09.11.1960
Sameinað þing: 12. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í D-deild Alþingistíðinda. (2353)

72. mál, byggingarsamvinnufélög

Flm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að orðlengja mikið um till. þessa. Hún hefur verið flutt hér áður, en varð þá ekki útrædd.

Húsnæðismálin munu vera til athugunar hjá hæstv. ríkisstj. um þessar mundir. Hins vegar er hér um nokkuð sérstakan þátt þeirra mála að ræða, sem þessi till. fjallar um og ég hygg að hafi ekki verið sérstaklega tekinn til meðferðar enn sem komið er og snertir ekki beinlinis heldur fjárhagsmál húsbyggjenda.

Það er, eins og hv. þm. vita, starfandi í landinu mikill fjöldi samvinnubyggingarfélaga, sem starfa samkv. ákvæðum laga um slík félög, en samkv. þeim l. er gert ráð fyrir, að slíkum félögum sé veitt ákveðin aðstoð af hálfu ríkisvaldsins, sem vissulega er mjög þýðingarmikii. en jafnframt eru lagðar á félagsmenn samvinnubyggingarfélaga all Þungar kvaðir, sem þeir verða að undirgangast að sínu leyti. Það er að sjálfsögðu ekkert óeðlilegt, að á móti þeim réttindum, sem veitt eru, komi hliðstæðar skuldbindingar af hálfu þessara aðila, en megintilgangurinn með þeim skuldbindingum hefur verið sá að reyna að koma í veg fyrir, að það verði óeðilleg hækkun á söluverði húsa umfram það, sem byggingarkostnaður hækkar á hverjum tíma. Nú hygg ég að vísu, að reyndin sé sú, að þetta aðhald hafi komið að mjög litlu haldi í praksís. En hvað sem því máli líður, þá er vert að gera sér grein fyrir því, að framkvæmd á þessum málum hefur orðið í mjög verulegum efnum á annan veg en lögin gera ráð fyrir. Þar er gert ráð fyrir því, að samvinnubyggingarfélögin í raun og veru byggi húsin, íbúðirnar, fyrir meðlimi byggingarfélaganna. En um margra ára bil hefur það verið svo í flestum eða jafnvel öllum samvinnubyggingarfélögum, að þeir, sem eru meðlimir þeirra, verða að verulegu eða jafnvel öllu leyti sjálfir að standa í því að afla fjár, sem þarf til þess að ljúka byggingunum.

Ég hygg, að ég megi fullyrða það, enda hefur það komið í ljós í viðtölum við ýmsa forvígismenn samvinnubyggingarfélaga, að það sé ástæða til þess að breyta í ýmsu þeim reglum, sem um samvinnubyggingarfélög gilda, m.a. vegna þessa, sem ég gat um, að í framkvæmd hefur þetta orðið á nokkuð annan veg en lögin gera ráð fyrir, og af þeim sökum er þessi till. flutt.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til þess að orðlengja frekar um málið, nema sérstakt tilefni gefist til. en vil leggja til, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. allshn.