06.03.1961
Sameinað þing: 46. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í D-deild Alþingistíðinda. (2409)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Frsm. 1. minni hl. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Það mál, sem hér liggur fyrir, er stærsta og örlagaríkasta mál, sem Alþ. Íslendinga hefur fjallað um áratugum saman. Ef till. sú, sem hér liggur fyrir, verður samþykkt, þá markar sá atburður mikil þáttaskil í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Allt síðan Jón Sigurðsson hóf merki hinnar stjórnarfarslegu sjálfstæðisbaráttu fyrir meira en öld, hefur það verið grundvallarregla í sjálfstæðisbaráttunni, sem var mörkuð af hinum mikla leiðtoga, að láta aldrei neinn rétt af hendi, en þola heldur órétt og óbilgirni um stund. Með samþykkt þeirrar till., sem hér liggur fyrir, væri þessi regla fullkomlega brotin og einhver mikilsverðasti réttur þjóðarinnar af hendi látinn, hinn óskoraði réttur hennar yfir landgrunninu. Það er alveg víst, að þeim mönnum, sem með köldu blóði geta látið af hendi rétt þjóðarinnar til landgrunnsins, er vel trúandi til þess með jafnköldu blóði að láta af hendi réttinn til landsins sjálfs.

Áður en ég vík nánar að þeirri till., sem hér liggur fyrir, finnst mér ástæða til þess í tilefni af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði hér, að fara vissum viðurkenningarorðum um þá andstæðinga, sem hafa sigrað okkur í þessari deilu, Bretana. Hv. ræðumaður vitnaði til ýmissa ummæla brezkra blaða og brezkra — þingmanna þess efnis, að Bretar hefðu orðið undir í þessum átökum. Hv. þm. virðist ekki gera sér grein fyrir því, að þótt margt megi að Bretum finna, þá er það háttur þeirra að fylgja vissum drengskaparreglum í skiptum sínum við andstæðingana. Bretar hafa þjálfazt mikið við íþróttir og á íþróttavöllum og lært á því þessar reglur. Ein af þessum reglum Breta er fólgin í því að hælast aldrei yfir sigri og sparka aldrei í fallinn andstæðing. Þess vegna er venjan sú, að þegar Bretar vinna mestu diplómatísku sigra sína, þá tala stjórnmálamenn þeirra þannig og þá ræða blöð þeirra þannig, eins og það sé raunverulega andstæðingurinn, sem hafi hlotið mesta ávinninginn, þó að það séu Bretar sjálfir, sem hafi hlotið hann. Það er með tilliti til þessarar drengskaparreglu Breta, sem við verðum að skilja þau brezku blaðaskrif, sem hv. þm. vitnaði í. En hinu er ekki að neita, að þessi drengskaparregla Breta hefur verið misskilin af fleirum en hv. þm., líka af hæstv. ráðh. Þeir hafa undanfarið verið að tala mjög um það, hvað þeir hafi unnið mikla sigra í þessu máli. Hæstv. forsrh. var í umr. hér fyrir nokkrum dögum ærið mikið drýldinn, þegar hann var að skýra frá viðræðum sínum og Macmillans í morgunverði, sem þeir snæddu saman á Keflavíkurflugvelli. Hann sagði allrækilega frá því, sem Macmillan hafði að segja um deiluna, vildi hins vegar af sínu alkunna lítillæti og yfirlætisleysi lítið segja frá því, sem hann sagði sjálfur, en hins vegar mátti vel álykta af því, sem hann sagði um sjálfan samninginn, að það var hann, en ekki Macmillan, sem hafði orðið ofan á í þessum viðskiptum. Hinum stjórnarflokknum fannst, að hæstv. forsrh. væri hér að eigna sér heiður, sem hann ætti ekki að öllu leyti, og næsta dag birti Alþýðublaðið alllanga grein eftir aðalritstjóra sinn, þar sem því var lýst, að eiginlega hefði sigurinn ekki unnizt í morgunverðarveizlu þeirra Macmillana og hæstv. forsrh., heldur hefði hann verið unninn úti í London, þegar þeir snæddu hádegisverð saman, hæstv. utanrrh. og utanrrh. Breta. Þá hefði í raun og veru verið rekið smiðshöggið á þennan sigur, sem á að hafa unnizt í landhelgismálinu.

Ég skal nú víkja að því, í hverju þessi sigur á að vera fólginn, sem hæstv. ríkisstj. telur sig hafa unnið í þessu máli. Það eru þrjú atriði, sem einkum eru færð fram í því sambandi. Í fyrsta lagi er sagt, að Bretar séu búnir að veita fulla viðurkenningu á 12 mílna fiskveiðilandhelgi Íslands. Í öðru lagi er sagt, að við höfum fengið viðurkenningu fyrir nokkrum leiðréttingum á grunnlínum. Og í þriðja lagi er sagt, að nú hafi brezk herskip verið látin hætta að beita okkur ofbeldi innan fiskveiðilandhelginnar. Ég tel rétt að víkja nokkrum orðum að hverju þessara atriða út af fyrir sig.

