03.11.1960
Efri deild: 15. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í C-deild Alþingistíðinda. (2265)

68. mál, Ræktunarsjóður Íslands og Byggingarsjóður sveitabæja

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég verð að segja það, að málflutningur þeirra tveggja hv. framsóknarmanna, sem töluðu hér áðan, er harla ólíkur, og verður að viðurkenna, að sá síðari var miklu sanngjarnari og rólegri en sá fyrri. Sá síðari efaðist ekkert um hug minn til landbúnaðarins og ég mundi vilja vinna að því, að þeir sjóðir, sem hér eru til umr., geti gegnt hlutverki sínu. Sá fyrri leyfði sér að efast um þetta og taldi, að það væri lítil von um, að það mætti takast með þeirri stjórn, sem nú ríkti í landinu, og þeirri breyttu stefnu, sem hefði verið tekin upp í landbúnaðarmálum.

Þessi hv. þm., hv. 1. þm. Norðurl. e., var svo smekklegur að tala um móðuharðindi af manna völdum, öskufall yfir landsbyggðina, og talaði um, að einhver bóndi úti á landi hafi sagt þetta. Ég efast mikið um, að nokkur bóndi hafi látið sér slíkt um munn fara, því að móðuharðindi og öskufall eru þannig, að flestir Íslendingar þekkja, hvað slíkt gilti í okkar þjóðarsögu. Og það væri mikil heimska og kæruleysi að vera að líkja nú lifnaðarháttum og lífsafkomu Íslendinga við þau vandræði, sem steðjuðu að á þeim tímum. Ég mundi á góðu sveitamannamáli segja: Þetta er ljótt. Það er beinlínis ljótt að hafa svona orðbragð og slíkar samlíkingar.

En hv. þm. viðhafði ýmsar fullyrðingar í sinni ræðu í líkingu við þetta. Málflutningurinn var eins og hann getur verið verstur hjá framsóknarmönnum. Hv. þm. talaði um breytta stefnu i landbúnaðarmálum og sagði, að efnahagslöggjöfin á s.l. vetri væri sú drepsótt, sem mundi leggja landbúnaðinn í auðn, reyndar ekki landbúnaðinn einan, heldur alla atvinnuvegi landsmanna. Það væri ekki lengur líft í landinu og þetta væri allt núverandi ríkisstj. að kenna. Núv. ríkisstj. hefði gert þær efnahagsaðgerðir, sem mátti skilja á máli þessa hv. þm. að hefðu verið óþarfar. Ég veit ekki, hvort þessi hv. þm. ætlast til þess, að þessi ræða verði prentuð orðrétt i Tímanum og hún eigi að verða eitthvert andlegt fóður handa þeim, sem lesa Tímann. Það má vel vera, að svo sé. En ef hún væri ætluð eingöngu hv. þm., þá er það aðeins til þess að misbjóða smekk þeirra, aðeins til þess að misbjóða þeim að bera slíkt á borð, og ég veit, að þeir eru fáir, þótt lesendur Tímans séu, sem taka slíkt gott og gilt.

