15.11.1960
Efri deild: 22. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 853 í C-deild Alþingistíðinda. (2278)

68. mál, Ræktunarsjóður Íslands og Byggingarsjóður sveitabæja

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. hefir aðallega komið fram fyrir hönd ríkisstj. í þessu máli fram að þessu, og þess vegna þykir mér mjög leitt, að hann skuli ekki vera hér viðstaddur. Vill hæstv. forseti athuga, hvort hann er í húsinu, því að það verður varla hjá því komizt að minnast á afstöðu hans í málinu. (Forseti: Já, ég er búinn að gera ráðstafanir til þess að athuga, hvort hann er við, hæstv. ráðh.)

Hæstv. landbrh. var um daginn sár út af líkingu, sem ég hafði eftir norðlenzkum bónda um ástand það, sem hæstv. ríkisstj. hefur skapað með efnahagsráðstöfunum sinum. Líkingar eru notaðar til að stytta mál og skýra efni. Þær eru oft og einatt myndir. Raunar gerði ég ekki ráð fyrir því, að hæstv. landbrh. væri mikill myndskoðari, enda kom það á daginn. Þess vegna sneri ég myndinni öllu meira að hæstv. menntmrh., sem tók henni líka eins og vænta mátti af manni í hans stöðu og manni, sem skilur myndir í máli og stíl.

Bændur hafa orðið fyrir hörðum búsifjum af völdum efnahagsráðstafana hæstv. ríkisstj. Enginn þarf að furða sig á orðum bóndans, sem ég vitnaði í, þegar á þetta er litið. Sá maður, sem er hrundið í hrap, mælir ekki blíðyrði til þess, sem hrindir honum. Bændastéttin lítur svo á og er ekki ein um það, að hæstv. ríkisstj. hafi með efnahagsráðstöfunum sínum unnið óhappaverk, að vísu ekki visvitandi, — og það hefur aldrei legið í orðum mínum, — en óviljandi, eins og þegar gefið er inn skakkt meðal. „Þetta hefur leitt af sér lömun þjóðarlíkamans,” sagði formaður Landssambands ísl. útvegsmanna. Hann skóf ekki utan af því og er þó Sjálfstæðisflokksmaður.

Þá hefur annar Sjálfstæðisflokksmaður, eftir því sem blöð herma, kveðið ærið sterkt að orði, Jóhann Pálsson úr Vestmannaeyjum. Hann kvað hafa sagt á fundi Landssambands ísl. útvegsmanna: „Enn þá hefur ekkert eitur verið framleitt í heiminum, sem verkar fljótar á meindýr en efnahagsmálapólitík ríkisstjórnarinnar verkar á sjávarútveginn.“ Hann líkir aðgerðunum við bráðdrepandi eitur. Það er vitanlega óviljandi, sem hæstv. ríkisstj. hefur með efnahagsaðgerðum sínum byrlað atvinnuvegunum eitur í staðinn fyrir heilsulyf, en óviljandi óhappaverkum þarf ekki síður að bæta úr en hinum.

