14.11.1960
Efri deild: 21. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í C-deild Alþingistíðinda. (2274)

68. mál, Ræktunarsjóður Íslands og Byggingarsjóður sveitabæja

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Það kann að vera, að það sé ekki mikil ástæða að ræða þetta mál af minni hálfu, þar sem þeir hafa svarað og hrakið allar staðhæfingar hæstv. viðskmrh., þeir hv. 2. þm. Vestf. og hv. 1. þm. Norðurl. e., og af þeim ástæðum get ég farið nokkuð fljótt yfir sögu. Ég vil þó ekki láta hjá líða að minna hæstv. viðskmrh. á nokkuð af því, sem hann sagði og ég tel að hann hafi mjög gott af að hugleiða, því að mér fannst þessi hæstv. ráðh. tala þannig, að hann væri mjög ókunnugur landsmálum, og þó er vitað mál, að hann hefur setið alllengi á hinu háa Alþingi og auk þess komið mjög við stjórn landsins.

Hæstv. viðskmrh. sagði, að það ætti að hækka vexti af stofnlánum og að það ætti að lána erlendu lánin frá stofnlánasjóðum landbúnaðarins með gengisklásúlu. Þetta sagði hæstv. ráðh. Hins vegar bar hann á móti því, að það væri nokkur möguleiki á því, þrátt fyrir mikinn vilja ríkisstj., að láta bændur greiða þá gengisbreytingu, sem orðin er á þeim erlendu lánum, sem þegar hafa verið veitt. Hitt lét hann mjög í veðri vaka, að ríkisstj. ætlaði að beita sér fyrir þessu tvennu: að lána stofnlánasjóðunum erlend lán og síðan yrðu þau lánuð til bændanna með gengisklásúlu, og jafnvel að réttast væri að borga almenna viðskiptavexti af þessum lánum. Dæmið lítur því þannig út, að bóndi, sem e.t.v. fær 100 þús. kr. lán á þessu hausti, ef á annað borð verður nokkurt fé veitt í þessa sjóði, út á þær framkvæmdir, sem gerðar hafa verið nú, og sitji þessi stjórn nokkuð áfram og felli hún gengið á ný, við skulum segja um 40%, þá er lánið komið upp í 140 þús., nú vilji hæstv. viðskmrh. hafa almenna vexti af þessum lánum, — við skulum segja 9%, eins og ég hygg, að hann vilji helzt, — þá mundu vextirnir verða af þessu láni upphaflega 9 þús. kr., en eftir gengisbreytingu hæstv. viðskmrh. mundu það verða 12600 kr. Þetta eru þau kostakjör, sem hæstv. viðreisnarríkisstj. er að bjóða bændastétt landsins þrátt fyrir fögur loforð nú fyrir ári.

Hæstv. ráðh. hefur að vísu skipt um skoðun oft hér á Alþingi, og fer það mjög eftir því, hversu mikla ábyrgð hann þarf að bera á stjórnmálum landsins í það og það skipti. Mér er það minnisstætt, að árið 1954, þegar þá voru hækkaðir vextir af stofnlánum landbúnaðarins, greiddi þessi hæstv. ráðh. atkv. gegn því. Þá var engin nauðsyn að gera slíkt. En nú aftur á móti var það mikil nauðsyn, eftir að sex ár eru liðin, og rök hæstv. ráðh. í þessum efnum eru eins og oft áður hver á móti öðrum. Það er líka vitað mál, að flokkur hæstv. viðskmrh. stóð upphaflega að samningu þeirrar löggjafar, sem stofnlán landbúnaðarins eru veitt eftir, þótt viðskmrh. hæstv. fordæmi þessa löggjöf svo mjög nú, og það hafa heldur aldrei — aldrei nokkurn tíma — komið neinar sérskoðanir frá Alþýðuflokksmönnunum í þessum efnum og ekki heldur frá hæstv. viðskmrh. fyrr en nú. Þeir hafa verið hinir ánægðustu að eiga mann í bankaráði, bæði fyrr og nú, án þess að þeir hafi látið í ljós nokkra vankanta á þeirri lánastarfsemi, sem fram hefur farið hjá stofnlánasjóðum Búnaðarbankans.