Það er eðlilegt, þegar hlustað er á slíka ræðu eins og þessa, að menn spyrji: Var það óþarfi að gera efnahagsaðgerðirnar? Eða: Er nokkur hv. þm., sem trúir því, að það, sem framsóknarmenn kalla stefnu í efnahagsmálum, hefði nægt til þess að leysa þann hnút, sem öll okkar efnahagsmál voru komin í? Við vitum, að framsóknarmenn skrifa í Tímann daglega nú og segja: Það, sem gera þurfti, var ekki annað en hækka yfirfærslugjaldið og draga smátt og smátt úr uppbótakerfinu. Það eru náttúrlega fáir, sem skilja, hvernig á að draga úr uppbótakerfinu með því að hækka yfirfærslugjaldið. Þeir fullyrða; að það hefðu nægt 250 millj. kr. á s.l. vetri. Ég efast þó mikið um það. En það má fullyrða, að ef sú leið hefði verið farin á s.l. vetri að hækka yfirfærslugjaldið, þá hefði þurft að gera það enn í haust og koll af kolli, eins og gert hefur verið undanfarin ár. Og hefði það orðið til hjálpar bændum að nota vinstri stefnuna, stefnuna, sem var lögfest 1958 með 55% yfirfærslugjaldi? Skyldu bændur landsins vera betur staddir í dag, ef sú leið hefði verið farin? Eða var það til þess að styrkja rekstrargrundvöll búanna að hækka yfirfærslugjaldið um 55%, án þess að nokkuð kæmi í staðinn í vasa bændanna? Og er það ekki staðreynd, að með yfirfærslugjaldinu 1958 var grafið undan efnahagslegu sjálfstæði og góðri afkomu íslenzkra bænda? Ég held, að staðreyndirnar tali alveg sínu máli um það, að svo var þetta. Framleiðslan minnkaði og geta bænda dróst saman, eins og alkunnugt er.

Hv. 1. þm. Vesturl. minntist á, að það hafi verið mikið framfaratímabil áratugurinn 1950–60, og þetta er rétt. En hvernig byrjaði sá áratugur? Hann byrjaði með gengislækkun. Hvað sögðu ýmsir þá, um það leyti sem gengislækkunin var gerð 1950, þegar vélarnar hækkuðu um 50% eða hvað það var og allar aðrár rekstrarvörur til landbúnaðarins? Á því fyrsta ári, sem sú gengislækkun var framkvæmd, voru bændur mjög svartsýnir og héldu, að þeir gætu ekki eignazt þessi tæki, og með því að rekstrarvörurnar hækkuðu, þá yrði mjög þungt fyrir fæti. En hver varð reynslan? Verðlagið leitaði jafnvægis og bændur gátu þrátt fyrir gengislækkunina keypt vélar eftir sem áður og rekið búskap með þeim árangri, sem lýst var, að framleiðslan jókst og ræktunin jókst.

Gengisbreytingin, sem gerð var á s.l. vetri, ef hún fær að njóta sín og friður verður um þessi mál, þá mun verðlagið á rekstrarvörum landbúnaðarins og verðlag landbúnaðarvara leita jafnvægis, þannig að aðstaða bænda verði ekki verri en hún var fyrir gengisbreytinguna. Hún ætti að verða betri, vegna þess að yfirfærslugjaldið í því formi, sem þá var, fengu þeir ekki bætt, og því fremur eiga þessir hlutir að leita jafnvægis nú fyrir það, að lögum um verðlagningu landbúnaðarvara hefur verið breytt til batnaðar, sem tryggir bændastéttinni nú betur grundvallarverðið en nokkru sinni fyrr. Þetta mun reynslan sýna, ef skemmdarstarfsemi einstakra hópa eða flokka verður ekki því valdandi, að allt fari úr skorðum á ný.

Það hefur ekki verið tekin upp ný stefna i landbúnaðarmálum að öðru leyti en því að tryggja það, sem áður var ótryggt, að bændur fái fullt grundvallarverð, með því að tekin verði ábyrgð á útflutningi landbúnaðarvara og með því að bændur geti breytt verðlagi landbúnaðarvara í hlutfalli við verð á rekstrarvörum og í hlutfalli við kaup hjá verkamönnum, sjómönnum og iðnaðarmönnum. Þetta geta þeir nú gert svo að segja strax, en áður urðu þeir að bíða heilt ár eftir því, að þetta gæti orðið. Það er þess vegna mikil kokhreysti hjá hv. 1. þm. Norðurl. e., þegar hann er að tala .um sérstaka stefnu í landbúnaðarmálum, sem muni leiða til landauðnar, ef eftír henni verði farið. Hitt vita bændur sjálfir, að um leið og þrengt er að öðrum atvinnustéttum þessa lands og launþegum öllum, þá þrengir nokkuð að þeim einnig. Og bændur landsins eru þannig sinnaðir, að þeir kæra sig ekki um, að þeir beri ekki að sínu leyti þá bagga, sem nauðsyn ber til að leggja á þegna þjóðfélagsins yfirleitt.

