða núv. hæstv. ríkisstj. Hann sagði í þessu sambandi, að þó að gengisfellingin síðasta hefði nokkru valdið, þá væri það nú ekki mikið, því að það væru aðeins 54.2 millj., sem skuldir þessara stofnana hefðu hækkað við gengisfellinguna. Ég hef fengið það útreiknað af þeim, sem þessar tölur hafa i höndum, að gengisfelling hæstv. ríkisstj. nam 58 millj. að því er snertir ræktunarsjóðinn einan og 10.8 millj. að því er snertir byggingarsjóðinn, svo að ég er — (Gripið fram í.) Já, 58 millj. að því er snertir erlendar skuldir ræktunarsjóðs og 10.8 millj. að því er snertir erlendar skuldir byggingarsjóðs. M.ö.o. hækkuðu erlendu skuldirnar, sem hvíldu á þessum sjóðum, lánin, sem þeir höfðu fengið undir öðru gengi, þau hækkuðu um þriðjung. Nú er það svo, að ef skip er fullfermt og svo er bætt ofan á það 50% hleðslu eða þriðjungi meira en fullhleðslan var, þá sekkur það skip vitanlega, og þá er ekki þeim kennt um, að skipið sekkur, sem höfðu hlaðið þáð upphaflega, heldur hinum, sem bættu þriðjungshleðslunni ofan á. Það er það, sem hæstv: ríkisstj. hefur gert. Þess vegna ber hún höfuðsök á þessu máli, og þess vegna er henni skylt að annast úrbæturnar.

Hæstv. menntmrh. fór í ýmsum orðum með ásakanir á hendur bankaráði Búnaðarbankans. Hann kvaðst hafa rannsakað gerðabækur þess eða látið rannsaka og þar fyndist ekkert um það, að bankaráðið hefði óskað eftir aukinni aðstoð frá Alþingi til að rétta hag bankans, gegn t.d. þeirri krónurýrnun, sem átt hefði sér stað á undanförnum árum. Og hann sagði, að það fyrirfyndist í bankanum ekkert bréf í þessa átt. Nú er ég ekki kunnugur í bankanum, hef aldrei séð gerðabók bankaráðsins og ekki lesið bréf bankans. En hinu er ég kunnugur, og það ætti hæstv. ráðh, líka að vera engu síður en ég, að þeir, sem hafa setið í bankaráðinu, hafa beitt sér fyrir því á Alþingi hvað eftir annað, að stofnlánasjóðum landbúnaðarins væri veittur stuðningur. Það var fyrir þeirra atbeina árið 1958, að létt var af skuldum, og það var fyrir þeirra atbeina árið 1957, að það var gert. Og nú er það svo, að nú er það hlutverk hæstv. ríkisstj. og meiri hluta bankaráðsins að koma þannig fram. Bréf eru ágæt, því er ekki að neita, en verk eru betri, — framkvæmdaverk eru betri en bréf ein.

Hæstv. menntmrh. harmaði það, að lán, sem veitt hafa verið bændum, skuli ekki hafa verið lánuð með gengisfyrirvara, svo að efnahagsráðstafanirnar, sem hann og félagar hans gerðu, hefðu slegið bændurna niður strax. Það er gott fyrir bændur að vita, hvað hugur þessa hæstv. ráðherra geymir og hugur þeirra, sem hann talar fyrir. „Þaðan er mér úlfs von, sem ég eyru sé.“ Hann sagði, að starfsreglur ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs væru einhver mestu mistök í fjárhagskerfi íslenzku þjóðarinnar, síðan bankakerfið varð innlent. Og þetta prentaði blað hæstv. ráðh. upp eftir honum. Það mátti heyra á honum, að vextirnir hefðu verið of lágir og lánin of löng. Vitanlega býr það sama bak við till. þá, sem einn flokksmaður hæstv. ráðh. hefur lagt hér fram á Alþingi og útbýtt var í dag, um rannsókn á því, hvort styrkir til bænda væru sambærilegir við það, sem aðrir landsmenn njóta af hálfu hins opinbera. Það er kurteislega talað í þessari till. og grg. hennar, en „þaðan er mér úlfs von, sem ég eyru sé.“

