01.03.1961
Sameinað þing: 43. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í D-deild Alþingistíðinda. (2393)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til, að um þetta mál fari fram tvær umr. Ástæður eru þær í fyrsta lagi, að málið sjálft er með þýðingarmestu málum, sem fyrir Alþingi koma, í öðru lagi er formlega um milliríkjasamning að ræða, og samkvæmt lögum um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins frá 1949 segir svo í 2. gr.: „Reglum þeim, sem settar verða samkv. 1. gr. laga þessara, skal framfylgt þannig, að þær séu ávallt í samræmi við milliríkjasamninga um þessi mál, sem Ísland er aðili að á hverjum tíma.“ 1. gr. laga þessara, eins og öllum er kunnugt, er heimildin til ríkisstj. um að ákveða takmörk verndarsvæðanna innan endimarka landgrunnsins. Með þeim milliríkjasamningi, sem hér er lagt til að lögfesta, mundi því lögunum um vísindalega verndun fiskimiðanna vera gerbreytt. Þeim heimildum, sem ríkisstj. hefur samkv. þeim, mundu vera þær skorður settar, að héðan í frá mætti ekki beita þar reglum, sem væru í andstöðu við þann samning, sem hér á að gera. Með þessari þáltill. er því lagt til að binda og gerbreyta lögum, sem gengið hafa gegnum sex umræður hér á Alþingi. Ég álít því rétt, að um þetta mál fari fram tvær umr., eins og þingsköp allra fyrst heimila um þáltill., og vona, að bæði forseti og hv. þm. geti á þau fallizt. — [Fundarhlé.]