Þegar hv. 1. þm. Norðurl. e. talar um, að efnahagslöggjöfin færi þungar byrðar á landsmenn alla, og vill samt, að núv. ríkisstj. beri höfuðsökina á þeim byrðum, þá verður ekki hjá því komizt að upplýsa þennan hv. þm. um það, að núv. ríkisstj. felldi ekki krónuna, núv. ríkisstj. felldi ekki gengið. Vinstri stjórnin, þegar hún setti á 55% yfirfærslugjaldið, þá var það ekki nema nokkur hluti af því, sem raunverulega þurfti, til þess að krónan væri í sínu eðlilega og raunverulega gengi. Krónan féll á vinstristjórnarárunum með mánuði hverjum. Þetta er sú raunasaga, þetta er sú staðreynd, sem landsmenn allir þekkja, og þetta er sú staðreynd, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. þekkir ofboð vel sjálfur, enda þótt hann hér reyni að halda öðru fram, vitandi þó, að allir í þessum þingsal þekkja söguna, en sennilega þá í trausti þess, að einhverjir af þeim, sem kynnu að lesa ræðuna í Tímanum, þekktu málið ekki svo vel og tryðu jafnvel einhverju af því, sem þessi hv. þm. sagði hér áðan. Efnahagsaðgerðirnar á s.l. vetri eru afleiðingarnar af því, sem gerðist á vinstristjórnartímanum, og hv. 2. þm. Vestf. sagði hér réttilega áðan, að þegar ein ríkisstj. segir af sér, þá er ástæða til þess. Og þessi hv. þm. lýsti því, á meðan að hann var forsrh., og efnahagsmálaráðunautur ríkisstj., Jónas Haralz, lýsti því líka yfir, og þau orð hafa ekki verið vefengd. Og þar sem vinstri stjórnin réð ekki við þessa dýrtíðaröldu, sem reist var, og þá erfiðleika, sem henni fylgdu, þá varð að ráðast á þetta með róttækum aðgerðum til þess að koma okkar efnahagsmálum í það horf, að atvinnuvegirnir gætu orðið starfhæfir, að við gætum rekið okkar þjóðarbúskap eitthvað í líkingu við það, sem nágrannaþjóðir okkar gera, að við gætum hætt að safna lausaskuldum erlendis, að við gætum reynt að tryggja okkar gjaldmiðil þannig, að hann nyti trausts á erlendum vettvangi, að við gætum komizt út úr uppbótakerfinu og skipað okkur á bekk með öðrum þjóðum, sem eru sjálfstæðar og telja sig þess umkomnar að stjórna sér sjálfar. Til þess að Íslendingar gætu gert þetta, bæði í nútíð og framtíð, varð að komast út úr því öngþveiti, sem þjóðin óneitanlega var komin í, og við, sem erum í þessum þingsal hér, þekkjum þetta öll. Það er tilgangslaust fyrir okkur að vera að reyna að blekkja hverjir aðra í þessu efni. Og það er alveg tilgangslaust fyrir hv. framsóknarmenn að halda því fram, að það hafi verið ástæðulaus sú aðgerð, sem gerð var á s.l. vetri. Þeir vita sjálfir, að það varð að gerast, því að staðreyndirnar eru svo skýrar og ljósar í þessu efni, sbr. ummæli 2. þm. Vestf., á meðan hann var forsrh. og var að kveðja stjórnarráðið.

