14.11.1960
Efri deild: 21. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í C-deild Alþingistíðinda. (2275)

68. mál, Ræktunarsjóður Íslands og Byggingarsjóður sveitabæja

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þessi ræða var hv. 1. þm. Vesturl. því miður til minnkunar. Ég skal segja það aftur, að þessi ræða var hv. 1. þm. Vesturl. því miður til minnkunar. Ég ber engan óvildarhug til hans og hlakka því ekkert yfir því, en staðreynd er það engu að síður, og það þykir mér undarlegt, að sú algerlega málefnalega gagnrýni, sem ég setti fram á sínum tíma á stjórn landbúnaðarsjóðanna, skuli hafa orðið til þess, að fyrst og fremst hann hefur ekki leitazt við að svara þeim ádeilum málefnalega, heldur kýs þann kostinn að beina, að því er ég vildi segja, algerlega ósæmilegum skeytum að mér persónulega. Það skiptir mig engu máli. Ég mun að vísu andmæla því, sem hann sagði, í örfáum orðum á eftir, en hins vegar halda mér við málefnið.

Ég endurtek það, að hann hafði ekkert að segja um raunverulegt vandamál stofnlánasjóða landbúnaðarins. Hann veit þó, í hverju það vandamál er fólgið. Hann veit, að vandamálið er fólgið í því, að árlegur rekstrarhalli sjóðanna er nú miklu meiri en þær fjárveitingar, sem sjóðirnir fá á Alþ. og hafa fengið undanfarin ár með samhljóða atkv. alþm. Þannig hefur verið á málum haldið, að þessar fjárveitingar duga ekki í ár til þess að halda uppi þeim lánum, sem sjóðirnir hafa innt af hendi undanfarin ár, og enn alvarlegra er þó ástandið, ef lengra er horft fram í tímann, því að það er alveg augljóst mál, að á næsta ári mundu útlán sjóðanna verða að minnka niður í brot af því, sem þau eru núna, ef ekki yrði gripið til alveg sérstakra ráðstafana.

Hv. deildarmönnum er áreiðanlega algerlega ljóst, að við samþykkt þessa frv., þó að við létum að vilja flm. og samþ. það, gerist það eitt, að kvittað er fyrir verulegan hluta af syndum fortíðarinnar og gengisáhættunni, sem verið hefur að veltast á sjóðina undanfarin ár, er velt yfir á allan almenning í landinu, með því að hver einasti fjölskyldufaðir í landinu yrði látinn skrifa undir um 4000 kr. skuldabréf. En vandi framtíðarinnar er algerlega óleystur. Á hann er ekki minnzt í grg. frv. Á hann hefur ekki verið minnzt í einni einustu af ræðum formælenda frv. Hér heldur hv. 1. þm. Vesturl. skapmikla ræðu, sem kemur upp um það, að honum er mjög heitt í hamsi, og hafði ekki eitt einasta orð að segja um það, hvernig eigi að leysa vandamál sjóðanna á næsta ári og á næstu árum. Þetta vil ég kalla ámælisvert á hæsta stigi.

Það er ósköp auðvelt verk að fleygja inn á Alþ. frumvörpum um að gefa kvittun fyrir gamlar syndir, og það gera þessir hv. þm. Hitt gera þeir ekki, sem þó ætti að vera höfuðskylda þeirra, ef þeir bera þann góða hug til landbúnaðarins, sem þeir láta í veðri vaka, að koma fram með raunhæfar till. um lausn framtíðarvandans. Eftir þeim hef ég lýst áður, og þær sjá ekki dagsins ljós. Meðan þær eru ekki lagðar fram, fæ ég ekki varizt þeirri hugsun, að það sé kannske eitthvað annað, sem fyrir þeim vakir með þessum tillöguflutningi, en það eitt a.m.k. að rétta hag bágstaddra íslenzkra bænda. Það skyldi ekki vera, að tilgangurinn að öðrum þræði a.m.k. væri að hafa í frammi áróður, að gera sig góða í augum þeirrar stéttar, sem þeir telja kjörfylgi sitt fyrst og fremst komið undir.