Hæstv. ráðh. nefndi til samanburðar við lánakjörin, sem bændur hafa notið, lánakjör sjávarútvegsins. Því fer mjög fjarri, að ég telji, að sjávarútvegurinn hafi fengið of hagstæð lán. Það er síður en svo. Hins vegar má ekki jafna þessum atvinnuvegum saman þannig að segja: Landbúnaðurinn getur búið við sömu lánákjör og sjávarútvegurinn. — Það væri óréttmætt. Ræktun er uppbygging fyrir komandi kynslóðir. Fiskveiðar eru rányrkja. Fengur úr hafinu er fljótteknari, ef sæmilega gengur, en á landi. Lán til útgerðar eru venjulega lánuð út á eignir, sem fyrnast fljótar en býli landsins. Bóndinn fær ekki á sinni ævi þau verðmæti i hendur, sem hann leggur í umbætur jarðar sinnar. Hann getur ekki gert ráð fyrir að selja jörð sína fullu verði: En komandi kynslóðir, sem taka við jörðinni, njóta eignarinnar, sem aldrei er verðreiknuð við sölur. Þjóðin á það verðmæti, þjóðin sjálf á það verðmæti, þann hluta eignarinnar í jörð bóndans. Og það er sá hluti eignarinnar, sem þjóðfélagið er að leggja fram fé til, þegar það sér bóndanum fyrir lánum með lágum vöxtum og löngum greiðslutíma. Það er ekki gjöf til bóndans, það er þátttaka þjóðfélagsins í að bæta sinn hluta jarðarinnar.

Nú segir máske hæstv. ráðh.: Hvers vegna er verið að nema sveitir landsins og bæta framleiðsluskilyrðin þar? Veit hann ekki eða vill hann, hagfræðingurinn, ekki, að uppbygging landbúnaðarins haldi áfram? Vill hann telja það heppilegt, sem sýnt hefur verið fram á með hagfræðilegum útreikningum, að ef uppbygging landbúnaðarins hefði verið stöðvuð 1950, þá hefði nú orðið þurft að flytja inn landbúnaðarvörur fyrir 300 millj. kr. vegna neyzluþarfarinnar, eins og hún er? Og einnig, að eftir slíkum útreikningum er talið, að neyzluþörfin vegna fjölgunar fólks muni í heild tvöfaldast á 3–4 næstu áratugum. Jú, hann hlýtur að vita þetta, en lítur ekkí á það. Vegna hvers? Vegna þess, að það samrýmist ekki stefnunni. En á þetta ber sannarlega að líta, þegar þessi mál eru rædd í dag. Og af því að svo vill nú til, að hæstv. ráðh. er menntmrh. og ég hef af ásetningi ávarpað hann sem menntmrh., en ekki sem viðskmrh., í þessum umræðum, af því að svo vill nú til, að hann er menntmrh., þá mætti hann líka gefa því auga, hvert menningarhlutverk sveitanna er. Það er í hans verkahring að gæta þess, að það menningarhlutverk, sem sveitirnar hafa rækt og þurfa að rækja í þjóðfélaginu, verði rækt. Mannauðar sveitirnar leysa ekki það hlutverk.

Hæstv. menntmrh. tók það fram, að hjá sér væri engin illgirni í garð landbúnaðarins eða bændastéttarinnar. Yfirlýsingar i þessu efni gagna ekki neitt. Það gagnar ekkert lengur fyrir stefnu hæstv. ríkisstj. að afneita sjálfri sér, því að gríman hefur fallið.