Hér liggur fyrir í frumvarpsformi till. um úrbætur á einum stað, bændanna megin, og till. er um að bæta úr eftir sömu reglu og áður hefur tíðkazt, þegar á hefur hallazt hjá stofnlánasjóðum landbúnaðarins, bæði 1953 og 1957, þótt í smærri stíl væri, af því að minna þurfti með. Ekki er nú meiri flokksmennskan í þessu frv. eða auglýsingastarfsemi með því, þó að stjórnarliðsmenn virðist vera hræddir um það og hræddir við frv. þess vegna. Hæstv. landbrh. ber ekki á móti því, að þessa þurfi með, sem frv. gerir ráð fyrir, en hann deilir á hv. 2. þm. Vestf., fyrrv. landbrh., Hermann Jónasson, sem fór með þessi mál 1958, þegar yfirfærslugjaldið var upp tekið, fyrir að hafa ekki þá látið létta skuldum af þessum sjóðum. Því er til að svara, frá mínu sjónarmiði, að á því lá ekki þá eins brýnt og nú. Árið áður, 1957, hafði rúmum 36 millj. verið létt af sjóðunum. Það virðist því ekki aðkallandi að gera þetta strax aftur 1958, þó að á þá bættist. Út frá því var vitanlega gengið, að nægur velvilji mundi verða eftirleiðis hjá ríkisstjórn og Alþ. til landbúnaðarins, þess vegna þyrfti ekki að hafa á þessu neinn ofsahraða. Nú lítur út fyrir, að sú ályktun um velviljann hafi verið yfirsjón. Velvilji fyrirfinnst a.m.k. ekki í umr. þeim, sem hafa farið fram um þetta frv. af hálfu hæstv. ríkisstj. Að vísu segir hæstv. landbrh., að engin stefnubreyting hafi orðið gagnvart landbúnaðinum. En hvað gagnar slík yfirlýsing gegn orðræðunum að öðru leyti og gegn athöfnum hæstv. ríkisstj.? Helzt er að heyra, að líkur séu til, að ríkisstj. láti taka upp gengisbreytingarfyrirvara í lánveitingum til bænda. Vill hæstv. landbrh. lýsa yfir, að það verði ekki gert? Ég spyr.

Hæstv. stjórnarflokkar gengu inn á þá skoðun 1953 og 1957 að létta skuldum af ræktunarsjóði og byggingarsjóði. Nú er enn meiri þörf en þá til að gera þetta. Ef þeir fallast ekki á að gera þetta nú, þá er annaðhvort um stefnubreytingu að ræða, a.m.k. hjá Sjálfstfl., eða hann hefur ekki áður þótzt hafa nógu sterka aðstöðu til að beita raunverulegri stefnu sinni, - ekki þótzt hafa aðstöðu til þess, þegar Framsfl. hefur verið í stjórn með honum.

Hv. 10. landsk. þm., Bjartmar Guðmundsson, var síðasti ræðumaður á. undan mér. Ég hafði gaman af ræðu þessa granna míns, þó að ég hefði getað unnt honum vegna okkar fyrri kynna að halda rökréttari ræðu og viðhorfasannari. Ræðan sýndi, að nokkuð hafði komið við hann það, sem ég hafði eftir bóndanum, sem var Þingeyingur, — ég get sagt það nú, — eins og við hv. 10. landsk., og ekki úr þröngum dal, eins og hann taldi að vera mundi, heldur úr Mývatnssveit. Við hv. 10. landsk. höfum báðir alizt upp í sveit og báðir verið bændur. Eigum við þar af leiðandi að hafa svipuð skilyrði til að finna og sjá, hvað að bændum snýr. Um alllangt skeið var það líka svo, að okkur greindi ekki mér vitanlega á í skoðunum í höfuðmálum héraðs og lands. Nú greinir okkur á svo, að mér veldur mikilli furðu. Og ég er ekki einn um að furða mig á afstöðu hv. 10. landsk., heldur veit ég ekki betur en sama furða hafi lostið granna okkar og samferðamenn á heimaslóðunum yfirleitt. Hv. 10. landsk. virðist telja mjög viðunandi fyrir bændur þær efnahagsaðgerðir, sem hæstv. ríkisstj. hefur látið fram fara, og hann sagði til sönnunar því, að ekki syrfi að bændum fyrir norðan eða að þar væri um eð ræða nokkur öskufallsáhrif frá efnahagsráðstöfunum stjórnarinnar, að í tveim stórum hreppum, er hann nánar tilgreindi, hefðu fjárfestingarframkvæmdir verið svipaðar í ár og árið áður. Nú hefur þessi hv. þm. skilyrði til þess að vita og skilja, að menn höfðu ákveðið sig til framkvæmda, áður en efnahagsráðstafanirnar skullu yfir. Ekki voru þær boðaðar í kosningunum, ekki boðaði hv. þingmaður þær, það var síður en svo. Ráðstafanirnar komu að mönnum óvörum eins og gos. En svo kemur annað til, sem hv. þm. veit ákaflega vel, alveg eins vel og ég, að menn hafa lifað að meira og minna leyti á verðlagi vinstri stjórnarinnar þetta ár, sem er að liða, og verðlag hæstv. núverandi ríkisstj. er fyrst fyrir alvöru að leggjast með fullum þunga á landsmenn nú. Bændur í Suður-Þingeyjarsýslu, á verzlunarsvæði Kaupfélags Þingeyinga, fengu miklar efnisvörur, meira að segja sumir mestan hluta efnisvara, sem þeir þurftu á að halda til framkvæmda sinna, hjá Kaupfélaginu með gamla verðinu. Það gerði þeim mögulegt að halda áfram með það, sem þeir höfðu tekið fyrir. Þó hættu margir, sem áttu erfitt með að hætta. Það veit hv. þm. Hann veit um það í sinni sveit. Ég þarf varla að minna hann á Jarlsstaði, Grímshús, Hafralæk og Mýlaugsstaði. Ég nefni þetta fyrir aðra þá, sem hér eru, til sönnunar því, að ég er ekki að tala hér af ókunnugleika.

