08.02.1961
Sameinað þing: 37. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í D-deild Alþingistíðinda. (2367)

65. mál, umferðaröryggi á leiðinni Reykjavík -- Hafnarfjörður

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Svo sem nál. fjvn. á þskj. 325 ber með sér, er nefndin sammála um að mæla með samþykkt till.

Mér þykir rétt, að það komi hér fram nokkur atriði úr umsögn vegamálastjóra um þetta mál. því að þar fæst glögg staðfesting á því, hversu mikilvægt vandamál er hér við að fást og hversu brýn nauðsyn er á því, að einhverjar umbætur verði gerðar á þessari leið, og þá fæst þar einnig staðfesting á því, sem segir í niðurlagi till., að nauðsynlegt sé, að þær bráðabirgðaúrbætur, sem kynnu að verða gerðar, miði að því, að hægt verði að framkvæma þá endanlegu lausn, sem er augljóst að verður að fást í náinni framtíð, og það er, eð þarna komi tvöföld akbraut.

Vegamálastjóri segir í sinni umsögn, með leyfi hæstv. forseta:

„Umferð bifreiða um Reykjanesbraut á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar hefur liðlega tvöfaldazt á undanförnum fimm árum og var á þessu ári að meðaltali mánuðina júlí til október sem hér segir: Um Fossvogslæk 10630 bílar á dag og um Kópavogslæk 5250 bílar. Til samanburðar má geta þess, að umferð um Keflavíkurveg í Kapelluhrauni sunnan Hafnarfjarðar var á sama tíma 1055 bílar á dag. Af þessum tölum má þegar ráða, að nú er orðið aðkallandi að hafa tvöfaldar akbrautir á leiðinni Reykjavík–Kópavogur, þar sem víðast hvar er talið, að vegur með aðeins einni akbraut í hvora átt geti ekki með góðu móti annað meiri umferð en 9–10 þús. bílum á dag. Haldi byggðin í Kópavogi. Garðahreppi og Silfurtúni áfram að aukast með svipuðum hraða og verið hefur, þá verður orðið fullkomið umferðaröngþveiti á núverandi vegi á milli Reykjavikur og Kópavogs eftir 3–5 ár, og umferðin sunnan við Kópavogslæk mun þá einnig komin í það hámark, sem núverandi vegur getur annað“.

Þess er jafnframt getið í umsögn vegamálastjóra, að bráðabirgðaskipulagsuppdrættir, sem gerðir hafa verið af Kópavogskaupstað, Silfurtúni og Hraunsholti, geri ráð fyrir því, að þar verði lagðir fjögurra akbrauta vegir með nokkru færri vegamótum en nú er. En það er þó skoðun vegamálastjóra, þrátt fyrir þessa hugmynd, að það verði mjög erfitt um vik að gera þessa leið að nokkurri hraðbraut vegna þess, hve þarna eru mörg vegamót og auk þess vegurinn mjög krókóttur og mishæðóttur, þannig að til þess að fá slíka lausn, sem vel getur orðið nauðsynlegt í framtíðinni, yrði að flytja veginn algerlega og leggja nýjan veg austan við alla byggð, úr Elliðavogi og norðan Vífilsstaða á núverandi veg ofan við Hafnarfjörð. Þetta er að sjálfsögðu framtíðarmál, sem kemur naumast til greina, að á næstunni verði komið í framkvæmd. En öll rök virðast benda ótvírætt í þá átt, að hér sé um vandamál að ræða, sem nauðsynlegt sé að sinna. Það hefur í framkvæmd verið svo, að allt frá Fossvogslæk og alla leið suður til Hafnarfjarðar hefur þessi vegur verið á vegum ríkisins, enda þótt meginhluti hans liggi gegnum kaupstaði, þannig að það sýnist eðlilegt, að þetta verði tekið til sérstakrar athugunar af ríkisstj., af vegamálastjóra ríkisins, og verði þá að sjálfsögðu höfð samráð við þau bæjar- og sveitaryfirvöld, sem hér koma við sögu. Það er framkvæmdaatriði, hvernig því verði hagað, og þarf því ekki að ræða það sérstaklega í sambandi við þetta mál. En það er skoðun fjvn. eftir að hafa athugað þessi rök málsins, að það sé rétt að samþykkja umrædda till.