15.11.1960
Efri deild: 22. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í C-deild Alþingistíðinda. (2281)

68. mál, Ræktunarsjóður Íslands og Byggingarsjóður sveitabæja

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Þessar umræður eru nú orðnar alllangar, og það, sem kannske er eftirtektarverðast við þetta frv. og málflutning þeirra, sem talað hafa af hálfu hæstv. ríkisstj., er, að þeir vilja ekki, að þetta frv. verði samþykkt, eins og það liggur nú fyrir, og þeir benda ekki heldur á neinar leiðir til þess að bæta um í þessu efni; þrátt fyrir það að þeir viðurkenni nauðsyn á því.

Ég þarf, sem betur fer, ekki að svara hæstv. viðskmrh. neinu, vegna þess að hvert einasta orð, sem hann sagði í ræðu sinni í gær, var staðfesting á því, sem ég áður hafði sagt. Get ég af þeim ástæðum sleppt þeim hæstv. ráðh. í dag.

En ég kunni illa við tóninn hjá hv. 10. landsk. þm. (BGuðm), því að tónninn var sá: Hafðu, bóndi, hægt um þig. Hvað eruð þið að gera, bændur. Hvað varðar ykkur eiginlega um þjóðmál, bændur. — Þetta var undirtónninn í ræðu þessa hv. þm., og ég kann illa við að heyra slíkan tón af vörum bænda, eins og nú er búið að bændastétt landsins.

Hæstv. landbrh. talaði hér áðan alllangt mál, og hefur það stundum hvarflað að mér áður, en það kemur æ betur í ljós og einnig eftir að þessi hæstv. ráðh. varð ráðh., að honum fer bezt að tala yfir dauðum, en þó held ég samt, að hann hefði orðið ómögulegur prestur. Hann segir mest við þá aðila, sem fallnir eru út, vegna þess að þeir eiga ekki rétt til að tala meira.

Það er undirstöðuatriði í þessu máli, sem og mörgum öðrum málum, sem fyrir Alþ. hafa legið: Hverju lofuðu stjórnarflokkarnir fyrir kosningarnar, og hvað hafa þeir gert til þess að efna það? Hver voru aðalloforð þessara tveggja stjórnarflokka fyrir kosningarnar? Það var: bætt lífskjör og engar nýjar álögur. En hverjar eru efndirnar í þessum efnum? Eftir eins árs stjórn hjá þessum aðilum hafa veríð lagðir á þjóðina um 1200 millj. kr. skattar, þrátt fyrir það að loforðið var: engar nýjar álögur og bætt lífskjör. Þetta er undirstöðuatriðið í þessu máli og fjölmörgum öðrum málum, sem liggja fyrir Alþingi. Og það er hart að þurfa að hlusta á það af vörum þessara manna, að þeir einir hafi staðið við það, sem þeir hafi lofað, en aðrir svikið allt. Og ég hef bent á það áður í þessum umr., að þessi hæstv. stjórn hefur lagt sem svarar 30–40 þús. kr. skatt á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu. Þetta eru efndirnar í öllu, sem hæstv. stjórn hefur lofað. Þjóðin veitti henni brautargengi í trausti þess, að hún stæði við eitthvað af því, sem hún hefði lofað, en efndirnar hafa orðið allt aðrar.

Það má vafalaust benda á margt hjá hæstv. landbrh., sem hann hefur lofað bændastétt landsins, bæði hér í þingsölunum og annars staðar. Vorið 1958 munu hafa legið fyrir um 500 dráttarvélapantanir hér á landi, og svo að segja hver einasti bóndi, sem pantað hafði dráttarvél, keypti hana þrátt fyrir hækkunina. En þó var það svo, að einn góður skjólstæðingur þessa hæstv. ráðh. leitaði til hans um það, hvort rétt væri að panta dráttarvél nú eða síðar. (Landbrh.: Hvað heitir hann?) Að sjálfsögðu ráðlagði þessi hæstv. ráðh. bóndanum, að hann skyldi bíða, þar til Sjálfstfl. kæmi til valda, því að þá mundu þær lækka í verði (Landbrh.: Þetta er hreinn tilbúningur.) Hver var staðreyndin? (Landbrh.: Hreinn tilbúningur.) Að dráttarvélin hækkaði um 40 þús. Þetta er táknrænt fyrir loforð þessa hæstv. ráðh. á þessu sviði sem öðrum.

Það er kaldhæðni örlaganna, að þessi hæstv. ráðh. skyldi verða til þess; þrátt fyrir öll sín gefnu fyrirheit, að svíkja á þennan hátt bændastétt landsins. Og vegna þess að þessi hæstv. ráðh. virðist vera mjög minnissljór, vil ég minna hann á nokkur ummæli, sem hann hefur viðhaft hér í þingsölunum, og væri gott fyrir hann að hugleiða þau einmitt um þær mundir, sem hann fer með völd í þessum efnum í landinu.

