18.11.1960
Efri deild: 24. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 884 í C-deild Alþingistíðinda. (2319)

105. mál, söluskattur

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Á fjárlagafrv. því, sem nú liggur fyrir Alþ., er hinn almenni 3% söluskattur áætlaður 185 millj. kr. Þetta er svo væn fúlga, að fullkomin ástæða er til þess að gefa henni gaum og reglum þeim, sem um þessa tekjuöflun ríkissjóðs gilda. 2. gr. l. um söluskatt hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Af andvirði seldrar vöru og verðmæta og endurgjaldi fyrir hvers konar starfsemi og þjónustu skal greiða 3% söluskatt, eftir því sem nánar er ákveðið í lögum þessum. Hver sá, sem selur eða afhendir í atvinnuskyni vöru eða verðmæti, og hver sá, sem innir af höndum vinnu og þjónustu, skal með þeim takmörkunum, sem gerðar eru í lögum þessum, innheimta söluskatt samkvæmt 1. málsgr. og standa skil á honum í ríkissjóð.“

Þeir, sem þannig innheimta hjá almenningi söluskattinn, eru nefndir skattgreiðendur, þótt þeir séu ekki gjaldendur og heimti bara skattinn fyrir ríkissjóð. Talið er, að þessir svokölluðu skattgreiðendur séu talsins svo að tugum þúsunda skiptir. Gjaldendurnir eru aftur á móti allir þeir, sem gera kaup, sem heyra undir skattinn, og greiðslurnar eru þess vegna vitanlega óteljandi. Allt eftirlit með framkvæmd þessara laga er því geysilega örðugt, enda skattgreiðendur ekki allir bókhaldsskyldir aðilar. Mest er undir heiðarleika skattgreiðenda komið. Skattlagningin byggist fyrst og fremst á skýrslum, sem skattgreiðandinn gefur sjálfur. Þær skýrslur má að vísu véfengja og rannsaka, hvað á bak við þær er, en slíkar rannsóknir munu vera í ýmsum tilfellum mjög torveldar, og Íslendingar eru, eins og kunnugt er, lofsverðari fyrir margt annað en skyldurækni gagnvart skattalögum eða hlýðni við þau.

12. gr. laganna hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta :

„Aðilar þeir, sem skattskyldir eru samkv. 5. gr., skulu senda skattstjóra eða skattanefnd þar, sem þeir eru heimilisfastir, skýrslur um heildarveltu sína á hverjum ársfjórðungi, þar með talin úttekt til eigin nota, ásamt upplýsingum um skattfrjálsa sölu á þar til gerðum eyðublöðum.

Skattskyldur aðili skal til viðbótar því, sem skýrslueyðublöðin gefa tilefni til, skýra frá öðrum atriðum, sem kunna að skipta máli um skattlagninguna. Einnig skal skattskyldum aðila skylt að láta skattyfirvöldum í té í því formi, sem óskað er, sundurliðun á skattfrjálsri sölu.

Skýrsla skal hafa borizt skattyfirvöldum í síðasta lagi innan 15 daga frá lokum hvers ársfjórðungs. Skattskyldir aðilar skulu innan sama tíma greiða til innheimtumanna ríkissjóðs söluskatt þann, sem þeim ber að standa skil á fyrir ársfjórðunginn. Síðasti dagur framtalsfrestsins telst gjalddagi alls skattsins fyrir þann ársfjórðung, hvort sem hin skattskyldu viðskipti eru talin fram eða ekki.

Skattstjóri eða skattanefnd skal síðan rannsaka skýrslurnar og leiðrétta skattinn, ef hann er rangt fram talinn.

Einnig skulu skattstjórar eða skattanefnd áætla skatt af viðskiptum þeirra aðila, sem ekki senda skýrslu innan tilskilins tíma, senda enga skýrslu eða ef framtali er ábótavant.

Skattálagningu skal lokið innan mánaðar eftir lok hvers ársfjórðungs og skattupphæðin tilkynnt innheimtumanni og skattgreiðanda.