Ef menn lesa þá orðsendingu, sem þessi till. fjallar um og hæstv. ríkisstj. ætlar að senda brezku stjórninni, þá kemur þar hvergi fram, að ríkisstj. Bretlands ætli að veita Íslandi fulla viðurkenningu á 12 mílna fiskveiðilandhelginni. Það er aðeins sagt, að Bretar lofi því að falla frá mótmælum sínum gegn 12 mílna fiskveiðilögsögu Íslands. Þetta orðalag þýðir vitanlega allt annað en full viðurkenning. Það er hægt að túlka það á marga vegu. Það segir ekkert um það, hvort það sé raunveruleg viðurkenning fólgin í þessu eða ekki. Það fer alveg eftir þeirri meiningu, sem hver og einn vill í þetta orðalag leggja. Hins vegar kemur það fram síðar í orðsendingunni, að það býr eitthvað undir því, að þetta orðalag er haft þannig, vegna þess að þar er tekið fram, að Bretar lofi því ekki lengur en um þriggja ára skeið að veiða ekki á vissum svæðum milli 6 og 12 mílna línunnar, þannig að eftir að þessi þrjú ár eru liðin, þá er ekkert í þessum samningum, sem meinar Bretum að gera tilkall til þess, að þeir hafi rétt til að veiða þarna áfram. Hæstv. utanrrh. hefur að vísu lýst því yfir hér í þinginu og endurtekið það í utanrmn., að ríkisstj. hafi sérstakt bréf í höndum, þar sem brezka stjórnin heiti því, að hún muni ekki fara áfram fram á nýjar undanþágur, — þegar þessi þriggja ára tími er liðinn. En þess var óskað í utanrmn. og þess er óskað einnig hér, að hæstv. ráðh. lofi þm. að sjá þetta bréf og heyra, hvernig það hljóðar. Í utanrmn. var því svarað neitandi, að þetta bréf yrði birt þar. Ég endurtek þá kröfu, sem þar var borin fram, að hæstv. utanrrh. birti þinginu þetta bréf og það sjáist þannig svart á hvítu, að það liggi fyrir skrifleg yfirlýsing brezku stjórnarinnar um þetta efni, og það jafnframt, hvort í þessu bréfi felist þá ekki einhver önnur atriði, sem valda því, að ríkisstj. telur ekki heppilegt að láta það koma fyrir almenningssjónir. Þetta verða menn að meta eftir því, hvort hæstv. ríkisstj. vill fallast á að birta þetta bréf nú þegar eða ekki.

Ég vil í framhaldi af því, sem segir um viðurkenninguna, spyrja hæstv. utanrrh. að því, hvort það hafi raunverulega verið afstaða íslenzku samningamannanna í viðtölunum við Breta, að þetta orðalag yrði haft: „að falla frá mótmælum“, og þeir hafi ekki lagt til, að það væri með öðrum hætti og ákveðnara en þar segir. Það væri mjög fróðlegt að fá upplýsingar um það frá hæstv. ráðh. eða hæstv. ráðherrum, — ég sé, að utanrrh. er hér ekki staddur, — hvort það sé virkilega, að samningamenn okkar hafi ekki farið fram á það, að annað orðalag væri haft hér heldur en þetta, sem segir í 1. gr., að ríkisstj. Bretlands lofi að falla frá mótmælum sínum gegn 12 mílna fiskveiðilandhelgi Íslands, — að þeir hafi ekki gert kröfu til þess, að þar kæmi fram alveg skýr og greinileg viðurkenning. Ef það líka er svo, að brezka stjórnin er búin að fallast á það að viðurkenna fiskveiðilandhelgi Íslands 12 mílur, hvaða rök ættu þá að mæla á móti því, að þessari orðsendingu væri breytt þannig, að það kæmi alveg skýrt og greinilega fram, að þessi viðurkenning lægi fyrir? Hvers vegna er þá verið að hafa orðalagið svona? Hvers vegna er það þá ekki haft alveg skýrt og afdráttarlaust? Ef því fæst ekki breytt hér á Alþingi, að þetta orðalag verði alveg skýrt og afdráttarlaust, þá liggur það ekki í öðru en því, að ríkisstj. Bretlands er ekki búin að lofa því að viðurkenna fiskveiðilandhelgi Íslands sem 12 mílur til frambúðar, enda var yfir lýst af brezkum stjórnarvöldum, eftir að Genfarráðstefnunni lauk, svo sem kom fram í brezka þinginu og víðar, að Bretar mundu hvergi viðurkenna formlega 12 mílur, þangað til ný hafréttarráðstefna yrði haldin. Og ég hygg, að það sé afstaða brezku stjórnarinnar enn í dag að viðurkenna hvergi fullkomlega 12 mílna fiskveiðilandhelgi, og þess vegna er það mín skoðun, að hæstv. ráðherrar séu að fara með vísvitandi ósatt mál, þegar þeir eru að reyna að túlka þetta orðalag þannig, að í því felist fullgild viðurkenning. En úr þessu verður skorið hér í þinginu, því að það mun koma fram till. um, að þetta orðalag verði gert alveg ótvírætt. Ef hæstv. ríkisstj. og stuðningsmenn hennar treysta sér ekki til að fallast á það, þá sýnir það glöggt, hvað liggur hér undir steini og hvað það er, sem raunverulega felst í þessum orðum: „að falla frá mótmælum“, — þá er það vissulega ekki það, að Bretar séu búnir að fallast á endanlega viðurkenningu á 12 mílna fiskveiðilandhelgi.

Þá er komið að öðru atriðinu, sem hæstv. ráðherrar færa fram til réttlætingar fyrir þessu samkomulagi, en það er, að nokkrar breytingar eða leiðréttingar á grunnlínunni hafi átt sér stað. Getum við litið svo á, að hér sé um einhverja gjöf frá Bretum að ræða? Getum við álitið það, eins og konan á Selfossfundinum spurði hæstv. landbrh. að, hvort Bretar eigi Selvogsbanka? Getum við svarað þeirri spurningu játandi hér í þessum sal? Sannarlega ekki. Það rétta í þessum efnum er það, að samkvæmt þeim sáttmála um landhelgina, sem fullt samkomulag náðist um á fyrri hafréttrarráðstefnunni í Genf árið 1958, þá eigum við skýlausan rétt til allra þeirra lagfæringa á grunnlínunni, sem nú hafa verið gerðar, og jafnframt til miklu meiri lagfæringar víða kringum landið, eins og t.d. bæði fyrir Norðurlandi, við Grímsey, fyrir Austurlandi, við Hvalbak o.s.frv. Og þessi réttur okkar til þess að færa út grunnlínurnar í samræmi við sáttmálann, sem samþykktur var á hafréttarráðstefnunni 1958, hefði strax verið notaður vorið 1958, þegar fiskveiðilandhelgin var færð út þá, ef Alþfl. og Sjálfstfl. hefðu ekki staðið í vegi þess, að það væri gert. Þennan rétt höfum við getað notað okkur, hvenær sem við höfum viljað. Það, sem gerist raunverulega með þessu samkomulagi nú, er það, að þær lagfæringar, sem við eigum eftir að notfæra okkur, eins og t.d. við Grímsey, við Hvalbak og fyrir Suðausturlandi, getum við ekki notfært okkur lengur öðruvísi en að fá til þess annaðhvort samþykki Breta eða þá að láta málið ganga undir úrskurð alþjóðadómstóls, þar sem það gæti tekið mjög langan tíma að fá slíkan úrskurð.