Hv. 2. þm. Vestf. vitnaði í orð mín hér í fyrradag, þegar ég talaði um, að það væri ekki aðalatriðið að ræða um það, hverjir væru sekir eða sekastir um það, hvernig lánasjóðir landbúnaðarins væru komnir. Þetta er rétt eftir mér haft. Það er ekki aðalatriðið. Aðalatriðið frá mínu sjónarmiði er, að það megi takast að gera sjóðina starfhæfa, þannig að þeir hafi fjármuni til að lána, og að það sé settur sá grundvöllur undir þessa sjóði, að þeir geti starfað á heilbrigðan hátt. En hverjir eru sekir, og hverjir eru sekastir, og hvers vegna eru sjóðirnir komnir eins og komið er? Það er vegna þess,að dýrtíðin hefur grafið undan þeim. Það er gengisfellingin, það er dýrtíðaraldan, sem reis á vinstristjórnartímabilinu, sem hefur grafið undan íslenzku krónunni og gert erlendu lánin allt að því helmingi hærri nú en þau voru, þegar þau voru tekin. Það er verið að borga erlendu lánin með allt að því helmingi fleiri krónum nú en þegar þau voru tekin. Og þá er ekkert undarlegt, þótt þessir sjóðir séu illa stæðir. Þeir, sem eru sekastir um þetta, eru þeir, sem með ráðleysi og giftuleysi, — ekki af illvilja, heldur bara giftuleysi, urðu þess valdandi, að dýrtíðaraldan reis.

Nú eru hv. framsóknarmenn svo smekklegir að vilja halda því fram, að sjálfstæðismenn hafi stjórnað þjóðarskútunni, á meðan þeir voru utan stjórnar, á árunum 1956 til ársloka 1958. Þeir halda því fram, að sjálfstæðismenn hafi stjórnað verkföllum og kynt undir dýrtíðinni á þessum tímum. Það var giftuleysi vinstri stjórnarinnar, sem kom öllu af stað. Hverjir voru það, sem byrjuðu á verkfalli í ársbyrjun 1957, þegar vinstri stjórnin hafði setið að völdum í nokkra mánuði? Voru það verkamenn, voru það láglaunamenn? Nei, þeir ætluðu að sýna þegnskap. Þeir ætluðu að gefa vinstri stjórninni tíma. En það var í ársbyrjun 1957, sem hæst launuðu mennirnir gerðu verkfall. Skyldu sjálfstæðismenn hafa átt sök á því verkfalli? Voru það sjálfstæðismenn, sem sömdu við flugmennina í ársbyrjun 1957 um stórfelldar kjarabætur, sumir segja 50% kjarabætur? Ég hef aldrei heyrt því haldið fram, enda væri það fjarstæða, sem gæti ekki staðizt. Það var giftuleysi vinstri stjórnarinnar, sem réð því, að það var byrjað á að stórhækka kaup við þá, sem voru hæst launaðir í landinu. (Gripið fram í.) Ég man ekki, hvað það var, það var geysimikil hækkun. Það var geysimikil hækkun, eins og þessi hv. þm. veit og þarf ekki að spyrja um. Ég hef einu sinni heyrt því slegið fram, hvað það hafi verið, þegar öll hlunnindi væru tekin með, en hitt vita allir, að það var geysimikil hækkun. Og það var byrjað á því að stórhækka laun þeirra, sem voru hæst launaðir. Þess vegna var það, að þeir, sem voru lægst launaðir, þeir, sem höfðu of lítið í buddunni, þeir fóru að hugsa sem svo: Úr því að hægt er að stórauka tekjur þeirra, sem eru hæst launaðir, þá er ekki sanngjarnt, að við sitjum hjá og gerum ekki nokkrar kröfur. Mun ekki þetta vera aðalástæðan fyrir þeirri verkfallaöldu, sem var allan stjórnartíma vinstri stjórnarinnar? Með því að semja við þá hæst launuðu og byrja á því að taka þeirra verkfall þannig til greina gróf vinstri stjórnin undan sér, og það er sannarlega ósmekklegt, en er náttúrlega samboðið ræðumennsku hv. 1. þm. Norðurl. e., sbr. það, sem hann sagði hér áðan, að reyna að koma sökinni yfir á sjálfstæðismenn, sem voru utan stjórnar. Það sýnir líka rökvísi þessara manna, þegar þeir halda því fram, að sjálfstæðismenn hafi stjórnað verkföllunum og kynt undir dýrtíðinni, þegar þeir á sama tíma, og get ég þar vitnað í ummæli formanns Framsfl. á Hólmavík, — hann var að tala um það, að nú loksins væru sjálfstæðismenn utangarðs og áhrifalausir í íslenzkum stjórnmálum, og meiningin var vitanlega sú að gera Sjálfstæðisfl. áhrifalausan í íslenzkum stjórnmálum hjá hv. framsóknarmönnum, og þeir trúðu því, að hann væri það. En á sama tíma, sem þeir trúðu því, héldu þeir því fram, að raunverulega stjórnaði Sjálfstfl. efnahagsmálunum, þótt hann væri utan stjórnar. Þetta taka vitanlega engir sæmilega skynsamir menn til greina, því að þetta getur ekki á nokkurn hátt staðizt.

