02.03.1961
Sameinað þing: 44. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í D-deild Alþingistíðinda. (2399)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Háttvirtu áheyrendur. Ég hef sjaldan heyrt af hálfu stjórnarandstöðunnar jafnmikið moldviðri eins og hér hefur verið þyrlað upp í kvöld. Svikabrigzl, blekkingavaðall og útúrsnúningar bar uppi málflutning hv. 4. þm. Austf., Lúðvíks Jósefssonar. Hann fullyrti að vísu margt, en á það vil ég benda, að honum er ýmislegt annað betur gefið en bera sannleikanum vitni. Hann sagði, að við hefðum enga tryggingu fyrir 12 mílna mörkunum, þrátt fyrir skýlaus ummæli orðsendingarinnar um þetta. Hann og Hermann Jónasson fullyrtu, að við hefðum getað fært út grunnlínur eins og hér er nú gert, og á hv. 2. þm. Vestf., Hermanni Jónassyni, skildist mér, að það væri raunar Alþfl. að kenna, að þessar grunnlínur hefðu ekki verið færðar utar. En þá vildi ég spyrja þessa hv. þm.: Hvers vegna hafa þeir borið fram frv. sitt um óbreyttar grunnlínur, ef þeir hafa haldið, að það væri svo auðvelt að færa þær út þangað, sem þær nú eiga að vera samkvæmt samkomulaginu, sem gert hefur verið við Breta? Hann sagði, hv. 2. þm. Vestf., Hermann Jónasson, að Alþfl. hefði verið kúgaður til fylgis við málið 1958. En sannleikurinn er sá, að það var aldrei efnislegur ágreiningur við Alþfl. um málið, heldur var sá ágreiningur, sem var, eingöngu um tíma, því að Alþfl. vildi fá tíma til þess að kynna málið og vinna því fylgi erlendis, en hinir flokkarnir vildu báðir hespa það af, án þess að nokkuð væri tryggt eða vitað um, hvaða fylgi það mundi fá. Enn minntust þeir á alþjóðadómstólinn, en að honum mun ég koma lítillega síðar.

Með samningnum, sem Danir gerðu 1901 um fiskveiðilögsögu Íslands og gerður var til 50 ára, var svo nærri gengið, að greinilega fór að bera 8 ofveiði með stöðugt minnkandi aflamagni veiðiskipa. Það þurfti að segja má tvær heimsstyrjaldir til þess að koma í veg fyrir, að þessi ofveiði hefði örlagaríkar afleiðingar fyrir íslendinga, því að þann tíma, sem styrjaldirnar stóðu, voru fiskimið okkar laus við hin erlendu veiðiskip, og aflamagnið jókst þá aftur mjög verulega. Þegar samningstímabilið um 3 sjómílna fiskveiðitakmörkin rann út, var því þessum samningi sagt upp, miðað við árið 1951.

Síðan hafa íslenzk stjórnvöld haldið uppi látlausri baráttu fyrir því að fá viðurkennda útfærslu fiskveiðitakmarkanna, fyrst 1952 úr 3 í 4 mílur og breytingu á grunnlínum, síðar 1958 með útfærslu úr 4 í 12 mílur og nú með frekari útfærslu grunnlína, þannig að með öllu þessu stækkar fiskveiðilögsagan úr 24500 km2 1951 í nálega 75 þús. km. nú, eða um það bil þrefaldast. Liggur í augum uppi, hversu geysiþýðingarmikil þessi útfærsla er fyrir fiskveiðar okkar. En gallinn er bara sá, að þessi stækkun hefur ekki hlotið viðurkenningu þeirra þjóða, sem mest hafa stundað fiskveiðar hér við land, og tilraunir á alþjóðavettvangi til að setja allsherjarreglur um víðáttu fiskveiðilögsögunnar hafa hingað til farið út um þúfur.

Í verki hafa þó allar þjóðir viðurkennt hin nýju fiskveiðimörk, sem nú eru í gildi, nema Bretar. En við þá höfum við líka átt í svo harkalegum útistöðum, að nálgazt hefur styrjaldarástand, auk þess sem eðlileg viðskipti hafa að verulegu leyti stöðvazt. Er þetta þeim mun hraklegra, þar sem þetta eru okkar næstu nábúar og viðskipti milli landanna hafa jafnan verið mikil og góð og báðum til hagsbóta.