Hér hefur raunverulega ekki verið tryggður neinn réttur, eða aukinn neinn réttur, heldur hefur í mjög þýðingarmiklum efnum verið hafður af okkur réttur. Réttur okkar til þess að færa út grunnlínuna fyrir Austurlandi og Norðurlandi hefur verið stórlega skertur. Það er því síður en svo, að það sé nokkuð hólsvert, sem átt hefur sér stað í sambandi við þetta atriði, eða það sé nokkuð, sem við höfum unnið með því að gera samkomulagið við Breta vegna þessa atriðis.

Þá kemur þriðji ávinningurinn, sem ríkisstj. telur sig hafa hlotið við það að gera þetta samkomulag við brezku stjórnina, og það er, að Bretar muni ekki hér eftir, a.m.k. á næstu þremur árum, beita herskipavaldi innan íslenzku fiskveiðilandhelginnar. Það rétta í þessum efnum er, að brezk herskip hafa ekki beitt þessu ofbeldi um margra mánaða skeið, og það eru engar líkur til þess, að þeir hefðu ráðist í það ævintýri aftur að beita slíku ofbeldi. Þeir voru búnir að hljóta slíka fordæmingu almenningsálitsins í heiminum fyrir þetta ofbeldi sitt, og þeir voru jafnframt búnir að reyna, að það var ekki hægt að stunda togveiðar með neinum árangri undir herskipavernd, að þeir tóku sjálfir þann kost að draga herskipin burt úr landhelginni og hafa ekki látið sjá sig þar um margra mánaða skeið. Og það er engin ástæða til þess að ætlast til þess, að þeir hefðu gripið til slíkra ráða aftur, vegna þeirrar reynslu, sem þeir voru búnir að hafa af því. Þess vegna þurfti ekki neitt að kaupa Breta til þess að hætta því, sem þeir voru raunverulega hættir. Það er þess vegna hrein yfirskinsástæða, þegar hæstv. ríkisstj. er að færa það fram, að hún — hafi þurft að gera samkomulagið við Breta vegna ofbeldis brezku herskipanna, vegna þess að því ofbeldi var hætt og það voru engar líkur til þess, að slíku ofbeldi yrði beitt aftur. Það mælir líka, auk þess sem ég hef þegar greint frá, á móti því, að slíku ofbeldi yrði beitt, að nú er unnið að því, ekki sízt eftir að ný ríkisstjórn kom til valda í Bandaríkjunum, að bæta samstarf hinna vestrænu þjóða og koma í veg fyrir, að þær beiti ofbeldi í skiptum sínum. Það ásamt öðru hefði átt að nægja til þess, að Bretar hefðu ekki farið inn á þá braut að beita herskipavaldi á nýjan leik innan íslenzku fiskveiðilandhelginnar.

Ég hef þá rakið hér þau atriði, sem hæstv. ríkisstj. og fylgismenn hennar færa helzt fram til réttlætingar á því samkomulagi, sem ríkisstj. hefur gert við Breta. Ég held, að þetta nægi til að sýna það, að hér er hvergi um neinn raunverulegan ávinning að ræða, heldur er hér ekki um annað að ræða en rétt, sem við áttum fyrir eða vorum búnir að vinna okkur og þurftum ekki að semja um við einn eða neinn til þess að fá. Það eru þess vegna hreinar yfirskinsástæður, þegar verið er að færa þetta fram til réttlætingar fyrir því, að þessir samningar voru gerðir.

Ég kem þá að því, sem er hið alvarlega í þessu máli, og það er sá réttur, sem við fórnum með því að gera þetta samkomulag.