Bjartsýni manna, sem undanfarin ár höfðu glætt, hún hvarf mönnum með efnahagsaðgerðunum. Ef það hefði verið svipað árferði í efnahagslífinu og áður, þá hefðu verið meiri framkvæmdir en voru árið áður, og ef hv. þm. hefði sagt, að hann hefði sannanir fyrir því, að næsta ár, árið 1961, yrðu framkvæmdir ekki minni en að undanförnu, þá hefði það verið innlegg til sönnunar því, að ekkert væri skylt með ástandi því, sem verið er að leiða yfir landið, og móðuharðindunum. En hann veit það ákaflega vel, að fáir láta sér detta í hug nýjar framkvæmdir á næsta ári að óbreyttu. Svo lamaður er þjóðarlíkaminn af efnahags,aðgerðum hæstv. ríkisstj., eins og Sverrir Júlíusson, flokksbróðir hv. 10. landsk., sagði á landsþingi útvegsmanna, svo sterkt og drepandi er eitrið, sem hinn sjálfstæðismaðurinn á landsþinginu talaði um, og svo dimmt er fyrir augum að vonum.

Hv. 10. landsk. steig í stólinn sem vandlætari yfir því, að ég hefði notað of sterka líkingu. Ég skal játa, að líking bóndans um móðuharðindin er sterk. En hún er rökrétt og verðskulduð af því, hve illa var í það mál tekið, sem hér er til umræðu. Ég hefði aldrei hreyft henni, ef málinu hefði verið vel tekið. Það erum ekki við framsóknarmenn, sem höfum hafið ertingar í þessu máli, eins og hv. 10. landsk. gaf í skyn. Það eru þeir, sem hafa talað af hálfu ríkisstj., sem hafa kallað fram sterk orð. En hvað segir svo hv. 10. landsk. um líkingar sjálfstæðismannanna á landsþingi útvegsmanna? Þær eru, þegar vel er að gáð, öllu grófari, — engu fallegri, svo að ég taki upp að minnast þess, sem hæstv. landbrh. sagði, engu fallegri en líking bóndans, sem ég hafði eftir. Og svo kom það nú fyrir, að hv. vandlætaranum varð það sjálfum á að nota eina sóðalegustu líkingu, sem íslenzk saga á í fórum sínum, líkinguna við Axlar-Björn. Af því mátti heyra, að vandlætingin var uppgerð og ekkert annað, enda er ástæðulaust að vera með tæpitungu í þessu máli.

