08.11.1960
Efri deild: 18. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 879 í C-deild Alþingistíðinda. (2305)

74. mál, jarðgöng á þjóðvegum

Flm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Þetta frv. á þskj. 81 er um svipað efni og frv., sem við 6. þm. Norðurl. e. fluttum á síðasta þingi, en varð ekki útrætt.

Þegar þau lög, sem nú gilda um vega- og brúagerðir, voru sett, var gerð jarðganga óþekkt hér á landi og því ekki von, að ákvæði væri sett um það í lögin. Annars staðar í heiminum þykir jafneðlilegt að gera jarðgöng og vegi og brýr. Þar er jafnvel algengt og þykir oft heppilegra að gera jarðgöng undir ár og fljót en byggja brýr. Tækni okkar á sviði mannvirkjagerðar er nú komin á það stig, að við hljótum að fara eins að og velja það, sem bezt hentar hverju sinni. Reynslan hefur sýnt, að það er miklu ódýrara að gera jarðgöng hér, þar sem vel hagar til, heldur en búizt var við að óreyndu. Þetta hefur sannazt bæði á jarðgöngunum við Sog og annars staðar. Auðvelt er nú talið að bora og sprengja göng í blágrýti; og reynslan sýnir, að óþarft er að fóðra þau, og gerir það verkið mun ódýrara en ella.

Fyrir nokkrum árum var gerð áætlun um jarðgöng á Breiðadalsheiði, á veginum milli Ísafjarðar og Önundarfjarðar. Þá var talið, að þau mundu kosta 5–6 millj. kr. En með því að beita nýjustu tækni við borun og sprengingar er nú talið, að göngin, þrátt fyrir þær verðlagsbreytingar, sem síðan hafa orðið, mundu kosta, ekki — eins og búast hefði mátt við — miklu meira en þá, heldur verulega minna eða um 4 millj. kr.

Hingað til hafa aðeins verið gerð ein jarðgöng hér á þjóðvegi, gegnum Hamarinn á Súðavíkurvegi. Þau hafa reynzt mjög vel, og er ekki vafi á, að vegurinn er lengur fær en ef hann hefði verið lagður yfir hálsinn. Vafalaust er og, að þessi jarðgöng hafa auk þess sparað mikinn snjómokstur og viðhaldskostnað. Ég held því, að tímabært sé að setja reglur um, hvernig greiða skuli kostnaðinn, þegar bezt hentar að gera jarðgöng á þjóðvegi, og að eðlilegast sé að gera það á þann hátt, sem lagt er til með þessu frv. okkar hv. 6. þm. Norðurl. e.

Ég hef heyrt hv. þingmenn tala um, að það ætti að leggja sérstakt fé á fjárlögum til jarðgangagerðar. En á meðan ekki er fyrirhugað að gera jarðgöng nema á 2–3 stöðum á landinu, virðist ekki ástæða til þess að hafa fastan lið á fjárlögum og allt of þunglamalegt að setja lög um hvert einstakt mannvirki. Hitt er eðlilegt, að taka fé af því fé, sem árlega er veitt til vega og brúagerða, til jarðgangagerðar. Það er hróplegt misrétti milli héraða, ef samgöngubót fæst jafnvel ár eftir ár í einu héraði, bara af því að hún heitir brú, en jafnmikil samgöngubót í öðru héraði fæst ekki, þó að hún sé ekki dýrari en hin, af því einu saman, að hún heitir jarðgöng.

Vegna þess að þetta frv. var til umr. hér í fyrra og flutti ég þá grg. fyrir því, þá tel ég ekki ástæðu til að hafa þetta lengra nú, en vil leyfa mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. samgmn.