Nú er þó svo komið eftir um það bil hálfs ára viðræður, að lausn virðist vera fundin á þessari hættulegu deilu, — lausn, sem hér liggur fyrir að taka afstöðu til. Í sem allra stytztu máli er þessi lausn þannig, að við fáum þegar í stað viðurkennd 12 mílna mörkin, og við fáum einnig nú þegar útfærslu fiskveiðilögsögunnar frá því, sem hún er nú, um rúma 5 þús. km2. Og við lýsum yfir þeim ásetningi okkar, að við munum halda áfram frekari útfærslu síðar í samræmi við ákvörðun Alþingis frá 5. maí 1959, enda verði ágreiningsatriði, er rísa kunna út af þessari útfærslu, lögð fyrir alþjóðadómstólinn, ef annar hvor aðili óskar þess. Þetta er, eins og lýst hefur verið hér áður í kvöld, í fullu samræmi við afstöðu og tillögur Íslands á báðum Genfarráðstefnunum, 1958 og 1960.

Á móti fá svo Bretar rétt til þess að veiða á ytri 6 mílunum á takmörkuðum svæðum og takmörkuðum tíma úr árinu í þrjú ár. Þessi veiðisvæði og veiðitími, sem Bretar fá innan 12 mílna markanna, svarar til þess, að þeim sé heimilað að veiða í tæpt eitt ár eða nánar tiltekið 9–10 mánuði á öllu svæðinu milli 6 og 12 mílna, eða ef öðruvísi er talið, í þrjú ár samfleytt á svæði, sem er álíka stórt og það svæði, sem fiskveiðilögsagan stækkar nú um samkvæmt samkomulaginu.

Fyrir þá, sem í raun og veru vilja leysa deiluna við Breta, er þetta, vildi ég segja, miklu framar öllum vonum, og má raunar telja, að það sé stórmerkilegt, að samkomulag skuli hafa náðst við Breta upp á þessi býti, sérstaklega þegar litið er á þá samninga, sem bæði Danir og Norðmenn hafa gert til þess að fá sín fiskveiðitakmörk viðurkennd, og svo hitt, að útfærslu grunnlínanna héldum við um alla framtíð.

En það hefur berlega komið í ljós í þessari deilu, að til er hópur manna hér á landi, sem vill ekki, að deilan við Breta verði leyst. Þegar samtölin hófust hér við fulltrúa Breta í byrjun októbermánaðar s.l., hélt þetta fólk uppi varðstöðu við staðinn, þar sem viðtölin fóru fram, og þingsetningardaginn, 10. okt. s.l., var þessi varðstaða flutt að alþingishússdyrunum og blasti við þm., þegar þeir gengu til þings. Þar voru borin kröfuspjöld, og minnist ég sérstaklega eins spjaldsins, því að á því stóð orðrétt með geysistórum stöfum: „Samningar eru svik“. Það virðist ekki fara á milli mála, að þeir, sem að þessari varðstöðu stóðu, töldu alla samninga, sem gerðir yrðu við Breta, svik við íslenzku þjóðina, hvernig svo sem þessir samningar yrðu. Fyrir þessu fólki virtist aðeins hafa vakað eitt: að koma í veg fyrir, að deilan við Breta yrði leyst, að koma í veg fyrir, að samkomulag tækist. Og það er nú raunar komið í ljós, hvaðan þessi krafa var ættuð, þó að hún í haust væri skrifuð á reikning svokallaðra hernámsandstæðinga. Á fundi Alþb. svokallaða hér í bænum í fyrrakvöld höfðu kommúnistar uppi sama spjaldið með sömu áletruninni, svo að ekki er lengur um að villast, hvaðan þessi krafa er ættuð. Og þegar betur er að gáð, þá er þetta í raun og veru auðskilið mál. Þeir, sem að þessum málflutningi standa, eru þeir menn, sem vilja koma í veg fyrir, að Ísland sé aðili að samstarfi hinna vestrænu þjóða. Deilan við Breta hefur gefið þeim kærkomið tilefni til þess að standa að tillöguflutningi á ýmsum samkomum um það, að Ísland slíti öllu stjórnmálasambandi við Breta og segi sig úr þeim samtökum, þar sem Bretar eru þátttakendur og við erum nú í, eins og t.d. Atlantshafsbandalaginu og fyrst og fremst því náttúrlega. Deilan við Breta er þessu fólki því nauðsynlegur grundvöllur fyrir árásir sínar á hina vestrænu samvinnu, og þess vegna krefst það þess, að á fiskveiðilögsögumálinu sé þannig haldið, að útilokað megi telja, að um það náist nokkurt samkomulag, hvorki við Breta né aðrar vestrænar þjóðir. Þetta hefur komið ákaflega greinilega fram í þeim tillögum, sem bornar hafa verið fram víðs vegar um land á fundum, hvarvetna þar sem þessir áhugamenn hafa búizt við nokkrum undirtektum. Það er ekki af áhuga fyrir lausn landhelgismálsins, að þessar tillögur hafa verið bornar fram, heldur þvert á móti. Þær eru bornar fram af áhuga fyrir því, að málið leysist ekki.

