17.01.1961
Efri deild: 45. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í C-deild Alþingistíðinda. (2325)

142. mál, listlaunasjóður Íslands

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram frv. á þskj. 222 um Listlaunasjóð Íslands. Vil ég nú fylgja því frv. úr hlaði með nokkrum orðum.

Hingað til hafa engin lög eða samfelldar reglur gilt um skiptingu þess fjár, sem íslenzka ríkið hefur veitt til þess að launa listamönnum. Ég tel fulla nauðsyn bera til þess, að sett verði lög um skiptingu þessa fjár. Sú löggjöf á að mínu áliti að fela í sér höfuðreglur, sem tryggi sem heilbrigðast skipulag á úthlutun fjárins til listamanna.

Þegar ég tala um heilbrigt skipulag, á ég fyrst og fremst við, að þar eigi ekki að grípa inn í sjónarmið, sem eru óviðkomandi listum. Hingað til hefur úthlutunin verið mjög í lausu loftí, og er þá ekki sterkt til orða tekið. Ýmsir hættir hafa verið viðhafðir. Alþingi úthlutaði sjálft lengi vel, en eins og auðvitað var, þá fór aldrei vel á því — og því verr sem lengra leið. Menntamálaráði var fengin úthlutunin í hendur, og þótti ekki gefast vel, þegar stundir liðu. Listamönnunum sjálfum var falin skipting fjárins sín á milli, en svo sem við mátti búast, gat það ekki blessazt. Um alllangt skeið hefur Alþingi kosið árlega með hlutfallskosningu nefnd til að deila fénu til listamanna. Engar öfgar eru að segja, að það fyrirkomulag hafi nú gengið sér til húðar. Má fullyrða, að það hefur, eins og nú er komið, hvorki tiltrú hjá þeim, sem leggja til féð, né hinum, sem eiga að njóta þess.

Hér er bæði um viðkvæmt mál og þýðingarmikið að ræða, vandasamt mál, sem enginn skyldi láta sér detta í hug að allfullkomin lausn geti fundizt á. Um það getur því aðeins verið að ræða að finna sem bezta lausn og þá fyrst og fremst betri en þær, sem reyndar hafa verið og ég hef drepið á.

Hvað eftir annað hafa komið fram frv. til laga um úthlutun listamannalauna, en ekki náð samþykki. Þessi frumvörp hafa hvert í sínu lagi haft sitthvað til síns ágætis, en eitthvað skort á, að þau þættu geta borgið málinu á viðunandi hátt, þegar á allt var litið.

Árið 1956 skipaði hæstv. menntmrh. nefnd til þess, eins og hann komst að orði í skipunarbréfinu, að „gera tillögur um, hvernig veiting listamannalauna yrði felld í fastara form og betur að skapi þeim, sem launanna njóta, en verið hefur um skeið.“ Í n. voru níu úrvalsmenn og augsýnilega valdir með tilliti til þess, að sem flest sjónarmið yrðu þar athuguð, svo sem vera ber. Nefndin samdi frv. til laga um úthlutun listamannalauna og lét fylgja því mjög ýtarlega grg. .og athugasemdir.

Frv. n., dálítið breytt, var lagt fram á Alþ. 1959 sem stjfrv., en varð ekki útrætt. Snemma í vetur var það á ný lagt fyrir hv. Nd. og mun hafa verið vísað til n. Sögu þess kann ég ekki meir. Grg. sú, er þessu stjórnarfrv. fylgir, er mjög fróðleg. Þar eru samansöfnuð rök fyrir nauðsyn lagasetningar og bent á mörg þýðingarmikil atriði, er hafa verður í huga við skipan þessara mála. Hins vegar finnst mér frv. sjálft ekki ná tilgangi þeim, sem það er flutt í. Mér virðist skipan sú, er það gerir ráð fyrir, of þunglamaleg og ekki heldur ná nægilega fyrir rætur þeirra meina, sem komið hafa fram í þeim aðferðum, sem reyndar hafa verið að undanförnu við úthlutun listamannalauna.

Bygging stjfrv. er þannig, að varla er hægt að endursmiða það með brtt., að ég hygg, til þess að gera það aðgengilegt. Ég réðst þess vegna í það að semja þetta frv., sem hér liggur fyrir. Það brýtur alls ekki í bág við þann anda og þá stefnu, sem er í stjórnarfrv., þótt útfærslan sé á annan hátt og fleiri atriðum séu gerðir skórnir í þessu frv. mínu. En það tel ég áríðandi og raunar óhjákvæmilegt, að lögin geri fleiri atriðum skil en stjfrv. felur í sér.

