15.03.1961
Efri deild: 72. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í C-deild Alþingistíðinda. (2310)

74. mál, jarðgöng á þjóðvegum

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Samgmn. hefur haft til athugunar frv. það um jarðgöng á þjóðvegum, sem hér liggur fyrir., Í þessu frv. segir svo, að þar sem torfæra eða: hætta er á þjóðvegi, sem ekki er auðveldara að ryðja úr vegi eða brúa á annan hátt, skuli að undangenginni rannsókn og nákvæmri staðsetningu . gera jarðgöng. Og í öðru lagi segir í þessu frv., að séu jarðgöng ekki yfir 35 m að lengd, þá skuli kostnaðurinn við þau greiðast af fé,, sem veitt sé á fjárlögum til vegarins, en ef jarðgöng, eru lengri en 35 m. skuli kostnaðurinn greiðast úr brúasjóði.

Það liggur í hlutarins eðli, að jarðgöng eru um margt sérstæð vegaframkvæmd, sem verður ekki jafnað til almennrar vegagerðar. Þegar verið er að leggja veg, er venjulega hægt að gera það í áföngum, eftir því sem framlög fást til vegarins á fjárlögum. Þetta er ekki hægt að gera með jarðgöng. Að vísu er sjálfsagt tæknilega hægt að gera jarðgöngin í áföngum, en það yrði alveg óheyrilegur kostnaður við að hafa slíkan hátt á framkvæmd þeirra, þar sem þarna þarf mjög dýr og afkastamikil tæki að hafa við höndina, þannig að það er yfirleitt ekki lagt í það af fjárhagslegum ástæðum að gera jarðgöng, nema þau séu gerð samfellt, í einni striklotu, en engin hlé höfð þar á milli, og það jafnvel þannig, að það sé unnið nótt sem dag. Að þessu leyti er því jarðgangagerð miklu svipaðri brúargerð en almennri vegarlagningu. Það er þess vegna augljóst mál, að það yrði nokkuð erfitt um vik að gera jarðgöng með almennum árlegum framlögum á fjárlögum hverju sinni. Fé til jarðgangagerðar þarf að liggja fyrir, þegar hafizt er handa um verkið, og með því að hafa sama hátt og með vegi, þá mundi þetta ekki vera framkvæmanlegt, nema þá í því tilfelli að taka stórlán fyrir fram, sem oft yrði þó erfitt að tryggja. Það er því í sjálfu sér eðlilegt, sem kemur fram í þessu frv., að setja jarðgöngin á bekk með brúargerð, en eins og kunnugt er, eru allar stærri brýr greiddar úr svokölluðum brúasjóði.

Þetta frv. var að sjálfsögðu sent til umsagnar vegamálastjóra, og hann gerði um það allýtarlega umsögn, en þar kemur skýrt fram, að hann telur brúasjóð vera bundinn svo langt fram í tímann við ýmis stórverk, sem þegar er búið að gera áætlanir um og leggja drög að, þannig að það geta liðið fjöldamörg ár, þangað til nokkurt fé kynni að vera þar aflögu að óbreyttum tekjum til þess að gera jarðgöng, og vissulega er það ósanngjarnt að þau byggðarlög, sem þannig kynnu að vera sett að þurfa að tryggja samgöngur sínar með jarðgöngum, séu í reynd sett skör lægra en þau byggðarlög, sem þurfa að gera það með því að brúa fljót. N. kom því saman um, að það væri ekki nægjanlegt að skylda brúasjóð til að greiða þennan kostnað, héldur yrði jafnframt að tryggja brúasjóði einhverjar tekjur til þess að inna þessa skyldu sína af höndum, og því var það, að samgmn. varð sammála um að flytja brtt. við frv. Sú brtt. kemur hér fram á þskj. 389, fylgir með nál., en hún er á þá leið, að frá 1., jan. 1962 skuli 3 aurar af hverjum benzínlítra af hluta ríkissjóðs af benzínskatti renna í brúasjóð. Kostnaður við jarðgöng, sem lengri eru en 35 m. skal greiddur af þessum tekjum brúasjóðs, og má eigi verja þeim á annan hátt..Að sjálfsögðu var tíminn valinn þarna frá 1. jan. 1962 vegna þess, að búið var að afgr. fjárlög fyrir yfirstandandi ár, og þótti því ekki rétt að fara að auka skyldur ríkissjóðs að þessu leyti á þessu ári. Þessir 3 aurar af hverjum benzínlítra eru taldir munu nema um 11/2 millj. kr. á ári, þ.e.a.s. einn eyrir gefur um það bil hálfa millj. kr. Þegar litið er lengra fram í tímann, þá er hér ekki um neina kvöð á ríkissjóði að ræða, vegna þess að vitanlega verður ríkissjóður að kosta jarðgangagerð eins og aðra vegagerð. Munurinn er eingöngu sá, að nú yrði safnað í nokkurn sjóð fyrir fram, í staðinn fyrir að ella yrði að hafa þetta ákveðin framlög á hverju ári, sem væru með öðrum vegaframlögum á fjárlögum.

Benzínskatturinn eða innflutningsgjaldið af benzíninu skiptist niður samkvæmt því, sem gerð hefur verið grein fyrir í grg. með frv. til laga um efnahagsmál, sem samþ. var hér á Alþingi í fyrra, 17. gr. Í aths. um 17. gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Nemur þá allt gjaldið,“ þ.e. innflutningsgjaldið af benzíni, „kr. 1.47 á lítra, þar af 19 aurar í brúasjóð, 14 aurar í sjóð til vegalagninga milli byggðarlaga, afgangurinn, kr. 1.14, rennur í ríkissjóð.“ Þarna kemur í raun og veru skýrt fram, hversu mikill hluti af þessum benzínskatti raunverulega rennur til annarra hluta en vegaframkvæmda og við,, sem sitjum í samgmn., teljum það á engan hátt ósanngjarnt, þó að 3 aurar af þessari kr. 1.14 séu teknir af ríkissjóði og bætt við þá 19 aura, sem brúasjóður hefur fyrir, þannig að 3 aurum af hverjum 22, sem í brúasjóð renna framvegis, sé varið til jarðgangagerðar.

Með þessari brtt., sem ég hef lýst, er samgmn. sammála um að mæla með, að frv. verði samþ.