Mér er minnisstætt, að vorið 1957, þegar verið var að ræða frv. um landnám, ræktun og byggingar í sveitum, tók þessi hæstv. ráðh. nokkrum sinnum til máls og lét álit sitt í ljós á málinu. Og með leyfi hæstv. forseta, vil ég rifja upp nokkur atriði úr ræðu þessa hv. þm., og svo geta þm. og aðrir, sem til heyra, borið það, sem hann sagði þá, saman við það, sem ráðh. hefur gert, síðan hann kom til valda. Ég vil taka það fram, að þetta sagði hann, áður en hann lagði til, að hans eigið kjördæmi yrði lagt niður, eins og önnur kjördæmi landsins, og þá var hann hv. þm. Rang.:

„Ég vil ekki gera lítið úr því eða segja, að það sé lítils virði fyrir nýbýlinga að fá nú 25 þús. kr. í styrk fram yfir það, sem þeir hafa áður fengið. En ég fullyrði, að þeir þurfa þess með, því að nýbýlingar eigi í miklum erfiðleikum. Það, sem þeir hafa að undanförnu fengið fram yfir aðra, er aðeins 20 þús. kr. aukastyrkur til ræktunar, og það er þess vegna, sem nýbýlingar eru margir hverjir mjög illa staddir fjárhagslega.“

En hvað hefur þessi hæstv. ráðh., sem þótti 25 þús. kr. litlar, gert, síðan hann varð ráðh., til þess að rétta hlut þessara manna? Hvað er það? Hvað er það, Ingólfur Jónsson, hæstv. ráðh.? Vill hæstv. ráðh. svara því? Ég hef ekki komið auga á það, en gott væri að vita það.

Þá sagði hæstv. ráðh. enn fremur:

„Það er ekki unnt að hefja búskap nú í sveit nema hafa í hendinni eða ráð á nokkrum hundruðum þúsunda króna, og það er það, sem gerir æsku þessa lands erfitt fyrir með að verða kyrr í sveitunum. Æskan hefur ekki farið úr sveitum þessa lands af því, að hún hafi ekki viljað vera í átthögunum og helga þeim sína starfskrafta, heldur eingöngu vegna þess, að hana skortir fé til þess að stofna bú í sveit, til þess að byggja hús, til þess að kaupa jörð, til þess að kaupa vélar og öl] tæki, sem búskapurinn þarfnast. Það hefur verið hægara fyrir æskufólkið að gifta sig og taka á leigu íbúð í Reykjavík. Til þess hefur þurft minna stofnfé. Það er þess vegna, sem margt af okkar efnilega æskufólki hefur farið gegn vilja sinum úr sveitinni að sjávarströndinni. Þetta er hin raunverulega staðreynd, og þessu fáum við aldrei breytt, nema við viðurkennum þessa staðreynd, nema við hættum að blekkja okkur sjálf.“

Enn fremur sagði hæstv. ráðh.:

„Það er verkefni næstu tíma að finna lausn á því, hvernig við eigum að sporna við hinum stöðuga fólksflutningi æskufólks úr sveitum landsins og gera þessu efnilega æskufólki, sem vill vera kyrrt í sveitunum, mögulegt að vera þar. En það er útilokað, eins og nú er komið,“ sagði hæstv. ráðh. þá.

Þetta sagði hæstv. ráðh. 1957. Nú er þessi hæstv. ráðh. búinn að fara með völd í landinu um tveggja ára skeið, og maður skyldi ætla, að eitthvað örlaði á því, að æskufólkið þyrfti ekki að yfirgefa sveitir þessa lands, .að það væri komin stefnubreyting í þessum hlutum og að nú eygði maður græna akra víðs vegar í sveitum landsins í staðinn fyrir fólksflótta úr sveitunum. En staðreyndin er bara allt önnur á þessu sviðinu sem öðrum hjá þessum hæstv. ráðh., það, sem hann áður lofaði, hefur farið á þveröfugan veg. Það er til samræmis við það fyrsta, sem ég sagði áðan, að stjórnin lofaði bættum lífskjörum og engum álögum, en lagði 1200 millj. kr. skatta á þjóðina, og önnur loforð, hverju nafni sem nefnast, eru í samræmi við það.

Þá gat hæstv. ráðh. þess í ræðu sinni hér áðan, að aðrir atvinnuvegir væru ekki vel á vegi staddir og landbúnaðurinn yrði tekinn til athugunar til samræmis við það, sem gert yrði fyrir aðra atvinnuvegi. Og enn þá einu sinni, þótt ég hafi að vísu litla ástæðu til þess, vil ég ekki ætla hæstv. ráðh. það, að hann standi ekki við fyrirheit sín. Ef eitthvað verður gert til þess að leysa þann hnút, sem sjávarútgerðin er í nú, þar sem vitað er, að bátarnir hafa ekki getað greitt tryggingagjöld og að margir útgerðarmenn hafa ekki getað greitt vexti og afborganir af sínum lánum, þá treysti ég því, að hæstv. ríkisstj. taki einnig sömu hliðar málanna til athugunar innan landbúnaðarins, því að við vitum allir, að þar er sama kreppan yfirvofandi og hjá öðrum atvinnuvegum, að menn eiga erfitt með að standa í skilum.

