26.10.1960
Sameinað þing: 7. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í D-deild Alþingistíðinda. (2358)

32. mál, hafnarframkvæmdir

Flm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, er um algera hafnleysu að ræða hér á suðurströnd landsins allt frá Þorlákshöfn að Hornafirði. Strandlengja þessi mun vera um 400 km að lengd, og mun hvergi haga svo til annars staðar á landinu, að algerlega hafnlaust sé á svo stóru svæði sem hér um ræðir. Þegar það er haft í huga, að einmitt svæðið frá Reykjanesi að Eystrahorni er mjög fjölfarin skipaleið, bæði fiskiskipa, sem veiðar stunda hér við suðurströnd landsins, svo og annarra skipa, sem af hafi koma, og einnig þeirra, sem við strendur landsins sigla, má segja, að það sé vonum seinna, að hv. Alþ. láti fram fara athugun á möguleikum til byggingar hafna á þessu svæði, eins og lagt er til í till. þeirri, sem hér liggur fyrir á þskj. 32. Þegar þess er enn fremur gætt, að svo hagar til á því svæði, sem hér um ræðir, að ekki er einasta um það að ræða, að enga höfn sé að finna, heldur er þar bókstaflega hvergi um afdrep að ræða fyrir skip, sem landvars vildu leita, ef haflægar áttir eru, nema vera skyldi við Vestmannaeyjar, verður nauðsyn þessa máls enn ljósari. Og allir, sem eru staðháttum kunnugir í Vestmannaeyjum, vita, að landtaka þar getur verið mjög erfið og oft stórhættuleg, ef myrkur er eða dimmviðri.

En þó að aðstaðan hafi verið slík í þessum efnum sem ég hér hef drepið á allt frá fyrstu tíð Íslandsbyggðar, þá er ástæðan fyrir því, að ekki hefur fram að þessu verið ráðizt í byggingu hafna á einum eða fleiri stöðum hér á suðurströnd landsins, ekki sú, að þess hafi ekki verið talin full þörf, heldur hitt, að allt fram á síðustu tíma hefur það verið talið erfitt eða næsta óframkvæmanlegt tæknilega séð að ráðast í slík mannvirki.

Með þeirri framþróun, sem í þessum málum hefur orðið, sérstaklega síðasta hálfan annan áratuginn, er þetta ekki lengur fyrir hendi, heldur það eitt, hvort fjármagn til slíkra hluta er fyrir hendi eða ekki. En þrátt fyrir þetta telja flm. þeirrar till., sem hér liggur fyrir, nauðsynlegt, að sú rannsókn, sem þar um getur, verði látin fara fram, svo að ljóst liggi fyrir, hverjir möguleikar eru fyrir hendi til hafnarframkvæmda á þeim stöðum, sem um getur í till.

Eins og fram kemur í grg. till, eru hafnaframkvæmdir í Þorlákshöfn komnar á það stig, að vonandi kemur ekki til frekari kasta hv. Alþingis í því sambandi á næstu árum.

Um hafnarframkvæmdir í Þykkvabæ eða við Dyrhólaey gegnir aftur á móti öðru máli. Á vegum íslenzkra aðila hefur engin athugun farið fram eða rannsókn á, hvaða möguleikar séu fyrir hendi til hafnarframkvæmda á þessum stöðum. Á árinu 1952 mun hins vegar hafa á vegum varnarliðsins farið fram allýtarleg athugun á möguleika á hafnargerð í Þykkvabæ í Rangárvallasýslu. Flutningsmönnum er ekki kunnugt um, að niðurstöður þeirra athugana séu í höndum íslenzkra aðila. Vera má þó, að þær yrðu látnar íslenzkum aðilum í té og að við þær mætti styðjast. Yrði það þá til þess að flýta þeirri athugun, sem farið er fram á í tillögunni, og minnka útgjöld, sem af athuguninni kann að leiða, ef till. verður samþykkt.

