17.03.1961
Efri deild: 75. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í C-deild Alþingistíðinda. (2341)

210. mál, fjáröflun til íþróttasjóðs

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég dreg ekki í efa, að þetta frv. sé flutt með góðri meiningu um að leysa gott mál, og ég vil ekki heldur draga í efa, að mikil nauðsyn er á þessu máli, sem sagt því að auka tekjur íþróttasjóðs. En ég mun þó strax á þessu stigi málsins ræða ofur lítið aðra hlið á því, sem ég hygg að flm. hafi ekki gert sér grein fyrir. En þannig er mál með vexti, að á s.l. ári var starfandi mþn. i öryrkjamálum. Hún hefur m.a. haft til meðferðar það vandamál, hvernig komið yrði fyrir tekjustofnum öryrkjafélaganna, og gert ákveðnar till. í því efni.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, eru sum öryrkjafélögin i landinu, sem hafa ákveðna tekjustofna til sinnar starfsemi, SÍBS t.d. sitt stóra og mikla happdrætti, Styrktarfélag vangefinna hefur sinn ákveðna tekjustofn, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra hefur einnig nokkurn tekjustofn, þótt hann hafi verið ónógur, og e.t.v. eru fleiri, sem koma þarna til greina. En þannig er aftur með önnur öryrkjafélög, að þau hafa enga sérstaka tekjustofna til að standa undir sinni starfsemi, og á það ekki sízt við um þau samtök, sem nú hafa mjög verið í vexti að undanförnu, Sjálfsbjörg, félag lamaðs og fatlaðs fólks.

Það var einróma álit í þessari mþn., sem ég gat um, að það væri eitt af hlutverkum n. að gera till. um tekjustofna handa þeim öryrkjasamtökum, sem höfðu þá ekki nægjanlega fyrir, og jafnframt að stuðla að því, að öryrkjafélögin kæmu sér saman um hvert sitt starfssvið, þannig að það væri um greinilegan aðskilnað og greinilega skiptingu að ræða milli öryrkjafélaganna. En ég ætla ekki að orðlengja um þessa sögu. Það varð niðurstaða nefndarinnar að leggja til, að Sjálfsbjörg, félag lamaðs og fatlaðs fólks, fengi einmitt þann tekjustofn, sem í þessu frv. er gert ráð fyrir að renni til íþróttasjóðsins. Það var mikil von talin til þess og jafnvel vil ég segja, að vilyrði hafi verið fyrir því frá hendi hæstv. ríkisstj., að frv. um þetta efni gengi fram nú á þessu þingi. Það hefur því miður ekki orðið. En ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að það liggi fyrir skýlaust loforð hæstv. ríkisstj., bæði gagnvart þessari mþn. og eins gagnvart Sjálfsbjargarfélögunum, að frá þessu verði gengið á næsta þingl.

Ég held, að það hljóti því að vera, að hv. flm. hafi ekki kynnt sér till. milliþn. og ekki verið þessu kunnugir, því að mér þykir það mjög með ólíkindum, að þeirra hugmyndaflug varðandi fjáröflun til íþróttasjóðs hafi ekki verið meira en svo, að þeir gætu ekki fundið aðrar till. um það að gera en að auka tekjur hans á kostnað þessa félagsskapar, sem þarna er annars vegar um að ræða.

Að öðru leyti ætla ég ekki að ræða málið, því eins og ég sagði áðan, þá rengi ég ekkert af því, sem sagt er um þörf íþróttasjóðs, og veit reyndar, að hún er mikil. En ég held, að það væri ekki sæmandi hv. Alþingi að leysa það mál á kostnað öryrkjafélaganna í landinu.