Þá minntist hæstv. ráðh. á, að það væri glæfrahugsunarháttur að láta almenning greiða gengismuninn, sem orðinn er á þeim erlendu lánum, sem stofnlánasjóðir landbúnaðarins hafa fengið, — það væri glæfrahugsunarháttur að ætla sér annað eins. En ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er það ekki glæfrahugsunarháttur hjá hæstv. ríkisstj. að ætla almenningi að borga gengisbreytinguna með öllum sköttunum, sem voru lagðir á á s.l. vetri? Er ekki eitthvað glæfralegt við það? Og síðan að bæta 12% vöxtum ofan á alla almenna útlánastarfsemi í landinu? Það er eitthvað glæfralegt við þá ríkisstj.

Það hlýtur að vera eitthvað glæfralegt við þá stjórn, sem ekkert tillit vill taka til getu þegna sinna í þjóðfélaginu, því að það hefur þessi hæstv. ríkisstj. alls ekki gert, — það væri synd og skömm að segja slíkt um hana.

Það væri líka fróðlegt, ef hæstv. viðskmrh. vildi sýna og sanna það, hvað hann er búinn nú að íþyngja þjóð sinni með sköttum og álögum, síðan hann komst til valda fyrir tveimur árum. Það liggur nokkurn veginn í augum uppi, að hver 5 manna fjölskylda í landinu hefur orðið að taka á sig um 30–40 þús. kr. byrði á þessu ári vegna þeirra ráðstafana, sem gerðar hafa verið fyrir tilstilli þessa hæstv. viðskmrh., sem er að tala um glæfraaðferðir í fjármálum hjá öðrum aðilum. Það er eitthvað glæfralegt við menn, sem gera þessa hluti.

Það er enginn vafi á því, að ef landbúnaðurinn hefði aldrei átt þess kost að njóta þeirra góðu kjara, sem þessi stofnlán hafa veitt, þá hefði búvöruverð í landinu verið miklu hærra, þá hefðu neytendur orðið að greiða miklu hærra verð fyrir landbúnaðarafurðir en þeir hafa gert, svo að það er ekki hægt að skrifa þessi lán og þennan gengismun á kostnað bændanna einna, vegna þess að á þann hátt hefur allri þjóðinni verið ívilnað. Það er ekki einungis bændastétt landsins, sem þessa hefur notið, heldur og þjóðin öll. Og því ber, þegar á það er litið, þjóðinni í heild fyrst og fremst að taka á sig það, sem þarf að leiðrétta í þessum efnum.

Þá hefur hæstv. ráðherra talað mikið um gjaldþrota sjóði. En væri nú ekki hollara fyrir þennan hæstv. ráðherra — viðskmrh. — að skyggnast vel um í heimagarði sínum, þar sem hann hefur húsbóndavaldið, og vita, hvort þar er allt eins og vera ber á því sviði.

Það er vel kunnugt frá undanförnum árum hér á hv. Alþ., að það er ein stofnun, sem heyrir undir þennan hæstv. ráðh. og endurskoðendur ríkisreikninga hafa gert mjög miklar athugasemdir við, án þess að hafi fengizt bót á því ráðin, og þess vegna held ég, að viðskmrh. og menntmrh. væri nær að reyna til þess að leiðrétta það, sem misferst innan þess verkahrings, sem hann á að sjá um, áður en hann talar um gjaldþrota sjóði og fjárglæframennsku á öðrum sviðum og hjá öðrum aðilum. Ég held, að þessi hæstv. ráðh. geti neytt krafta sinna betur og á viðeigandi hátt annars staðar, frekar en þegar hann er að ræða um landbúnað, því að þar hefur hann sáralitla vitneskju um.