Um nauðsyn fyrir höfn á þessum stað er óþarft að fjölyrða. Í Árnes- og Rangárvallasýslum búa um 10 þúsund manns. Suðurlandsundirlendið er eitt mesta landbúnaðarhérað landsins og flutningsþörf þangað og þaðan því mikil. Örugg og fengsæl fiskimið eru fyrir utan ströndina og því líklegt, að útgerð yrði rekin þaðan í verulegum stíl, ef höfn væri þar. Auk þess má á það benda, að þegar ráðizt verður í virkjun fallvatna hér á Suðurlandi með stóriðju fyrir augum, hefur, þegar um þetta hefur verið rætt, Þjórsá verið þar ofarlega á dagskrá, enda nokkurt undirbúningsstarf þegar unnið í því sambandi. Mun öllum ljóst, að örugg höfn er bein nauðsyn í sambandi við slíkan atvinnurekstur, sem þar kynni að rísa upp í samband við fyrirhugaða stóriðju.

Á árinu 1956 var samþykkt hér á hv. Alþ. till. til þál., sem þáv. þm. V-Sk., Jón Kjartansson, flutti um athugun á hafnarbótum við Dyrhólaós. Athugun þessi hefur þó enn ekki fram farið. Rök fyrir byggingu hafnar við Dyrhólaey, strax og auðið er, eru þrenns konar: Í fyrsta lagi sem eðlileg samgöngubót fyrir það fólk, sem býr í Vestur-Skaftafellssýslu og austurhluta Rangárvallasýslu. í öðru lagi ber að hafa það í huga, að við Dyrhólaey og meðfram ströndunum þar fyrir austan eru mjög fengsæl fiskimið, sem enn þá eru ekki nýtt nema að litlu leyti á vetrarvertíð, þar sem aðstaða til þess að sækja þessi mið er mjög erfið, hvort heldur er fyrir báta frá höfnum á Austurlandi eða frá Vestmannaeyjum, sökum fjarlægðar. Er því auðsætt, að ef höfn kæmi við Dyrhólaey, mundi þar fljótlega rísa upp veruleg bátaútgerð, sem byggði afkomu sína á fiskimiðum, sem nú í dag eru hvergi nærri fullnýtt. Mundi slíkt að sjálfsögðu skapa auknar tekjur fyrir þjóðarbúið og auknar gjaldeyristekjur fyrir þjóðina í heild.

Þá er ótalið það atriði, sem er ekki hvað sízt mikils um vert, en það er, að höfn við Dyrhólaey mundi verða lífhöfn fyrir þá báta, sem veiðar stunda á svæðinu á milli Hornafjarðar og Vestmannaeyja, og einnig fyrir þau skip, sem af hafi koma, sem mörg miða stefnu sína einmitt á Dyrhólaey, þegar þau taka land. Höfn á þessum stað væri því mikið öryggi fyrir þá sjómenn, sem á þessum slóðum ferðast, hvort sem er í sambandi við fiskveiðar eða aðrar siglingar. Þeir, sem þekkja aðstöðu þeirra manna, sem sjósókn stunda á þessum slóðum, vita vel um þá erfiðleika og þær hættur, sem að þeim steðja við störf þeirra vegna hins algera hafnleysis hér á suðurströnd landsins. Ég veit dæmi þess, að bátur, sem við veiðar var við Dyrhólaey, komst ekki til hafnar í Vestmannaeyjum fyrr en eftir nær tveggja sólarhringa hrakninga á hafi úti í aftakaveðri og var af öllum talinn úr helju heimtur, þegar hann loks náði höfn. Allir þeir, sem þarna áttu hlut að máli, hefðu ábyggilega óskað þess, að höfn hefði þá verið komin við Dyrhólaey, svo að þeir sjómenn, sem á þessum bát voru, hefðu losnað við nær tveggja sólarhringa baráttu upp á líf og dauða, áður en þeir náðu höfn. Ótal dæmi svipuð þessu eru til, en því miður hefur ekki alltaf tekizt eins giftusamlega til og í þetta skipti.

Að öllu þessu athuguðu leggja flm. till. á það áherzlu, að þeirri rannsókn, sem þar um getur, verði hraðað, eins og unnt er.

Herra forseti. Ég leyfi mér svo að leggja til, að till. verði að umr. lokinni vísað til hv. fjvn.