Ég legg til með þessu frv. mínu, að stofnaður verði sjóður, sem beri nafnið Listlaunasjóður Íslands. Þessi sjóður taki á móti fé því, sem á fjárlögum er veitt til að launa listamönnum. Enn fremur taki hann á móti frjálsum framlögum, sem er ekki ólíklegt að fram komi, ef slík stofnun er fyrir hendi, svo sem gjafir eða erfðafé. Fjöldi fólks á Íslandi ann listum. Trúlegt er að mínu áliti, að einhverjir fyrirfinnist, sem eftir leið þessari vilji ráðstafa fjármunum sínum listum til eflingar, þótt ekki verði af því undir því fyrirkomulagi, sem ríkir nú og ríkt hefur að undanförnu. Reynslan um örlæti ríkra manna erlendis með stofnun sjóða til eflingar listum styður þessa skoðun. Með því fyrirkomulagi, sem frv. gerir ráð fyrir, þ.e. stofnun Listlaunasjóðs Íslands, er listelskum Íslendingum gefið auðveit tækifæri til að láta eftir efnum sinum og ástæðum fé af mörkum í þessu skyni. Þetta tel ég nokkurn kost við hugmyndina um sjóðinn.

Annar aðalkosturinn er, að ekki þarf að rígbinda úthlutunina, eins og að undanförnu, til listamanna árlega við það, sem til fellst á hverju ári, heldur má geyma fé milli ára.

Aðalfjárveitingin til sjóðsins verður, eins og frv. gerir ráð fyrir, í fernu lagi: 1) Fjárveiting til skálda og rithöfunda. 2) Fjárveiting til myndlistarmanna. 3) Fjárveiting til tónlistarmanna. 4) Fjárveiting til leiklistarmanna. Sjóðurinn verður því samkv. frv. í fjórum deildum,. sem hafa ekki sameiginlegan fjárhag, og gera má ráð fyrir því og telja eðlilegt, að einhverjar þeirra vilji stundum geyma eitthvað af fé sínu milli ára, ekki sízt þegar úthlutunarnefndirnar, sem frv. gerir ráð fyrir, hafa þriggja ára starfstíma.

En hvers vegna er þá í frv. gert ráð fyrir þessum fjórum deildum? Það er vegna þess, að tiltækilegt virðist að greina listirnar, sem launaðar eru, i fernt og óheppilegt að fela sömu aðilum úthlutun samkv. öllum þeim greinum sameiginlega. Greinarnar eru: orðsins list, myndlist, tónlist og leiklist, og það er áreiðanlega heppilegra, að hver þessara listgreina sé út af fyrir sig í úthlutun launanna, fyrir hverja þeirra starfi sérstök úthlutunarnefnd, valin með tilliti til sérþekkingar og glöggs skilnings á henni sérstaklega. Annað fyrirkomulag en slíkt sérval listdómenda fyrir hverja grein er allt of mikil hroðvirkni, sem getur leitt til þess, að litblindur ráði úrslitum um laun málara og bögubósi um laun ljóðskálda, svo að dæmi séu nefnd. Þetta sjónarmið um sérþekkingu er lagt til grundvallar við nefndaskipanirnar í frv. Vera má, að einhver geti bent á einhvern heppilegri kjöraðila en þar er nefndur, og skal till. um breyt. til bóta um það þakksamlega þegin af mér, ef fram kemur.

Ég hef fyrir hverja listgrein reynt að velja sem kjöraðila þá, sem mér sýndust líklegastir til að velja hæfa menn á því sviði og ábyrga. Tekið er fram til frekari áherzlu þess, að hlutdrægni eigi að loka úti, að ekkí skuli kjósa eða skipa í nefnd mann, sem líklegt er að kunni að hafa sjálfur hagsmuna að gæta við úthlutun listlauna í þeirri listgrein, er nefndin á að úthluta fyrir. Skiptinguna milli listgreinanna fjögurra á Alþ. að gera í fjárl. Er Alþ. að mínu áliti sjálfsagður og hæfur aðili til þess. Flokkapólitík Alþingis hefur þar ekkert hald til truflunar. Skipting fjár milli listgreina hlýtur eftir eðli sínu að verða utan, og: ofan við alla flokkapólitík. Skýrslur eiga. samkv. frv. hverju sinni að liggja fyrir Alþ. frá úthlutunarnefndunum, hverri fyrir sig, um síðustu úthlutun og þörf fyrir fé til launa í listgreininni. Þessar skýrslur eiga að veita upplýsingar á Alþ. um þróun listgreinanna.