Hv. 2. þm. Vestf. minntist hér á eftirgjöfina til landbúnaðarsjóðanna 1953 og 1957. Það er rétt, að þetta var samþ. hér í Alþ., og ég man ekki betur en við sjálfstæðismenn greiddum því atkv. En þetta var skuld við ríkissjóð, þetta voru ekki erlend lán, og um leið og þetta var samþykkt, þurfti ekki að afla fjár eða leggja nýjar álögur á ríkissjóð, þótt þetta væri samþykkt. Þetta var þess vegna miklu auðveldara en það, sem nú er farið fram á að gera, vegna þess að nú er faríð fram á að gefa eftir erlend lán og ríkissjóður taki á sig þann kostnað, sem fylgir vöxtum og afborgunum af þessum lánum. Það er þess vegna, sem þetta er erfiðara en þá. Og það er komin skýring á því, hvers vegna formaður Framsfl., fyrrv. forsrh., fyrrv. formaður bankaráðsins, fyrrv. landbrh., gat ekki komið því í gegn í vinstri stjórninni að fá eftir gefnar ca. 30 millj. kr. af erlendum lánum 1958, þegar byrjað var að grafa undan þessum sjóðum. Mér dettur ekki í hug að halda því fram, að Hermann Jónasson, þáv. landbrh., þáv. formaður bankaráðs Búnaðarbankans, hafi ekki gert sér glögga grein fyrir því, að með yfirfærslugjaldinu var raunverulega verið að kippa fótunum undan þessum sjóðum, og mér datt heldur ekki í hug annað en hann hefði reynt í vinstri stjórninni að koma því í gegn að fá þetta lagað. En það var erfiðara vegna þess, að hér var um erlent lán að ræða. Það var ekki hægt að gefa þetta eftir nema taka þá samtímis byrðar á ríkissjóðinn. Þess vegna kom formaður Framsfl. þessu ekki í gegn þrátt fyrir þá valdaaðstöðu, sem hann var í. Þess vegna skilur formaður Framsfl., hv. 2. þm. Vestf., þá erfiðleika, sem því eru samfara að samþykkja þetta frv. og framkvæma það. Þess vegna er málflutningur hv. þm. eins og hann var áðan, fluttur af nokkurri sanngirni.