Hv. þm. hafði það eftir mér, að ég hefði sagt, að hækka ætti vexti af landbúnaðarlánum og láta bændur bera gengisáhættuna. Það, sem ég sagði um þetta efni fyrst og fremst, var, að við yrðum að gera okkur ljóst, að erlend lán verða ekki tekin án nokkurrar gengisáhættu, og spurningin er, hver eigi að bera hana. Einhver hlýtur að bera hana. Ég sagði, að það væri eðlilegast, að þeir bæru hana, sem nytu lánanna, en ef það væri ekki talið eðlilegt af einhverjum ástæðum, yrði að benda á þá aðila, sem sanngjarnara væri að láta bera hana heldur en þá, sem lánin fá. Hitt er of ódýr afstaða til málsins að segja: Þjóðin í heild skal bera hana. Þeir aðrir, sem þannig verða að bera áhættu fyrir eina stétt, hafa vissulega líka rétt til þess að segja: Nei, það skal hver bera þá byrði, sem hann nýtur góðs af.

Um það, hvort hækka ætti vexti af landbúnaðarlánunum, hef ég aldrei sagt, að það væri nauðsynlegt eða sjálfsagt að fara inn á þá braut, allra sízt að láta landbúnaðinn bera markaðsvexti. Þm. getur lesið þær ræður, sem ég hef haldið um þetta, og það mun hvergi finnast þar. Hitt sagði ég, að ég væri ekki sannfærður um, að það væri hin rétta landbúnaðarpólitík að halda vöxtum niðri í algerlega óeðlilegu lágmarki, og það stend ég við og það skal ég segja aftur, því að það er sannfæring mín, að um það má mjög deila, hvort heppilegt er fyrir landbúnaðinn sjálfan að fara með vexti af stofnlánum hans niður fyrir eðlilegt mark. Hitt getur vel komið til mála, að ívilna landbúnaðinum eitthvað, jafnvel talsvert, með vöxtum, sem eru lægri en almennir markaðsvextir, en í þessum efnum eins og fleiri verður að hafa nokkurt hóf á. Ef bilið á milli þeirra vaxta, sem landbúnaðinum og öðrum atvinnuvegum kynni að vera gert að greiða, og markaðsvaxtanna er orðið óeðlilega hátt, er ekki aðeins heildinni gerður ógreiði með slíkri pólitík, heldur jafnvel þeim atvinnugreinum, sem slíkra algerlega óeðlilegra forréttindavaxta njóta, því að þá er efnt þar til fjárfestingar, sem til frambúðar reynist ekki heppileg. Þetta eru skoðanir, sem ekki aðeins ég hef einn, heldur fjölmargir fleiri, sem um langt skeið hafa fjallað um þessi mál og önnur þeim skyld.

Hv. þm. vitnaði til þess, að ég hefði greitt atkv. á móti frv. um vaxtahækkun ræktunarsjóðs árið 1954. Það er rétt. Ég átti þá sæti í fjhn. Nd., en einmitt þar kom fram í ræðu, sem ég flutti sem frsm. minni hl., þessi hugsun, sem ég nú er að lýsa, svo að ég vísa algerlega heim til föðurhúsanna ásökunum um, að ég hafi skipt um skoðun í þessu máli. Þó var ég þá í stjórnarandstöðu, en er nú í stjórn. Með leyfi hæstv. forseta, ætla ég að leyfa mér að lesa nokkrar setningar úr ræðu minni þá, sem taka af öll tvimæli um, hvernig ég þá leit á málið, og það er í öllum aðalatriðum eins og ég lít á málið nú:

„Ég gat ekki stutt framgang þessa máls, þegar það var til umr. í hv. fjhn., og hef gefið út sérstakt nál., þar sem ég legg til, að frv. verði fellt. Ég tók það fram við meðferð málsins í n., að í sjálfu sér væri hækkun á hinum mjög svo lágu vöxtum, sem ræktunarsjóður hefði lánað við undanfarið, engin frágangssök, ef þessi vaxtahækkun væri liður í almennri viðleitni hæstv. ríkisstj. til þess að bæta hag ræktunarsjóðsins og gera honum kleifara en ella að gegna því hlutverki sínu að stuðla að aukinni ræktun í sveitum landsins.