Hæstv. ráðh. sagði, að í frv. fælist það að gefa bændunum 186 millj. kr. Ég skil ekki, hvers vegna hann nefndi þá tölu, því að í frv. felst ekki meira en rúmar 160 millj. í eftirgjöf til stofnlánadeildanna. Og hæstv. ráðh. reiknaði það út, að gjafirnar til bændanna, gjafirnar, sem flytjendur frv. ætluðust til að bændum væru gefnar, væru 4700 kr. álag á hverja 5 manna fjölskyldu í landinu. Auðvitað er það alltaf mjög villandi að segja um útgjöld ríkisins, að þau sé einhver tiltekin upphæð á 5 manna fjölskyldu. En þetta er oft gert, að segja það, og látum það vera. Það er villandi vegna þess, að gjöldin leggjast ekki á sem nefskattar, alls ekki sem nefskattar. Þau falla meira á hin breiðu bök, sem betur fer. Þó að manni virðist nú, að stefna hæstv. ríkisstj. miði í þá átt að upphefja það, þá er nú ekki svo komið, og þess vegna hefur ráðh. ekki leyfi til þess að leggja mikið upp úr þessum sinum útreikningi. En látum útreikninginn vera. Það vill nú svo til, að hæstv. ráðh. hefur upplýst það í öðru sambandi, að Seðlabankinn standi undir vaxtalausri skuld vegna gengisbreytingarinnar fyrir ríkissjóðinn, 181 millj. kr. Hæstv. ráðh. upplýsir þetta í sambandi við fsp. í Sþ., og svar hans var, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkv. 5. gr. efnahagsmálalaga skyldi stofna sérstakan vaxtalausan reikning á nafni ríkissjóðs í Seðlabankanum og færa á hann gengistap vegna skulda ríkissjóðs við Greiðslubandalag Evrópu og sömuleiðis gengísmun, sem fram kæmi hjá þeim bönkum, sem verzla með erlendan gjaldeyri. Skuld á þessum reikningi er nú 181 millj. kr. Enn er ekki endanlega gengið frá færslum á þennan reikning, þar sem nokkur vafaatriði bíða úrskurðar, en það er ekki ástæða til að gera ráð fyrir, að upphæðin breytist, svo að teljandi sé.“

Ef maður fer nú að með þessa upphæð eins og hæstv. ráðh. gerði með tölur frv., þá kemur á hverja fimm manna fjölskyldu af þessari fúlgu 5200 kr. upphæð. Ekki hefur hæstv. ráðh. heyrzt kvarta fyrir almenning undan þessu álagl. Engin rök standa þó að því, að þessi fúlga hvíli ekki á þjóðinni. Það má segja, að það, sem við erum að biðja að létta af Búnaðarbankanum eða stofnlánadeildum hans, ræktunarsjóði og byggingarsjóði, sé allmikil fúlga. Það er allmikil öskudyngja, sem hæstv. ráðherrar geta að miklu leyti sjálfum sér um kennt og eiga að taka manndómlega afleiðingum af. En hin dyngjan er þó enn þá stærri, sem liggur hjá Seðlabankanum, það er mikill öskuskafl. Eins og ég sagði áðan, hefur hæstv. ráðh. ekkert kvartað yfir því, þó að við þann skafl sé að fást.

Þó að hæstv. menntmrh. hafi hátt um það, að hann beri enga ábyrgð á stofnlánadeildum Búnaðarbankans, þýðir honum ekkert að mælast undan þeirri ábyrgð. Fyrst og fremst ber hann mikla ábyrgð í sambandi við þær aðstæður, sem hafa skapað örðugleika stofnlánadeildanna, og þar að auki hefur hann með því að taka sæti í þessari hæstv. ríkisstj. eftir eðli málanna tekið á sig ábyrgð á því, að sjóðirnir geti starfað áfram. Það gera allir, sem taka að sér stjórn landsins.

Sú ábyrgð er réttmæt, sem kallað er eftir hjá hæstv. ráðh. með þessu frv. og hjá hæstv. stjórn, og hæstv. landbrh. má nú eiga, að hann hefur ekki mælzt fullkomlega undan, þó að meðráðherra hans hafi gert það. Það er ekkert fyrir þessa ráðh. annað að gera en taka manndómlega á málunum. Efnahagsaðgerðirnar í heild hafa skapað hæstv. ríkisstj. mikla ábyrgð gagnvart almenningi og bændum, sem má líkja, eins og þeir hafa gert, við móðuharðindi. Hæstv. ríkisstj. er fyrst og fremst skylt að hverfa frá þessari hallærisstefnu. Hún á að reyna að hreinsa burt öskufall sitt, það er ótvíræð skylda hennar. Við höfum með frv. þessu bent henni á aðferð til að taka kúfinn af einni öskudyngjunni.