Í frv. er gert ráð fyrir heildarárstillagi frá ríkinu. Í listlaunasjóð, sem sé ekki minna en 2 millj. Sjálfsagt er og nauðsynlegt að tiltaka lágmarksupphæð í lögunum, en hver upphæðin skuli vera, það er auðvitað umdeilanlegt. Mér virðist upphæð þessi, 2 millj., ekki há, þegar litið er á gildi peninga okkar og fyrri ára fjárveitingar til listlauna.. Sama má segja, ef borið er saman við hækkanir, sem orðið hafa til annarra menntamála: hjá þjóðinni.

Frv. gerir ráð fyrir þrem launaflokkum listamanna, jöfn laun innbyrðis í tveim fyrri flokkunum og tilteknar fjárhæðir, en ójöfn laun í hinum þriðja og óbundnar fjárhæðir, og ráða þá úthlutunarnefndirnar hverju sinni fjárhæðunum í þeim. flokki. Flokkarnir voru fjórir síðast hjá úthlutunarnefndinni og jafnar upphæðir innbyrðis í hverjum flokki.

Í fyrsta flokki skulu vera menn, sem Listlaunasjóður Íslands greiðir árlega laun jöfn hálfum hámarkslaunum í 7. launaflokki starfsmanna ríkisins. Ég taldi rétt að miða við launalög ríkisins, af því að með því hreyfast laun listamannanna af sjálfu sér, ef laun starfsmanna ríkisins breytast. Enn fremur geta þá listamennirnir séð um leið, að þeim er goldið án þess að skuldbinda þá samanborið við starfsmenn, sem láta í staðinn fyrir launin ársvinnu sína. Listamannalaun í fyrsta flokki yrðu samkv. þessu ákvæði í frv., eins og sakir standa, um 36400 kr., eða 3400 kr. hærri en þau voru í fyrsta flokki hjá úthlutunarnefndinni, sem starfaði árið, sem leið.

Í öðrum flokki skulu vera menn, er fá árlega laun, nema þeir hætti um fimm ára skeið eða lengur að stunda líst sína, þá falla þeir úr flokknum, og fer það að sjálfsögðu eftir ákvörðun hlutaðeigandi nefndar. Laun í þessum flokki skulu vera eins og þriðjungur hámarkslauna í 7. launaflokki starfsmanna ríkisins. Eins og sakir standa, yrði þetta sem næst 24500 kr. núna, eða 4500 kr. meira en úthlutunarupphæð annars flokks var hjá úthlutunarnefndinni á s.l. ári.

Í þriðja flokki skulu laun vera greidd mönnum í viðurkenningarskyni fyrir einstök unnin verk eða vegna viðfangsefna, sem þeir hafa með höndum og ástæða þykir til að veita þeim fjárhagslegan stuðning til að fást við M.ö.o.: að því er þennan flokk snertir hafa n. óbundnar hendur um fjárhæðir. Í þessum flokki á að hlúa að nýgræðingi í listum, einnig launa mönnum, sem vinna ekki samfellt að listum, einstök afrek á því sviði, sem þeir kunna að vinna í þágu listanna. Þessi flokkur á að geta verið jafnvel hinn þýðingarmesti flokkurinn í góðra, nærgætinna og framsýnna nefnda höndum.

Hvernig á svo að skipa mönnum í launaflokkana, án þess t.d. að ofhlaða hærri flokkana? Þetta er auðvitað vandi, og fellur á nefndirnar að gæta þar hófs og sanngirni hverju sinni. Í frv. eru ákvæði til að styðjast við. Þar segir:

Við fyrstu úthlutun listlauna, eftir að lög þessi öðlast gildi, skulu þeir listamenn, sem við síðustu úthlutun listamannalauna voru í hæsta flokki, vera settir í fyrsta launaflokk, m.ö.o.: þeir menn, sem við síðustu úthlutun fengu 33. þús. kr. hver, teljast hafa verið í fyrsta flokki og eru 7 talsins. Þeir kæmu af sjálfu sér inn í fyrsta launaflokk samkv. lögunum. Auk þess segir í frv.: „Að öðru leyti. er ekki heimilt að færa á ári fleiri en tvo í hópi skálda og rithöfunda upp í fyrsta launaflokk og einn í hópi mynd-, tón- og leiklistarmanna.“ Heimilt væri því á fyrsta ári samkv. þessum ákvæðum að hafa 12 menn í fyrsta launaflokki, en skylda er það ekki, nema að því er 7 mennina snertir. Hins vegar eru líka ákvæði í frv. til takmörkunar, þar sem tekið er fram,. að aldrei megi stofna til meiri launagreiðslu í fyrsta flokki en nemi 1/4 af umráðafé úthlutunarnefndar og í öðrum flokki ekki meira en nemur helmingi af umráðafé nefndar. Samkv. þessu á aldrei minna fé en 1/4 af heildarfénu að notast í þriðja flokki. Þessi ákvæði eru aðhaldsreglur og að mínu áliti óhjákvæmilegar eða þá aðrar í sama skyni.

Ég hef nú farið yfir meginefni frv. og reynt að rekja í aðalatriðum hinn rauða þráð, sem í því á að vera. Segja má, að þráður þessi sé: Stofna skal Listlaunasjóð Íslands. Í hann gangi ríkisframlög til listlauna og aðrar tekjur, sem honum kunna að hlotnast. Sjóðurinn sé í fjórum deildum listgreina. Ársframlag til sjóðsins sé eigi minna en 2 millj. í heild frá ríkinu, og ákveður Alþingi hverju sinni, hvernig það skiptist milli deilda sjóðsins. Laununum úr sjóðnum úthluta nefndir, ein fyrir hverja deild, og skulu þær skipaðar og kjörnar af tilteknum opinberum aðilum, sem valdir eru með tilliti til þess, að hver nefnd geti orðið þannig skipuð, að hún hafi sem bezta sérþekkingu og skilning á viðfangsefnum sínum, þ.e. þeirri listgrein, sem hún á að úthluta fyrir. Listlaunaflokkar séu þrír: Fyrsti flokkur fastlaunaflokkur. Annar flokkur fastlaunaflokkur, ef þeir, sem hann skipa, stunda list sína samfellt. Þriðji flokkur byrjendaflokkur og flokkur manna, sem vinna einstök afrek í listum, þó að þeir stundi þær ekki að staðaldri.

Tilgangurinn af minni hálfu með tillögugerð um þessa skipan er að fá festu, meiri en verið hefur, í þessar fjárveitingar og leysa þær úr ánauð óviðkomandi sjónarmiða, svo sem unnt er. Ég veit vel, eins og ég sagði í upphafi, að hér er um vandasamt mál að ræða, og enginn þarf að ætla sér í því að finna reglur, sem öllum líki. Ég mun fúslega hlusta á það, sem aðrir kunna að hafa til málsins að leggja, og taka þakksamlega góðum brtt.

Mér er vel ljóst, að þar sem búið er nú að afgreiða fjárlög 1961, er heildarupphæðin til listlauna í frv. í ósamræmi við fjárlagaupphæðina fyrir þetta ár. En úr því og fleira, er þetta ár varðar, má bæta með bráðabirgðaákvæðum.

Íslendingar unna listum, þótt þeir geri sér þess misjafnlega ljósa grein. Talið er, að orðsins list hafi bjargað lífi þjóðarinnar eða a.m.k. átt ómetanlegan þátt í því á mestu hörmungaröldum hennar. Á síðustu tímum hafa aðrar listgreinar, myndlistin, tónlistin og leiklistin, tekið örum vexti. Þeir, sem listina iðka og listaverk skapa, eru sannarlega launa verðir. Þjóðfélögin eiga, ef þau geta að launa þeim vel og á virðulegan hátt. Við Íslendingar ættum a.m.k. að geta launað þeim virðulega. Tilvera okkar mannanna væri fátækleg, ef hún nyti ekki skarts þess, sem listirnar skrýða hana í. Sjónhringur okkar væri þröngur, ef listirnar víkkuðu hann ekki. Ísland, ættland okkar, væri meira að segja annað land og minna virði fyrir okkur, ef snillingar hefðu ekki glætt skilning okkar á því með listaverkum ljóða, söngs og lita. Komandi tímum mun ekki veita af lífi listanna. Löggjöf um listamannalaun er þess vegna stórmál. Það skyldi hver maður, sem um hana fjallar, gera sér ljóst.

Að lokinni þessari 1. umr. legg ég til, að frv. verði vísað til 2. umr. og til hv. menntmn.