08.11.1960
Efri deild: 18. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í C-deild Alþingistíðinda. (2306)

74. mál, jarðgöng á þjóðvegum

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Þegar frv. samhljóða þessu var til umr. hér í fyrra, gat ég þess, að það væri í raun og veru þýðingarlaust að ætla brúasjóði meira hlutverk en hann þegar gegnir. Enn fremur er víst nú svo komið, að brúasjóður hefur verið látinn taka á sig eitt skaðabótamál hjá ríkinu, sem kunnugt er, og skal ég ekkert segja um það, hvort sú greiðsla úr brúasjóði er samkv. þeim l., sem þar um gilda. En hitt er vitað mál, að hlutverk brúasjóðs er mikið og við eigum enn þá mikið eftir af stórvatnsföllum, sem eru óbrúuð og við eygjum ekki að hægt sé að brúa í náinni framtíð. Það virðist því ekki vera til staðar nú að ætla brúasjóði meira hlutverk en það, eins og sakir standa. Þess vegna finnst mér, að höfuðviðfangsefni þeirrar nefndar, sem fær þetta frv., sé að koma sér niður á fjáröflunarleiðir, til þess að hægt sé að kljúfa fjöllin og koma á göngum í gegnum þau og bæta á þann hátt vegakerfið. Ég viðurkenni það fullkomlega, eins og fram kom í ræðu hv. fyrra flm., að það er mikil þörf á því að geta gert jarðgöng sums staðar hér á landi. En ég tel, að með þessu frv., sem hér liggur fyrir, bætum við á engan hátt úr því, nema jafnhliða sé hægt að finna öruggar fjáröflunarleiðir, sem bæta úr í þeim efnum. Þess vegna vil ég á þessu stigi, áður en málið fer til nefndar, benda nefndinni á það, að hún verði fyrst og fremst að koma sér niður á þær fjáröflunarleiðir, sem bæta úr i þessum efnum, en ekki að ætla brúasjóði meira hlutverk en hann hefur nú þegar, því að þau verkefni eru ærið mikil, sem hann á enn þá óleyst.