20.12.1960
Sameinað þing: 29. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (2350)

141. mál, frestun á fundum Alþingis

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þingflokkur Alþb. er andvígur þessari þáltill.

Hæstv. ríkisstj. hefur haldið áfram viðræðum um landhelgismálið við brezku ríkisstj. þrátt fyrir kröfu þjóðarinnar um, að þeim viðræðum sé hætt, og nú síðast í dag fengum við í blöðunum að lesa, að hæstv. utanrrh. væri á fundum með brezka utanríkisraðherranum. Hins vegar hefur ríkisstj. lofað að hafa samráð við Alþ. um þetta mál. en ekki fengizt til þess að gefa yfirlýsingu um. að ekki yrði haldið áfram viðræðunum, meðan þingi væri frestað. Þess vegna erum við andvígir því, að þessi þingfrestunarbeiðni hæstv. forsrh. sé veitt, — álítum, að það hefði átt að hafa þingið hér til taks. þannig að sífellt væri hægt við það að ræða um þetta, og álitum hættulegt, að þinginu sé frestað á þennan hátt. Þetta er höfuðatriðið.

Þá kemur og hitt til, að það er mjög alvarlegt ástand í efnahagsmálum landsins og verður tvímælalaust nú um áramótin. við álítum óheppilegt, að ríkisstj. geti gefið út brbl., og álítum satt að segja, að það sé ófært, meira að segja þó að þingi sé frestað með þáltill., að það sé notað til þess að gefa út brbl. við álítum þess vegna líka, að með tilliti til hins alvarlega efnahagslega ástands hefði Alþingi átt að sitja á fundum eða a.m.k. þannig, að aðeins fundum væri frestað og hægt væri að skjóta á fundi hvenær sem væri. Þess vegna er þingflokkur Alþb. mótfallinn þessari till. og mun greiða atkv. á móti henni.