Þá minntist ráðh. á það, að hann skildi það mjög vel, að mér hefði þótt vont að fara úr bankaráði. Það skildi ráðh. Og ég held helzt, að það hafi verið það eina, sem hæstv. ráðh. skildi. Um það skal ég ekkert segja, hvort mér hefur þótt það vont eða ekki, en þarna var ég aldrei nema um stundarsakir og aðeins sem varamaður. Og ef hæstv. ráðh. veit það ekki, þá hef ég byggt mitt lífsstarf upp á allt öðru en bitlingastarfsemi, en það skilur ráðherrann e.t.v. ekki. Og það er eins með mig og aðra bændur landsins, að ég á mína afkomu undir sól og regni. En ég ætlast ekki til þess, að hæstv. viðskmrh. skilji slíkt, vegna þess að hann hefur aldrei þurft að eiga sína af. komu undir sól og regni. En úr því að ráðh. minntist á þetta, finnst mér ekki óviðeigandi að minna þennan hæstv. ráðh. á atburð, sem gerðist fyrir tveimur árum. Það var ráðh., sem einnig var prófessor, og þessi prófessor og ráðh. sótti um forstjórastarf hér í höfuðborginni, vegna þess að hann treysti sér ekki til að lifa sem ráðherra og sem prófessor, heldur þurfti hann að fá forstjórastarf líka. Nú urðu atvikin þau, að þessi hæstv. ráðh. hlaut ekki þetta forstjórastarf vegna ýmissa atvika, sem þar komu inn í. En þann 1. des. 1958 ritar hæstv. ráðh., sem sótti um forstjórastarfið, ýtarlega grein í Alþýðublaðið, þar sem hann er að rita um umsókn sína, vegna þess að honum fannst hann þurfa að skýra framferði sitt gagnvart íslenzku þjóðinni. Og ráðherra, sem sækist svona mikið eftir völdum, er varla trúandi til þess að geta litið í alla þá kima, sem til eru í þjóðfélaginu, og séð, hvernig þegnunum þar vegnar. Maður, sem þarf svona mikið til að lifa af og tárfellir, þegar hann fær ekki þriðja stóra embættið, getur varla skilið ástæðurnar fyrir því, hvers vegna fátæklingarnir í landinu hafa ekki nóg til að lifa af. Hann hugsar vafalaust eins og danska drottningin forðum: „Hvers vegna borðar fólkið ekki heldur brauð og smjör en að deyja úr hungri?“

Ég held, að hæstv. ráðh, hefði sannarlega gott af því að ráða sig um stundarsakir á sjó eða sem verkamann í sveit, svo að hann skilji eitthvað, hvað þeir eiga við að búa, sem eiga sitt undir sól og regni og búa kannske við lökust lífsskilyrði hér á landi. En á þetta minnist ég nú vegna þess, að mér fannst, að grunntónninn í ræðu hæstv. ráðh. væri á þann veg, að hann væri að storka bændastétt landsins af því, að hún gæti ekki lifað af því, sem hún hefði. En þau mál held ég að ráðh. hefði gott af að kynna sér, því að það hefur hann sannarlega ekki gert, og hans meðráðherrum hefur ekki heldur tekizt að koma honum í skilning um það, hafi þeir þá einhverjir einhvern tíma reynt það.

Þá minntist hæstv. viðskmrh. á nokkrar till. okkar framsóknarmanna, og virtust þær fara mjög í taugarnar á honum. Það undrar mig ekki, því að hugur þessa hæstv. ráðh. og hans flokksbræðra nær í raun og veru ekki út fyrir Reykjavík, — kannske til Keflavíkur, Hafnarfjarðar og einstöku sinnum upp á Akranes, — lengra nær ekki hugur og starf þessa hæstv. ráðh. og hans flokksbræðra, vegna þess að ráðh. sagði, að vegir og brýr væru því nær eingöngu í þágu bændanna í landinu. Ráðh. þarf ekkert á vegum að halda, þegar hann þarf að skreppa út á land eða hans flokksbræður. Það er ekki í þeirra þágu, það er í bændanna þágu og þeirra, sem dreifbýlið byggja, sem vegirnir eru gerðir, en ekki annarra, eftir þeim ummælum, sem hæstv. ráðh. lét í veðri vaka.

Hæstv. ráðh. og hans flokksbræður varðar ekki um græðslu lands, skógrækt og sandgræðslu og framræslu og annað það, sem kann að bæta lífskjör þeirra, sem dreifbýlið byggja, og almennings alls í landinu og komandi kynslóða. Þetta eru allt aukaatriði hjá hæstv. viðskmrh., og það er eingöngu framsóknarbull að vera að reyna til þess að auka þessa starfsemi og tryggja þjóðinni góðar búvörur í framtíðinni með því að rækta landið. Nei, ráðh. telur, að það megi eins sækja út fyrir landsteinana kjöt og mjólk, eins og vera að kaupa það innanlands á miklu lægra verði en ég hygg að þekkist a.m.k. í okkar nágrannalöndum, því að ég efast mjög um, samanborið við laun og annað, að þar séu landbúnaðarafurðir jafnódýrar og hér er, og því ekki að gera allt, sem unnt er, til þess að geta í framtíðinni útvegað fólki jafnhollar og góðar og ódýrar vörur og landbúnaðarvörurnar eru nú í dag? Þetta getur ráðh. allt saman reiknað á kostnað okkar bændanna einna og annarra ekki. En ég hygg, að sá hópur verði fámennur, sem fylgir þessum hæstv. viðskmrh. að málum í þessum efnum, jafnvel ekki allir Alþýðuflokksmenn.