Þar er í fyrsta lagi um það að ræða, að brezkir togarar fá nú rétt til þess a.m.k. um þriggja ára skeið að veiða, á svæðinu milli 6 og 12 mílna innan fiskveiðilandhelginnar umhverfis landið og það á hverju svæði, þegar veiðitíminn er þar beztur, Vestfirðir einir eru undanskildir. Í þessu eru að sjálfsögðu fólgin mikil réttindi fyrir Breta og mikill réttindamissir fyrir íslenzkan bátaútveg, því að það er alveg víst, að brezku togararnir og aðrir erlendir togarar, sem reiknað er með að komi þar á eftir, hljóta að spilla mjög veiðum bátaflotans á þessum tíma, auk þess sem þeir geta höggvið það skarð í fiskistofninn, að af því hljótist varanlegt tjón til frambúðar. Hér eru þess vegna mjög mikilsverð réttindi af hendi látin og mikið tjón unnið íslenzkum bátaútvegi. En þó er það ekki þetta, sem er aðalatriði þess réttindaafsals, sem felst í þessum samningi. Aðalréttindaafsalið, sem felst í þessum samningi, er það, að við afsölum okkur endanlega hinum einhliða rétti, sem við eigum nú til landgrunnsins og til útfærslu á fiskveiðilandhelginni. Eftir að þessi samningur er kominn í gildi, verður ekki hægt fyrir okkur að færa út fiskveiðilandhelgina með einhliða ákvörðun, eins og við gerðum 1952 og 1958, með þeim glæsilega árangri, sem öllum er nú kunnugt um. Sá einhliða réttur, sem við höfðum þá og byggðum á í bæði þessi skipti, verður ekki lengur fyrir hendi, eftir að þessi samningur er genginn í gildi. Þeim einhliða rétti er að öllu leyti glatað. Og þó að Bretar reyni nú að tala sem minnst um það, að þeir hafi áunnið eitthvað við þessa samninga, og reyni að gera sem mest úr því, sem íslenzka ríkisstj. hafi fengið fram, til þess að sætta hana og menn hér á landi við orðinn hlut, þá hafa brezku blöðin og brezku þingmennirnir ekki getað leynt því, þegar þetta mál hefur verið rætt í þinginu, að í þessu atriði sé mikill ávinningur fyrir Breta fólginn. Brezku blöðin hafa sagt það alveg hiklaust, brezku þingmennirnir hafa sagt það sömuleiðis hiklaust, að með þessu telji Bretar sig vera búna að stöðva útfærslu á íslenzku fiskveiðilandhelginni um ótiltekinn tíma. Ég las síðast í morgun í „Fishing News“ ummæli eftir varaformann brezkra togaraeigenda, sem mun gegna formannsstöðu í samtökum þeirra nú, vegna þess að formaðurinn er nýlátinn. Hann segir þar berum orðum, að vonandi þýði þetta samkomulag það, að búið sé að stöðva útfærslu á íslenzku fiskveiðilandhelginni og Íslendingar komi ekki til með að hafa nema 12 mílna fiskveiðilandhelgi um næstu áratugi. Og í grein, sem blaðið skrifar sjálft um þessi mál, segir jafnframt, að þetta atriði sé svo mikilvægt, að það réttlæti hvaða aðrar eftirgjafir sem kynnu að hafa verið gefnar. Það, sem Bretar hafi raunverulega verið að sækjast eftir um 13 ára skeið, væri að ná einhverri fótfestu til að stöðva frekari útfærslu á fiskveiðilandhelginni, og það, sem þeir hafi óttazt langsamlega mest í sambandi við útfærslu 1958, þegar farið var út í 12 mílurnar, hafi verið, að það væru ekki endamörkin, heldur væri það aðeins byrjunin á öðru meira og enn frekari útfærslu. Það var þetta, eins og málum var komið, sem skipti meginmáli fyrir Breta að fá stöðvað. Þeir vissu, að það var ekki nema tímaspursmál, að 12 mílna fiskveiðilandhelgi yrði viðurkennd ekki aðeins við Ísland, heldur alls staðar í heiminum, eins og seinasta Genfarráðstefnan um hafréttarmálin leiddi mjög glögglega í ljós. Þess vegna var það aðalatriðið fyrir Breta, eins og komið var, að fá því til vegar komið, að stöðvuð yrði frekari útfærsla á íslenzku fiskveiðilandhelginni, og komið í veg fyrir það, að Íslendingar gætu hagnýtt sinn rétt til landgrunnsins. Það er það, sem Bretar hafa fyrst og fremst keppt að í þessum samningum, og það er það, sem þeir hafa nú fengið fram.

Ef við göngum að þessu samkomulagi, erum við fullkomlega búnir að ónýta landgrunnslögin, sem sett voru á Alþingi fyrir 13 árum og tryggðu óskoruð yfirráð okkar yfir landgrunninu, sem vissulega er líka landið sjálft. Við eigum ekki að gera neinn mun á landinu sjálfu og landgrunninu, því að það getur verið okkur jafndýrmæt og þýðingarmikil eign til frambúðar og landið sjálft. Eftir að þetta samkomulag er komið til framkvæmda. Þá getum við ekki framar, eins og við getum nú, notað með einhliða ákvörðun rétt okkar til landgrunnsins og fært fiskveiðilandhelgina út, þegar við teljum nauðsynlegt og æskilegt fyrir okkur að gera það. Um það erum við orðnir háðir ákvörðun annarra, eins og ég mun síðar víkja að. Og hér er meira að segja svo langt gengið í þessu samkomulagi, að raunverulega er viðurkenndur jafn réttur Breta til landgrunnsins og Íslendinga sjálfra. Bretar hafa eftirleiðis svo að segja nákvæmlega sama rétt til landgrunnsins og Íslendingar hafa sjálfir. Íslendingar geta ekki hreyft við landhelgislínunni á landgrunninu, nema með því móti að bera það undir Breta, og eftir það hafa Bretar nákvæmlega sama rétt og íslendingar sjálfir til að skjóta þeirri útfærslu undir ákvörðun alþjóðadómstólsins. Þetta þýðir það, að raunverulega erum við með þessu atriði að viðurkenna jafnmikinn rétt Breta til landgrunnsins og rétt okkar sjálfra.

Ég kem þá að einu atriði, sem hæstv. stjórnarsinnar hafa lagt nokkuð mikla áherzlu á í þessum umr. Það er, að það sé engin skerðing á rétti okkar, að máli sem þessu, þ.e. frekari útfærslu á fiskveiðilandhelginni, sé skotið undir úrskurð alþjóðadómstólsins. Ef menn athuga það mál nokkru nánar, hljóta þeir að komast að þeirri niðurstöðu, að á því er mjög mikill munur.

Í fyrsta lagi er það að athuga í þessu sambandi, að eins og skipan alþjóðadómstólsins er nú háttað, þá ráða þær þjóðir langsamlega mestu um skipan dómsins, sem eru andstæðingar okkar í þessu máli, Bretar og Bandaríkjamenn. Það er öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, sem ræður mestu um skipan dómsins, og við vitum það, að fram að þessu hafa Bretar og Bandaríkjamenn ráðið öllu í öryggisráðinu, sem þeir hafa viljað, þegar aðrir hafa ekki komið við neitunarvaldi, en í sambandi við kjör á dómurum í alþjóðadómstólinn verður ekki komið við neitunarvaldi. Það eru m.ö.o. þær þjóðir, sem eru íhaldssamastar í landhelgismálinu, sem ráða mestu um það, hvernig þessi dómur er skipaður. Í því getur verið fólgin sú hætta, að það veljist miklu frekar íhaldssamir menn í þessum efnum en frjálslyndir í dóminn.

