15.11.1960
Efri deild: 22. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í C-deild Alþingistíðinda. (2283)

68. mál, Ræktunarsjóður Íslands og Byggingarsjóður sveitabæja

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég skal vera mjög stuttorður um þetta. — Hæstv. ráðh. kemur með þá skýringu núna, að hér sé ekki um rekstrarkostnað að ræða, heldur reiknaðan rekstrarkostnað. Þetta breytir nokkru. En má ég spyrja hæstv. ráðh.: Hvað var hann þá að sýna með prósentureikningi sínum á lánsupphæð þessara sjóða, ef ekki átti að sýna það, hve raunverulega væri stjórnleysið mikið í þessum sjóðum? Nú kemst hann að þeirri niðurstöðu, að það sé skipting á kostnaðinum, en alls ekki um raunverulegan kostnað að ræða, þarna sé slengt yfir á sjóðina kostnaði, sem þeir eigi ekki að bera. Er það ekki meiningin? Það er ómögulegt að skilja það öðruvísi. Þetta er ekki raunverulegur kostnaður, segir hæstv. ráðh., heldur er þetta reiknaður kostnaður, þ.e. sjóðirnir eru látnir bera meiri kostnað reikningslega en þeir eiga að bera. En hver hefur samþykkt þetta? Það er ráðh., sem hefur samþ. þetta. Ég er reyndar ekki alveg viss um, hvort það er bankamrh. eða landbrh., en það er samþykkt af ráðh., þessi skipting á rekstrarkostnaði sjóðanna. (Gripið fram í: Landbrh.) Já, það er sennilega landbrh.

Þá vildi hann halda því enn fram, að útreikningarnir séu réttir, og það hefur komið fyrir áður, að menn hafa haldið fram, að útreikningar væru réttir, þó að þeir hafi ekki reynzt það í raun, en látum það vera. En ef ekki var hægt að skilja þennan útreikning á þann veg, sem ég skildi hann, þá verð ég að segja það hreinlega, að ég veit ekkert, hvað hann hefur meint með útreikningnum.

Hitt atriðið, að há lán séu dýrari eða fyrirhafnarmeiri fyrir banka, miklu dýrari fyrir bankana, heldur en lág lán, það þekki ég ekki. Ég veit ekki betur en lántakendur verði að greiða allan kostnað af þinglýsingu hvers einasta plaggs, sem þarf að þinglýsa í sambandi við lántökur, svo að ekki lendir það á bönkunum eða sjóðunum. Og hvort upphæðirnar eru 3 millj. eða 300 þús. eða hvað það er, þá hélt ég, að það skipti ekki miklu fyrir vinnubrögðin hjá viðkomandi banka eða sjóði.

Að lokum lagði hann áherzlu á að bera saman veðdeild Landsbankans og ræktunarsjóð. Ég hef ekki minnzt einu einasta orði á veðdeild Landsbankans. Ég hef talað um fiskveiðasjóð. Og ég hélt því fram, að það væri ekki hægt að hera svona saman, fiskveiðasjóð og ræktunarsjóð. Það var það, sem ég tók. Þá fer hann að bera saman veðdeild Landsbankans og ræktunarsjóð og segir, að það sé hvert orð satt, sem hann segi. Hvernig er hægt að skilja þetta? Mér dettur í hug skrýtla héðan úr bænum, sem er orðin ákaflega gömul. Maður spurði kunningja sinn: „Hvor heldurðu, að sé gáfaðri, Guðmundur Finnbogason eða Árni Pálsson?“ „Sigurður Nordal,“ svaraði maðurinn.