Þá gat hæstv. landbrh. þess, að ég hefði sagt, að það þyrfti að flytja inn osta og smjör á þessum vetri. Ég hef aldrei sagt það, en ég gat þess í fyrstu ræðu minni, að ef sama stjórnarstefna hefði ríkt í landinu frá 1950 og nú ríkir, þá hefðum við orðið að flytja inn landbúnaðarafurðir fyrir 300 millj. kr., — ef sama samdráttar- og íhaldsstefnan hefði ríkt, þá hefðum við orðið að flytja inn landbúnaðarafurðir fyrir 300 millj. kr. á þessu ári. Það var það, sem ég sagði, en ég nefndi ekki smjör og ég nefndi ekki ost.

Hæstv. landbrh. svaraði ekki spurningu hv. 1. þm. Norðurl. e. um það, hvort þau lán, sem stofnlápasjóðir landbúnaðarins veita á þessu ári, yrðu lánuð út með gengisklásúlu eða ekki. Hann svaraði því engu, en sagði, að hv. þm. sæi það á lánsskjölunum innan fárra daga. Líklega á þetta að þýða það, að þau lán, sem verða veitt, verði lánuð með gengisklásúlu.

Þá varð hæstv. landbrh. tíðrætt um það, að hann skyldi síðar láta framsóknarmenn standa við það, sem þeir hefðu lofað. En hafi nokkur flokkur staðið við gefin fyrirheit, þá er það Framsfl., og þetta sýnir kannske einna bezt vonleysi hæstv. ráðh., hversu vonlaus hann er í baráttunni í þeirri ríkisstj., sem nú situr. Hann er algerlega vonlaus sjálfur um að geta komið nokkru máli fram af því, sem hann hefur áður lofað. Svo illa er komið fyrir þessum hæstv. ráðh., að hans meðstjórnendur í hæstv. ríkisstj. taka ekki lengur neitt tillit til þess, er hann segir, og þess vegna ætlar hann í framtíðinni að treysta á það, að framsóknarmenn verði þeir einu, sem geti leyst þau mál, sem hann ber fyrir brjósti. Og ég efast ekki um heldur, að ef hæstv, ráðh. hefur einhvern tíma meint eitthvað af því, sem hann hefur sagt varðandi landbúnaðinn, þá fær hann ekki aðra til að leysa það frekar með sér en einmitt framsóknarmenn — og því fyrr, því betra.

Ég hef áður getið þess í þessum umr„ að þetta frv. er stórt spor í áttina til þess að gera stofnlánasjóðum landbúnaðarins kleift að starfa í framtíðinni, og það verður ekki á annan réttari hátt komizt frá þeim málum en að samþykkja þetta frv. Það sýnir kannske einna bezt, hversu mikinn rétt þetta frv. á á sér, að stjórnarsinnar eru sárgramir yfir því, að þeir skyldu ekki verða fyrri til að koma með þessa lausn á málinu, og þeir hafa ekki komið með eina einustu lausn á þessu máli í þessum umr. Það eru sjálfsagt ýmsar leiðir til, sem geta leyst þetta mál. Það er líka hugsanlegt að láta Seðlabankann taka á sig gengismun þeirra erlendu lána, sem sjóðirnir taka nú og í framtiðinni, bæði stofnlánasjóðir landbúnaðarins og stofnlánasjóðir sjávarútvegsins. Þetta er hugsanlegur möguleiki og verður sjálfsagt tekinn til athugunar hjá hæstv. ríkisstj. Og það er einmitt hæstv. ríkisstj., sem hefur skapað fordæmi í þessum efnum á s.l. vetri. Þegar efnahagsmálalöggjöfin var samþykkt, var Seðlabankanum falið að taka á sig gengismun á nokkrum erlendum lánum. En hitt vil ég undirstrika enn einu sinni, að það er útilokað að ætla sér að lána fátækum bændum í landinu lán með háum vöxtum til stutts tíma, því að þessi stjórn er búin að stórstytta lánstímann, fyrir utan það, að hún hefur hækkað vextina, og síðan þriðja atriðið, sem kórónar allt, sem hæstv. ríkisstj. ætlar að gera, það er að lána út með gengisklásúlu. Þetta eiga hinir fátæku bændur að fá, vegna þess að þeir hafa hingað til ekki haft aðstöðu til þess að framkvæma hjá sér það, sem margir af bændum hafa sem betur fer getað gert.

Þetta frv. er líka þess eðlis, að það segir til um það, hvort Alþingi vill stuðla að aukinni framleiðslu í landinu eða ekki, og það veltur á því, hvernig á þessum málum verður haldið, hvort bændastéttinni vegnar vel í framtíðinni eða ekki. Án stuðnings frá hinu opinbera er óhugsandi, að framleiðsluaukning geti átt sér stað, svo að þarna er því um mikið alvörumál að ræða, og ég treysti því, að hv. andstæðingar okkar, sem höfum borið þetta frv. fram, skoði hug sinn vel, áður en þeir fella þetta frv., án þess að koma með neitt, sem hliðstætt getur talizt, til úrbóta fyrir bændastétt landsins í þessum málum.