Það er svo þessu næst að athuga, að alþjóðarétturinn, sem dómurinn dæmir eftir, byggist að langsamlega mestu á hefð og venjum. Það er mjög lítið til af alþjóðlegum samningum, sem hægt er að fara eftir í sambandi við ágreiningsmál, og þá verður að fara eftir þeirri hefð og þeim venjum, sem hafa myndazt. Nú er þannig ástatt um sjálfa víðáttu landhelginnar, að um hana ríkir ekki nein viðurkennd regla, engin viðurkennd hefð, engin viðurkennd venja. Af þeim ástæðum hafa þrisvar sinnum verið kvaddar saman alþjóðaráðstefnur til að ná samkomulagi um þetta atriði, en það ekki tekizt. Þar af leiðandi eru það ekki neinar ákveðnar reglur, sem alþjóðadómurinn getur farið eftir í þessum efnum, heldur verður hann að reyna að meta, ef slíku máli er skotið til hans, hvað hann á að telja að sé hin eðlilega regla í þessum efnum. Þetta er svo óljóst, að fram að þessu hefur engin þjóð farið þá leið að skjóta ágreiningsmálum eins og þessum, þ.e.a.s. ágreiningsmálum um víðáttu sjálfrar landhelginnar, til alþjóðadómstólsins. Málið, sem Norðmenn skutu til alþjóðadómstólsins fyrir nokkrum árum, fjallaði ekki um víðáttu sjálfrar landhelginnar, heldur um það, hvernig grunnlínur skyldu vera dregnar, og um það atriði er nú komið fullt alþjóðlegt samkomulag, eins og ég minntist á áðan, að hefði náðst á Genfarráðstefnunni um hafréttarmálin 1958. En sem sagt, ef alþjóðadómstóllinn ætti að fjalla um deilumál eins og hér mundi skapast milli okkar og Breta, ef við færum út fiskveiðilandhelgina, yrði hann að byggja á hefð og reglum, sem ekki njóta neinnar alþjóðlegrar viðurkenningar í dag. Hann yrði þá að reyna að meta það, eftir hverju hann ætti að fara. Það er alveg visst mál, að þegar dómstóll á að kveða upp dóm undir slíkum kringumstæðum, þá hlýtur hann og þá verður hann skyldu sinni samkvæmt að vera nokkuð íhaldssamur. Hann verður að vera varfærinn. Hann má ekki ganga of langt. Og þess vegna er hætta á því, þegar dómar eru kveðnir upp undir slíkum kringumstæðum, að dómararnir séu heldur á eftir þróuninni, fylgist ekki með henni. Til þess að ganga ekki of langt fara þeir frekar eftir því, sem teljast gamlar reglur, heldur en hinum nýju reglum, sem eru að skapast. Í því sambandi er að sjálfsögðu mikil hætta fyrir okkur fólgin, ef við þyrftum að leggja slíkt mál undir úrskurð alþjóðaréttarins.

Ég vil minna á það í þessu sambandi, að þegar Kýpurdeilan var að byrja, þá buðu Bretar upp á það, bæði Grikkjum og Kýpurbúum, að hún skyldi lögð undir alþjóðadómstólinn og alþjóðadómstóllinn skyldi látinn dæma um það, hvort Kýpurbúar ættu rétt til sjálfsákvörðunarréttar og sjálfstæðis. Þessu tilboði Breta var eindregið hafnað, bæði af Grikkjum og Kýpurbúum, og það var einfaldlega vegna þess, að það var talið nokkurn veginn fullvíst, að ef alþjóðadómstóllinn dæmdi í þessu máli, mundi hann fara eftir hefð og reglum, sem væru þannig lagaðar, að Bretar mundu þar bera sigur úr býtum. Þeir mundu vinna málið, þó að aðstæður væru hins vegar þannig, að Kýpurbúar hefðu allan hinn siðferðislega rétt með sér í málinu. Og ég held, að það sé ekki hægt að benda á eitt einasta dæmi þess, að nýlenduþjóð hafi snúið sér til alþjóðadómstólsins og óskað eftir úrskurði hans um það, að hún ætti tilkall til sjálfstæðis eða yfirráða í landi sínu, einfaldlega af þeim ástæðum, að reglum eða hefð um þessi mál er enn þannig háttað í heiminum, að viðkomandi þjóð mundi ekki fá sinn rétt viðurkenndan hjá alþjóðadómstólum og þess vegna yrði hún að sækja rétt sinn eftir öðrum leiðum. Nú má segja, að það sé að mjög miklu leyti svipað háttað tilkalli okkar til landgrunnsins og nýlenduþjóða til yfirráða í landi sínu, og þess vegna verðum við að stekja þann rétt eftir svipuðum leiðum og nýlenduríkin hafa sótt sinn rétt. Eins og alþjóðalögum er enn háttað, þar sem þau eru raunverulega ekki til í þessum efnum og fara verður eftir gamalli hefð, þá getum við ekki treyst á úrskurð alþjóðaréttar í þessum efnum, heldur verðum að sækja mál okkar eftir öðrum leiðum, eins og við höfum hingað til gert með fullum árangri og eins og aðrar þjóðir hafa gert, sem svipað hefur staðið á um og okkur. Þær hafa allar sótt sinn rétt með einhliða ákvörðunum, eins og nefna má um tugi dæma á undanförnum árum, en engin hefur snúið sér til alþjóðadómstólsins og óskað eftir einhverjum ákvörðunum hans eða dómi um þessi mál, vegna þess, að þeir álitu alþjóðareglur um þetta svo óákveðnar og að mörgu leyti afturhaldssamar, að það væri ekki hægt að leita til dómsins undir þeim kringumstæðum. Þegar þetta er allt saman athugað, hljóta menn að gera sér fulla grein fyrir því, að á því er reginmunur, hvort við áskiljum okkur einhliða rétt til útfærslu fiskveiðilandhelginnar og til landgrunnsins eða hvort við viljum láta þennan rétt vera háðan samþykki Breta og úrskurði alþjóðadómstóls, sem á mjög erfitt með að úrskurða um þetta vegna þess, hve óljósar reglurnar eru og mikil hætta er á, að hann verði fremur íhaldssamur en frjálslyndur í slíkum úrskurði, eins og á vissan hátt honum ber líka að vera, þegar reglur eru óákveðnar um einstök efni.