Samlíkingar eru notaðar til að gera það, sem um er rætt, skiljanlegra og auðsærra með samanburði. Ég hafði gaman af sumum samlíkingum hv. 10. landsk. Hann vildi sýna með þeim bæði, að hann hafi lesið sitt af hverju og komizt í snertingu við skáldgáfuna. En allt verður að vera í hófi, ef vel á að takast. Honum varð það á, sem slíkum mönnum verður stundum á, að ofhlaða með tilvitnunum. Honum fór eins og eldabusku, sem lætur allt, sem hún nær hendi til, í pottinn í einu, hversu fráleitt sem er, að það eigi suðu saman. Vellygni-Bjarni, Hemingur Ásláksson, Axlar-Björn, Þórarinn Nefjólfsson, allir voru þeir í einum graut. En hann um það. Hitt er samt enn verra, að hann virðist ekki skilja líkinguna um móðuharðindin. Hann virðist ekki átta sig á því, að hún er óbein og um efnahagsráðstafanir ríkisstj. og afleiðingar þeirra aðeins. Hann tekur hana bókstaflega og telur hana alls ekki standast, af því, eins og hann orðaði það, „sól skein með mesta móti í sumar og haustið 1960 var dýrðarveðráttu haust.” Svo haldinn er þessi hv. þm. af trú á hæstv. ríkisstj., að hann gerir ekki greinarmun á því, sem kemur frá drottni sjálfum og frá henni.

Líkingar eru, eins og ég sagði, sjónaukar til þess að gera það, sem horft er á, stærra og skýrara. En það er um þær eins og sjónauka, séu höfð á honum endaskipti, smækkar hann það, sem horft er á, og óskýrir það. Hv. 10. landsk. virðist hafa orðið fyrir því, að sjónaukar hans hafi snúizt við. Núv. félagar hans hafa haft á þeim endaskipti í þessu máli og fleirum. Það verðum við sjálfsagt, gömlu grannarnir hans, að sætta okkur við. Við getum ekki að því gert.

Hæstv. menntmrh. hefur margt sagt í þessum umr., sem ber þess vott, að hann hefur enn ekki áttað sig á gildi landbúnaðar fyrir þjóðina og hlutverki bóndans. Orð hans hafa borið með sér, að hann telur, að þetta frv. feli í sér ofrausn við bændur og yfirleitt sé þeim of mikill stuðningur veittur í þjóðfélaginu. Hv. 10. landsk., bóndinn sjálfur, lét vel yfir afstöðu hæstv. menntmrh. og taldi, að hann hefði talað málefnalega. Þegar trúin og kærleikurinn fara saman, er allt umborið á þeim bæ.

Á það hefur verið bent í þessum umr., að önnur ríki geri meira fyrir landbúnað sinn en íslenzka ríkið gerir. Hv. 2. þm. Vestf. benti t.d. á það, að brezka ríkið legði meira til landbúnaðar en íslenzka ríkið, og vitnar í fjárlög um það. Þá tók hæstv. menntmrh. tölur úr fjárlögum beggja ríkjanna um framlög til landbúnaðar og hóf að reikna í skyndi, hvað mikið kæmi á þjóðfélagsþegn í hvoru ríkjanna, og komst að þeirri niðurstöðu, að á Íslandi væri framlagið meira á hvern þjóðfélagsþegn en í Bretlandi. Það er ágætt að nota tölur. Það er sjálfsagt að láta tölur tala, þar sem þær geta talað. En ekki er sama, hvernig tölunum er beitt. Þær tala ekki, án þess að komi til skilningur þess, sem með þær fer. Þessar tölur, sem hæstv. menntmrh. kom með, sönnuðu ekkert. Ef ætti að reikna út hlutfallslegu framlögin hjá þessum þjóðum, þarf að taka með í reikninginn miklu fleira og annað en hann gerði, t.d. hvað margir stunda landbúnað í hvoru landi og hve nærri framleiðsla landbúnaðarins er því að fullnægja neyzluþörf þjóðarinnar. En einfalt og afgerandi er að bera saman, þegar við erum að tala um fjárfestingarsjóði landbúnaðarins hjá okkur, hvað hér er gert fyrir bændur í fjárfestingarframkvæmdum og hvað Bretar gera fyrir sína bændur. Öllum hv. þm. eru kunn þau takmörkuðu framlög hér, sem hæstv. menntmrh. þykja þó of rífleg, og um þau hefur verið einmitt rætt áður í þessum umr. En brezka ríkið lætur hvern bónda hafa 1/3 kostnaðarverðs í óafturkræfu framlagi og 2/3 kostnaðarverðs að láni til 60 ára með vöxtum, sem eru ekki yfir 51/2%. Þannig er búið að hverjum einstökum bónda í fjárfestingarmálum í Bretlandi, og það þarf ekkert talnaraus í þessu sambandi til þess að glöggva sig á, hver munurinn er.