Það má auðvitað um það deila, hversu æskilegt sé að haga stuðningi við landbúnaðinn að mjög verulegu leyti á þann hátt að veita honum lán með vöxtum, sem eru miklu lægri en almennir markaðsvextir. Það má með nokkrum rökum halda því fram, að aðrar leiðir væru fullt eins vel til þess fallnar að efla landbúnaðinn og stuðla að ræktun í sveitum og að veita honum lán með vöxtum, sem séu langt undir markaðsvöxtum. En meðan engar slíkar ráðstafanir eru gerðar, meðan ekki bólar af hálfu hæstv. ríkisstj. á neinni viðleitni í þá átt, hvorki að gera aðrar almennar ráðstafanir til þess að efla ræktunina í sveitum landsins né heldur að auka lánsfé sjóðsins, þá tel ég, að þessi ráðstöfun ein út af fyrir sig, að hækka vextina, geti ekki verið til góðs.”

Ég les ekki meira, en í þessu nál. og þessari ræðu kemur það greinilega fram, sem ég fyrir sex árum lagði höfuðáherzlu á, nauðsyn sjóðsins, að honum yrði aflað nýs fjár, meira fjár, með heilbrigðum hætti, og það væri sjóðunum og landbúnaðinum miklu meira virði en að halda lánsfjárvöxtunum óeðlilega lágt undir markaðsvöxtum. Jafnvel þarna kemur því fram greinilega sama grundvallarskoðunin og ég hef verið að halda fram í þeim ræðum, sem ég hef flutt um þetta mál nú hér í hv. d. Af þeim fáu setningum, sem ég las þarna, má líka marka, við hvaða rök sú fullyrðing á að styðjast, sem hv. þm. hefur margendurtekið, að mig skorti algerlega allan skilning á högum landbúnaðarins, ég sé að storka bændastétt landsins, ég vilji leggja á bændur sem þyngstar byrðar, jafnvel að ég vilji láta sækja kjöt og mjólk til útlanda, eins og hv. þm. sagði. Þetta eru allt saman fjarstæður, sem alveg ástæðulaust er að elta ólar við, og of miklar til þess, að ástæða sé til að orðlengja og svara þeim.