Ég held, að þarna sé skýring, sem er mjög eðlileg, og hv. framsóknarmenn, þótt þeir sumir séu hér með stóryrði, tali um breytta stefnu, tali um lítinn vilja hjá núv. ríkisstj. til að laga þessi mál, þá viti þeir í hjarta sinu, að úr því að formaður Framsfl., á meðan hann var forsrh., á meðan Framsfl. hafði stjórnarforustuna, gat ekki létt byrðar ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs um 30 millj. árið 1958, þá sé það ekki svo auðvelt að taka í einum bita 160 millj. á árinu 1960, aðeins vegna þess, að það hefur verið skipt um stjórn. Ég veit, að það er fylgzt með þessum málum. Bændur vitanlega fylgjast með því, hvað verður um þeirra lánasjóði. Og framsóknarmenn hv. vita þetta líka. Þeir búast við því, að það sé vinsælt að gera þessar kröfur fyrir hönd þessara sjóða. Þeir búast við því, að ýmsir bændur taki það trúanlegt, að þetta sé auðvelt að gera og það sé aðeins vegna tregðu og lítils skilnings núv. stjórnar, að þetta rennur ekki umræðulítið í gegn. En bændur muna það, að hv. framsóknarmenn voru í stjórn og fóru með þessi mál, og þeir spyrja áreiðanlega þessarar spurningar: Hvernig stendur á því, að framsóknarmenn, á meðan þeir voru í stjórn, um leið og þeir grófu raunverulega grundvöllinn undan sjóðunum með yfirfærslugjaldinu 1958, — hvernig stendur á því, að þeir geymdu allan þennan bita, svo stór sem hann er, þangað til þeir voru komnir frá völdum? Hvernig stendur á því, að þeir notuðu ekki sitt tækifæri, á meðan þeir réðu? Og bændur spyrja: Hvernig stendur á því, að á meðan Sjálfstfl. var ekki í stjórn, þá hallaði stöðugt undan fæti fyrir okkur? Og bændur lesa fleira en Tímann, sem betur fer, og hafa margir hverjir gert sér fulla grein fyrir þeim erfiðleikum, sem nú er við að etja í okkar þjóðlífi og atvinnuháttum og að það er arfur, sem núv. stjórn hefur tekið við, sem skapar þá erfiðleika, sem nú blasa við öllum.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. ræddi um það áðan, hvert hefði verið framlag ríkissjóðs til byggingarsjóðs og hvað það væri nú. Hann minnti á það, að framlag til byggingarsjóðs hefði verið 600 þús. til ársins 1946, en þá hefði það verið hækkað í 2.5 millj. og væri óþreytt síðan. Þetta er alveg rétt. En hverjir hækkuðu þetta framlag? Voru það hv. framsóknarmenn, eða voru það sjálfstæðísmenn, sem beittu sér fyrir því? Ég hygg, að það þurfi ekki að gefa svar við þessu. Hv. 1. þm. Norðurl. e. minntist ekki á það, en það var eingöngu vegna þess, að þetta var gert af sjálfstæðismönnum, þegar framsóknarmenn voru utan stjórnar, og þetta hefur staðið óbreytt síðan, ekki vegna þess, að framsóknarmenn hafi ekki verið í stjórn á þeim árum, sem síðan eru liðin, heldur vegna þess, að þeir hafa látið það ógert og það bar ekki á því, að þeir í vinstri stjórninni impruðu á því að hækka þetta framlag, hvorki til ræktunarsjóðs né byggingarsjóðs, sem vitanlega hefði verið mjög heppilegt að gert hefði verið. Ég er ekki beinlínis að ásaka þessa hv. þm. fyrir það, vegna þess að það hefur verið fyrr en nú takmarkað fé, sem ríkissjóður hefur haft til umráða, bæði í þessu skyni og öðru. En af eðlilegum ástæðum minni ég á þetta, þegar hv. 1. þm. Norðurl. e. talar um, að sjálfstæðismenn hafi i rauninni alltaf verið dragbitar á landbúnaðinn. Þessi hv. þm. er þó nægilega gamall til þess að muna, þótt ekki nema sé 20 ár aftur í tímann. Hann hefur kannske aldrei verið bóndi sjálfur, ég veit það ekki, en hann hefur þó a.m.k. komizt í snertingu við landbúnaðinn í gegnum kunningsskap sinn við bændur. Og bændur víta, að þegar sjálfstæðismenn fengu tækifæri 1942, þá var það tækifæri notað til þess að skera i sundur þá sultaról, sem hafði lengi hert að bændum. Það var með því að hækka afurðaverðið á því ári, svo að um munaði, og vitna margir bændur til þess enn í dag, að það hafi forðað þeim mörgum hverjum frá því að flosna upp. Ég sé ekki ástæðu til þess að rifja upp margs konar löggjöf, sem Sjálfstfl. hefur beitt sér fyrir fyrir landbúnaðinn og fyrir strjálbýlið. Það vitum við öll hér í hv. d. En þetta atriði leyfi ég mér þó að minna hér á aðeins að gefnu tilefni og þá líka til þess að punta svolítið upp á kannske lélegt minni hv. 1. þm. Norðurl. e.