Þá hóf hæstv. menntmrh. að reikna, — að því er virtist af því að hann á annað borð hafði tekið reikningsvélina, — hvað mikil framlög til landbúnaðar lægju í tillögum, sem við framsóknarmenn höfðum lagt fram á þessu þingi, og komst að þeirri niðurstöðu, að það væru, ef ég man rétt, 129 millj., eða 3800 kr. á hvert mannsbarn i landinu. Hv. 1. þm. Vesturl. benti á í gær, hvílík reginfjarstæða svona málflutningur væri, t.d. að telja vegi og brýr aðeins til vegna bændanna, eins og ráðh. gerði í þessu dæmi. Annað var þó enn fráleitara: að telja atvinnuaukningarfé, sem nálega eingöngu er veitt til bæja og þorpa, styrk til bænda. Eftir því er atvinnuaukningarframlag t.d. til skipakaupa styrkur til bænda. Lengra er varla hægt að komast i fráleitum málflutningi og vanhugsuðum og vitlausri talnameðferð. Í mínum augum er þetta mjög furðulegt, af því að hæstv. menntmrh. er vel lærður hagfræðingur og auk þess gáfaður maður.

Hæstv. menntmrh. sagði í gær, að frv. það, sem til umr. er hér, væri aðeins til að kvitta fyrir verulegan hluta af syndum liðins tíma. Þetta er rétt. En sú kvittun mundi þó duga til að eyða rekstrarhalla sjóðanna um hríð. En hvernig á að leysa framtíðarvandann, þann, að afla sjóðunum fjár til áframhaldandi útlána? spurði hæstv. ráðh., eða eitthvað á þá leið fórust honum orð. Þetta er annar þáttur málsins, sem ekki er fjallað um í frv. Sá þáttur hefur jafnan verið í höndum ríkisstjórnanna. Hæstv. núv. ríkisstj. á að hafa þennan þátt með höndum. Mér finnst, að hæstv. landbrh. hafi látið í það skina, að sá vandi muni eins og venjulega verða leystur á þessu ári, ég held ég fari rétt með það. Ég vona, að það sé rétt, eða er það ekki, hæstv. landbrh.? Má ekki treysta því, að ræktunarsjóður og byggingarsjóður sveitabæja fái fyrir atbeina hæstv. ríkisstj. fé til útlána í þessum mánuði eða byrjun næsta mánaðar? Ég vil vona, að svo sé og þurfi ekki um það neinar sérstakar tillögur að flytja.

Ég skal svo ekki reyna meira á góðvilja hæstv. forseta með því að tala lengur, því að ég er að tala í fjórða sinn við þessa umr., aðeins vil ég taka fram á ný, að það, sem ég sagði í fyrstu ræðu minni, er, að hafi hæstv. ríkisstj. betri till. um lausnir á því vandamáli, sem frv. þetta miðast við, þá er ég fús að fallast á þær. En meðan þeim er ekki hreyft, þá legg ég áherzlu á, að frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir, og enn hafa engar aðrar tillögur heyrzt.