02.02.1961
Sameinað þing: 37. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í D-deild Alþingistíðinda. (2375)

75. mál, rykbinding á þjóðvegum

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur athugað þessa till. og leggur til, að hún verði samþykkt, svo sem nál. á þskj. 326 ber með sér. Þess er getið í nál., að nefndin hafi aflað sér um sagnar vegamálastjóra um till., og hann hefur gert nefndinni ýtarlega grein fyrir því, hvað gert hefur verið í þessu efni, og jafnframt því, hvað hann telur að þurfi að gera, og hefur hann fyrir sitt leyti talið rétt að samþykkja þessa till. Hann telur mikilvægt, að haldið verði áfram að kanna úrræði til þess að leysa þetta mikla vandamál.

Ég skal ekki lengja tímann með því að lesa nema lítið eitt úr þessari umsögn vegamálastjóra, en skal aðeins geta þess, að hann nefnir þær tilraunir, sem þegar hafa verið gerðar í sambandi við rykbindingu. Það er í fyrsta lagi að bera klórkalsíum á vegina, sem gert hefur verið á undanförnum árum, en virðist ekki skila sérlega góðum árangri. Það hafa verið notuð í þetta hundrað tonn á ári síðustu árin á nokkrum köflum á fjölförnustu vegum bæði út úr Reykjavík og Akureyri, og segir í umsögninni, að ef hér væri notað það magn, sem er algengast erlendis, mundi kostnaðarverð við þessar rykbindingarráðstafanir kosta um kr. 3.10 á fermetra eða 20 þús. kr. á km. Kostnaður við að rykbinda fjölförnustu vegi út frá Reykjavík, svo sem leiðina til Keflavíkur, Selfoss og Þingvalla, yrði því röskar 3 millj. kr. Hann bendir á, að reynslan hafi sýnt, að slíkar ráðstafanir þurfi að gera ár lega. Þá getur hann einnig um, að það sé farið að tíðkast nokkuð að nota sement til rykbindingar, og er enda vikið að því í grg. með umræddri tillögu, en hann segir, að það sé víðast hvar gert í þeim tilgangi að styrkja burðarþol veganna og fá sterkt undirlag undir asfalt, en sé mjög óvíða notað sem slitlag beint. Vegamálastjóri vísar jafnframt til þess, að hér hafi dvalizt sérfræðingur í vegagerð á vegum tækniaðstoðar Sameinuðu þjóðanna í tvo mánuði og hann hafi talið, að blöndun sements í yfirborð til rykbindingar komi ekki til greina hér, en gæti hins vegar hugsazt til styrkingar í undirlagi undir annað slitlag.

Þá ræðir vegamálastjóri einnig í umsögn sinni nokkuð um þá aðferð, sem sérstaklega er vikið að í grg. með till., að nota olíu til rykbindingar. Hann segir, að í því efni hafi verið gerðar hér smávægilegar tilraunir á nokkrum metrum á götum í Reykjavík fyrir tveimur árum og á Ísafirði s.l. sumar, en þessar tilraunir séu þó í of smáum stíl til þess, að af þeim megi draga nokkrar almennar ályktanir. Til þess að gera tilraun á eins km. kafla þarf um 180 þús. kr. og auk þess helzt einföld dreifingarkerfi, sem mundu kosta um 120 þús. kr. Hann telur, að ef þetta yrði unnið í stórum stíl, mætti ætla, að kostnaður gæti komizt niður í 20–25 kr. á ferm. eða 120–150 þús. kr. á km. Mölina, sem í þetta er notuð, þarf alla að harpa. og verður því ekki hægt að koma þessu við nema þar, sem hægt er að harpa mölina í vissa stærð. En þessi aðferð hefur hins vegar þann kost, að þetta getur enzt í nokkur ár. Þetta hefur verið gert allmikið erlendis, fyrst og fremst í Svíþjóð, þar sem það hefur verið gert í stórum stíl, og vegamálastjóri segir, að þar hafi á s.l. ári verið lögð olíuborin möl í um 2000 km: í Noregi sé enn fremur byrjað á þessu. En vegamálastjóri bendir á, að það sé ein hætta í þessu sambandi hér á landi, að mjög sé hætt við, að þessi aðferð þoli illa keðjunotkun á bílum á veturna.

Það er sem sagt niðurstaðan hjá vegamálastjóra, að það sé nauðsynlegt að halda þessum tilraunum áfram og ekki hvað sízt hinni síðartöldu. og mælir hann því fyrir sitt leyti með því, að till. verði samþ. Hann leggur að vísu áherzlu á, að séð verði fyrir nýju fé til þess að gera þessa tilraun.

Hér er að skoðun n. um að ræða Þátt í viðhaldi vega, og það er augljóst, að ef hægt væri að koma þessu við á hinum meiri umferðarleiðum, mundi það geta stórfelldlega sparað viðhaldsfé, og þessi tilraun út af fyrir sig sýnist ekki svo dýr, að miðað við þá háu ljárveitingu, sem veitt er til viðhalds vega, ætti að vera hægt að framkvæma þessa tilraun nú í sumar, án þess að sérstök fjárveiting þurfi til að koma. Það er því niðurstaða n. að leggja til við hið háa Alþingi, að till. verði samþykkt.