Hér hefur komið fram í umr., fyrst hjá hæstv. fjmrh. og svo hjá seinasta ræðumanni, að við værum skyldir til þess sem réttarríki að láta alþjóðadómstólinn kveða upp dóm í deilumálum okkar við önnur ríki. Þetta er mikill misskilningur. Þær reglur, sem um þetta eru í sáttmála Sameinuðu þjóðanna, ákveða ekki beina skyldu í þessum efnum, heldur er hvert einstakt ríki látið sjálfrátt um það, í hvaða tilfellum það vísar málum til alþjóðadómstólsins. Hitt er það, að einstök ríki geta gefið yfirlýsingar um það, að þau vilji útkljá deilumál sín með því, að málskot eigi sér stað til alþjóðadómstólsins. Seinast þegar ég vissi um þessi mál, í árslok 1959, voru ekki nema 38 ríki af 100 ríkjum, sem nú eru í Sameinuðu þjóðunum, búin að gefa slíka yfirlýsingu og öll eða langflest með vissum fyrirvara, eins og til dæmis með þeim fyrirvara, að þau yrðu að meta það sjálf í hverju einstöku tilfelli, hvort um innanlandsmál væri að ræða eða ekki. Meðal þeirra ríkja, sem hafa sett slíkan fyrirvara, er það stórveldi, sem við hæstv. fjmrh. getum vafalaust verið sammála um að telja einna mesta réttarríkið í heiminum í dag, en það eru Bandaríkin. Þing þeirra setti þann fyrirvara fyrir aðild að alþjóðadómstólnum, að það yrði metið í hverju einstöku tilfelli, af Bandaríkjunum sjálfum, hvort um innanlandsmál væri að ræða eða ekki.

Ég skal nefna dæmi um, hvernig þetta mundi vera framkvæmt af hálfu Bandaríkjastjórnar. Árið 1945 gaf Bandaríkjastjórn út yfirlýsingu, sem helgaði Bandaríkjunum rétt til allra auðæfa, sem felast í botni landgrunnsins umhverfis Bandaríkin. Þetta gerðu Bandaríkin með einhliða ákvörðun og töldu sig hafa fullan og óskoraðan rétt til þess, það væri innanríkismál þeirra. Það er alveg víst, að ef hefði komið krafa um það frá öðru ríki, að þessari eignatöku Bandaríkjanna á landgrunninu yrði skotið til alþjóðadóms, þá hefðu Bandaríkin neitað því, vegna þess að þau töldu, að hér væri um hreint innanríkismál þeirra að ræða og þau ættu ein óskoraðan rétt til námuauðæfa, sem finnast kynnu í landgrunninu. Þess vegna erum við ekki að ganga í berhögg við neinar reglur, þó að við viljum hafa rétt til þess að meta það í hverju einstöku tilfelli, hvort deilumálum okkar við aðrar þjóðir um landgrunnið verði skotið til alþjóðadómstóls eða ekki.

Þá kom það fram hjá hæstv. fjmrh. einnig, að það væri eiginlega enginn munur á því að skjóta máli til alþjóðadómstóls eða til þings Sameinuðu þjóðanna eða alþjóðaráðstefnu, það væri nokkurn veginn hið sama. Á þessu er vitanlega mjög mikill munur, og ég skal nefna aðeins eitt dæmi til að sýna fram á, í hverju slíkur munur getur verið fólginn.

Við skulum taka t.d. dæmi af portúgölsku nýlendunni Angóla. Við skulum segja, að það kæmi upp sú hugmynd, að íbúarnir í Angóla ættu að leita til alþjóðadómstólsins til að úrskurða um það, hvort þeir hefðu rétt til þess að vera frjálsir, rétt til sjálfstæðis, rétt til sjálfsákvörðunarréttar. Það er alveg víst, hvernig úrskurður alþjóðadómsins mundi falla um það mál, eins og nú er háttað hefð og reglum um þetta atriði í heiminum. Rétturinn mundi dæma það, að Portúgalar hefðu fullkomið tilkall til landsins og ættu að halda þar yfirráðum sínum áfram. Þess vegna er það áreiðanlegt, að engum þeirra, sem berst fyrir sjálfstæði Angóla í dag, dettur í hug að snúa sér til alþjóðadómstólsins og óska eftir úrskurði hans um þetta mál. Hins vegar má nokkurn veginn búast við því, að þessir aðilar muni snúa sér til þings Sameinuðu þjóðanna og óska eftir því, að það skerist í málið og stuðli að því, að Angólabúar fái sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétt, eins og margar aðrar þjóðir á undan þeim hafa gert, eins og Tíbetbúar, Algierbúar o.s.frv. Og hvers vegna kjósa þessar þjóðir heldur að fara þessa leið? Það er vegna þess, að ef málið kæmi fyrir þing Sameinuðu þjóðanna, þá er það nokkurn veginn víst, eins og málum er þar nú háttað, að mikill meiri hluti fulltrúanna þar mundi styðja sjálfstæðiskröfu Angólabúa og þar mundu þeir fá stuðning við málstað sinn, en ekki úrskurð um hið gagnstæða, eins og allar líkur benda til að mundi verða, ef þeir sneru sér til alþjóðadómstólsins. Þess vegna er meginmunur á því undir slíkum kringumstæðum, þegar þjóð er að sækja rétt sinn í hendur annarra, hvort við leitum til alþjóðadómstólsins, sem í mörgum tilfellum verður að dæma eftir úreltum og gömlum reglum, eða hvort við leitum t.d. til Sameinuðu þjóðanna eða ráðstefnu, sem þær halda, þar sem hin nýju réttarsjónarmið mega sín miklu meir en á hinum vettvanginum.

