08.02.1961
Sameinað þing: 37. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í D-deild Alþingistíðinda. (2360)

32. mál, hafnarframkvæmdir

Frsm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Till. sú til þál., sem hér liggur fyrir á þskj. 32, hefur verið athuguð í fjvn. og um hana fengin umsögn vitamálastjóra. Vitamálastjóri vekur athygli á því í umsögn sinni, að jafnhliða athugun á möguleika fyrir byggingu hafna á þeim stöðum, sem till. gerir ráð fyrir, verði einnig gerðar athuganir á, hvort þörf sé á höfnum á þessum stöðum, og einnig á líklegu flutningsmagni um þær. Verður þessi ábending vitamálastjóra að teljast eðlileg og sjálfsögð. Hlýtur sú stefna að verða ríkjandi í framtíðinni, að fjármagni til hafnarframkvæmda verði fyrst og fremst beint þangað, sem talizt getur að það komi að sem beztum notum fyrir þjóðarheildina, og til þeirra staða, þar sem líklegast er, að hafnirnar sjálfar geti staðið undir slíkum fjárhagsskuldbindingum, sem þær koma til að taka á sig, í sambandi við uppbyggingu þeirra.

Flm. þessarar till. benda á, að hvergi sé hér á landi eins langt á milli hafna og hér við suðurströnd landsins, á einni fjölförnustu skipaleið við strendur landsins, og að hafnir á báðum þeim stöðum, sem tilgreindir eru í till., kæmu til að liggja við auðug fiskimið, sem enn hafa ekki verið fullnýtt af vélbátaflota landsmanna af þeirri ástæðu fyrst og fremst, að um enga nægjanlega nálæga höfn hefur verið að ræða. Eru því miklar líkur fyrir, ef athugun leiðir í ljós, að tiltækilegt þyki að ráðast í byggingu hafna á þessum stöðum, að þær framkvæmdir mundu fljótlega svara kostnaði.

Eins og fram kemur á þskj. 330, leggur fjvn. til að till. verði samþykkt með þeirri breytingu, að í stað orðanna í niðurlagi gr.: „Rannsóknum þessum verði hraðað svo, að þeim verði lokið á árinu 1961, ef mögulegt er“ komi: Rannsóknum þessum verði hraðað svo sem aðstæður leyfa. — Einn nefndarmanna, Kari Guðjónsson, hv. 6. þm. Sunnl., var fjarverandi, þegar málið var afgr. í fjvn.