Við skulum nú vona um það öskufall og þau móðuharðindi, sem hv. þm. var að tala um áðan, að forsjónin verði nú svo mild við okkar þjóð að forða okkur frá tjóni af slíkum ógnaröflum. Og við skulum því gera okkur alveg grein fyrir því, hvar við stöndum, að við eigum í dag við talsverða erfiðleika að etja í okkar atvinnu- og fjármálum. Og sannleikurinn er sá, að það kvarta allir, bændurnir kvarta, verkamenn kvarta, kaupmenn kvarta, kaupfélagsstjórar kvarta og þeir, sem kallaðir eru launamenn, kvarta, útgerðarmenn kvarta, og meira að segja braskarar kvarta, vegna þess að þeim finnast vextirnir orðnir svo háir, að það borgi sig ekki lengur að braska. En þetta er ekki nema mannlegt, og þetta verður ekki til þess, að Íslendingar gefist upp í baráttunni. Þetta er afleiðing óstjórnar fyrri ára, sem þjóðin verður að taka mannlega og vel á móti, og ég er ekki í nokkrum vafa um það, ég er farinn að sjá, að skilningur almennings í þessu landi er orðinn talsvert ríkari en var í þessum efnum. Ég segi því, að um leið og bændur kvarta nokkuð undan því, að afkoman sé ekki eins góð og æskilegt er, þá eru þeir reiðubúnir til þess að ganga í gegnum þá stundarerfiðleika, sem þjóðin verður að ganga í gegnum. Ég segi líka, af því að ég hef talað við ýmsa verkamenn, að þeir hafa mikinn skilning á því, að það er nauðsynlegt, að sú aðgerð, sem var gerð á s.l. vetri, megi verða lækning og að aðgerðin fái tíma til þess að gróa og jafna sig. Það er þess vegna, sem verkamenn nú eru ekkert ginnkeyptir fyrir því að fara í verkföll og gera kaupkröfur, sem hafa aðeins í för með sér óraunhæfar kjarabætur. Og þannig mun einnig verða með útgerðarmenn og aðra atvinnurekendur, að þeir munu vilja á sig leggja talsvert erfiði og mikið erfiði til þess að komast í gegnum þessa stundarerfiðleika, sem að steðja. Og við eigum í rauninni ekki nema um tvennt að velja. Við eigum um það að velja að komast í gegnum þá stundarerfiðleika, sem að steðja, og taka mannlega á móti þeim erfiðleikum, sem á sækja, eða gefast upp og leggja árar í bát, eins og Tíminn helzt prédikar nú, og búa síðan við varanlega kjaraskerðingu, við það að geta aldrei rétt úr kútnum, við það að glata sjálfstæði okkar og sjálfstrausti, en til þess má vitanlega aldrei koma. Og því er það, að þótt ýmsir kvarti og kvaki, þá er allur almenningur og hinar ýmsu þjóðfélagsstéttir við því búnar að taka mannlega á og standast þá örðugleika, sem að steðja. Þess vegna er það, sem mikill meiri hluti þjóðarinnar vonar það og treystir því, að núv. ríkisstj. fái frið til þess að starfa og koma þeirri stefnu í gegn, sem hún hefur markað í íslenzkum þjóðmálum, í íslenzku atvinnulífi og í íslenzkum fjármálum.

Ég tel ekki ástæðu til að segja öllu meira í sambandi við það, sem þessir tveir hv. framsóknarmenn hafa rætt hér í dag. Eins og ég tók fram í byrjun ræðu minnar, var annar ræðumaðurinn hóflegur og tiltölulega skýr, hinn var aftur alveg dæmalaus og málflutningur hans eins og hann getur verið verstur hjá framsóknarmönnum, og þá er langt til jafnað.