Þessi afstaða og þessi stefna er vel skiljanleg, þegar kommúnistar eiga í hlut, og hún er í fullu samræmi við baráttuaðferð þeirra, bæði hér og annars staðar. En hitt er aftur erfiðara að skilja, hvaða ástæður geta legið til þess, að Framsfl. hefur tekið sér stöðu við hliðina á þessum mönnum og jafnvel gengið fram fyrir skjöldu. Hann hefur þó ekki verið talinn andvígur hinni vestrænu samvinnu, þó að stefna hans þar sé — eins og raunar á svo mörgum öðrum sviðum — harla óljós og tækifærissinnuð.

Ég hef ekki getað fundið nema eina skýringu á afstöðu Framsfl. í þessu máli. Stjórnarandstöðuónáttúra flokksforustunnar gengur svo langt, að hún kýs heldur að stofna framtíð þjóðarinnar í hættu en að viðurkenna það, sem núv. ríkisstj. gerir vel, eins og ég tel að hún hafi gert með lausn þessarar deilu. Blað flokksins, Tíminn, gerir að vísu það að höfuðatriði þessa máls, að Íslendingar fallast á að leggja ágreining, sem rísa kann síðar um frekari útfærslu, undir úrskurð alþjóðadómstólsins, og það hefur komið mjög greinilega fram í kvöld, m.a. hjá formanni Framsfl., Hermanni Jónassyni, þar sem hann segir, að þetta ákvæði í samkomulaginu væri fjötur á óborna Íslendinga. En þessi tylliástæða stenzt alls ekki, því að engum er nauðsynlegra en kotríki eins og okkur, að alþjóðalög og reglur sé í heiðri haft, en hnefaréttur og valdbeiting sé útilokað. Og við þurfum ekki heldur að ætla okkur þá dul að komast upp með það til lengdar að taka okkur einhliða rétt, sem við eigum ekki að alþjóðalögum og við efumst um að alþjóðadómstóll dæmi okkur í vil.

Á þessu máli var líka varaformaður Framsfl., eins og vitnað hefur verið til hér í kvöld, Ólafur Jóhannesson, þar sem hann sagði í umr. um málið í Ed. í vetur, að hann teldi, að að sínu viti yrði hvert eitt spor í þessu máli að vera þannig undirbúið, að við værum við því búnir að leggja það undir úrlausn alþjóðadómstóls. Þarna eru að því er virðist formaður og varaformaður flokksins ekki á sama máli, og væri vel, að þeir kæmu sér saman, áður en þeir færu að kenna öðrum reglur um þetta efni.

Hér ber allt að sama brunni, og er sama, hvert litið er. Ástæður þær, sem bornar hafa verið fram gegn samkomulaginu, eru tylliástæður einar, og lausnin, sem fáanleg er á þessu vandamáli, er betri en nokkurn gat órað fyrir, farsæl lausn, sem ég tel sjálfsagt að samþykkja.