Ég tel, að það, sem ég hef nú rakið, sýni ljóslega, að það er meginmunur á því, hvort við höldum áfram einhliða rétti til landgrunnsins, einhliða rétti til að færa út fiskveiðilandhelgina, eða hvort við erum háðir um það samþykki Breta og alþjóðadóms, eins og reglur um þessi mál eru í pottinn búnar. Það er meginmunur á þessu tvennu. Það er fólgið alveg stórkostlegt réttindaafsal í því að afsala sér hinum einhliða rétti í sambandi við þessi mál. og það getur átt eftir að reynast íslenzkum sjávarútvegi dýrt, að við afsölum þessum rétti. Sá tími getur komið fyrr en varir, þó að við óskum ekki eftir því, að íslenzkur sjávarútvegur þurfi á því að halda að fá stærri fiskveiðilandhelgi en við höfum í dag. Ef við héldum í landgrunnið, landgrunnslögin og útfærsluréttinn, eins og hann er í dag, gætum við tryggt sjávarútveginum þann rétt að færa fiskveiðilandhelgina út. Eftir að við erum búnir að fallast á samkomulag, sem þessi till. fjallar um, þá er það úr sögunni, þá eru Bretar búnir að setja þann slagbrand í dyrnar, sem óvíst er um að okkur takist að færa þaðan í burtu.

Þess vegna þýðir ekki að mæla neitt á móti því, að með því samkomulagi, sem hér hefur verið gert, er verið að afsala stórfelldum réttindum, án þess að við fáum nokkuð í staðinn. Og það er það, sem gerir þetta samkomulag alveg sérstaklega sorglegt, að við vorum búnir að vinna þessa deilu við Bretana, við vorum búnir að sigra Bretana í þessari deilu. Þeir voru farnir með herskipin í burtu, brezku togararnir voru búnir að viðurkenna fiskveiðitakmörk okkar um margra mánaða skeið, og það eru engar líkur til þess, að þeir hefðu reynt neitt til þess að hrófla við þessu aftur. Sigur okkar í þessu máli var því orðinn fullkominn, og þess vegna var ekki minnsta ástæða til þess að láta undan og hvika frá þeim rétti, sem við vorum búnir að ávinna okkur í þessu máli.

En ég kem að því aftur, að þó að ég sé í þessu máli mikill andstæðingur Breta og vilji enga sætt við þá gera, fyrr en við erum búnir — að fá fullan rétt til landgrunnsins að nýju, þá kemst maður ekki hjá að viðurkenna það, — maður verður alltaf að viðurkenna sína andstæðinga, þegar þeir standa sig vel, — að Bretar hafa sýnt að mörgu leyti hyggilegt og glæsilegt fordæmi í þessu máli. Þeir voru búnir að tapa deilunni. En vegna þess að þeir gáfust ekki upp, vegna þess að þeir héldu áfram að semja, hóta og blíðka, þá hefur þeim tekizt að ná þeim árangri, sem þeir hafa nú náð. Af þessu getum við vissulega mikið lært í framtíðinni. Við getum lært það af Bretum að gefast ekki upp. Og þegar a.m.k. er við heldur ístöðulitla mótstöðumenn að ræða, þá er hægt að ná sigri, jafnvel þótt illa kunni stundum að horfa, eins og t.d. hjá Bretum núna, þar sem þeir voru búnir að tapa, en tókst þó með sínum kænlegu aðferðum að snúa ósigrinum í einhvern þeirra mesta diplómatíska sigur.

Ég kem að því aftur, — og það er jafnvel eitt hið alvarlegasta í þessu sambandi, — að ef þessi samningur verður samþykktur, þá er búið að brjóta þá megingrundvallarreglu, sem öll okkar sjálfstæðisbarátta hefur hvílt á til þessa dags, síðan Jón Sigurðsson markaði hana: að láta aldrei neinn rétt af hendi, en þola heldur órétt og ójöfnuð um stundarsakir. Það fordæmi, sem hér er skapað með því að víkja frá þessari reglu, getur reynzt okkur hættulegast til frambúðar. Þótt ekki væri um að ræða nema óveruleg réttindi, sem verða af hendi látin, þá mættum við ekki gera það, vegna þess að frá áðurnefndri reglu megum við ekki undir nokkrum kringumstæðum hvika, því að ef við gerum það, þá eigum við það á hættu, að búið sé að opna þarna dyr, sem meira missist út um síðar, ef það er einu sinni gert.

Það er mjög lærdómsríkt og ánægjulegt að minnast þess í þessu sambandi, að þegar tilraun var gerð til þess af ýmsum helztu ráðamönnum þjóðarinnar 1908 að víkja frá þessari reglu Jóns Sigurðssonar, þá var það hin unga kynslóð í landinu, stúdentarnir, studdir af alþýðunni um allar byggðir Íslands, sem risu upp, slógu skjaldborg um þessa reglu Jóns Sigurðssonar og unnu hinn glæsilegasta kosningasigur, sem nokkru sinni hefur unnizt á Íslandi. Ég er alveg sannfærður um það, — ég trúi það enn á íslenzku þjóðina, — að sá tími eigi eftir að koma, þó að viðbrögðin hafi ekki orðið núna strax eins og þau áttu að vera gagnvart þessu nýja „uppkasti“, þessu nýja undanhaldi, að þá muni það gerast alveg eins og 1908, þegar þjóðin fær ráðrúm til að íhuga þetta mál, hugsa það niður í kjölinn, þá verði niðurstaðan nokkuð svipuð í þessum efnum, áður en lýkur, og hún varð 1908. Þá trú hef ég á þjóðinni, og ég er sannfærður um það, að sú trú mín á eftir að rætast.