Hafi einhver, sem greiða skal söluskatt, eigi skilað honum innan mánaðar frá gjalddaga, skal hann greiða 11/2 % í dráttarvexti fyrir hvern byrjaðan mánuð frá gjalddaga. Þá má innheimtumaður láta lögregluna stöðva atvinnurekstur hans, þar til full skil eru gerð, með því m.a. að setja verkstofur, skrifstofur, útsölur, tæki og vörur undir innsigli.“

Þessi grein, 12. gr., er að vísu skilmerkileg um skyldur skattgreiðenda til skýrslugerðar á ákveðnum tímum; álagningu skatts á skattgreiðendurna og viðurlög, ef út af ber með skil á skattinum. En tryggingin fyrir, að öll kurl komi til grafar hjá öllum skattgreiðendum, er samt mjög veik. Ýmsir telja miklar líkur til, að ríkið missi þarna verulegar tekjur í vasa undanbragðasamra skattgreiðenda, skattgreiðendurnir láti gjaldendur borga sér, en skili hins vegar ekki að fullu því, sem þeir taka á móti, til ríkissjóðsins eða umboðsmanna hans. Er það hald manna, að þarna geti verið um stóra fúlgu að ræða, sem ríkissjóðurinn missir, þegar saman kemur. Nefndar hafa verið 40–50 millj. kr. í því samhandi, en vitanlega eru slíkar ágizkanir i lausu lofti gerðar, og ég geri þær ekki að mínum. Hins vegar eru þarna áreiðanlega vanhaldapyttir, sem þarf að byrgja, svo sem við verður komið.

Að sjálfsögðu er skylt að herða eftirlit, eins og hægt er, og verður að ætlast til þess, að ríkisvaldið geri það. En rétt er auk þess að gera ráðstafanir til, að skattgreiðendur eigi yfir höfði sér það eftirlit, sem almenningur getur veitt og veitir jafnan, ef skattlagningin er birt opinberlega. Allir vita, að birting á skrám um tekju- og eignarskatt og útsvarsskrám hefur mikla þýðingu í þá átt að tryggja vandvirkni við framtöl til beinna skatta og álagningu útsvara. Kunnugleiki almennings og athugasemdir eru hrís á undanbrögð og óvandvirkni. Nú er þessi álagning ekki birt opinberlega til sýnis, og það þarf að taka upp, að mínu áliti, birtingu á skilum skattgreiðenda söluskattsins. Kaupfélögin hafa fyrir sitt leyti riðið þar á vaðið og birt í tímariti sínu skrá um söluskattgreiðslur sínar. Jafnframt hafa þau spurt: Hvernig eru skil kaupmanna og annarra þjónustufyrirtækja? Þetta er réttmæt spurning. En það er engin von, að hver svari fyrir sig, — og sama þótt þeir hafi heiðarleg svör að gefa. En spurningin minnir á, að birta þarf opinberlega sundurliðaða skilagrein um það, hverju skattgreiðandi skilar af hinum almenna söluskatti. Finna þarf eðlilegt og ódýrt fyrirkomulag slíkrar birtingar. Í frv. þessu, sem hér liggur fyrir, tel ég, að slíkt fyrirkomulag felist. Það er gert ráð fyrir, að aftan við 12. gr., sem ég las áðan, komi ný málsgrein, er mæli fyrir um það, að ársfjórðungslega skuli birta í hverju lögsagnarumdæmi sundurliðaðar skýrslur yfir skattaálagningu hjá hverjum hinna svonefndu skattgreiðenda og þær skýrslur liggi frammi almenningi til sýnis tiltekinn tíma. Þetta fyrirkomulag er ákaflega einfalt og ekki fyrirhafnarsamt fyrir hið opinbera. Það er ekki hægt að segja að það stofni til neinnar skriffinnsku, því að skýrslurnar hljóta að vera gerðar og kostar lítið að hafa afrit af þeim, sem leggja má fram: Og þó að skýrslurnar liggi ekki víðar frammi en í hverju lögsagnarumdæmi, þá ætti að vera vel tiltækilegt fyrir þá, sem vilja athuga skattgreiðslurnar, að kynna. sér þær, bæði almenning og einnig fyrir skattgreiðendur, sem vilja líta eftir því, hvort aðrir greiði réttilega eins og þeir. Með þessu fyrirkomulagi mundi slíkt aðhald fást, sem er reynsla fyrir að. er til staðar, þegar um tekju- og eignarskatt er að ræða og útsvör.

Ég vænti þess, að hv. þm. geti fallizt á þetta frv. Ég legg til, að því verði vísað til 2. umr., eftir að þessi umr. hefur fram farið, og til fjhn.