Ég held, að ráðh. hefði gott af að hugleiða, hvernig verkamannastjórnin í Noregi býr að landbúnaðinum þar og hvernig Verkamannaflokkurinn beitir sínu áhrifavaldi til þess að tryggja og efla norska landbúnaðinn. Þar ríkir nákvæmlega sami hugsunarháttur og ríkti hér áður fyrr, meðan segja má að Alþfl. væri i blóma undir forustu Jóns Baldvinssonar. En sem vitað er, þá hefur þessum flokki — Alþfl. — hrakað mjög síðan og skilur ekki orðið þýðingu atvinnulífsins fyrir þjóðina lengur. En ég vil benda hæstv. viðskmrh. á, hvað Verkamannaflokkurinn norski gerir fyrir norsku bændastéttina og þá, sem vilja leggja út í að yrkja jörðina, sem kallað er. Það er vitað mál, að Norges Småbruk- og Bustadbank veitir styrki og lán til byrjenda í búskap, og nema þeir styrkir eða óafturkræf framlög allt að því 12200 norskum kr. á býli, og þar fyrir utan eru veitt vaxtalaus lán í allt að 7 ár og mega nema að upphæð 40 þús. norskra króna, — þetta er til peningshúsabygginga, — og þar fyrir utan allt að 10 þús. norskar krónur til íbúðarhúsabygginga. Fyrir utan þetta til bygginganna eru veittir jarðræktarstyrkir, bæði til framræslu, grjótnáms og túnræktar og einnig til að rækta beitilönd, til vegagerðar, vatnsleiðslu og til skolpleiðslu, fyrir utan svo það, að margs konar styrkir eru veittir til búfjárræktar þar í landi. Þetta telja Norðmenn mjög þýðingarmikið, til þess að þeir geti í framtíðinni tryggt það, að þeir verði sjálfum sér nógir með þær nauðsynlegu fæðutegundir, sem landbúnaðurinn veitir hverri þjóð, sem kann að meta gildi hans.

Það er líka vitað mál, að Bretar hafa stóraukið alla styrktarstarfsemi til eflingar landbúnaðinum, síðan þeir voru innilokaðir á stríðsárunum síðast. Þá skildu þeir fyrst, hvers virði landbúnaðurinn var fyrir brezku þjóðina. En vera má, að Ísland þurfi að vera einangrað og innilokað, til þess að hæstv. viðskmrh. skilji þýðingu landbúnaðarins fyrir íslenzku þjóðina.

Það er hart að þurfa að hlusta á það hér í sölum Alþingis af vörum talsmanna hæstv. ríkisstj., að þeir, sem lengstan hafa vinnudag í landinu, skuli vera óverðugir launa sinna, eins og greinilega hefur komið í ljós hjá hæstv. viðskmrh.

Ég mótmæli þeirri samdráttaríhaldsstefnu, sem hæstv. ríkisstj. boðar nú í landbúnaðinum. Hins vegar vænti ég þess, að hæstv. ríkisstj. sjái sóma sinn í því, að nú þegar geti hafizt lánveitingar úr stofnlánadeildum Búnaðarbankans, svo að bændur þurfi ekki lengur að bíða á milli vonar og ótta um það, hvort þeir fái nokkurn eyri að láni út á þær framkvæmdir, sem þeir hafa gert á þessu ári og framkvæmt undir þeirri mestu dýrtíð, sem skollið hefur nokkru sinni yfir land og þjóð, og að þau lán verði með þeim hætti, að bændastétt landsins stafi engin hætta af í framtíðinni.

Hæstv. viðskmrh. segist vera á móti frv. þessu. En á hvern hátt ætlar þá hæstv. ráðh. að leysa þetta vandamál? Eða ætlar hæstv. ráðh. enn einu sinni að ýta málinu til hliðar og gera ekki neitt, því að fyrir aðgerðaleysi hæstv. núv. ríkisstj. og fyrrv. ríkisstj. er málið komið á þann veg, sem þegar hefur verið lýst, og mundi ekki neinum vandkvæðum hafa valdið, ef þessar tvær ríkisstj. á s.l. tveimur árum hefðu tekið skynsamlega á málunum, eins og jafnan hefur verið gert áður. Þetta mál verður að leysa, og það verður ekki leyst á annan skynsamlegri og betri hátt en þann, sem fram kemur í frv. þessu. Þess vegna vænti ég þess, að hæstv. ríkisstj. sjái sóma sinn í því að samþykkja þetta frv., og mun hennar vegur og vegsauki verða að meiri hjá bændastétt landsins heldur en nú blasir við og hefur blasað við síðan hún kom til valda.