Í því nál., sem við framsóknarmenn leggjum fram, og í till., sem við flytjum, leggjum við til í fyrsta lagi, að till. verði felld, og þarf ég ekki frekar að færa rök að því en ég hef þegar gert. Í öðru lagi eða til vara leggjum við til, að gerðar verði breyt. á orðsendingunni, sem hér liggur fyrir, þannig að viðurkenningin verði gerð alveg skýr og í öðru lagi að afsal hins einhliða útfærsluréttar verði látið falla niður. Við leggjum það svo jafnframt til að þetta mál verði afgreitt við þjóðaratkvæðagreiðslu, og rökin fyrir því eru alveg augljós og þarf ekki að fara um þau mörgum orðum. Enginn þm., sem er í þessum sal, hefur umboð eða rétt til þess að samþ. slíka till. eins og þessa. Yfirlýsing Alþ. frá vorinu 1959, heit allra þm. í kosningabaráttunni, bæði um vorið og haustið 1959, voru með þeim hætti, að það er hverjum þm. óleyfilegt að samþ. slíka till. eins og þessa. Það voru yfirlýsingar allra núverandi hv. alþm. þá, að það skyldi hvergi hvika frá 12 mílna landhelginni, það skyldu engar undanþágur veittar brezkum togurum, erlendum togurum skyldi aldrei aftur leyft að fiska innan 12 mílna fiskveiðilandhelginnar. Þetta voru þær hátíðlegu yfirlýsingar, sem allir frambjóðendur gáfu fyrir seinustu alþingiskosningar. Þess vegna hefur enginn þm. rétt til þess að samþ. slíka till. eins og þessa. Þess vegna er það skylda þeirra, sem kunna að fylgja þessari till., að láta hana ganga undir dómstól þjóðarinnar sjálfrar og láta hana úrskurða um það, hvort þetta verði gert eða ekki. Hér er líka um svo stórkostlegt mál að ræða, þar sem er afsal á einum dýrmætasta rétti þjóðarinnar, þar sem er frávik frá einu hinu merkasta grundvallaratriði sjálfstæðisbaráttunnar, að það er ekki hægt annað en láta þjóðina sjálfa hafa seinasta orðið um þetta mál. Þess vegna trúi ég ekki öðru en hæstv. stjórnarsinnar fallist á það, að þetta mál verði látið ganga undir þjóðaratkvgr. Og fyrst þeir láta nú svona vel af þeim undirtektum, sem þeir telja sig hafa fengið, eins og hv. frsm. gerði hér áðan, þá ættu þeir vissulega ekki að skorast undan því, að þjóðin fái að segja sitt álit um þetta mál.

Ég vil svo að lokum segja nokkur orð, ef svo fer, að þessi samningur verði samþ., og hvert muni þá og eigi að verða viðhorf þjóðarinnar til þessa samkomulags. Ég held, að það liggi í augum uppi, að hér er um nauðungarsamning að ræða, því að einu raunverulegu rökin, sem hæstv. stjórnarsinnar geta haft fyrir þessu máli og helzt kynni að vera hægt að taka tillit til, eru þau, að Bretar mundu aftur beita okkur ofbeldi, ef ekki væri á þetta samkomulag fallizt. Ég er að vísu þeirrar skoðunar, að það sé algerlega rangt og að Bretar mundu alls ekki gera það. En eina röksemdin, sem þó er helzt hægt að færa fyrir því, að slíkur samningur sé gerður, og stjórnarsinnar færa helzt fyrir honum, er sú, að Bretar kynnu aftur að gripa til nýrra ofbeldisverka. Það er þess vegna ljóst, að hæstv. stjórnarsinnar gera þennan samning undir ótta frá brezku herskipunum, undir ótta frá brezku ofbeldi, og þess vegna verður ekki hægt að líta öðruvísi á þennan samning, ef hann verður gerður, en sem nauðungarsamning, og það verður að líta á hann samkvæmt því. Jafnframt verður að líta á þennan samning þannig, ef þjóðaratkvgr. er hafnað, að hann sé gerður af íslenzkum aðilum, sem hafi ekkert umboð haft til þess að gera hann. Núverandi ríkisstj. hefur ekkert umboð til að gera þennan samning, núverandi þingmeirihluti hefur ekkert umboð til að gera þennan samning, vegna þess að það var allt annað, sem þeir lofuðu í seinustu þingkosningum. Þess vegna verður og hlýtur að verða litið þannig á þennan samning af íslenzkum aðilum og Íslendingum í framtíðinni, að hann sé gerður af umboðslausum aðilum, nauðungarsamningur, sem sé gerður af umboðslausum aðilum, og á þann hátt hlýtur íslenzka þjóðin að vega hann og meta á komandi tímum.

Og það vil ég segja jafnframt, að þó að nú sé verið að tala um það, að deilan á milli okkar og Breta sé búin og að nú verði aftur sátt og samlyndi milli okkar og Breta um þessi mál, að sannleikurinn er sá, að ef þessi samningur verður samþ., þá er deilan við Breta raunverulega nú fyrst að hefjast, því að nú þurfum við að sækja rétt í hendur þeirra, sem þeir hafa aldrei áður haft, þ.e. stöðvunarréttinn á útfærslu fiskveiðilandhelginnar.

Þessi samningur, sem nú á að gera, er að því leyti verri en samningurinn, sem danska stjórnin gerði fyrir okkar hönd 1901, að í honum var uppsagnarákvæði, en í þessum samningi er ekkert uppsagnarákvæði. Íslenzkir aðilar hafa þess vegna samið verr fyrir þjóðina í þessu máli en dönsk stjórn gerði fyrir 60 árum. Og vegna þess að Bretar hafa með nauðung fengið umboðslausa aðila hér á Íslandi til að gera þennan samning, þá getum við ekki talizt vinir þeirra, á meðan slíkur samningur er í gildi, og vinátta okkar og Breta getur því aðeins komizt í eðlilegt horf á ný, að þessi samningur verði felldur niður, og fyrir því mun verða barizt, þótt hæstv. ríkisstj. hafi nú dregið niður hinn íslenzka fána í þessari baráttu.

Það er svo, að oft þegar hinir mestu ósigrar hafa átt sér stað, þá hefur verið lagður grundvöllurinn að mesta sigrinum í framtíðinni. Það er skoðun mín nú, að þó að Bretar og þeir, sem fylgja þeim hér á landi, kunni um stundarsakir að fagna sigri í þessu máli, eða því, sem þeir telja sigur í þessu máli, þá verði það niðurstaðan, að þjóðin muni með margfalt harðari baráttu fyrir landgrunninu en nokkru sinni fyrr halda þannig á þessu máli, að því verði áður en lýkur, snúið í meiri sigur en nokkru sinni fyrr, þó að það verði ekki þeim óhamingjumönnum að þakka, sem að þessum voðaverknaði standa.