09.11.1960
Sameinað þing: 12. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í D-deild Alþingistíðinda. (2365)

65. mál, umferðaröryggi á leiðinni Reykjavík -- Hafnarfjörður

Flm. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt tveimur hv. alþm. að flytja till. til þál. um að fela ríkisstj. að láta í samráði við vegamálastjóra gera athugun á því, á hvern hátt hægt sé að tryggja betur öryggi vegfarenda á leiðinni Reykjavík–Hafnarfjörður en nú er gert, og verði þær úrbætur, sem gerðar verða, miðaðar við lagningu tvöfaldrar akbrautar.

Það er kunnugt, að vegurinn frá Reykjavík suður með sjó er einn fjölfarnasti vegur landsins. Hann liggur á ýmsum stöðum í gegnum mjög mikið þéttbýli, eins og t.d. í Kópavogskaupstað og svo í gegnum byggðahverfin við Hraunsholt og í Silfurtúni í Garðahreppi. Þegar farið er um veg þennan, má sjá, að á öryggi vegfarenda er mjög mikil missmíði og oft og tíðum ýmsar umferðartruflanir, sem leitt hafa af sér slys, sem hafa myndazt, þegar farið er eftir þessum vegi. Í grg. fyrir till. er bent á ýmsar þær leiðir, sem hægt yrði að fara í þessum efnum og ég tel ekki ástæðu til þess að rekja hér nánar.

Þau byggðarlög, sem meðfram þessum vegi liggja. hafa sum hver skipulagt byggðir sínar þannig, að þarna verði lagðar á sínum tíma tvöfaldar akbrautir. En eins og nú er, þá er hér um að ræða mikla umferðaræð allt suður um Suðurnes, ekki aðeins leið á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða sérstaklega um þetta meira, en vil óska eftir því, að umr. verði frestað og málinu verði vísað til hv. fjvn.