Að síðustu vil ég aðeins segja örfá orð um þá vægast sagt mjög lítið smekklegu árás, sem hv. þm. gerði á mig persónulega fyrir að sækjast sérstaklega mikið eftir völdum og embættum. Hann sagði, að ég hefði fyrir nokkrum árum ekki látið mér nægja að sem ráðh. og prófessor, heldur sótt um þriðja stórembættið. Nú veit hv. þm., að það fer ekki saman að vera ráðh. og prófessor og ég er aðeins annað í einu. Ég hef aldrei haft neitt annað embætti, síðan ég lauk embættisprófi, en að vera prófessor við háskólann, fyrr en ég gerðist ráðh., og gegndi auðvitað ekki prófessorsembættinu á meðan. Svo segir hann, að ég hafi framið þá reginsynd að sækja um þriðja embættið, forstjóraembætti, eins og ég hafi ætlað mér að vera allt í senn, ráðh., prófessor og forstjóri. Slíkur málflutningur er vægast sagt til mikillar minnkunar fyrir þann, sem hann hefur í frammi. Ég sé ekki, hvaða goðgá gat í því falizt, að ég sækti um starf opinbers starfsmanns, sem auglýst hafði verið laust til umsóknar, eftir að sú stjórn, sem ég hafði tekið sæti í á miðju ári 1956, var farin frá, og ég átti sæti í bráðabirgðastjórn, sem vitað var að aðeins gat setið í nokkra mánuði. Þá gerði ég það — og þarf engan að biðja afsökunar á því — að sækja um forstjórastarf við opinbera stofnun, sem auglýst var laust til umsóknar, ekki til að gegna því ásamt ráðherraembætti og prófessorsembætti, heldur til þess að gegna því einu, ef mér yrði veitt það. Nú fór að vísu svo, að það kom aldrei til þess, að mér yrði veitt það eða veitt það ekki, vegna þess að ég tók umsókn mína til baka, áður en til veitingar kom, svo að öll stóryrði eða dylgjur, sem hv. þm. kaus að leggja inn í orð sín um þetta efni, voru algerlega út í bláinn. Ég heyrði aldrei, hvorki opinberlega né í einkaviðræðum, neinn mann draga í efa, — og er ánægður með það og þakklátur fyrir það, að ég hefði í sjálfu sér verið hæfur til að gegna þessu embætti. Önnur atriði ollu því hins vegar, að ég kaus að draga umsókn mína um það til baka. Svo fór og nokkru seinna, að ný ríkisstj. var mynduð, sem ég var valinn til þess að taka sæti í. Það er því algerlega rangt, að ég hafi ekki fengið það embætti, eins og hann lét liggja að, og það á þá væntanlega að skiljast þannig, að það hafi orðið þrátt fyrir mikla eftirgangsmuni. Nú veit hv. þm. vel, að það var starfsbróðir minn í ríkisstj. og flokksbróðir minn, sem átti að veita embættið, svo að eftir þeirri reynslu, sem er af slíkum embættisveitingum hér á landi, getur hver sagt sér það sjálfur, hvort ég hefði ekki haft sæmilega aðstöðu til þess að hljóta það, ef ég hefði sótt það mjög fast, sem ég ekki gerði og opinberlega kom fram í því, að ég tók þá umsókn til baka. Þetta veit hv. þm. áreiðanlega allt saman, og þeim mun ósmekklegra er af honum að gera mál eins og þetta að umtalsefni hér í þessum umr. og ber aðeins vott um, að honum hlýtur að finnast málstaður sinn og sinna félaga í þessum efnum vera sérstaklega lélegur og að hann hafi staðið alveg sérstaklega höllum fæti, fyrst til jafnlítilmótlegra röksemda er gripið og hér hefur verið beítt, og orðlengi ég ekki frekar um þetta.

Ég sé ekki ástæðu til þess að tala meira í þessu máli. Ég hef sagt það, sem ég tel máli skipta í sambandi við efni málsins. Þegar ég fyrst hóf umr. um það, sem miður hefði farið í stjórn þessara sjóða, var það til þess fyrst og fremst að vekja athygli hv. þdm. á því, að málefni þessara sjóða væru komin í fullkomið óefni og að það hlyti að teljast eitt meginviðfangsefni ríkisstj. og Alþingis, einmitt nú á þessu ári, að gera frambúðarlausn, að ráða til frambúðar fram úr þeim vanda, sem hér steðjaði að. Ég vildi undirstrika að með þessu frv. væri aðeins leystur meginvandi fortíðarinnar, en ekkert sagt um vanda framtíðarinnar. Það þótti mér hafa á sér því miður mikinn áróðursblæ, að þannig skyldi á málum sjóðanna tekið, þar sem það var lagt til með þessu frv., flm. þess kusu sér sem mestan heiður af kvittuninni fyrir gamlar syndir, en vildu með ánægju horfa á núv. ríkisstj. glíma við þann gífurlega vanda, sem fram undan er. Þetta er e.t.v. mannlegt, en stórmannlegt er það ekki, og mér fannst engin ástæða til að láta málið fara til n., án þess að vakin yrði athygli á þessu atriði og þeim vanda, sem hér væri um að ræða.

Að allra síðustu vil ég svo aðeins segja, að það mun koma í ljós við þá tillögugerð, sem ríkisstj. mun hafa uppi og á að hafa uppi varðandi vandamál þessara sjóða, hvern hug ég og mínir samflokksmenn bera til landbúnaðarins. Það mun koma í ljós á sínum tíma. Þá mun það koma í ljós, hvort mig eða samflokksmenn mína vantar í raun og veru þann skilning á högum og þörfum landbúnaðarins, sem hv. þm. var að bera mér á brýn í sinni ræðu.